Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.2004, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. júlí 2004 | 5 an skamms lenti hann á sjónum og hélt sér á floti. Á augabragði varð hann að pínulitlum svörtum depli og hvarf í öldudali. Kannski tekst unga litla að lifa af á sjónum og kannski tekst honum að snúa aftur til eyjunnar næsta vor. Ósjálfrátt kallaði ég á eftir honum: „Stattu þig!!!“ Snæfellsnes, norðurljós og fleira Frá Vestmannaeyjum héldum við aftur til Reykjavíkur þar sem við leigðum bíl og keyrð- um á Snæfellsnes sem er norðan við Reykjavík. Ísland er nær alþakið mosa og að öllum lík- indum eru fá lönd í heiminum þar sem hann vex í eins miklum mæli. Íslenski mosinn er fölari og öðru vísi lagaður en sá japanski – mosi er þó alltaf sjálfum sér líkur. Stór hluti eyjunnar er þakinn hrjúfum hraunbreiðum og hraunið er vaxið djúpgrænum mosa. Líklega er loftslagið kjörið fyrir hann. Svo virðist sem mosinn hafi alltaf verið þarna og dregið í sig þögn norðurs- ins sem hefur ríkt frá því í árdaga. Vegna þess hve mikið er um jökla og úrkomu renna margar fallegar ár um hraunbreiðurnar, hér og þar myndast krafmiklir hvítir fossar. Þetta er ansi kynngimagnað landslag. Útsýni af þessu tagi finnst trúlega aðeins á Íslandi. Svo lítið er um skóga að segja má að þeir þekkist ekki á Íslandi. Skógurinn eyddist því Íslendingar hjuggu hann í eldivið meðan landið var ennþá fátækt. Sagt er að allt að 99% af upp- runalega skóglendinu hafi verið fellt af mönn- um. Fólkið í landinu lifði á heljarþröm og hafði ekki ráðrúm til að planta nýjum trjám. Það var hægara sagt en gert að lifa af í þessu harðbýla landi. Nú er skógarhögg bannað og trjárækt hafin á ýmsum stöðum en ólíkt því sem gerist í suðrænum löndum vaxa trén hægt og það líður langur tími áður en myndast þéttur skógur. Yf- irleitt eru trén í mesta lagi mannshæðar há. Þótt lítið sé um há tré eru hraunbreiðurnar klæddar grænum mosa og hér og þar blómstra lítil kuldabeltisblóm – þetta er óendanlega fög- ur sýn. Þegar maður stendur aleinn, mitt í þessu umhverfi, þá heyrist ekki eitt einasta hljóð nema vindkviða af og til eða lækjarniður í fjarska. Þarna er ekkert nema djúp, djúp þögn sem leiðir hugann inn á við. Á svona augnabliki líður okkur eins og við séum komin langt aftur í aldir. Mannlaus þögnin fer þessari eyju ótrú- lega vel. Íslendingar segja að hún sé full af draugum en ef svo er þá eru þeir býsna hljóð- látir. Snæfellsnes er langt og mjótt og teygir sig u.þ.b. 100 km í vestur átt. Fremst á nesinu er eldfjallið Snæfell. Eldfjallið er þakið allmynd- arlegum jökli. Í skáldsögu Jules Verne Leynd- ardómar Snæfellsjökuls var 1.400 metra hár gígurinn hafður að sögusviði og sagður inn- gangur að iðrum jarðar. Svona er þetta auðvit- að ekki í alvörunni. Það er undarlegt en maður fer að taka ótrúlegt ævintýrið trúanlegt þegar maður stendur við ræturnar og horfir á þetta dularfulla fjall – við höfðum reyndar ekki tíma til að klífa það. Veðrið á Snæfellsnesi var hráslagalegt en út- sýnið sveik ekki. Þar sem lítið er af frægum ferðamannastöðum er lítið um ferðalanga og nesið því ósnortið. Flöt strandlengja teygir sig eftir sunnanverðu nesinu. Það er mikið af sjó- fuglum svo svæðið er tilvalið til fuglaskoðunar. Norðanvert eru nokkrar víkur svo fallegar að maður missir málið. Klettar sorfnir af jöklum í árdaga, þögul lón, lítil kirkja með rauðu þaki, endalausar þekjur af grænum mosa, lág og hrattlíðandi ský, undarlega löguð fjöll sem segja ekki neitt, mjúk sina bærist í vindi, kind- ur á ráfi eftir eigin geðþótta eins og þær séu að stimpla kommur á víð og dreif, brunnin hlaða (einhverra hluta vegna eru mörg brunnin hús) og hey sem búið er að binda fyrir veturinn. Ég hikaði við að taka mynd því þetta var fegurð af því tagi sem ekki rúmast á takmörkuðum fleti ljósmyndar. Landslagið sem blasti við var sam- ofið víðáttu, órofinni þögn, þungum ilmi sjávar, hömlulausum vindi sem æðir yfir landið og tíma sem lýtur eigin lögmáli. Litirnir í landslaginu eru veðraðir af stanslausum vindi og regni síð- an í forneskju. Þeir breytast á sérhverju augna- bliki af völdum veðurs, sjávarfalla og hreyf- ingar sólar. Þótt ég hefði reynt að fanga þetta útsýni með myndavél eða framkallað það á pappír með vísindalegri nákvæmni þá hefði af- raksturinn orðið eitthvað allt annað en það sem ég hafði fyrir augunum – andrúmsloftið sem ég skynjaði hefði horfið að mestu. Af þessum sök- um kom ekki annað til greina en að gefa sér góðan tíma til að skoða landslagið gaumgæfi- lega til að greypa það í minninu. Myndina geymi ég í einni af varanlegu skúffunum í minn- inu svo ég geti kallað hana fram með eigin hug- arorku síðar. Eflaust ræðst það af árstíðum en það er ótrú- lega lítið af skordýrum á Íslandi, a.m.k. sáum við varla eitt einasta skordýr í byrjun sept- ember. Einu sinni sá ég þó litla kónguló á bað- herbergi hótelsins. Hún virtist hanga á blá- þræði. Venjulega finnst mér ekkert tiltökumál að sjá eina kónguló á baðherbergi en bara í þetta eina skipti gat ég ekki að því gert að verða dálítið melankólskur. Mig langaði eiginlega til að kalla á hana og segja: „Látt þú ekki hugfall- ast heldur.