Lesbók Morgunblaðsins - 19.02.2005, Síða 11
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 19. febrúar 2005 | 11
Bækurnar Histories of the Hang-ed eða Sögur hengdra, eftir
David Anderson og Britain’s Gulag
eða Breska gúlagið, eftir Caroline
Elkins eiga það sameiginlegt að í
þeim er sjónum beint að stríðsrekstri
Breta Kenýu á sjötta áratug síðustu
aldar þar sem Bretar beittu mikilli
hörku til að berja niður uppreisn
Mau-Mau hreyfingarinnar. Hreyfing
sú varð til um 1950 og beindist gegn
bresku nýlendustjórninni og jarðeig-
endaskiptingunni sem
var Evrópumönnum í
vil. Uppreisn hreyf-
ingarinnar var kveðin
niður 1956. Að mati gagnrýnanda
The Guardian eru hér stórmerkilegar
bækur á ferð sem varpa ljósi á ótrú-
lega grimmd Breta, en í viðleitni sinni
til að halda nýlendunni beittu þeir að-
ferðum sem svipar til aðferða nasista
í síðari heimstyrjöldinni þar sem öll
siðferðisgildi voru látin lönd og leið er
hersveitir myrtu og pyntuðu sak-
lausa borgara. Gagnrýnandinn telur
bækurnar þarfar þar sem þær varpi
ljósi á tímabil í sögu Bretlands sem
hingað til hefur verið reynt að þagga
niður og bendir hann á að enn hafi
breskir hermenn hvorki verið yfir-
heyrðir né saksóttir fyrir framferði
sitt í Kenýu.
Nýjasta smásagnasafn AliceMunro, Runaway eða Stroku-
maður eins og nefna mætti það á ís-
lensku, hlýtur afbragðsviðtökur
gagnrýnenda.
Þannig heldur
gagnrýnandi New
York Times því
fram að Munro sé
besta núlifandi
skáld Norður-
Ameríku, en rit-
höfundar á borð
við John Updike
og A.S. Byatt
hafa líkt skrifum
hennar við texta Tsjekhovs og Flau-
berts. Runaway er tíunda smásagna-
safn þessarar 73 ára gömlu skáld-
konu og vill gagnrýnandi Telegraph
meina að sögurnar séu á ýmsan hátt
beint framhald af skáldsögu hennar
Lives of Girls and Women eða Líf
stúlkna og kvenna sem út kom árið
1971. Allar eiga sögurnar það sam-
eiginlegt að vera sviðsettar í smábæj-
um í Austur- og Vestur-Kanada, en
tímarammi þeirra spanna allt frá öðr-
um áratug síðustu aldar til dagsins í
dag. Allt eru þetta sögur um verka-
konur og frásagnir af því hvaða
breytingum líf þeirra hefur tekið eða
jafnvel ekki tekið í áranna rás.
Hvað felur frægðin raunverulega ísér? Er hún til góðs eða ills?
Hvaða áhrif hefur frægðin á fólk?
Þetta er meðal þeirra spurninga sem
Bruce Wagner veltir upp í skáldsögu
sinni The Chrys-
anthemum Pal-
ace eða Tryggða-
blómshöllin.
Sagan hverfist
um þrjár mann-
eskjur sem allar
eiga það sameig-
inlegt að eiga
heimsfræga for-
eldra sem þær lifa
í skugganum af.
Að mati gagnrýnenda The Wash-
ington Post er bókin mun viðkvæmn-
islegri en fyrri bækur höfundar þar
sem hann hafi oft sýnt af sér meiri
töffaraskap og hörku í skrifum sín-
um. Hér eigi flestar persónurnar það
hins vegar sameiginlegt að búa yfir
mikilli manngæsku og hlýju. Að mati
gagnrýnanda leynir bókin á sér og
reyndist miklu fyndnari en hann seg-
ist hafa þorað að vona.
