Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.2005, Page 8
8 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 24. desember 2005
B
orgarbúar koma ekki á ströndina fyrr en rétt
fyrir sólsetur, og þá til að fljúga flugdrekum
eða ganga hönd í hönd í flæðarmálinu. Ég er
því ein á þessum tíma dags. Er ég lít upp úr
bókinni virðist mér sem gróðurþykknið fyrir of-
an hvítan sandinn hafi þykknað og sé komið á
hreyfingu. Skyndilega flæðir grænn massinn niður á ströndina
og reynist þá vera hermenn í felulitum með eitthvað í hönd-
unum sem lítur út eins og byssustingir. Þetta er þéttur vegg-
ur hermanna – margir tugir – og mér verður óneitanlega órótt
þar sem þeir stefna beint á mig. Því þrátt fyr-
ir friðsemd og öryggi sem ég verð aðnjótandi
í Kína alla daga, er ég eins og aðrir meðvituð
um að ógn er þar undirliggjandi og birtist í
ýmsum myndum og velti því fyrir mér hvort
ég eigi að reyna að láta lítið á mér bera eða reyna að forða
mér. Það síðara verður ofan á og er ekki frá því að hermönn-
unum bregði meira í brún en mér, er ég rís á fætur – jafn-
drapplit á húð og hár og sandurinn. Sá hluti fylkingarinnar er
vaðið hefði yfir mig er snöggur að spyrna við fótum. Er menn-
irnir stara á mig ráðvilltir sé ég að byssustingirnir eru lítt
ógnvekjandi prik. „Árásin“ er einungis æfing.
Það breytir hinsvegar ekki þeirri staðreynd að á hverjum
degi nötra rúðurnar í gluggakörmunum í íbúðinni sem ég bý í,
við ströndina beint á móti Taívan. Ef horft er út yfir hafið af
svölunum blasa við nokkrar litlar eyjur, og á einni þeirra
kveða sprengingarnar við nánast alla daga, stundum margar í
röð. Þótt ég spyrjist víða fyrir um hverju þetta sæti reynist
erfitt að fá sannfærandi svör; flestir segja verktaka vera að
sprengja fyrir grunni, sem mér þótti ólíkindalegt. Erfiðleik-
arnir í Kína við að fá svör við einföldum spurningum á borð
við þessa eru sláandi. Stundum til marks um hversu upplýs-
ingaflæði til almennings er takmarkað en einnig löngun Kín-
verja til að gefa ókunnugum útlendingum „góða“ mynd af
landi og þjóð. Það er granni minn, Bandaríkjamaður, sem loks
upplýsir mig um að þetta séu drunur úr fallbyssum. Að hans
sögn hafa Kínverjar það fyrir sið að minna Taívani á það með
þessum hætti að kalda stríðinu er enn ekki lokið – í það
minnsta ekki í mínu hverfi.
Ein menning ein þjóð
Tiltölulega stutt er síðan Xiàmén varð síðast fyrir taívanskri
sprengjuáras (14. nóvember 1994) frá eyjunni Jinmen, rétt
undan ströndum borgarinnar. Slíkar árásir voru reglulegar á
sjötta áratugnum og var svarað eftir atvikum en síðan hægðist
um – að sögn Kínverja vegna þess að þeir lýstu yfir vopnahléi
og ákvaðu að „mæta hörku með mýkt“. Til alvarlegra tíðinda
dró 24. jánúar 1984, er 120 taívanskar sprengjur hæfðu kín-
versku eyjuna Jiaoyu og ollu miklum skemmdum og meiðslum
á fólki. Kínverski frelsisherinn PLA svaraði þeirri árás með
því að skjóta flugskeytum á hafinu úti fyrir meginlandi Kína
og vakti það töluverða athygli í heimspressunni. Samskiptin
við Taívan hafa batnað mikið á síðustu árum. Ferðamenn það-
an eru algengir gestir á meginlandinu, enda liggja rætur
þeirra þar.