“ Hvað sem öðru líður þá finnst mér að fólki sem er illa við skordýr ætti frekar að fara til Íslands en Borneó. Sama hvert maður fer á Íslandi eru myndir til skrauts. Hvort sem um er að ræða heimili, fína veitingastaði í Reykjavík eða ódýr hótel úti á landi þá eru myndir í löngum röðum. Oftast er ekkert pláss eftir á veggjunum. Um er að ræða vatnslitamyndir, þrykkmyndir og olíumyndir – allt eftir listamenn staðarins en í hreinskilni sagt þá voru fáar þeirra sem vöktu með mér löngun til að hrópa: „Þessi er stórkostleg!!!“ Þær eru einfaldar og kannski má segja um sumar að þær séu viðvaningslegar og um aðrar spyr maður jafnvel hvort þær eigi rétt á sér. En mér duldist ekki að þeir sem höfðu teiknað þær höfðu gert það af ánægju og þeir sem höfðu hengt þær upp höfðu gert það af ánægju líka. Í öllu falli fór ekki á milli mála að Íslendingar eiga líka marga myndlistarmenn miðað við höfðatölu. Í þessu landi er það líka hluti af dag- legu lífi að syngja, skrifa ljóð og ævintýri. Það virðist sem meira og minna allir taki þátt í ein- hvers konar listastarfi. Miðað við Japani sem flytja inn endalausar upplýsingar frá umheim- inum þá virkar allt þetta frumkvæði mjög frísk- andi og er mér ráðgáta um leið. Íslendingar eru fámálgir. Þótt maður ferðist þá er næstum enginn sem spyr mann: „Hey hvaðan ert þú?“ Ef maður spyr um eitthvað þá svara þeir manni vingjarnlega en það er sjald- gæft að þeir tali við mann að fyrra bragði – svona lýsir skapgerð þeirra sér. Ég er oftast mjög athugull hvað hreinlæti varðar jafnt innan sem utan dyra. Eins og í öðr- um borgum heimsins var töluvert um veggja- krot en þetta var ekki bara krass á veggjunum heldur var oft um að ræða prýðileg listaverk. Það er notað mikið af steinsteypu í byggingar, trúlega af því að timbur er dýrt. Jafnvel kirkjur eru oft byggðar úr steinsteypu. Ég sá ekki stráka með tagl eitt einasta skipti né heldur fólk sem labbaði um með vasadiskó. Hvers vegna veit ég ekki. Þegar maður pantar sér kaffi fylgir því undantekningalaust súkkulaði og svo voru margir sem voru með New York Yankees-derhúfur, hvernig getur staðið á því þar sem hafnabolti er ekki einu sinni sýndur í sjónvarpinu? Þegar ég var á gangi um götur Reykjavíkur klukkan u.þ.b. tíu um kvöld kom ég auga á skín- andi græn norðurljós. Mér brá verulega því ég hafði alls ekki búist við að sjá norðurljós inni í miðri borg. Ég hafði ekki einu sinni myndavél með mér og því stóð ég lengi og fylgdist með þessum gríðarstóra græna borða sem liðaðist um himininn. Norðurljósin voru mjög skær og skiptu um lögun á hverju augnabliki. Þau voru ótrúlega falleg en í raun ekki aðeins falleg í hefðbundnum skilningi heldur litu þau út fyrir að hafa einhvers konar yfirnáttúrulega merk- ingu. Þau litu meira að segja út eins og þau gætu verið ein birtingarmynd áru þessarar dul- arfullu norðlægu eyju fullrar af mosa, þögn og sveimum. Áður en langt um leið leystust norðurljósin upp eins og mál sem verður að hvískri og missir merkingu sína. Að lokum hurfu þau eins og þau hefðu sogast inn í myrkrið. Eftir að hafa gengið úr skugga um að þau væru endanlega horfin fór ég til baka á hlýtt hótelherbergið og sofnaði djúpum draumlausum svefni.  Sá texti sem hér birtist er þýðing af japönsku á köflum úr Title-greininni annars vegar og hins vegar óbirtum kafla í fyrirhugaðri ferðabók Murakamis. Nauðsynlegt reyndist að velja úr efn- inu en meðal þess sem ekki birtist hér eru ýmsar hagnýtar upplýsingar til japanskra ferðamanna auk þess sem hann fjallar um ýmsar hliðar á nátt- úru og mannlífi og í því sambandi má nefna fá- menni, hveri, Bláa lónið, mat á Íslandi, notkun greiðslukorta, umferðarmenningu, íslenska hest- inn og sauðkindina. og sveimum Ljósmynd/Yoko Murakami Murakami segist geyma myndina af íslensku lands- lagi í einni af varanlegu skúffunum í minninu svo hann geti kallað hana fram með eigin hugar- orku síðar. Hér er hann í Bláa lóninu. Haukur Ingvarsson og Kristín Ingvarsdóttir þýddu.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.