Lesbók Morgunblaðsins - 11.09.2004, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 11.09.2004, Blaðsíða 5
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. september 2004 | 5 eltast við það. Fór bara að vinna eins og hver annar skrif- stofumaður hjá tryggingafyrirtæki sem ég var hluthafi í. Ég var líka orðinn fjölskyldumaður, en það réð engum úrslitum. Það er engum að kenna um þetta nema sjálfum mér. Við Guðmundur [Jónsson, söngvari] vorum eitt sinn að horfa hvor framan í ann- an, báðir búnir að fá tilboð hingað og þangað. Þá sagði hann: „Veistu það Kiddi, ef við verðum ekki hér heima, þá verður bara ekkert úr músíklífinu hérna!““ Heldurðu að þetta hafi ekki bara verið rétt hjá Guðmundi? „Jú, ætli það ekki bara, það er mjög líklegt,“ segir Kristinn og hlær dátt, rétt eins og hann sé þrátt fyrir allt efins. Fannstu til þess að þín kynslóð væri að vinna brautryðj- andastarf? „Nei, það held ég ekki. Þetta var bara svo sjálfsagt og gekk eðlilega fyrir sig.“ En þið voruð það nú samt! „Ef það er rétt, þá gátum við bara ekkert að því gert. Svona var þetta bara.“ Hvaða píanóleikurum vannstu mest með á þessum árum? „Mest með Fritz Weisshappel, en líka Páli Kr. Pálssyni í Hafnarfirði – og jú, einu sinni með Einari Markússyni og svo auðvitað Ólafi Vigni Albertssyni sem var líka alveg sérstaklega gott. Þetta var bara allt svo kurteist fólk þessir píanóleikarar mínir. Það var sérstök uppákoma að ég fór svo að vinna með Árna Kristjánssyni. En mikið lifandis ósköp var gott að vinna með honum. Það var verið að bjóða Árna og einhverjum Íslendingi að taka þátt í tónleikahaldi í Stokkhólmi. Allt í einu kom beiðni til mín frá Árna um það hvort ég vildi vera með honum í þessu. Ég sagðist mjög gjarnan vilja gera það, og við fórum út. Við fengum alveg ofsalega, helvíti góða krítík. Árni var svo helvíti góður, að hann hélt kynningarræðu um íslensk sönglög og á meðan var ég bara að skemmta mér með kvartett frá Noregi. Kvartettinn kom svo skömmu seinna til Íslands og byrjaði auðvitað á því að spyrja eftir mér, því það hafði verið svo gaman hjá okkur í Sví- þjóð. En það var alveg sérstakt að vinna með Árna. Hann var svo lifandi í músíkinni að það var alveg ótrúlegt. Ég hef alveg minn eigin smekk á því hvernig eigi að fara með tónlist, en við vorum alltaf sammála um þessa hluti.“ Kanntu skýringu á því? „Ætli við höfum ekki bara verið með sömu músíksálina á þessu sviði. Það var bara aldrei neitt sem fór af sporinu í þessari samvinnu.“ Ég held að þið Árni hafið hitt á óskastund þegar þið hljóðrit- uðuð plötuna ykkar. „Kringumstæðurnar voru nú samt ekkert sérstakar. Við tók- um upp í útvarpinu, fyrst íslensku lögin og Schwanengesang síð- ar. Það er svakalega erfitt.“ Þið sunguð þarna lög eftir Jón Leifs, – lög sem höfðu senni- lega ekki heyrst oft í þá daga. „Það var mjög merkilegt. Það voru alltaf af og til tón- skáldakynningar í gangi í útvarpinu, mig minnir að Helgi Sæ- mundsson hafi séð um þær. Það var verið að kynna Jón Leifs, og mér var falið að syngja tvö lög og taka upp fyrir útvarpið. Þau urðu nú á endanum fleiri. Svo var farið með þetta í skólana, með- al annars í menntaskólana. Ég var eiginlega alveg undrandi hvað það tókst vel að syngja fyrir unga fólkið. Það er svo mikið myrkur í lögunum hans Jóns og dauði og lögin eru dapurleg. Krakkarnir voru nú samt mjög hrifnir af þessari tónlist. Aum- ingja Jón sagði nú eitt sinn við mig að hann gæti ekki haldið upp á lögin sín öllu lengur. Hann þurfti að eyðileggja svo margt sem hann hafði samið í Þýskalandi á stríðsárunum, og þegar hann flutti til Svíþjóðar voru lögin hans sum hver tekin af honum þar.