Lesbók Morgunblaðsins - 11.09.2004, Blaðsíða 12
12 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 11. september 2004
Miðasölustúlkan opnaði lúguna, reyk-víski bíófarinn nálgaðist söluopið ogsagði: „Einn miða í bestu sætum“ oggreiddi eina krónu fyrir.
Hann stóð í langri röð við Iðnaðarmannahúsið í
Reykjavík 27. júlí árið 1903, klukkan 10 árdegis,
ætlaði að sjá „Edisons lifandi ljósmyndir“. Eitt-
hvað sem átti sér enga hlið-
stæðu í skemmtanalífi Reykja-
víkur hófst þetta kvöld, og það
seldist upp á sýninguna. Saga
kvikmynda spannaði aðeins
átta ár í heiminum þegar íslenskir kvikmynda-
húsagestir fengu fyrst að sjá dýrðina á tjaldinu.
Hundrað og einu ári síðar er jafngaman að fara í
bíó, þá var Etherlampi sýningarvélarinnar tendr-
aður og gasljós lýsti upp filmuna sem vélin sneri –
og varpaði henni á tjaldið fyrir framan áhorfendur.
Núna byrja sýningar stundum á leysigeislasýn-
ingum og stafrænum sjónhverfingum.
Bíófarinn árið 1903 sat með opinn munninn,
glennt augun og sá dýr leika sér, krýningu Ját-
varðs Bretakonungs, fossa falla og fréttir um ófrið
úti í heimi. Það var ekki talað um annað í Reykja-
vík – en þetta undur.
Bíófarinn hélt áfram að stunda kvikmyndahúsin
öldina á enda. Danskir kaupmenn opnuðu fyrsta
kvikmyndahús landsins, Reykjavíkur Bíógrafthea-
ter og sýndu í Fjalakettinum, Aðalstræti 8. Árið
1917 sá hann fyrstu myndina með íslenskum texta;
ítölsku myndina Voðaskot.
Hann naut þess alltaf jafnmikið að sjá ljósin
slokkna í salnum og finna myrkrið skella á. Augun
voru oft nokkra stund að jafna sig en svo dróst for-
tjaldið frá og myndin byrjaði. Bíósætin voru hörð
og óþægileg en hann fann ekki fyrir því, ekki fyrr
en hann gekk út af sýningu lokinni. Núna eru sæt-
in mjúk og góð og sveigjanleg og op er fyrir gosið á
stólarminum.
Bíófarinn situr nú í kvikmyndahúsi sem er sér-
hannað handa honum: Það er vítt til veggja og hátt
til lofts. Sýningartjald sem nær vegg í vegg, nóg
pláss fyrir fætur. Fyrstu árin var píanóleikari á
staðnum en nú er „fullkomið“ hljóðkerfi sem lætur
hljóðið snerta húðina og ekkert höfuð skyggir á
tjaldið. THX staðlar, salir með Dolby Digital EX-
og JBL 3 með 8 rása hljóðkerfi. Jafnvel kaffihús og
bar, og aðgengi fyrir fatlaða.
Bíófarinn getur keypt hefðbundið sælgæti og
nýpoppaðar maísbaunir – en hann getur einnig
fengið hitað snakk með sósu - og fleira . . . Kvik-
myndahús og -sýningar hafa í meira en öld verið
meginþáttur í skemmtanalífi Reykvíkinga. Bíóhús
risu um allt land, en lokuðu víða þegar vídeómenn-
ingin varð allsráðandi. Nokkur hafa þó náð sér á
strik aftur.
Flestallar sýndar myndir eru vissulega form-
úlumyndir frá Bandaríkjunum og Bretlandi;
spenna, drama, grín og fjölskyldumyndir. Þó hafa
frumlegar myndir frá öðrum löndum ávallt átt at-
hvarf, oftast í Háskólabíói. Einnig hafa mikilvægar
kvikmyndahátíðir haft góð áhrif á þroska bíóf-
aranna, t.d. franskar og spænskar hátíðir. Næsta
hátíð er Nordisk Panorama sem verður 24.-28.
september í Reykjavík. Á döfinni er svo endurreist
kvikmyndahátíð í Reykjavík, því stofnað hefur
verið félag um starfsemina sem ber heitið Al-
þjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík. Hrönn Mar-
inósdóttir, framkvæmdastjóri hennar, hefur sagt
að hátíðinni sé m.a. ætlað að; sýna nýlegar myndir
sem komi alla jafna ekki til landsins, gera áhrifa-
miklum kvikmyndaleikstjórum góð skil, og tíma-
bilum í kvikmyndasögunni.
