Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.2004, Page 10

Lesbók Morgunblaðsins - 03.07.2004, Page 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. júlí 2004 Spector hljóðblandaði svo líka „Let It Be“-plötu Bítlanna, með árangri sem ekki allir (þ.á m. Paul McCartney) eru sáttir við; aðrir halda því fram að hann hafi nú ekki haft úr miklu að moða. Um áhrif Spectors á popptónlist síðustu fjörutíu ára er samt ekki hægt að deila. „Strandarstrákurinn“ Brian Wilson er einna þekktastur þeirra er löguðu upptökuaðferðir og hljóm Spectors hvað best að eigin stíl og er „Pet Sounds“ (1966), meistaraverk þeirra Beach Boys, eitt greinilegasta dæmið um þetta. Wilson segist enn þann dag í dag alltaf „bara“ vera að reyna að semja betra lag en „Be My Baby“ – uppáhaldslagið sitt. Motown Um 1960 voru samt ekki síður merkilegir hlutir að gerast í Detroit, Michigan. Berry nokkur Gordy, fyrrverandi boxari sem hafði dottið inn í tónlistarbransann og samið lög fyrir Barrett Strong („Money – That’s What I Want“, sem Bítlarnir breiddu líka síðar yfir) og Jackie Wilson (hið verðuga „Reet Petite“), hafði sett á laggirnar sitt eigið útgáfufyrirtæki, Tamla Motown, en undir því merki hugðist hann gefa út innfædda svarta lista- menn án þess að þurfa að hlusta á fordómafullt markaðsbull, á borð við það er Chantels þurftu að þola, frá hvítum hljómplötu- fyrirtækjaeigendum. Svolitlu síðar var Motown, þá löngu orðið stærsta óháða út- gáfufyrirtækið vestra og eitt merkasta framlag til bandarískr- ar blökkumenningar fyrr og síðar, auðvitað ábyrgt fyrir the Supremes, með Díönu Ross í broddi fylkingar, líklega stærstu og langlífustu stúlknasöngsveit allra tíma. En strax í kringum 1961 hafði Motown á sínum snærum eina af öflugri stúlknasöngsveitunum, the Marvelettes, sem enn þann dag í dag eru þekktastar fyrir hið frábæra „Please Mr. Postman“ – annað lag sem Bítlarnir hljóðrituðu snemma á sín- um ferli. Marvelettes skorti hins vegar hið sama og sumar hinna sveitanna; eftirminnilegan leiðtoga. Auk Supremes, er lítillar kynningar þarfnast hér, kom fjöld- inn allur af öðrum fínum stelpum frá Motown, að ónefndum strákum eins og Marvin Gaye og Stevie Wonder. Martha Reeves & the Vandellas („Dancing In The Street“) voru vafalítið þeirra merkastar, en einnig ber að nefna the Velvelettes („He Was Really Sayin’ Something“) og söngkon- una ágætu Mary Wells („My Guy“), sem byrjaði á því að svara í símann hjá Motown en var fljótlega drifin inn í stúdío undir stjórn sjálfs Smokeys Robinsons! Til að byrja með, á allra elstu Motown-upptökunum – t.a.m. „Money“ með Barrett Strong, var tónlistin í fremur hefð- bundnum en eigi að síður sjóðheitum og drífandi ryþma & blús-stíl. Seinna, hins vegar, m.a. með tilkomu vinsælla stúlknasöngsveita eins og the Marvelettes – að maður tali nú ekki um Supremes – léttist Motown-formúlan óneitanlega tals- vert og var Berry oft sakaður um að sníða stílinn um of að smekk hvítu Ameríku á kostnað sálarríkara og svartara sánds. Þetta var og er auðvitað hið mesta þvaður, sérstaklega er á í hlut eins smitandi og grípandi dans-popptónlist og raun ber vitni, sem hefur á stundum verið sagt um að sé „gerð fyrir það eitt að hljóma vel glymjandi úr bílaútvarpinu“. The Shangri-Las Önnur býsna merkileg stúlknasöngsveit var the Shangri-Las, er gerði út frá Red Bird-hljómplötufyrirtækinu óháða sem sett var á laggirnar og rekið af eigi ómerkari mönnum en þeim Jerry Leiber og Mike Stoller, sem enn í dag eru auðvitað lang- þekktastir fyrir að hafa samið ógrynni af óviðjafnanlegu efni er Elvis Presley gerði ódauðlegt, þrátt fyrir að koma líka við sögu miklu víðar (radddrifið karlkyns sálarpopp s.s. Drifters, Ben E. King, Coasters, o.fl. þ.h.). Á bak við Shangri-Las, eins og u.