Lesbók Morgunblaðsins - 02.04.2005, Blaðsíða 10

Lesbók Morgunblaðsins - 02.04.2005, Blaðsíða 10
10 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 2. apríl 2005 Þ egar norræna kvikmyndahátíðin í Rúðuborg var haldin í átjánda skiptið dagana 9.–20. mars í vor var nokkuð áberandi hversu mjög kvikmyndirnar í sam- keppninni snerust um persónur sem voru á einhvern hátt þroskaheftar, van- þroska, örvitar, fávitar, vangefnar, greind- arskertar, minnislausar eða elliærar og þar að auki ekki alveg eins og fólk er flest. Einhver giskaði á það í mín eyru, að þetta myndi vera nýja bylgjan í norrænni kvikmyndagerð og tæki nú við af því sem var að dómi Frakka aðal- viðfangsefni kvikmynda úr þeirri átt áður fyrr, sjálfsmorðunum. En hvernig sem það er sómdi íslenska framlagið til samkeppninnar að þessu sinni, „Næsland“ eftir Friðrik Þór Frið- riksson, sér óneitanlega vel í þessum fé- lagsskap. Þótt sú mynd fengi ekki nein verð- laun, fannst mér að henni væri nokkuð vel tekið, sérstaklega fundust ýmsum atriðin í bíla- kirkjugarðinum skáldleg og í anda nútímans. Friðrik Þór var mættur á staðinn, en hann er nú nánast orðinn hluti af landslaginu í Rúðu- borg líkt og styttan af Göngu-Hrólfi. „Villa Paranoia“ En svo var reyndar að sjá, að flestar myndirnar í samkeppninni féllu nú í skuggann af dönsku kvikmyndinni „Villa paranoia“ eftir Eric Clau- sen, enda fékk hún hvor tveggju þau verðlaun sem áhorfendur veita sjálfir: almenn verðlaun hátíðargesta og síðan hin svokölluðu „verðlaun ungra áhorfenda“ sem dómnefnd mennta- skólanema frá ýmsum Evrópulöndum úthlutar. Í þessari mynd segir frá ungri leikkonu, Önnu að nafni, sem fær engin hlutverk, og tekur því að sér það starf að hugsa um elliæran, mál- lausan, lamaðan og nokkuð erfiðan föður mið- aldra kjúklingabónda. Á honum prófar hún nú ýmis þau hlutverk, sem hún hafði ekki hlotið, og kemur „Ímyndunarveiki“ Molières þar við sögu. Henni til aðstoðar er ungur maður, sem hefur verið dæmdur fyrir eitthvert ofbeldi til að vinna gagnlegt starf fyrir samfélagið og keyrir því út matarpakka til farlama fólks. Hann er leikkonunni leiðitamur því hún telur honum trú um að hún sé líka að afplána dóm á sama hátt, fyrir bankarán. Á meðan hefur bóndinn nóg gera við að hugsa um velferð sinna 40.000 kjúklinga, en honum stendur – eins og dönskum landbúnaði yfirleitt, að sögn myndarinnar – kvenmanns- leysi mjög fyrir þrifum og þroska. Því fer hann á námskeið í persónuleikabyggingu, þar sem honum er m.a. kennt að hlæja, og til að æfa sig tekur hann miklar rokur yfir hausamótunum á kjúklingunum, vinnumönnum hans til meiri skelfingar en fiðurfénu. Hann hefur þó tíma til að gefa leikkonunni Önnu það skýrt í skyn, að hann sé fús til að borga vel ef hún vildi fremja „líknarmorð“ á gamla manninum, enda væri það honum fyrir bestu. En smám saman kemur í ljós, að faðir kjúklingabóndans er alls ekki eins elliær og hann lítur út fyrir að vera, hann hefur ráð og rænu, talar þegar honum sýnist svo, og getur a.m.k. staulast allvel um. Þannig rifjast upp gamall og gleymdur fjölskyldu- harmleikur, sem kjúklingabóndinn fær reyndar ekki að vita allan sannleikann um, því af því hefði hann ekki gott, en allt fellur í ljúfa löð eftir sviðsetningu á einu atriði „Ímyndunarveik- innar“ þar sem kjúklingabóndinn er meðal leik- ara án þess að vita það