Bíósýning er eitt af því albesta sem boðið er upp
á í borginni, það fannst fyrstu bíóförunum og það
finnst mér. „Tvo miða, takk!“
Unaður þess að fara í bíó
’Kvikmyndahús hafa í meira en öld verið meginþáttur ískemmtanalífi Reykvíkinga; drama, grín og spenna . . .‘
Sjónarhorn
eftir Gunnar
Hersvein
guhe@mbl.is
Góður vitnisburður um bíómenningu Reykvíkinga.
Nýjasta mynd þýska kvikmynda-gerðarmannsins Wims Wend-
ers (Der Himmel über Berlin og
Buena Vista Soc-
ial Club) heitir
Land allsnægt-
anna (Land of
Plenty) og fjallar
um Bandaríkin
„eftir 9/11“ í helj-
argreipum of-
sóknaræðis og fá-
tæktar. Myndin
var frumsýnd á
kvikmyndahátíð-
inni í Feneyjum í vikunni, en í dag
eru nákvæmlega 3 ár síðan hryðju-
verkin áttu sér stað. Óvægin mynd
Wenders segir
sögu tveggja
ólíkra einstakl-
inga; fyrrum hermanns í Víetnam-
stríðinu (John Diehl) sem fyllist
skelfingu eftir hryðjuverkin og fær
þá þráhyggju að vernda þjóð sína
með ráðum og dáð og ungs trúboða
(Michelle Williams) sem vinnur sem
sjálfboðaliði í fátækrahverfum Los
Angeles-borgar. Í bakgrunni glymur
áróður hægri sinnaðra útvarps-
manna sem lofsyngja Bush forseta og
viðbrögð hans. „Myndin er ekki árás
á Bandaríkin,“ hefur Wenders skrif-
að um myndina. „Í myndinni er frem-
ur reynt að glíma við örvinglun, sárs-
auka og örvæntingu.“ Spurður í
Feneyjum í vikunni hverjar hann
héldi að viðtökurnar í Bandaríkj-
unum yrðu við myndinni svaraði
hann: „Hvað heldurðu? Bush er nátt-
úrlega búinn að sannfæra alla um að
þeir sem ekki séu sammála honum
hljóti að vera á móti Bandaríkj-
unum.“
Heimar hermannsins og trúboðans
mætast þegar þau verða bæði vitni að
því er heimilislaus Miðaust-
urlandabúi er myrtur á götu úti með
köldu blóði. Saman finna þau sig knú-
in til að rannsaka morðið og reynir þá
fyrst á þjóðernishyggju hermannsins
og kristna trú trúboðans. Wenders
skrifaði handritið á tveimur vikum og
skaut myndina á stafræna vél á 16
dögum. Hann hefur þegar hafið und-
irbúning á sinni næstu mynd Ei aftur
snúið (Don’t Come Knockin’) sem
hann skrifaði ásamt Sam Shepard.
Sarah Polley, sem lék í No Such
Thing Hals Hartleys og verður í
Bjólfskviðu Sturlu Gunnarssonar,
hefur verið ráðin í aðalhlutverkið.
Einn heitasti kvikmyndagerð-armaður Bandaríkjanna í dag,
Richard Linkater (Before Sunset,
School of Rock)
hefur samþykkt
að endurgera
hafnaboltamynd-
ina The Bad
News Bears.
Frumgerðin er
frá 1976 og skart-
ar Walter Matt-
hau í hlutverki
bjórþambara sem
breytir slöppu
unglingaliði í hafnabolta í meistara.
Billy Bob Thornton hefur verið feng-
inn til að feta í fótspor Matthau.
Linklater er með aðra mynd í und-
irbúningi sem heitir The Smoker.