“ Hvernig stóð á því? „Pólitík. Jón barðist á móti nasistunum, þótt hann hafi verið nasisti til að byrja með, með nasistamerki og hvaðeina. En þegar þeir leyfðu honum ekki lengur að halda tónleika, þá snerist hann svo heiftarlega gegn þeim að hann flutti til Svíþjóðar, og þar var það sem dóttir hans dó.“ Var Jón mjög umtalaður hér heima? „Nei, það held ég ekki. En hann varð umtalaður þegar hann fór að brjóta útvarpstæki í bílum þegar hann vildi gera sig gild- andi í réttindabaráttu tónskálda gegnum STEF. Hann braut tæki í rútubíl þar sem verið var að spila músík fyrir fulla rútu af fólki. Þá kom þar að maður sem vildi ráðast á Jón og berja hann. Jón var hreint enginn bjáni, þótt hann væri harðhentur í barátt- unni. En fyrir utan lögin hans Jóns var það nú yfirleitt Árni sem valdi það sem við fluttum. Svo kom sænski kóngurinn í heim- sókn, og þá vildi Árni endilega að við syngjum eitthvað fallegt ís- lenskt fyrir hann, og það gerðum við. Kóngurinn heilsaði svo upp á mig eftir sönginn. Ég söng líka tvisvar fyrir Ólaf Nor- egskonung.“ Hvaða íslensku tónskáld hélst þú mest upp á? „Almáttugur, það veit ég ekki. Ég held ég hafi ekki haldið upp á neitt eitt öðrum fremur. Jú, kannski, Sveinbjörn Sveinbjörns- son og Sverri konung og eitt og annað af þeirri tegund. Valagilsá er líka merkilegt lag, og undir það síðasta í því er endurtekið: „Áin, sem stundum er ekki í hné, er orðin að skaðræðisfljóti.“ Mjög fallega gert. En svo var nú líka alltaf gaman að syngja lögin hans Kalla Run [Karls O. Runólfssonar], eins og Spjallað við spóa og Inguló.“ Þau hljóta nú að hafa átt vel við þig – eins auðvelt og þú áttir með að koma húmor til skila. „Já, þau áttu vel við mig.“ Og Kristinn hefur upp raustina; – syngur Inguló fyrir mig … „Ertu svona Ingaló? Amma þín í koti bjó, tók af sauðum, tók upp mó, tók í nef úr kylli. Fór til grasa, sótti sjó, svo var hún góð á milli.“ … og svo hlær hann dátt að Inguló og furðunni henni ömmu hennar. „Það er nú alveg frábært að syngja lög við svona texta; þar sem maður hefur eitthvað skemmtilegt að gera sér mat úr. Þetta er myndrænt, eins og óperan.“ Kómíkin hefur væntanlega höfðað til þín þar líka? „Já, og Papagenó var uppáhaldshlutverkið mitt, – flott hlut- verk. Ég söng það hér í Þjóðleikhúsinu. Söng svo í Brúðkaupi Fígarós í London.“ Nú túlka söngvarar Papagenó á svo ólíkan hátt. Sumir leggja áherslu á einfeldninginn í honum, meðan aðrir gera út á húm- orinn og kátínuna. Hvernig Papagenó varst þú? „Ég gerði mest út á húmorinn. Einhvern tíma hrasaði ég al- veg óvart á sviðinu í Þjóðleikhúsinu, – rann til á pöllunum, og það var skellihlegið í salnum. Mikið lifandi skelfing fannst mér það skrýtið, en sá um leið að ég gæti gert þetta aftur til að gleðja fólk!“ Fylgistu vel með ungu söngvurunum okkar í dag? „Ég geri það nú, að mestu. Ég verð nú samt að segja eitt. Hann Jói Konn [Jóhann Konráðsson] var afskaplega góður á sínum tíma. Hann söng mikið á Akureyri. Ég er ekki alveg jafn hrifinn af Kristjáni syni hans. Vantar hógværðina í hann. Svo á hann bróður, Jóhann Má, sem er bóndi fyrir norðan, og hann er frábær söngmaður. Hann minnir meira á pabba sinn en Krist- ján. En Kristján er nú samt ágætur.“ Það sagði við mig maður að þegar þú hefðir verið að hlusta á lögin sem áttu að fara á geisladiskinn hefðirðu orðið hissa að heyra í sjálfum þér og sagt: „Var ég virkilega svona góður?“ Er þetta satt? Og Kristni er skemmt við þessa upprifjun. „Ég hef nú stundum verið skammaður fyrir að vera allt of hógvær. Ég hefði aldrei getað trúað því að sumt af því sem ég gerði hefði getað gengið þó þetta vel upp.“ Í hlutverki Papagenós, með Hönnu Bjarnadóttur sem Papagenu í Töfraflautu Mozarts í Þjóðleikhúsinu 1956. Með Fritz Weisshappel 1955.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.