Nýjasta smásagnasafn Trine And-ersen er nefnist Anden kønslig
omgang eða Allt annað en samfarir,
vekur mikla hrifningu gagnrýnanda
danskra dagblaðsins Politiken. Segir
hann Andersen vera einn þeirra ungu
höfunda sem séu að koma sterkt inn í
danska bókmenntaheiminum og veki
verðskuldaða athygli. Lýsir hann
smásögunum hennar sem súrsætum,
ofsafengnum og aumum, á sama tíma
og þær séu uppfullar bæði af angist
og háði.
Erlendar
bækur
Alice Munro
Bruce Wagner
ÞAÐ er heilmikil list að lýsa bókum fyrir vinum
og kunningjum. Ef um velviljaða lýsingu er að
ræða, þ.e. ef ætlunin er að vekja áhuga á viðkom-
andi verki, vita flestir sem reynt hafa að ákveðin
lögmál ráða úrslitum um velgengni. Lýsingin má
ekki vera of margorð, hætt er við að velvilji við-
mælanda tapist á miðri leið, og hún verður að
vera dálítið krassandi. Í raun eru þetta sömu lög-
mál og gilda í Hollywood þegar handrits-
hugmyndir eru viðraðar frammi fyrir forstjórum.
Þess vegna hugsa ég stundum, að loknum lestri
bókar sem féll mér í geð, hvers konar lýsingu ég
þyrfti sjálfur að heyra svo viðkomandi skáldverk
lenti á hinum sívaxandi óskapnaði sem ég stund-
um kalla „leslistann minn“, listann yfir bækur
sem stendur til að lesa þegar tími gefst til.
Og ég held að ef einhver lýsti fyrir mér smá-
sagnasafni á eftirfarandi hátt fyndist mér það lofa
góðu: „sjáðu nú til, þetta er bók sem þú þarft að
lesa, hún gerir stólpagrín að tilteknum streng ís-
lenskra nútímabókmennta, höfundurinn sjálfur
dæmir höfundarhugtakið til dauða samhliða því
sem hann vísar til almennra þrota hefðbundinnar
sagnagerðar“. Þegar hér væri komið sögu sé ég
sjálfan mig fyrir mér skyndilega áhugasaman,
vakna til lífsins. Sennilega myndi ég líka grípa
fram í fyrir lýsanda og spyrja, „Er þetta þá ein-
hvers konar Calvínóismi eða Barthismi? Er þetta
bók sem fleytir fram, eins og Freud myndi
kannski segja, undir oki sjálfsvitundarinnar?“
Svarið, eftir smá umhugsun, myndi vera einhvern
veginn svona: „Að sumu leyti, kannski, en samt,
þessi bók gengur ansi langt. Undir lokin viðrar
höfundur allsherjarsamsæriskenningu um siðlaus
og yfirnáttúrleg textatengsl í hálfgerðu æðiskasti,
og svo er hún á sinn hátt rammíslensk, líkt og
kæstur hákarl: bókin skartar Davíð Oddssyni, rit-
höfundi og embættismanni, í aukahlutverki og
gerir Ólaf Jóhann Ólafsson rithöfund að hálf-
gerðu blæti“.
En það er einmitt á þennan máta sem ég myndi
lýsa smásagnasafni Hermanns Stefánssonar, Níu
þjófalyklum, í þeirri von að áheyrendum þætti
lýsingin lofa góðu.