Tvær myndir byggðar á verkumnorska leikritaskáldsins Hen-
riks Ibsens lifna senn við á hvíta
tjaldinu. Norski
leikstjórinn Erik
Skjoldbærg (In-
somnia, Prozac
Nation) hefur nú
lagt lokahönd á
Fjandmann fólks-
ins (En folkefi-
ende) og verður
hún opn-
unarmynd al-
þjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í
Tromsö sem haldin verður dagana
18.–23. janúar 2005. Myndin gerist í
nútímanum og er tónlistin eftir
norska djasstónskáldið Jan Garbar-
ek. Með helstu hlutverk fara Jørgen
Langhelle, Trine Wiggen og Pia
Thelta. Þá er landi Skjoldbærg, leik-
konan og leikstjórinn Liv Ullmann,
nú að undirbúa kvikmyndagerð á
Brúðuheimili (Et dukkehjem) eftir
Ibsen. Tökur eiga að hefjast næsta
sumar og hljóðar kostnaðaráætlun
upp á rúmar 700 milljónir króna.
Erlendar
kvikmyndir
Richard Linklater
Wim Wenders
Liv Ullman
E
f draga ætti meginumfjöllunarefni
bandarískra kvikmynda ættaðra
úr Hollywood saman í fimm orð-
um, yrði tilsvarið: Barátta ein-
staklingsins gegn ómennsku
kerfisbákni. Leikstjórinn Steven
Spielberg, helsti fulltrúi draumasmiðjunnar, er
snillingur í að framreiða slíkar sögur, sögur sem
fjalla um litlar og sigursælar orrustur í langvar-
andi styrjöld litla mannsins og kerfisins. Þar get-
ur litli „maðurinn“ reyndar tekið
á sig ýmsar birtingarmyndir, allt
frá (litlum) geimverum, (litlum)
vélmennum, siðblindingjum og
fulltrúum minnihlutahópa hvað kynþátt eða sam-
félagslega viðurkenningu varðar.
Nýjasta kvikmynd Spielbergs, Flugstöðin (The
Terminal), fellur tvímælalaust í hóp ofangreindra
kvikmynda. Þar segir frá Viktor nokkrum Nav-
orski (Tom Hanks) ferðalangi frá ónefndu landi í
Austur-Evrópu sem verður strandaglópur á JFK-
flugvellinum í New York þegar valdarán á sér
stað í heimalandi hans. Hann kemst ekki inn í
Bandaríkin en á heldur ekki afturkvæmt til
heimalands síns, og festist því á flugvellinum í
nokkurs konar þjóðernislegu og réttindalegu
tómarúmi meðan mál hans þvælist um hina ýmsu
kerfiskima.
Strandaglópurinn lærir hins vegar smám sam-
an að aðlagast tilverunni á flugvellinum, og finnur
þar leið til þess að byggja sér upp merkingarríka
tilveru, en þar nýtur hann ekki síst velvildar flug-
vallarstarfsmanna, sem verða, ásamt flug-
farþegum sem koma og fara, það samfélag sem
Navorski tilheyrir.
Sextán ára löng millilending
Það sem er kannski einna merkilegast við þessa
ljúfsáru Spielberg-sögu, er að hún er byggð á
raunverulegum atburðum. Fyrirmynd hins aust-
ur-evrópska Navorskis, er íranski flóttamaðurinn
Mehran Karimi Nasseri sem strandaði vegabréfs-
laus á Charles de Gaulle flugvellinum í París árið
1988 og hefur dvalið þar æ síðan. Nasseri fæddist
í Soleiman árið 1945 og er sonur íransks föður og
breskrar móður. Hann var sviftur þegnrétti og
rekinn úr landi fyrir að taka þátt í mótmælum
gegn stjórnarháttum Íranskeisara á ofanverðum
áttunda áratugnum og hefur ekki átt afturkvæmt
til Írans síðan. Nasseri hraktist um árabil um
nokkur Evrópulönd í leit að pólitísku hæli og sat
m.a. í frönsku fangelsi um tíma. Eftir misheppn-
aða tilraun til þess að komast til Bretlands, ákvað
Nasseri að halda kyrru fyrir á de Gaulle-
flugvellinum þar til að mál hans skýrðist en hann
hefur m.a. krafist löggilds bresks ríkisborg-
araréttar. Síðan hefur saga Nasseri orðið að
nokkurs konar flökkugoðsögn, sögu sem enginn
trúir alveg en er samt sönn, sögu mannsins sem
festist milli stafs og hurðar í alþjóðasamfélaginu í
16 ár, og situr þar enn.