þ.b. allar aðalstúlknasöng- sveitirnar, var svo aftur upptökustjóri og „svengali“ er réð öllu um efnisval, stefnu, hljóm og alla framfærslu – þessar stelpur voru flestar einungis tól í höndum þessara manna og áð- urnefndra lagasmiða, til þess eins að túlka hugsjónir þeirra og smíðar. Í tilviki Shangri-Las var þetta maður að nafni George Morton, sem gekk undir gælunafninu „Shadow“ – hann þótti það læðupokalegur þessi. Þrátt fyrir það var hann, ekki ósvip- að Phil Spector, ekkert minna en snillingur í að notfæra sér til hins ýtrasta þá takmörkuðu upptökutækni sem í boði var á þessum tíma. Enn í dag vekja frægustu og bestu lög Shangri-Las, „Re- member (Walking In The Sand)“ og sérstaklega „Leader Of The Pack“ (man einhver eftir þessu úr Levi’s-sjónvarpsauglýs- ingunni hér um ’76?), aðdáun og furðu fyrir frumlega og fram- úrstefnulega notkun á ýmiss konar hljóðeffektum. Hvort sem það er mótorhjólatöffarinn dauðadæmdi að gefa almennilega í ellegar gargandi mávarnir niðri í fjöru; þetta eru eiginlega nokkurs konar míní-popp-sápuóperur! Shangri-Las voru líka svolítið svalari en aðrar stelpur í þess- um geira; þær sáust sjaldan í kjólum, tuggðu tyggigúmmí, klæddust þröngum gallabuxum, blönduðu geði við svolítið vafasama stráka („Well, he’s bad but he’s not evil“) og not- uðust mikið við svona „spurja og svara“-stíl (stelpur tvö og þrjú: „What color are his eyes?“ Stelpa eitt: „What do you mean, what color are his eyes?“) sem hafði ómæld áhrif á rokk- leikhús áttunda áratugarins, s.s. „Grease“ og „The Rocky Horror (Picture) Show“, en í þeim báðum má nema heilu fras- ana, illa falda og u.þ.b. ekkert breytta, tekna beint úr smiðju hins skuggalega George Mortons og Shangri-Las. Góðar stelpur Alger andstæða Shangri-Las (þ.e. góðar stelpur) voru söng- sveitir á borð við Dixie Cups („Chapel Of Love“, „Iko Iko“) og the Chiffons („One Fine Day“, „He’s So Fine“ – Bítillinn George Harrison var eins og frægt varð fundinn sekur um að hafa stolið hinu síðarnefnda og notað í sitt frægasta sólólag, „My Sweet Lord“. Neyðarlegt). Í þann hóp mætti þá líka bæta the Cookies („Chains“ – Goff- in/King-lag sem Bítlarnir, enn og aftur, breiddu síðar yfir), Little Peggy March („I Will Follow Him“ – snúið skemmtilega við af Whoopi Goldberg í annarri hvorri af hinum annars frem- ur óskemmtilegu „Sister Act“-myndum hennar), the Angels („My Boyfriend’s Back“ – síðar frjálslega fengið að láni fyrir „X Offender“, fyrsta lagið á fyrstu plötu Blondie, sem var og er sveit sem sækir ekki lítið í stúlknasöngsveitasándið) og sjálfri Carole King, sem sló í gegn með sínum fyrsta sóló- smelli, „It Might As Well Rain Until September“, árið 1962, en þurfti að bíða í önnur átta ár eftir þeim næsta; hinni klassísku „Tapestry“-breiðskífu sem var líka svolítið öðruvísi (meira James Taylor en Jaynetts), þó að dyrabjallan hennar spili enn í dag stefið úr „Will You Love Me Tomorrow“ – eða svo segir sagan. Hins vegar voru þarna líka á ferðinni svolítið svartari og sál- armeiri sveitir á borð við Exciters („Tell Him“ – Ally McBeal einhver?) og the Ad Libs („The Boy From New York City“ – líka smellur með Manhattan Transfer snemma á níunda ára- tugnum), sem sköpuðu sér báðar svolitla sérstöðu með því að hafa líka karlmenn í sínum röðum. Textarnir Þótt textainnihaldið hafi nú sjaldnast verið drjúgt, sama hver átti í hlut, og sjálfsagt mörg rauðsokkan þá og síðar þolað illa þetta endalausa gaul um „gæjann“, voru flutningurinn og framsetningin bara oft svo einlæg og tilfinningarík að erfitt var og er að standast þetta, sem á pappírunum ætti að flokkast undir innihaldsrýra froðu. Goffin/King-lagið með textanum ósmekklega „He Hit Me (It Felt Like A Kiss)“ með Crystals gekk samt skiljanlega allt of langt í þessari gæjaaðdáun og hefur lítið farið fyrir því síðan það floppaði ansi illa þarna ’62, þrátt fyrir