Morgunblaðið - 08.09.2004, Blaðsíða 8
ALLS rituðu 167 manns nafn sitt í samúðarbók rúss-
neska sendiráðsins á Íslandi um fórnarlömbin í Beslan í
Norður-Ossetíu í Rússlandi. Blóðbað í kjölfar gíslatöku í
grunnskóla í borginni kostaði að minnsta kosti 335
manns lífið og er talið að annað hvert fórnarlamb hafi
verið barn.
Bókin til minningar um fórnarlömbin lá frammi í
sendiráðinu í gær og í fyrradag.
Morgunblaðið/Sverrir
Vottuðu fórnar-
lömbum samúð
Reuters
Gríðarleg sorg ríkir í Beslan í Norður-Ossetíu þar sem á fjórða hundrað gíslar féll.
Alexander Rannikh sendiherra var viðstaddur.
FRÉTTIR
8 MIÐVIKUDAGUR 8. SEPTEMBER 2004 MORGUNBLAÐIÐ
Í dag eru 851 einstak-lingir á biðlistum eft-ir félagslegu húsnæði
í Reykjavík. Þar af eru 95
sem skilgreindir eru í
brýnni þörf. Sigurður Kr.
Friðriksson, fram-
kvæmdastjóri Félagsbú-
staða, segir að biðtími geti
verið 1–2 ár, en sé mun
minni fyrir þá sem eru í
brýnni þörf. Búið er að út-
hluta um 130 íbúðum það
sem af er þessu ári, en síð-
ustu tvö árin hefur verið
úthlutað um 200 íbúðum á
ári. Félagsbústaðir eiga í
dag 1.670 íbúðir.
„Brýnasta þörfin getur
verið til dæmis einstæð
móðir með tvö börn, atvinnulaus,
börnin eitthvað veik sem gerir það
að verkum að hún getur ekki farið
út á vinnumarkaðinn. Hún gæti
líka sjálf verið öryrki. Það er bara
metið hvaða möguleika fólk eigi á
að spjara sig úti á markaðinum.
Þess vegna er það náttúrlega sár-
grætilegt þegar fólk er að missa
húsnæði vegna húsreglnabrota og
vegna þess að það greiðir ekki
leigu,“ segir Sigurður.
Frá 1989 hefur biðlistinn verið
að meðaltalinu 450–460. Sigurður
segir að árið 2001 hafi listinn farið
að lengjast, í ársbyrjun 2002 voru
560 á biðlista, og hafði þeim fjölg-
að í 883 í byrjun árs 2003. Lengst-
ur var listinn í ágúst 2003 þegar
1.062 einstaklingar biðu eftir íbúð.
Í dag eru 851 á biðlistanum, og
hefur því fækkað um 20% frá
sama tíma í fyrra.
Sérstakar húsaleigubætur
Ástæðu þess að fjöldinn er nú á
niðurleið aftur segir Sigurður
fyrst og fremst tilkomu svokall-
aðra sérstakra húsaleigubóta í
mars á þessu ári. Þær gera fólki
sem er á biðlistanum kleift að
leigja íbúð á almennum markaði
og fá viðbót við húsaleigubæturn-
ar til jafns við niðurgreiðslu leigu-
verðs hjá Félagsbústöðum.
Almennar húsaleigubætur eru
að hámarki 12.500 kr. fyrir barn-
lausan einstakling eða par í
tveggja herbergja íbúð, og bætast
sérstakar húsaleigubætur við
þær. Sérstakar húsaleigubætur
eru reiknaðar sem hlutfall af
húsaleigubótum. Fyrir hverjar
1.000 kr. fær leigjandi 1.300 kr.
Því fengi einstaklingur sem fær
12.500 í almennar bætur 16.250
kr. í sérstakar bætur, og því sam-
tals 28.750 kr. Með þessu kerfi
eiga einstaklingar að geta leigt á
almennum markaði, en geta samt
fengið fyrirgreiðslu frá Reykja-
víkurborg sambærilegar við þær
sem þeir fengju í félagslegri íbúð.
