Íslendingaþættir Tímans - 23.03.1983, Blaðsíða 3

Íslendingaþættir Tímans - 23.03.1983, Blaðsíða 3
Þóroddur Guðmundsson skáld frá Sandi Fæddur 18. ágúst 1904. Dáinn 13. mars 1983. Kveðja frá Norræna félaginu: Þóroddur Guðmundsson skáld og rithöfundur frá Sandi hefur staðið í forystusveit Norræna félagsins í áratugi. Að forgöngu hans var Norræna félagið í Hafnarfirði stofnað 2. maí 1958 eða fyrir um aldarfjórðungi. Var hann formaður þess í fulla tvo áratugi. Með óblandinni gleði minnist ég félagsfunda í Hafnarfirði á þessum árum, er ætíð voru með þeim menningarbrag sem þessum mennta og mannvini var að skapi. Það er oft á tíðum töluverð vinna að veita forystu félagsstarfi, eigi það að rísa undir nafni. Norræna félagið í Hafnarfirði er ein starfsam- asta deild Norræna félagsins. Þóroddur lagði metnað sinn í það eins og annað sem hann tók sér fyrir hendur. Hann átti sæti í sambandsstjórn Norræna félags- ins frá 1963 og var jafnan ritari hennar. Það er raunar ánægjan ein að minnast þess ásamt öðru hve fallega rithönd Þóroddur hafði. Eftir skipulagsbreytingu Norræna félagsins á árinu 1971 var hann sjálfsagður í framkvæmdaráð þess og sat þar í rúm sjö ár, tillögugóður og hollráður og sinnti því starfi af sömu kostgæfni og alúð og öðrum þeim störfum er hann vann að. Þóroddur var eldsál og ærlegur maður, sem heiður var að fá að kynnast og starfa með. Málstaðurinn var honum allt. Heit lund hans og einlæg þoldi þar engan undanslátt. Hann fór um landið í erindum Norræna félags- ins og flutti mál sitt logandi af áhuga á hugsjónum norrænna, friðelskandi manna. Hann átti sinn þátt í stofnun Norræna félagsins á Egilsstöðum, sem starfar af miklum þrótti. Þóroddur lét sér mjög annt um að klæða hugsanir norrænna skálda í íslenskan búning og má þá minnast veglegs safns norrænna Ijóða sem hann þýddi og gefin voru út fyrir nokkrum árum. Var að þeim fengur fyrir Ijóðaunnendur. Þegar Þóroddur lét af störfum heiðraði Norræna félagið hann með því að gera hann að heiðursfé- laga og sæma hann gullmerki félagsins. Enginn var betur að þeim sóma kominn en hann. Norræna félagið á íslandi þakkar Þóroddi af alhug mikil og óeigingjörn störf í þágu þess. Alla tíð naut hann ástríks stuðnings eiginkonu sinnar Hólmfríðar Jónsdóttur. Ánægjulegt er að minnast heimsókna til þeirra hjóna á hlýtt og menningarlegt heimili, þar sem skilningur og virðing fyrir manngildinu sátu í fyrirrúmi. Við gamlir félagar Þórodds söknum vinar í stað °g biðjum allar góðar vættir að styrkja Hólmfríði, börn þeirra og venslafólk allt. Genginn er göfugur maður. Hjálmar Ólafsson. t Þóroddur Guðmundsson frá Sandi starfaði sem kennari við Flensborgarskólann í hartnær aldar- fjórðung. Hann var áhugasamur og ósérhlífinn kennari, sem lagði mikla alúð við starf sitt. Á kennarastofunni var hann góður félagi, sem eignaðist yfirleitt vináttu samstarfsmanna sinna. Að leiðarlokum votta ég Hólmfríði og dætrun- um dýpstu samúð mína, gamalla samkennara og skólans sem stofnunar, um leið og ég þakka framlag Þórodds til menntunar- og skólamála í Hafnarfirði. Kristján Bersi Ólafsson. Lífi allra lýkur. Ljósin björtu deyja. Angur og auðn vekur andlát sannra vina. Glæstur, góður, farinn, göfugmenni og drengur. Polgóður í þrautum. Þóroddur er dáinn. Skáldið skærra hljóma, skorinorða, milda, kliðmjúka og kæra. Kvað af djúpum trega. Landi og þjóð í litum lýsti fagurlega. Horfinn er nú héðan. Harmur ríkir víða. Unni sinni ættjörð eldheitu af geði. Her á heiðum suður héðan ætti að víkja. Mál hans myndríkt, þróttugt mun í hugum vara. Frelsi Fjallkonunnar fullgilt skyldi vera. Auka og efla þráði einhug norrænna þjóða. Samh.ygð þeirra og samstarf. Sögu þeirra og menning. Fulltrúi á þingum frækinn. Fögnuð vakti ríkan. Mikið er skarð fyrir skildi. Við skynjum þetta núna. Æsku landsins ávallt auðga vildi og göfga. Flutti henni fróðleik. Fræddi margvlslega. Kennari kostamikill. Knúði á um þekking. Ekki aðrirfremur unnu verk slíkt betur. Svefninn signir látinn. Sól er hækkar göngu. Vorfersenn um veröld. Veturinn er liðinn. Innan tíðar aftur ungur rls af beði. Guð sem gefur lífið gæti þín um eilífð. Kvaddur kær er vinur. Kvöld er nú á foldu. Sól til viðar sigin. Sorg í Hafnarfirði. Far þú sæll í friði. Framtíð heið þig geymi. Heimilið þitt hlýja huggi og blessi drottinn. Eiríkur Pálsson, frá Ölduhrygg. Islendingaþættir 3

x

Íslendingaþættir Tímans

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Íslendingaþættir Tímans
https://timarit.is/publication/303

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.