sjálfur. Þá er hann bú- inn að leysa vandamál kvenmannsleysisins, að vísu á nokkuð umdeilanlegan hátt. Um sögulok sér Páll postuli. Þessi mynd var uppfull af háði og íróníu, en í henni voru jafnframt fleiri víddir og dýpri, sem vísuðu ekki síst til tengslanna milli leiks og raunveruleika, sannleiks og blekkingar, og ann- ars eftir því. Hún var auk þess mjög vel tekin og leikin, með Eric Clausen sjálfan í vanþakk- látu hlutverki kjúklingabóndans. En dómnefnd kvikmyndahátíðarinnar gekk þó alveg fram hjá henni og veitti aðalverðlaunin í staðinn ofbeld- ismynd fyrir unglinga, norsku myndinni „Uno“ eftir Aksel Hennie. Söguhetjan þar er ungur maður, Davíð að nafni, sem starfar í e.k. heilsuræktarmiðstöð, en býr í föðurhúsum þar sem ástandið er illt, því faðir hans er að deyja úr krabbameini og bróðir hans er þroskaheftur, en þó harðstjóri á heimilinu og hættulegur umhverfinu, því hann er óútreiknanlegur og getur tekið upp á hverju sem er. Á vinnustaðnum fara fram viðskipti með þess konar hressingarlyf fyrir sportidjóta sem varða við lög, ungir Pakistanar eru m.a. bendlaðir við málið og lögreglan mætir á stað- inn. Henni tekst að kúga Davíð til að láta uppi það sem hann veit, en um leið á hann vitanlega alla kunningja sína vofandi yfir sér. Það háir honum allmjög að hann er tæplega máli gædd- ur, þegar hann gæti kannske haft gagn af því að útskýra vandann, starir hann þegjandi út í gufuhvolfið. Að því leyti er hann mun verr staddur en hinn aldraði faðir kjúklingabóndans. Inn í þetta fléttast svo það að einn af kunn- ingjum Davíðs hefur átt í ástarævintýri með systur eins Pakistanans og sá fréttir af því. Eftir það snýst myndin ekki um annað en það hvernig menn hóta hver öðrum og ganga svo í skrokk hver á öðrum, með endalausum kjafts- höggum og landspítalavinkum, sprungnum og bólgnum vörum, glóðaraugum og heilum Nóa- flóðum af lekandi tómatsósu. Til tilbreytingar er svo sýnt þegar Pakistaninn lemur systur sína (hún sést þó ekki sjálf á tjaldinu, það eru víst mörkin) og mundar sig síðan til að gera bergis fótar bor elskhugans óstarfhæfan um aldur og ævi með raunverulegri borvél (hann sleppur þó út um glugga með besefann í heilu lagi). Þessari sláandi merkingarleysu lýkur með því að einir tuttugu Pakistanar ganga milli bols og höfuðs á Davíð, en eftir það er hann þó enn lifandi, þannig að þess vegna væri hægt að halda barsmíðunum áfram. Að öðru leyti endar þetta ekki á neinu, og lægi kannske beinast við fyrir áhorfandann að draga þær ályktanir, að þroskaheftir væru best geymdir á lokuðum hælum í spennitreyju, en lögreglan ætti að hafa stöðugt eftirlit með Pakistönum í Noregi. En í Rúðuborg fékk ég þó þá tilfinningu að áhorf- endur drægju yfirleitt ekki neinar ályktanir af myndinni heldur vísuðu henni á bug. Kannske var hér á ferðinni fyrirbæri sem ég hef áður orðið var við, og reyndar á fleiri svið- um en í kvikmyndalist: einhvers konar aðskiln- aður milli „atvinnumanna“, sem sé að þessu sinni dómnefndar sem var skipuð kvikmynda- fólki, og svo áhorfendanna sjálfra – aðskilnaður sem birtist í gerólíku mati. Slíkt hefur áður gerst, og hafa menn skýrt það með því að áhorf- endur séu íhaldssamir, skilji ekki og kunni ekki að meta raunverulegar nýjungar. En að þessu sinni var erfitt að halda því fram, að áhorfendur hefðu rangt fyrir sér. Fyrir utan