Bátsferð sem ég fór í á milli eyjanna á sundinu leiðir þó í
ljós svo ekki verður um villst að fyllstu varúðar er enn gætt á
hernaðarsviðinu. Ég lagði upp til að skoða fljótandi þorp sem
hróflað hefur verið upp ofan á planka er hvíla, að því er virð-
ist, ekki á neinu nema niðurskornu einangrunarplasti í striga-
pokum. Þorpsbúar byggja afkomu sína á skelfisk- og perlu-
rækt. Á leiðinni út á sundið var enginn vandi að þekkja
taívönsku eyjarnar frá þeim er tilheyra alþýðulýðveldinu
vegna byssuhreiðranna og vígvélanna í flæðarmálinu – sem
minna einna helst á strandir Normandí í seinni heimsstyrjöld.
Fólkið í þorpinu fljótandi virtist þó ekki gera sér neina rellu
yfir því að mara svona í haffletinum mitt á milli þessara
átakapunkta og leit varla upp þótt okkur bæri að garði. Það
var einna helst að hundarnir veittu okkur eftirtekt og sýndust
vilja fá far á fast land.
Auðveldlega má greina skilaboð Kínverja yfir á meginland-
inu úr þessum eyjum, því risavaxin táknin gnæfa upp úr fjalls-
hlíð er snýr út á haf. „Ein menning, ein þjóð“, eða eitthvað á
þá leið, segir allt sem segja þarf um viðhorf Kínverja til sjálf-
stæðis stjórnvalda á Taívan.
Kapítalisminn rótgrónari en kommúnisminn
Fyrir vestrænan ferðalang á borð við mig, sem lék hugur á að
fá smjörþef af einræðinu í þessu risavaxna vígi kommúnism-
ans, er undarlegt hversu kapítalisminn er yfirþyrmandi. Kín-
verjum kemur það þó ekkert spánskt fyrir sjónir; segja
kommúnismann aðeins hafa verið við lýði í nokkra áratugi, en
þeir hafi hins vegar fundið kapítalismann upp fyrir árþús-
undum.
Aðdragandinn að hinu kommúnistíska ríki kostaði Kínverja
miklar þjáningar, sem erfitt er að fá fólk til að ræða. Mann-
fallið í borgarastyrjöldinni og öllum þeim átökum sem henni
tengdust var ógurlegt, svo ekki sé minnst á hörmungarnar í
stríðinu við Japani fyrir og í seinni heimsstyrjöldinni. Víða
voru sveitirnar rjúkandi rústir og jafnvel í Sjanghæ – nútíma-
legustu borg Kína í dag – mátti enn líta grjóthrúgur og eyði-
leggingu átakanna langt fram eftir sjötta áratugnum.
Kínverjar telja það til helstu afreka Maós formanns að hafa
komið á friði og einingu. Um leið og friður var tryggður, segir
það, mátti huga að því að fæða fólkið og iðnvæða landið. Fórn-
irnar sem almenningur í landinu færði til þess að uppfylla
markmið Maós um fæðuframleiðslu, iðnvæðingu og vígvæð-
ingu héldu þó áfram að kosta óteljandi mannslíf og skelfilega
neyð meðal bænda. „Stóra framfarastökkið“ (1958–61), sem
Maó kallaði svo, var að hluta til fjármagnað með því að láta
öðrum kommúnistaríkjum í té matvæli í skiptum fyrir her-
gögn. Svo hart var gengið fram í að krefja bændur um afurðir
– langt fram yfir það sem raunveruleg uppskera og aðstæður
gáfu tilefni til – að milljónir féllu úr hungri, þrátt fyrir að
matvælaframleiðsla í landinu ætti að vera næg. Nauðung-
arvinna við uppbyggingu af ýmsu tagi tók líka sinn toll og ef
marka má umdeilda bók Jung Chang og Jon Halliday [Mao,
The Unknown Story] sem kom út á þessu ári, þá létu um 38
milljónir manna lífið á fjórum árum þessara árdaga komm-
únistastjórnarinnar.
Arfleifðin eyðilögð
Það er þó ekki fyrr en slík tölfræði persónugerist í fólki sem
maður kynnist að staðreyndirnar taka að hreyfa við manni.