Reyndar kæmi það mér ekkert á óvart ef því
væri haldið fram að íslensk smásagnagerð væri í
lægð þessa stundina. Það er þó ekki einfalt að
kveða upp slíkan dóm, smásagan á sér ötula tals-
menn og iðkendur líkt og Ágúst Borgþór Sverr-
isson, Gyrði Elíasson og Rúnar Helga Vignisson,
en ef litið er á útgáfusögu síðustu ára virðist
skáldsagan hafa mun meira aðdráttarafl fyrir
unga rithöfunda en form smásögunnar. Ef rétt er,
ef íslenskar nútímabókmenntir hafa að umtals-
verðu leyti gefist upp á smásögunni, þarfnast for-
sendur þessa ástands skýringar samhliða því sem
þeim sem harma ástandið væri auðveldlega fyr-
irgefið. Smásagan er krefjandi form, möguleik-
arnir eru aðrir en í skáldsögunni og rithátturinn
kallar á aga samhliða hugmyndauðgi og ákveðna
stílsnerpu. Og smásagan er ekki heldur einhvers
konar „grunnskóli“ fyrir upprennandi skáld-
sagnahöfunda – andstætt útbreiddum hug-
myndum um stigveldi í skáldskap – heldur vett-
vangur fyrir ákveðna tegund sagnalistar sem
jafnvel væri óskandi að kraftmeiri atlaga væri
gerð að þessa stundina.
Í þessu samhengi er framlag Hermanns já-
kvætt, útgáfu smásagnasafns sem er eftirtekt-
arvert ber að fagna, en á sama tíma varpar það
upp spurningum sem erfitt kann að reynast að
svara. Níu þjófalyklar framsetur í hálfgerðu
gjörningsformi möguleika formsins samhliða því
sem verkið vísar til takmarkana þess og hugs-
anlegra þrota.
Smásagnasafnið hefur að geyma ólíkar sögur af
ólíku fólki og viðfangsefnin eru að mörgu leyti
fjölbreytileg. En það er ýmislegt sem tengir sög-
urnar og gefur bókinni svip samhangandi verks
og skilur hana þannig frá hefðbundnum hug-
myndum um smásagnasöfn. Er þar fyrst að nefna
nærveru yfirlýsts höfundar smásagnasafnsins,
Guðjóns Ólafsson, sem reglulega skýtur sér inn í
framvinduna. Sú staðreynd að hann gerir það
gjarnan sökum gagnrýni yfirlesara er eitt af því
skondnasta í bókinni, og sömuleiðis eitt af því sem
gerir textann flókinn þar sem samband þess sem
eðlis síns vegna ætti að liggja utan hans, þ.e. um-
sögn um inntakið, og þess sem tilheyrir innri rök-
vísi verksins verður fljótandi og vafasamt.
Önnur aðferð sem Hermann beitir til að binda
hinar ólíku smásögur saman er nærvera Ólafs Jó-
hanns. Að vísu er umdeilanlegt hvort þar er um
að ræða Ólaf Jóhann rithöfund og forstjóra eða
persónur sem einfaldlega bera nafnið en eiga fátt
annað sameiginlegt með hinum þjóðþekkta ein-
staklingi. Segja má að um hvort tveggja sé að
ræða, en þetta er einmitt spurning sem yfirlesari
bókarinnar varpar fram og innbyggður höfundur
hennar, áðurnefndur Guðjón, neyðist til að svara
og gerir Hermann þannig textatengsl – og líka
bókmenntalegt slúður – að einu af umfjöllunar-
efnum verksins. Og þessi tengsl við Ólaf Jóhann
fara að sjálfsögðu ekki leynt. Sjálfur titillinn vísar
til fyrstu bókar Ólafs, smásagnasafnsins Níu lykl-
ar og er nafnið því dæmigert fyrir meðvitaða
samræðu Hermanns við íslenskar samtímabók-
menntir og þær hugmyndir sem ganga í gegnum
bókina um textatengsl, hlut þeirra og eðli, og mik-
ilvægi.