að vera í sjálfu sér prýðislag. „When The Boy’s Happy (The Girl’s Happy Too)“ með the Four Pennies (einnig til með Chiffons) reynir að sama skapi svolítið á klígjumælinn. Mamma, og jafnvel pabbi gamli, fengu samt líka stundum að fylgja sögunni, þótt oftast væri það í fremur neikvæðu sam- hengi; pabbi bannar t.d. Betty að hitta mótórhjólagæjann sinn meir í hinu stórslysalega „Leader Of The Pack“. Samt er nú viðurkennt að sannleikskorn felist í lögum á borð við „Mama Said“ (Shirelles), „Thank You Mama, Thank You Papa“(Dixie Cups), „You Can’t Hurry Love“ (Supremes) og í „I Can Never Go Home Anymore“ (Shangri-Las) – þótt það síðasta endi auðvitað með ósköpum eins og svo oft þegar Shangri-Las áttu í hlut. Tónlistin Rétt eins og Doo-Woppið áðurnefnda byggðist tónlistin í sjálfu sér á einum söngvara studdum af tveimur til þremur bak- raddasöngvurum sem veittu fyllingu og ryþma, en mátti svo sem líka syngja undirleikslaust úti í horni ef þannig bar undir. Við þetta bættust svo poppáhrif samtímans (Bobbyarnir allir), samskonar tilhneiging lagasmiða á borð við Goffin & King, sem fóru sjaldan í manngreinarálit og sömdu líka lög fyrir suma súkkulaðistrákana, auk gospel-bakgrunns (trúar- & kirkjutónlistar) sumra söngvaranna eins og hinnar (þá – 1958) fimmtán ára gömlu Arlene Smith sem söng „Maybe“ eins og hún ætti lífið að leysa og með þvílíkum innblæstri, tilfinn- ingahita og óbeisluðu offorsi að með ólíkindum var. Textinn var tregafullur ástaróður, nokkuð sem æði vafasamt er að fimmtán ára stúlka hafi haft nokkurn skilning á. Doo Wop- strákasöngsveitir á borð við Frankie Lymon & the Teenagers („Why Do Fools Fall In Love“) voru óbeint ábyrgar fyrir þessu og mátti jafnvel líka greina áhrif þeirra einum 10–12 ár- um síðar á þá kornungan Michael Jackson og bræður hans í Jackson Five (enn eitt afsprengi Motown-útgáfunnar). Mary Wilson, ein af hinum upprunalegu og óviðjafnanlegu Supremes ásamt Florence Ballard og Díönu Ross, lét einhvern tíma hafa það eftir sér að hún vildi það síst að sín yrði einungis minnst sem bakraddasöngkonu fyrir Díönu Ross sem raulaði bara „Baby baby“ (sbr. „Where Did Our Love Go“) í vélrænni síbylju. Sannleikurinn er sá, að án slíkrar (sí)röddunar hefði stúlknasöngsveitahljómurinn orðið allt annar, öðruvísi og e.t.v. ómerkilegri, en þá skipti það ekki jafnmiklu máli hver var í bakgrunninum og hver var í forgrunni; karakter, sjarmi og sérstætt útlit réðu þar oft meiru en sönghæfileikar einir og sér. Þetta skapaði auðvitað oft og eðlilega öfund og togstreitu margra stúlknanna í millum. Séramerískt fyrirbæri Þó að stúlknasöngsveitir þessar væru vel að merkja – eins og greinilegt ætti að vera orðið – alveg séramerískt fyrirbæri voru þeir ófáir Bretarnir sem reyndu að feta í fótspor amer- ískra upptökusnillinga á borð við Phil Spector, Luther Dixon (maðurinn á bak við það besta með Shirelles), George „Shad- ow“ Morton og aðra þá er hér hefur verið fjallað um. Menn eins og Mike Leander (gerðist löngu síðar hægri hönd Garys Glitters) og Andrew Loog Oldham (þáverandi umbi Rolling Stones) reyndu með misjöfnum árangri að gera Ron- ettes eða Shangri-Las úr ansi rýrum efniviði á borð við the Vernon Girls, sem bara höfðu ekki það sem til þurfti. Samt tókst bæði Tony Hatch (með Petúlu Clark – „Down- town“) og Johnny Franz (með hina ungu Dusty Springfield – „I Only Want To Be With You“ og „Stay Awhile“) að komast nokkuð nálægt hinu ekta ameríska stelpnasándi, án þess þó líklega að vera neitt mikið að reyna það. Báðar voru þessar söngkonur líka talsvert fjölhæfari og metnaðarfyllri en svo að festast í einum stíl og eru auðvitað alveg jafn þekktar fyrir allt annað og öðruvísi efni sem þær tókust á við bæði fyrir og eftir að áðurnefndir smellir þeirra komu til sögunnar. Áhrif Ekki höfðu bandarísku