Morgunblaðið - 03.04.2005, Side 18

Morgunblaðið - 03.04.2005, Side 18
18 | 3.4.2005 UNNUR: Elísabet er þremur árum yngri en ég. Hún er litla systir mín. Framan af hittumst við aðallega í afmælum og jólaboðum og kannski í örfáum heimsóknum. Pabbi okkar fór yfirleitt með mig eitthvað annað en heim til sín á pabbadögum, ég man eftir löngum setum á reykfylltu kaffi Mokka og í bíl fyrir framan hús Ragnars í Smára. Þegar við hittumst var athygli mín sjálfsagt ekkert endilega á henni, frekar pabba eða fullorðna fólkinu. Mér þótti hún líklega bara lítil og ómerkileg vegna ald- ursmunarins. Hún var svolítið villibarn að sumu leyti. Eitt sinn vorum við á jólaballi á Hótel Borg með afa okkar og ömmu, séra Jakobi og Þóru. Þetta var frímúr- arajólaball og mig minnir að ég hafi verið mjög hneyksluð á litlu systur minni, sem gekk á milli borða og blandaði gosi saman í glösum þeirra sem voru úti á dansgólf- inu. Líf okkar hefur ábyggilega verið ólíkt, ég var alin upp sem einkabarn og dálítil dekurrófa. Elísabet sá mikið um yngri bræður sína. Þegar við vorum orðnar táningar kom Elísabet í reiðskóla móðursystur minnar um tíma, þar sem ég var aðstoðarkennari. Mig minnir að hún hafi verið í mánuð. Þá var hún orðin dreyminn unglingur, svolítið utan við sig og spáði í náttúruna og and- leg málefni. Á þessum tíma var ég sjálfsagt meiri villingur en hún. Sautján ára gömul eignaðist hún sitt fyrsta barn. Hún hafði verið norður á Strönd- um og kynnst þar strák. Ég hitti hana seinna niðri í bæ og hún sagði mér að hún væri ólétt. Ég man að ég gaf henni fimmþúsundkall, líklega hef ég verið nýbúin að fá út- borgað. Stóra systirin. Þegar við urðum stærri kynntumst við betur og rákumst oft hvor á aðra, til dæmis í Sigtúni, Tjarnarbúð eða Austur- stræti. Ég flutti ung að heiman og bjó meðal annars á Ísafirði um tíma þegar ég var búin með MR. Þá var hún búin að eignast Kristjón Kormák. Hún skrifaði mér og spurði hvort hún mætti koma með hann og búa hjá mér, því hún ætlaði að fara í Menntaskólann á Ísafirði. Við bjuggum saman hluta úr vetri í litlu húsi á Smiðjugötunni. Það var í fyrsta skipti sem við bjuggum saman eins og systur. Hún var hjá okkur með litla strákinn sinn og svo kom pabbi og var með okkur part úr vetri. Þá var hún byrjuð að skrifa, hún sat tímunum saman við litlu ritvélina sína. Stundum sátu pabbi og hún sitt í hvorum enda hússins að hamra á ritvélar meðan ég stóð í eldhúsinu, sem var í miðjunni, og eldaði dindlasúpu í stórum potti eða ferska soðningu. Það skrýtna er, að mér fannst ég fyrst kynnast Elísabetu vel þegar ég byrjaði að sigla. Þá fer hún að skrifa mér og ég fæ þessi þykku yndislegu bréf þar sem hún lýsir lífinu í Reykjavík og lífi sínu og fyrstu skrefunum á skáldskaparbrautinni. Hún var mjög tryggur bréfritari og alltaf þegar ég kom á einhverja nýja eyju beið mín þykkt og mikið „poste restante“ umslag. Milli okkar var þessi mikla og skrýtna fjarlægð, en á sama tíma nándin sem skapaðist í gegnum bréfin. Eitt sinn dvaldi ég á Kanaríeyjum í nokkra mánuði. Við höfðum bundið skútuna í litlu þorpi nokkuð frá aðaltúristasvæðinu. Síðdegis á gamlársdag kemur til okkar ís- lenskur fararstjóri sem við höfðum kynnst á Ensku