Titill bókar Ólafs heyrist líkt og bergmál í nafni
smásagnasafnsins og má því segja að ákveðin
samræða hefjist um leið og eftir bókinni er tekið,
jafnvel áður en lestur hefst, nóg er að reka augun
í titilinn til að tilvísanavélin hóstist í gang, keðja
samhangandi texta komi í ljós. Jafnvel mætti
halda því fram, á þeim grunni sem nafn bók-
arinnar reisir, að sjálf tilvist smásagnasafnsins sé
annar texti, önnur bók. Ein leið til að skýra þessi
tengsl, eða bók sem sprettur úr jarðvegi sem svo
ljóslega er plægður af öðrum, er hugtakið
„ófrumleiki,“ og jafnvel áframhaldandi vísun þess
og rökleg endastöð, ritstuldur – þjófnaður. En
samkvæmt rökvísi sem þessari var smásagnasafn
Ólafs Jóhanns, Níu lyklar, frumleg bók, en Níu
þjófalyklar er það ekki. Bókin sem sníkjudýr á
líkama hefðarinnar. Skortir sjálfstæðan til-
verugrundvöll. Þetta er rétt, svo langt sem það
nær. Vandamálið, hins vegar, er skammsýni slíkr-
ar nálgunar og misskilningurinn sem í henni felst
á verkefni og boðskap textaþjófsins, ræningjans
sem svo berlega auglýsir athæfi sitt. Það sem bók
Hermanns einmitt dregur í efa er sjálft frum-
leikahugtakið. Því er óbeint haldið fram að engin
bók verði til í tómarúmi, án forvera og áhrifa ann-
arra texta. Þetta er kenning sem heldur því fram
að bókmenntaleg sifjaspell séu lífæð skáldskap-
arins.
Í því samhengi má einmitt geta þess að titillinn
er settur á svið á skemmtilegan hátt í einu höf-
undarinnskotinu þar sem meintur höfundur smá-
sagnanna, staðgengill Hermanns og handbendi,
Guðjón Ólafsson, er staddur í bókaverslun og sér
út undan sér mann innar í búðinni handleika bæk-
ur, telur sig þekkja kauða og, jú, jú, mikil ósköp,
þarna er Ólafur Jóhann, rithöfundur og kaup-
sýslumaður, kominn í lifanda líki. Sem er
skemmtileg tilviljun þar sem eiginkona Guðjóns
hafði skömmu áður ásakað hann um að vera hald-
inn þráhyggju um Ólaf. En höfundi og sögumanni
bregður þegar hann sér Ólaf stinga einni af bók-
unum sem hann var að skoða inn á sig og ganga
að því búnu út úr versluninni. Hann sér með öðr-
um orðum Ólaf Jóhann stela bók. Og þýfið er vit-
anlega – samkvæmt rökvísi Níu þjófalykla – hans
eigið smásagnasafn, Níu lyklar. Þarna stendur
einn höfundur annan að þjófnaði, furðulegum
gjörningi, og veltir í framhaldinu fyrir sér hvort
Ólafur eigi ekki eftir að stela átta eintökum af
bókinni sinni. Það væri einhvern veginn rökrétt.
Titillinn sjálfur, Níu þjófalyklar, er þannig afar
miðlægur sjálfssýn verksins, e.t.v. umfram það
sem vant er. Nærvera Ólafs og Davíðs, hvort-
tveggja fyrirferðarmikilla persónuleika í íslensku
menningarlandslagi, svo ekki sé minnst á þá stað-
reynd að báðir hafa sent frá sér söfn smásagna,
gefur ekki einvörðungu í skyn að ný bók hlýtur að
standa í einhvers konar sambandi við forvera
sína, heldur sviðsetur þessi sjálfsvitund bók-
arinnar erfiðleika ungs höfundar við að staðsetja
sig í bókmenntalandslaginu. Í brennidepli, ef svo
má að orði komast, er samhengið milli þeirra höf-
unda sem móta bókmenntalandslagið og nýbú-
anna sem byggja það.
Einhvers konar áhrifaótti gæti vel falist í svo
markvissri og meðvitaðri umsköpun og end-
ursköpun ritvallarins. Hér væri þó ágætt að hafa í
huga orð þekkts ljóðskálds og bókmenntafræð-
ings sem hélt því fram fyrir nokkrum áratugum
að ekki væri hægt að meta rithöfunda eina og sér.
