Lesbók Morgunblaðsins - 05.02.2005, Qupperneq 7
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 5. febrúar 2005 | 7
maður í þeim skilningi sem lýðveldissinnar
hafa löngum lagt í hugtakið frelsi. Sé almanna-
viljinn túlkaður sem sameiginleg betri vitund
eða siðferðileg skynsemi má líka líta svo á að
sá sem hlýðir lögunum láti vitið ráða og sé laus
undan oki eðlishvatanna. Í ljósi þessa er hægt
að skilja þá undarlegu kenningu Rousseau í
Samfélagssáttmálanum að hægt sé að þvinga
menn til að vera frjálsir.
Í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að samfélags-
samningurinn verði lítið annað en hégómlegt papp-
írssnifsi felur hann í sér þá þöglu skuldbindingu,
sem er eina leiðin til að láta öðrum mátt í té, að
hver sá sem neitar að gegna almannaviljanum verði
neyddur til þessa af heildinni allri. Þetta þýðir það
eitt að mönnum verður þröngvað til að vera frjálsir.
Það skilyrði veitir föðurlandinu umráð yfir sér-
hverjum borgara sínum og felur jafnframt í sér
tryggingu þess að hann verði ekki háður öðrum.
(Bls. 80.)
Þessar kenningar er rétt að skoða í ljósi þess
að Rousseau áleit rétt að ríkisheildin hafi al-
gerlega ótakmarkað vald yfir meðlimum sínum
(bls. 94) og hún sé ekki sett undir nein lög sem
eru æðri almannaviljanum. Hann orðar þetta
svo að „ekki [komi] til greina að til séu grund-
vallarlög sem þjóðarheildinni er skylt að
hlýða“ (bls. 78) og segir skömmu síðar (bls. 79):
„Fullveldið er ekki gert úr öðru en einstakling-
unum sem mynda það og fyrir vikið getur það
ekki haft hagsmuni sem eru andstæðir hags-
munum þeirra.“ Héðan er stutt í þá firru að
ekkert sem almannavaldið geri geti verið and-
stætt hagsmunum einstakra manna og því
meira vald sem ríkið hefur yfir lífi borgaranna
því frjálsari séu þeir. Ef ríkið er holdtekja al-
mannaviljans og menn eru frjálsir ef þeir hlýða
almannaviljanum (þ.e. sinni betri vitund) frem-
ur en eðlishvötum er þá ekki eðlilegt að segja
sem svo að sá sem hlýðir ríkisvaldinu sé frjáls-
ari en sá sem fer sínu fram og lætur jafnvel
duttlunga ráð för? Það sem Rousseau kallar
frelsi á ósköp lítið skylt við það frelsi sem
frjálshyggjan dregur nafn sitt af og felur í sér
að einstaklingar fái óhindrað að gera hvað sem
þá langar til svo fremi þeir beiti aðra menn
ekki nauðung, ofbeldi eða ræni þá eigum sín-
um.
Þeir samtímamenn Rousseau sem boðuðu
frelsi og jafnrétti og andæfðu valdi kónga og
kirkju eru oft settir allir saman undir einn hatt
vegna þess að þeir áttu sameiginlega óvini. En
þegar óvinirnir hurfu af sjónarsviðinu kom á
daginn að þeir sem áður töldust samherjar
áttu stundum litla samleið. Meðal þeirra sem
helst mæltu fyrir auknu frelsi og jafnrétti á 18.
öld voru annars vegar upphafsmenn frjáls-
hyggjunnar og upplýsingamenn eins og
Voltaire sem sóttu hugmyndir einkum í smiðju
Englendingsins John Locke (1632–1704) og
hins vegar þeir sem sóttu fyrirmyndir til lýð-
veldistímans í Róm til forna. Æ síðan hafa lýð-
veldishugsjónir og frjálshyggja mótað stjórn-
málahugsun í Vestur-Evrópu og Norður-
Ameríku. Stundum hafa þessar stefnur átt
samleið en oft hefur líka skorist í odda og lík-
lega hefur málflutningur lýðveldissinna óvíða
orðið öllu andsnúnari frjálshyggjunni en í
Samfélagssáttmála Rousseau.
Eins og nefnt hefur verið styðst skilgreining
Rousseau á frelsishugtakinu við hefð sem ann-
ars vegar má rekja til rómverska lýðveldisins
og hins vegar til heimspeki Spinoza. Á 17. öld
var hugmyndum lýðveldissinna andmælt
kröftuglega af enska heimspekingnum Thom-
asi Hobbes (1588–1679). Þótt Hobbes hafi ekki
verið neinn frjálshyggjumaður orðaði hann
hugmyndir um frelsið sem frjálshyggjan tók
upp á sína arma þegar hún varð til. Samkvæmt
kenningum Hobbes veltur frelsi manna ekki á
því hver setur þeim lög heldur á innihaldi lag-
anna. Menn eru frjálsir ef þeim er fátt bannað
og þeir mæta litlum hindrunum. Í þessum
skilningi geta þegnar einvaldskonungs verið
frjálsir ef konungurinn setur lög sem banna
þeim fátt og tryggja þeim rétt til að fara sínu
fram.