„Ég minnist þess ekki að hafa nokkru sinni verið saddur þeg-
ar ég var að alast upp sem drengur,“ segir einn vinur minn,
sem alinn var upp í sveit, upp úr eins manns hljóði þar sem
við sitjum saman á veitingahúsi. Hann fæddist þó ekki fyrr en
um miðjan sjöunda áratuginn. „Við vorum alltaf svöng, öll fjöl-
skyldan. Foreldrar mínir þó örugglega svengri en við börnin.
Engir peningar voru aflögu, hvorki til að kaupa á okkur skó
eða föt. Mamma saumaði skó handa okkur úr tuskum sem
voru svo slitnar að þær dugðu ekki í neitt annað. Fyrstu al-
vöru skóna mína fékk ég þegar ég var orðinn stálpaður og fór
í skóla í næstu borg – þá var komið fram á níunda áratuginn.“
Hann hlær og segist stundum hafa stolist í eplaedik sem
geymt var í stórum tunnum og það hafi verið fyrir hann eins
og fyrir krakka í dag að drekka kók. „Annars skipti þetta með
fötin ekki eins miklu máli þá, því allt fólk í Kína var eins klætt
á þessum tíma, þeir sem voru í hernum í grænum búningum,
en allir hinir í bláum.“
Slík staðhæfing virkar undarlega á mig; að margar milljónir
manna hafi verið eins klæddar um árabil. En slíkur var áhrifa-
máttur yfirvalda í Kína á þjóðina, þótt auðvitað hafi alþjóðlegt
viðskiptabann einnig haft sitt að segja. Mér verður þó auð-
veldara að gera mér slíka þjóð í hugarlund eftir því sem ég
heyri fleiri sögur af afskiptum kínverskra stjórnvalda af lífs-
háttum fólks á tímum menningarbyltingarinnar, fátt í daglegu
lífi virðist hafa verið svo saklaust og smálegt að rauðu varð-
liðar kommúnistaflokksins fyndu sig ekki knúna til að hafa af-
skipti af því á árunum 1966–70.
Rauðu varðliðarnir urðu nánast alráðir eftir að Maó gaf út
fyrirskipun sem stöðvaði öll innrip lögreglu í aðferðir og að-
Skýjakljúfar samtímans rísa upp úr rústum fortíðar. Undraverðar breytin
sósíalískri fortíð hefur bókstaflega verið rutt á brott til að rýma fyrir fram
Einungis Kína getur bja
KAPÍTALISMINN í hinu kommúnistíska Kína er yfirþyrmandi
– jafnvel á vestrænan mælikvarða. Kínverjar telja þó enga þver-
sögn felast í því, segja kommúnismann aðeins hafa verið við lýði
í nokkra áratugi, en kapítalismann í aldaraðir. Það sem þó kem-
ur enn meira á óvart er hversu lítið kínverskur kommúnismi á
skylt við sósíalisma.
Enginn vafi leikur þó á því að Kínverjum hefur tekist mun
betur en mörgum nágrönnum þeirra í Asíu að vinna bug á
hungursneyð og örbirgð. Þótt enn megi margt betur fara hafa
lífskjör þeirra almennt aldrei verið betri en nú. Stjórnvöld
vinna hörðum höndum að því að tryggja atvinnuvegunum í
landinu hráefni og orkugjafa víða að úr heiminum. Markmiðið
er ekki einungis að viðhalda þeim árangri sem náðst hefur við
atvinnuuppbyggingu og framleiðslu á öllu milli himins og jarð-
ar – heldur að gera Kína að stórveldi á sviði alþjóðaviðskipta.
Eftir Fríðu Björk
Ingvarsdóttur
fbi@mbl.is
Kommúnismi og kapítalismi
Maó formaður Sem leiðtogi kommúnistaflokksins mótaði Maó hlut-
verk sitt markvisst sem goðsögn í kínversku samfélagi.
Gleði við völd á ný Menningarbyltingin tók mikinn toll og eyðileggingin
var gríðarleg. Hefðir eru þó óðum að taka sinn sess á ný í daglegu lífi.