stelpurnar síður áhrif á bresku bítla- hljómsveitirnar allar sem svo að lokum ruddu þeim miskunn- arlaust úr vegi og tísku vestra og tóku við af þeim á vinsælda- listunum með mikið af efni því er téðar stúlknasöngsveitir höfðu flutt upprunalega! Margtíundað er t.a.m. efnið sem Bítlarnir breiddu yfir, en einnig má nefna í þessu sambandi Manfred Mann sem sló vel í gegn með bæði „Do Wah Diddy Diddy“ (gamalt Exciters- flopp) og „Sha La La“ (Shirelles) á meðan Hollies tóku „I Can’t Let Go“ hennar Evie Sands og Searchers „Needles And Pins“ eftir Jackie DeShannon. Og þá er auðvitað ótalið hversu oft mörg þessara gömlu laga hafa verið tekin síðan þá. Jafnólíkt listafólk og graðhestarokk- ararnir í Aerosmith og diskódívan Kylie Minogue hafa t.a.m. túlkað tvö stúlknasöngsveitalög – „Remember (Walkin’ In The Sand)“ og „The Locomotion“ – hvor með sínu nefi. Eitt er nú samt víst, að erfitt er að ímynda sér dægurtónlist- ina án áhrifa stúlknasöngsveitafársins á hana; allt frá Bítl- unum og Beach Boys til Madonnu og Manic Street Preachers, með viðkomu hjá Bruce Springsteen og Meat Loaf. Og jafnvel „Einu sinni var – vísur úr Vísnabókinni (1977), ein vinsælasta íslenska hljómplata fyrr og síðar, var greinilega nokkurs konar opið ástarbréf Gunnars okkar Þórðarsonar til Phils Spectors. Stórfengleg túlkun Gunnars þar á „Stóð ég úti í tunglsljósi“ myndi vafalítið gleðja þann gamla. Þá er einnig ónefnd sú viðhorfsbreyting gagnvart kvenfólki í popp- og rokktónlist sem stúlknasöngsveitirnar eiga vissulega þátt í að hafa komið af stað, þó að áratug eða svo síðar hafi hreyfingin sú skiljanlega orðið talsvert ágengari með harðara rokki, pönki og nýbylgju í ætt við Patti Smith og Debbie Harry (úr Blondie). Og á níunda áratugnum var það svo auðvitað Madonna, vafalítið vinsælasta poppsöngkona allra tíma, sem kinkaði kolli til stúlknasöngsveitanna á afar viðeigandi og viðkunnanlegan hátt með lagi sínu „True Blue“ (1986) og meðfylgjandi mynd- bandi og ruddi þannig áfram brautina fyrir þær sem á eftir komu.  Þeim sem hafa áhuga á að kynna sér söguna í tónum má benda á nýlega tveggja geisladiska seríu frá Rhino Records, „Girl Group Greats“ og „More Girl Group Greats“, sem þó er án nokkurs einasta fulltrúa úr smiðju Phils Spectors, sem situr nefnilega fast á fjársjóðnum og leigir sjaldan lögin sín út til út- gáfu. Hvert einasta einkasafn er svo auðvitað ekki fullkomið án einhvers með bæði Supremes og Shirelles.   History Of Rock #12, #15, #23, #26, #29, #32, 1982 Orbis Publishing, Ltd., Great Britain. British Hit Singles, 11th edition, 1997. Guiness Publishing Ltd., London. The Shirelles – The World’s Greatest Girls Group. Tomato, 1994. New York, NY. The Best Of The Girl Groups, Vol. 1. Rhino Records Inc. 1990. Los Angeles, CA. The Best Of The Girl Groups, Vol. 2. Rhino Records Inc. 1990. Los Angeles, CA. Where Did Our Love Go? The Rise & Fall of the Motown Sound – Nelson George. Omnibus, England, 1986. Be My Baby – Ronnie Spector. Macmillan, England, 1991. Leonard Maltin’s Movie and Video Guide 1995. Penguin Books USA Inc. 1994. New York, NY. ’Þótt textainnihaldið hafi nú sjaldnast verið drjúgt, sama hver átti í hlut, og sjálfsagt mörg rauðsokkan þá og síðar þol-að illa þetta endalausa gaul um „gæjann“, voru flutningurinn og framsetningin bara oft svo einlæg og tilfinningarík að erfitt var og er að standast þetta, sem á pappírunum ætti að flokkast undir innihaldsrýra froðu.‘ Phil Spector Af dæmigerðri og makalaust yfirlætisfullri hógværð sagðist Spector alltaf bara vera að framleiða „litlar sinfóníur fyrir litla krakka“ og er sagður hafa verið undir sterkum áhrifum frá klassíska þungamiðjutónskáldinu Wagner. Höfundur er áhugamaður um tónlist. „Litlar sinfóníur fyrir litla krakka“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.