Nasseri, sem er 59 ára gamall, hefur bæki-
stöðvar sínar á rauðum almenningsbekk á versl-
unarsvæði á neðstu hæð einnar flugstöðvardeild-
arinnar, baðar sig á almenningssalerninu, þiggur
mat frá umhyggjusömum starfsmönnum og
hirðulausum flugfarþegum. Hann segir líf sitt þó
ekki eins viðburðaríkt og sögupersónunnar í kvik-
mynd Spielberg, sem lendir í ástarævintýri með
flugfreyju sem leikin er af hinni föngulegu Cath-
arine Zeta-Jones. Hinn raunverulegi strandaglóp-
ur styttir sér stundir með því að lesa dagblöð og
„flugvallarbækur“ sem hann fær lánaðar frá bók-
salanum í næsta bási en síðast las hann sjálfs-
ævisögu Hillary Clinton. „Dagar mínir eru eins og
inni á bókasafni. Þeir einkennast af þögn,“ segir
Nasseri m.a. í nýlegu viðtali.
Týndur í eigin harmsögu
Í tengslum við kvikmynd Spielbergs hefur athygli
fjölmiðla beinst að þessum gleymda þjóðleysingja
af endurnýjuðum krafti og að því er ráða má af
frásögnum dagblaða blasir þar við mynd manns
sem hefur glatað tengslum við þann veruleika
sem er að finna utan hins þægindalega en óper-
sónulega viðmóts flugstöðvarbyggingarinnar.
Nasseri er vissulega fórnarlamb kerfistregðu og
sinnuleysis um málstað hans, en hann hefur einn-
ig veigrað sér við að ganga út um dyr flugstöðv-
arbyggingarinnar þegar þær hafa opnast. Árið
1999 veittu Sameinuðu þjóðirnar Nasseri pólitískt
hæli í Belgíu, en hann hafnaði þeirri lausn á óljós-
um forsendum, en í viðtölum ítrekar hann iðulega
kröfu sína um að hljóta fullgildan breskan rík-
isborgararétt. En þegar rætt er við Nasseri ber
frásögnum ekki alltaf saman, og telja margir að
hann hafi glatað veruleikaskyninu að einhverju
leyti. Í grein sem birtist í Guardian fyrir nokkru
er Nasseri t.d. lýst sem sjálfskipuðum útlaga,
fanga sem orðinn er samvaxinn klefa sínum, og
treystir sér því ekki út fyrir hann.
Margir hafa bent á að hagur Nasseri hafi vænk-
ast allverulega eftir að DreamWorks, framleiðslu-
fyrirtæki Stevens Spielbergs, keypti réttinn að
sögu hans fyrir 450.000 Bandaríkjadali, en þrátt
fyrir það heldur Nasseri áfram að lifa lífi útilegu-
mannsins í flugstöðvarbyggingunni á de Gaulle.
Svo óljós virðist saga Nasseri reyndar vera, að
jafnvel virtum dagblöðum ber ekki saman um
bakgrunn hans og þá meðferð sem mál hans hefur
hlotið hjá ríkisstjórnum Frakklands, Belgíu og
Bretlands. Íranski leikstjórinn Alexis Kouros
réðst í það verkefni að segja hina flóknu og dap-
urlegu sögu Nasseris í heimildarmyndinni Wait-
ing for Godot at de Gaulle (2000). Kouros er jafn-
framt læknir að mennt og hefur hann lýst yfir
áhyggjum af geðheilsu Nasseri. „Hér áður fyrr
var hann heilbrigður einstaklingur. En eftir 15
ára dvöl á þessum stað er hann orðinn stofn-
anamatur.“ Það er ekki að undra að Steven Spiel-
berg hafi ákveðið að byggja kvikmynd sína aðeins
lauslega á hinni löngu og flóknu sögu Mehran
Karimi Nasseri. Saga hans er nefnilega engin sig-
ursaga, heldur saga manns sem týndist inni í sinni
eigin harmsögu.
Týndur í biðsalnum
Nýjasta kvikmynd Stevens Spilbergs, The Term-
inal, er byggð á undarlegri raunasögu flugstöðv-
arbúans Mehran Karimi Nasseri sem dvalið hef-
ur á Charles de Gaulle-flugvellinum í 16 ár.
Reuters
Merhan Karimi Nasseri hefur lifað í þjóðernislegu tómarúmi á Charles de Gaulle-flugvellinum í París um 16
ára skeið. Hann er kallaður „sir Alfred“ af starfsmönnum flugstöðvarinnar sem þekkja hann vel.
Eftir Heiðu
Jóhannsdóttur
heida@mbl.is