samkeppnina var að venju marg- víslegt annað í gangi í Rúðuborg. Má kannske nefna að á dagskrá sem var helguð belgíska kvikmyndahöfundinum Frans Buyens var sýnd mynd hans, „Tangotango“ frá 1993, en það var tónlistarmynd með dönsum og miklum lát- bragðsleik, sem einungis þroskaheftir léku í, þannig að ef um nýja bylgju var að ræða, mátti kalla Buyens fyrirrennara, en allt fór þó ljúf- legar fram þar en í myndum samkeppninnar. Framlag Íslendinga til hátíðarinnar var ekki bundið við samkeppnina eina, því þar voru einnig sýndar „Kaldaljós“ eftir Hilmar Odds- son og stutta myndin „Síðasti bærinn í dalnum“ eftir Rúnar Rúnarsson. Um mynd Hilmars heyrði ég ekkert, enda leist mér svo á að hún hefði verið sýnd á fremur óheppilegum tímum, en menn luku lofsorði á mynd Rúnars sem var sýnd í dagskrá með öðrum stuttum myndum í svipuðum anda, að mér var sagt. Sagan á dagskrá En þar sem nú var árið 2005 og öld liðin frá því að Noregur varð sjálfstætt konungsríki en fimmtíu ár frá því að seinni heimsstyrjöld lauk, hafði kvikmyndahátíðin að þessu sinni sérstaka vídd og harla merkilega: sagan sjálf var þar mjög á dagskrá. Þannig sá ég t.d. frábæra finnska mynd frá 1956, „Brottflutning“ („Evakko“) eftir Ville Salminen, sem fjallaði um flótta Karelíumanna í „vetrarstríðinu“ 1939– 1940, þegar Rússar gerðu innrás í Finnland, lögðu undir sig Karelíuhérað og allir íbúar þess voru fluttir burt. Í byrjun minnti stíll mynd- arinnar nokkuð á sovéskar byltingarmyndir á sínum tíma, myndir Eisensteins o.fl., og kom það m.a. fram í fjöldaatriðum, þegar langar rað- ir flóttamanna voru á leið gegnum snævi þaktar sléttur Austur-Finnlands. Síðan varð tónninn frumlegri og var hörmungum þessa flóttafólks mjög vel lýst, ekki síst því hvernig fólkinu er tekið sem hálfgerðum boðflennum og útlend- ingum um leið og það er komið út fyrir sitt heimahérað. En svo er að sjá að örlög Karel- íuhéraðs og íbúa þess séu eins konar feimn- ismál og hafi lengi verið. Í myndinni er sáralítið vikið að styrjöldinni sjálfri, Rússar eru aldrei nefndir, það er einungis talað um „óvinina“, og það rétt kemur fram að samninganefnd Finna, sú sem verður að samþykkja nýju landamærin, sé stödd „í Moskvu“. Þetta er kannske skýr- ingin á undarlegri villu í sýningarskránni, þar sem brottflutningurinn er einungis settur í samband við innrás Þjóðverja í Pólland og ein- hvern mikinn „ótta“ sem hún hafi hleypt af stað í Karelíu. Eftir nýlegum blaðagreinum að dæma virðist þetta stöðugt vera jafnmikið feimnismál. Í tilefni af aldarafmæli sínu sendu Norðmenn á hátíðina nokkrar heimildarmyndir um heim- skautaferðir Fridtjofs Nansens og Roalds Amundsens. Sérfræðingur í varðveislu þessara gömlu mynda benti á það í umræðum, að heim- skautafararnir norsku hefðu leikið sams konar hlutverk fyrir þjóðernisvitund Norðmanna í kringum aldamótin 1900 og fornar hetjur þeirra eða þá sjálfstæðishetjur annarra þjóða: í myndskreytingum við Heimskringlu hefði Christian Krohg t.d. teiknað Ólaf Tryggvason með andlitsdráttum Fridtjofs Nansens. Kvik- myndirnar sjálfar veittu mjög góða innsýn í leiðangra þessa tíma, þegar einnig var verið að gera fyrstu tilraunir með flugvélar og loftskip. En fleira var frá þessum mönnum að segja en afreksverk í heimskautalöndum: sýnd var heimildarmynd um hjálparstarf Nansens í hungursneyðinni í Úkraínu, sem