Meðal greiðslubyrði leigj-
enda um 21 þúsund krónur
Meðal greiðslubyrði leigjenda
hjá Félagsbústöðum er mismun-
andi eftir stærð íbúða. Í skýrslu
stjórnar Félagsbústaða fyrir árið
2003 kemur fram að flestir séu í
tveggja eða þriggja herbergja
íbúðum, og þurftu þeir sjálfir að
greiða að meðaltali um 21 þúsund
krónur í húsaleigu, eftir að búið er
að draga frá húsaleigubætur.
Leigan sem Félagsbústaðir
þurfa að fá af hverri íbúð er svo-
kölluð raunleiga, sem er sú upp-
hæð sem Félagsbústaðir þurfa að
fá til að reksturinn standi undir
sér. Innheimt leiga er reiknuð
sem 5,32% af fasteignamati íbúðar
á hverju ári. Mismunurinn á raun-
leigunni og þeirri leigu sem leigj-
andinn borgar er niðurgreiðsla
borgarinnar.
Í reglum um félagslegar íbúðir
er kveðið á um skilyrði sem þurfa
að vera til staðar til að einstak-
lingur komist inn í kerfið, þ.á m.
tekjumörk og eignarmörk, segir
Ellý Þorsteinsdóttir, fram-
kvæmdastjóri ráðgjafasviðs hjá
Félagsþjónustunni í Reykjavík.
Einu sinni á ári er svo farið yfir
fjárhagsupplýsingar um þá sem
leigja félagslegar íbúðir til að at-
huga hvort aðstæður þeirra hafi
breyst. Ef aðstæður hafa batnað
er haft samband og fólki bent á
möguleika til að hætta að búa í fé-
lagslegu húsnæði, t.d. með því að
að leigja á almennum markaði eða
kaupa húsnæði með viðbótarláni.
Tekið hart á vanskilum
Þegar leigjandi hjá Félagsbú-
stöðum stendur ekki skil á leigu
fer ákveðið kerfi í gang strax
sama mánuð og fyrsta greiðsla
berst ekki. „Við sendum út
greiðsluseðil, gjalddagi er 1. hvers
mánaðar og eindagi 10. hvers
mánaðar. Ef greiðsla á leigu hefur
ekki borist 28. þess sama mánaðar
er það sent til innheimtufélags.
Margir hafa gagnrýnt þessi snöru
viðbrögð, en ástæðurnar fyrir
þeim eru einfaldar. Hjá okkur er
tekjulágt fólk og einn mánuður í
vanskil getur verið byrjunin á
stóru vandamáli, við viljum reyna
að grípa inn í það strax,“ segir
Sigurður.
Innheimtuferlið getur staðið í
2–3 mánuði, en að þeim tíma lokn-
um, fáist ekki greiðsla, er leigu-
samningi rift og útburðarferli
hefst. Þegar þetta ferli er að hefj-
ast er leigjandanum bent á að leita
til Félagsþjónustunnar í Reykja-
vík, sem og Ráðgjafastofu um
fjármál heimilanna. Ef ekkert
gengur að fá greiðslu fer málið
fyrir héraðsdóm og að lokum til
sýslumanns, sem sér um að bera
viðkomandi út.
Fréttaskýring | Félagslegar íbúðir
Biðlistar stytt-
ast í borginni
Í dag er 851 einstaklingur á biðlista eft-
ir félagslegu húsnæði í Reykjavík
Mikil ásókn er í íbúðir Félagsbústaða.
Breytingar hugsanlegar á
greiðslum í Reykjavík
Fyrirhugað er að breyta nið-
urgreiðslu borgarinnar á fé-
lagslegu leiguhúsnæði Fé-
lagsbústaða þannig að hún sé
ekki ákveðin greiðsla á íbúð
heldur miðist við aðstæður hvers
leigjanda. Góð reynsla hefur ver-
ið af því að nota sérstakar húsa-
leigubætur til að stytta biðlista
eftir félagslegum íbúðum. Því
mætti hugsanlega yfirfæra það
kerfi yfir á niðurgreiðslu borg-
arinnar í íbúðum Félagsbústaða.
brjann@mbl.is
ÞEIR sem borða mikla fitu eiga
ekki frekar á hættu að fá hjarta-
og æðasjúkdóma en þeir sem borða
litla fitu, samkvæmt niðurstöðum
nýrrar rann-
sóknar Mar-
grétar Leósdótt-
ur, læknis og
doktorsnema í
Malmö, á
tengslum mat-
aræðis og tíðni
hjarta- og æða-
sjúkdóma. Rann-
sóknin var kynnt
á dögunum á
Evrópuþingi
hjartalækna sem fram fór í
München.