Frelsi af því tagi sem Hobbes og frjáls-
hyggjumenn láta sér annt um er stundum kall-
að neikvætt frelsi og það frelsi sem Rousseau
og lýðveldissinnar hafa í mestum hávegum er
stundum kallað jákvætt frelsi. Þetta orðalag er
þekktast af ritgerð eftir Isaiah Berlin (1909–
1997) sem birtist árið 1958 og kallast Tvö hug-
tök um frelsi (Two Concepts of Liberty). Orða-
lagið „neikvætt frelsi“ tók Berlin upp eftir Jer-
emy Bentham (1748–1832) sem sagði að frelsi
sé neikvætt hugtak því það feli ætíð í sér að
eitthvað sé ekki fremur en að eitthvað sé, nán-
ar tiltekið að hindrun eða tálmi sé ekki til stað-
ar. Fleiri hafa reynt að henda reiður á mis-
muninum á frelsishugsjónum lýðveldissinna og
frjálshyggjumanna. Einn sá skarpasti er
Frakkinn Benjamin Constant (1767–1830).
Frelsi lýðveldissinna, sem felst í því að vera
fullgildur þátttakandi í æðstu stjórn ríkisins,
kallaði hann „frelsi fornmanna“ og gerði grein-
armun á þessu forna frelsi og frelsi í skilningi
frjálshyggjunnar sem hann kallaði „frelsi nú-
tímamanna“ og segir að feli í sér að allir megi
tjá skoðanir sínar, velja sér starf, verja eignum
sínum að vild, fara hvert sem er án þess að
biðja nokkurn mann leyfis og að enginn sé
hnepptur í varðhald eða tekinn af lífi án dóms
og laga.
Ekki veit ég hvort Constant hafði Rousseau
sérstaklega í huga þegar hann kenndi hug-
sjónir lýðveldissinna við fornöldina en eignaði
frjálshyggjunni nútímann. Hvað sem því líður
er ímugustur á stórum, flóknum samfélögum,
verkaskiptingu, kapítalisma og því marglita
mannlífi sem fylgir „frelsi nútímamanna“ sam-
ofin allri hugsun Rousseau. Fyrirmyndarríki
hans er samfélag vina og jafningja sem standa
saman, bræðralag fremur en flókið net óper-
sónulegra viðskipta. Nútíminn með alls konar
ólíkar hugmyndir sem takast á, samkeppni
ólíkra lífshátta og endalausa gagnrýni á hvað-
eina sem menn trúa á var Rousseau ekki að
skapi. Þetta birtist víða í Samfélagssáttmál-
unum. Hér eru tvö dæmi:
En þegar slaknar á félagslegum hnútum og ríkið
tekur að veikjast, þegar einkahagsmunir fara að
láta að sér kveða …, breytast sameiginlegir hags-
munir og eignast andstæðinga. Algjört samkomulag
ríkir ekki lengur í atkvæðagreiðslum, almannaviljinn
er ekki lengur vilji allra, andstæður birtast, deilur
magnast og hinar bestu skoðanir fást ekki sam-
þykktar ágreiningslaust. (Bls. 198.)
Eftir því sem samkenndin er meiri á þingum, það er
að segja þegar sem flestir eru á sama máli, þeim
mun öruggari eru undirtök almannaviljans, en lang-
vinnar umræður, ágreiningur og róstur boða upp-
gang sérhagsmuna og hnignun ríkisins. (Bls. 200.)
Undir lok Samfélagssáttmálans (bls. 241)
þar sem Rousseau ræðir um trúarbrögð hamr-
ar hann enn á þessari áherslu á einingu og
bræðralag og segir: „Allt sem rýfur félagslega
einingu er einskis nýtt.“ Svo dásamar hann
ríkistrú sem er bundin við eitt land og segir að
hún sé „góð að því leyti sem hún sameinar
guðsdýrkun og ást á lögunum, og með því að
gera föðurlandið að viðfangi dýrkunar meðal
borgara kennir hún þeim að þjónusta við ríkið
jafngildir því að þjóna þeim guði sem verndar
það“.
*
Rousseau dreymdi um lítið samfélag þar sem
menn eru sjálfum sér nægir og lifa einföldu lífi
og þegar sá gállinn var á honum þótti honum
að ýmislegt sem við kennum við æðri menn-
ingu væri ómerkilegt menntaglys og mætti vel
missa sín. Jón Espólín (1769–1836) sem ritaði á
sinni tíð margt um hugmyndir og mannlíf 18.
aldar lýsti þessari löngun Rousseau í frum-
stæðari lífshætti og sagði:
Hefir hann sett saman bók um það, að vísindi og
lærdómur og öll kunnusta hafði gjört mannkyninu
eina saman ólukku, og vildi láta náttúrustand, því-
líkt sem það enn er, og án skynsemdarbrúkunar,
vera sælast, …
En þótt Rousseau hafi setið öfugur á truntu
tímans og horft dreymnum augum aftur til for-
tíðarinnar vísar margt í ritum hans til þess
sem framundan var og er eins og forsmekkur
að þeirri stjórnmálavæðingu mannlífsins sem
gekk yfir Vesturlönd og síðan allan heiminn á
19. og 20. öld. Ríkið hefur látið til sín taka á sí-
fellt fleiri sviðum. Einstaklingar hafa orðið æ
háðari ríkinu og um leið þurft minna og minna
að reiða sig á ættar- og vináttutengsl. Rouss-
eau sagði (bls. 80) að umráð ríkisins yfir sér-
hverjum borgara tryggi að hann verði ekki
háður öðrum og (bls. 128) að sérhver borgari
eigi að vera „fullkomlega óháður öllum hinum
en óhóflega háður borgríkinu“. Þessi orð geta
hvort heldur sem er verið eftirmáli eða inn-
gangur að stjórnmálasögu undanfarinna ár-
hundraða.
sáttmálinn
Morgunblaðið/Þorkell
Sameiginlegur vilji „Kenning Rousseau um að lögin eigi að vera skráning á sameiginlegum vilja þjóðarinnar er tilbrigði við hugsjón lýðveldissinna um sameiginlega sjálfsstjórn borgaranna.“
Höfundur er heimspekingur.