Taka yrði tillit til þess hvernig þeir raðast, og
raða sér sjálfir, í ákveðið bókmenntalegt sam-
hengi. Miðjan hverfist því ekki einvörðungu um
þá sögulegu formgerð hefðarinnar sem tekur á
móti rithöfundum, heldur líka hvernig þeir
byggja bókmenntalandslagið, hvernig þeir nálg-
ast, móta og jafnvel hreyfa við miðjunni, hvers
konar híbýli þeir reisa í þéttbýli annarra höfund-
arverka. En í þessum hugleiðingum kemur í raun
fram tvíþætt krafa: annars vegar er mælst til
þess að ummælendur og gagnrýnendur séu vak-
andi fyrir síbreytilegu samhengi bókmenntanna,
en einnig er ákveðin krafa gerð til rithöfunda um
að þeir séu meðvitaðar um forvera sína, að þeir
viti sitthvað um þann vettvang þar sem þeir
hyggjast hasla sér völl innan. Sum rými eru upp-
tekin, önnur eru fyllt ljótum og úreltum hús-
gögnum, nýr meðbúandi þarf að gera sér grein
fyrir muninum og staðsetja sjálfan sig með slíka
hluti í huga.
Í raun eru hugleiðingar um íverustaði, veru-
staði, ekki langsóttar þegar viðfangsefni smá-
sagnanna í Níu þjófalyklum eru skoðuð nánar.
Við kynnumst náttúrufræðingi sem trúir því statt
og stöðugt að eins konar staðleysuleg útópía
leynist bak við bláma fjallanna, við kynnumst
miðaldra Lótharió sem fundið hefur sínar kjör-
lendur inni í íbúð ungrar og tilkippilegrar djamm-
meyjar, við fylgjumst með hugleiðingum höf-
undar um sitt eigið örugga höfundarrými. Á sama
tími hefur lesandinn, líkt og vanalega, lítið annað
fyrir sér en orð, tungumál sem á stundum er þan-
ið að myndhverfðri útopnu sinni; runu og dembu
og flaum orða sem samanlögð fremja hinn dul-
arfulla galdur, þau skapa sinn eigin veruleika.
Líkt og þjófalyklar gefa til kynna hæfileika til að
fara ránshöndum um híbýli fólks, gefur form bók-
arinnar til kynna, svo vitnað sé til orða nýliðins
heimspekings, að tungumálið sé hið raunsanna hí-
býli tilverunnar, veruleiki svonefnds höfundar
bókarinnar leiðist saman við veruleika skáld-
sagnapersónanna svo, að lokum, fátt virðist skilja
þau að. Þjófalyklar gefa vitaskuld í skyn ritstuld,
en þegar öllu er á botninn hvolft, erum við ekki öll
þjófar í híbýlum tungumálsins?
Eina af sögunum í safninu má reyndar sjá sem
smækkaða útgáfu af heildarrökvísi verksins. Þeg-
ar elskhugi nokkur bregður sér í könnunarleið-
angur um íbúð ungrar konu sem hann hyggst fara
á fjörurnar við týnist hann fljótt í undarlegu völ-
undarhúsi. Húsnæði stúlkunnar reynist að um-
fangi mun meira en ytra útlit gaf til kynna. Þetta
lýsir lestrarreynslu bókarinnar ágætlega. Um-
fangsmikil er hún ekki að ytra bragði, lítið fer fyr-
ir henni í hillu eða bókabúð, en þegar stigið er inn
fyrir gættina og blaðsíðunum flett er víst að heil-
mikið völundarhús blasir við.
Á útopnu, eða textatengsl
og þrotabókmenntir
Bókmenntir
Níu þjófalyklar
Eftir Hermann Stefánsson. Bjartur,
Reykjavík, 2004. 121 bls.
Smásögur
Morgunblaðið/Golli
Hermann Stefánsson „Þjófalyklar gefa vitaskuld í
skyn ritstuld, en þegar öllu er á botninn hvolft, erum
við ekki öll þjófar í hýbýlum tungumálsins?“
Björn Þór Vilhjálmsson