hann hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir. Þar var fléttað saman gömlum myndum og nýlegum viðtölum við aldrað fólk á þessum landsvæðum, sem kunni frá ýmsu að segja frá tímum hung- ursneyðarinnar. Þar kom glögglega fram hvernig Nansen var fyrirrennari í ópólitísku hjálparstarfi, eins og því sem menn reyna að halda uppi nú á dögum, en heimildarmyndin vakti þó harla áleitnar spurningar um það hvers ópólitískt hjálparstarf sé megnugt, þegar hungursneyðin er af mannavöldum og hefur hreinlega verið búin til í pólitískum tilgangi, til að brjóta niður bændastéttina yfirleitt og Úkr- aínumenn sérstaklega. Þær spurningar eru því miður stöðugt á dag- skrá. Til vitnis um það var ný finnsk mynd, „Þrjár vistarverur dapurleikans“ eftir Pirjo Honkasalo, sem einnig var sýnd á hátíðinni og fjallaði um styrjöldina í Kákasus frá nokkuð sérstæðu sjónarmiði. Myndin skiptist í þrjá hluta, eða „vistarverur“. Sú fyrsta var rúss- neskur herskóli í Kronstadt, skammt frá Pét- ursborg: þar fá drengir allt niður í tíu ára aldur stranga skólun sem maður ímyndaði sér ekki að væri til á okkar tímum og miðar að því að venja þá við strangan aga og innræta þeim hlýðni og hernaðaranda. Styrjöldin sjálf er fjarlæg, en einstöku sinnum er vikið að óvinunum, Tsétsén- um. Önnur „vistarveran“ var borgin Grozny, nánast því í rústum, þar sem kona nokkur safn- aði saman börnum sem voru orðin munaðarlaus í stríðinu eða höfðu orðið viðskila við fjölskyldur sínar og reyndi að sjá fyrir þeim. Þriðja „vist- arveran“ var loks í fjalllendi nokkra kílómetra fyrir utan landamæri Tsétséníu, þar sem flótta- menn þaðan höfðu komið sér fyrir og reyndu að halda uppi sínum lífsháttum: sýnt var frá trúarhátíð þessara manna með fórnfæringu og dönsum. Á yfirborðinu var mikil kyrrð yfir þessari mynd, jafnvel í þeim þætti hennar sem var tekinn í Grozny, en undir yfirborðinu var skelfilegur óhugnaður. Þarna virtist ástandið lítið betra en það var á dögum Nansens, en hjálparstarf lítið sem ekkert. En svo má kannske bæta því við að lokum að ævintýraandinn sem rak Nansen og Amundsen áfram er ekki með öllu dauður, þótt veröldin sé gerbreytt og svigrúmið líka. Í eistnesku mynd- inni „Fimm á reiðhjólum“ eftir Liivo Niglas sagði þannig frá forkostulegum leiðangri fimm ungra hjólreiðamanna sem hjóluðu yfir Góbí- eyðimörkina í Mongólíu, þaðan til Kína og yfir til Tíbets, þar sem þeir þurftu að smeygja sér eftir fáförnum vegum svo kínversk lögregla gómaði þá ekki, og enduðu loks í Nepal. Hátt uppi í Himalajafjöllum tókst þeim meira að segja að koma upp eistnesku gufubaði, og tók ferðin fjóra mánuði, eins og Liivo Niglas sagði þegar hann stóð fyrir svörum á hátíðinni. Að venju kenndi því margra grasa í Rúðuborg. Ný bylgja í norrænni kvikmyndagerð? Villa paranoia eftir Eric Clausen Fékk hvor tveggja þau verðlaun sem áhorfendur veita sjálfir: almenn verðlaun hátíðargesta og síðan hin svokölluðu „verð- laun ungra áhorfenda“ sem dómnefnd menntaskólanema frá ýmsum Evrópulöndum úthlutar. Norræna kvikmyndahátíðin í Rúðuborg í Frakklandi var haldin dagana 9.–20. mars síðastliðinn. Hér er fjallað um nýtt einkenni norrænna mynda sem fram kom á hátíðinni og helstu verðlaunamyndir hennar. Eftir Einar Má Jónsson Höfundur kennir íslensku í Frakklandi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.