Samkvæmt rannsókninni var
tíðni hjarta- og æðasjúkdóma álíka
há hjá þeim sem borðuðu mikla
fitu, þ.e. fita var um 45–50% af
fæðu, og hjá þeim sem borðuðu
litla fitu, þ.e. fita var minna en 30%
af fæðu, en samkvæmt manneld-
ismarkmiðum er mælt með að fitu-
hlutfall fari ekki yfir 30–35%. Mar-
grét segir niðurstöðurnar hafa
komið nokkuð á óvart enda hafi því
almennt verið haldið fram að mikil
neysla á fitu, og þá sérstaklega
mettaðri fitu, yki hættuna á hjarta-
og æðasjúkdómum.
„Þetta bendir til þess að við höf-
um verið að horfa í ranga átt með
því að einblína á fituna. Vanda-
málið í dag er að við borðum hrein-
lega of mikið, þá virðist ekki skipta
öllu máli hvort orkan kemur úr
fitu, kolvetnum eða próteinum. Ef
við borðum meira en við brennum
verðum við feit og það er offitan
sem er hættuleg,“ segir Margrét.
Skiptir ekki máli hvort fitan
er mettuð eða ómettuð
Rannsókn Margrétar er hluti af
stórri sænskri rannsókn sem hófst
árið 1991 en um 30.000 íbúar í
Malmö hafa tekið þátt í henni. Er
um að ræða heilsukönnun þar sem
þættir eins og mataræði, áfeng-
isneysla, reykingar og hreyfing eru
skoðaðir í tengslum við ýmiss kon-
ar sjúkdóma eins og hjarta- og
æðasjúkdóma og krabbamein.
Í rannsókn Margrétar kom einn-
ig í ljós að það skipti ekki máli
hvort fólk neytti mikillar mettaðrar
fitu eða ekki. „Samkvæmt mann-
eldismarkmiðum er mælt með því
að mettuð fita sé ekki meira en 10–
15% en þeir sem borðuðu helmingi
meira magn en það áttu ekki frek-
ar á hættu að fá hjarta- eða æða-
sjúkdóma en þeir sem fylgdu
manneldismarkmiðum,“ útskýrir
Margrét. Hún segir að taka verði
tillit til þess að rannsóknin hafi ein-
ungis náð yfir sjö ár og að allir
þátttakendur hafi verið á miðjum
aldri. Niðurstöðurnar hefðu ef til
vill verið aðrar ef mataræði fólks
um tvítugt hefði verið skoðað og
heilsufar þess svo kannað fjörutíu
árum seinna. Hún bendir þó á að
tvær nýlegar stórar bandarískar
rannsóknir um sama efni sem gerð-
ar voru á lengri tíma hafi gefið
svipaðar niðurstöður og hennar
rannsókn
Hreyfa sig og borða trefjar,
ávexti og grænmeti
Margrét bendir á að þeir sem
borða mikla fitu hafi tilhneigingu
til að borða mikið yfirleitt og borði
auk þess bætiefnasnauðan mat, og
það geti verið hluti ástæðunnar
fyrir því að menn hafi talið að fitan
væri svo mikill skaðvaldur.
„Fólk sem vill vernda sig gegn
hjarta- og æðasjúkdómum á fyrst
og fremst að passa sig á að borða
ekki of mikið, halda þyngdinni á
réttu róli. Þá á það að hreyfa sig
og borða mikið af trefjum, ávöxtum
og grænmeti en það hefur verið
sýnt fram á að þessir tveir þættir
minnka áhættuna á hjarta- og æða-
sjúkdómum,“ segir Margrét að lok-
um.
Rannsókn á tengslum mataræðis og hjarta- og æðasjúkdóma
Mikil fituneysla eykur ekki
líkur á að veikjast
Reuters
Margrét
Leósdóttir