ströndinni. Við vorum að undir- búa grillpartí einhvers staðar úti á strönd og um það bil að fara. Hún segir: heyrðu, ég er með pakka til ykkar frá Íslandi. En gaman, hugsaði ég en var samt dálítið hissa á því að hún skyldi koma alla þessa leið með einn pakka á sjálfan gamlársdag. Svo bæt- ir hún við: þið þurfið að koma að sækja hann upp á torg, hann er svo stór. Við löbb- um með henni og sjáum þá hvar Elísabet stendur á torginu með tvíburana, átta mán- aða gamla, og tvær ferðatöskur. Það var hálfgert áfall, enda mjög óvænt. Ég hugsaði með mér, hver annar en Elísabet myndi leggja á sig langt ferðalag með tvö ungbörn, allan þennan farangur og bara tvær hendur? Svo urðu auðvitað miklir fagnaðarfund- ir. Við tókum Elísabetu og tvíburana með okkur um borð í skútuna, grilluðum á ströndinni og gerðum okkur virkilega glaðan dag. Tvíburarnir voru eins og litlir englar, nýdottnir af himnum ofan, með himinblá augu og gyllta húð. Þetta hefði ekki hver sem er lagt út í. Elísabet hefur þennan dásamlega eiginleika að treysta á til- veruna og auðvitað hitti hún fólk á leiðinni sem var til í að rétta henni hjálparhönd. Þegar ég flyt heim árið 1989, eftir 12 ára úthald, er hún að gefa út sína fyrstu bók, Dans í lokuðu herbergi, og fyrri Kríubókin að koma út. Það var gaman að hafa fylgst með því ferli og vera saman á jólabókamarkaði í fyrsta sinn. Bréfin hennar eru bæði flott samtímaheimild um Reykjavík á þessum tíma og líf ungrar tvíburamóður sem er að stíga sín fyrstu skref á skáldskaparbraut. Ég skrifaði tilbaka fréttir af ferðinni, framandi þjóðum, stjörnum, höfrungum og fuglum. Í raun hjálpuðu þessi bréf mér að byrja að skrásetja það sem gerðist í siglingunni og íhuga að deila því með öðrum. Samband okkar Elísabetar hefur gengið í gegnum ýmsa fasa og kannski hafa ytri áföll mætt á því; miklar fjarlægðir, ótímabært andlát föður okkar, sjúkdómar og veik- indi. Á tímabili vorum við eins og bestu vinkonur og höfðum allt að því daglegt samband. Hún var með vinnustofu rétt hjá mínu heimili og oft datt hún inn hjá mér eða við töluðum saman í síma. Í dag er sambandið miklu minna, það líða kannski margar vikur milli þess að við tölum saman eða hittumst, en mér finnst þessi sterku tengsl alltaf vera á sínum stað. Alltaf þegar ég hitti Elísabetu finn ég hvað mér þykir rosalega vænt um þessa litlu systur mína. Ég hef kannski alltaf verið með stórusystur komplex gagnvart henni og fundist að ég þyrfti að vernda hana og passa. Fyrir nokkrum árum sagði hún mér að hætta að hafa áhyggjur af sér. Síðan þá hef ég ákaft reynt að leyfa henni að vera orðin stór. Elísabet var ærslabelgur sem barn. Hún er auðvitað mjög sérstök persóna. Ég fer alltaf eitthvað út á við til þess að leita að ævintýrum. Hún er bara heilt ævintýri inni í sér. Hún býr til sín ævintýri þar sem hún er stödd hverju sinni. Ég hef líka alltaf dáðst að því hvað hún hefur verið sjálfri sér samkvæm og dugleg við að fást eingöngu við ritstörf og rækta skáldskapargáfuna. Hún lætur veraldlegt stúss ekki hafa áhrif á sig. Hún hefur alltaf vitað hvað hún hefur viljað. Mér finnst mjög sérstakt hvernig hún birtist sem listamaður, hvernig hún fylgir sínum verkum eftir. Hún selur sínar bækur sjálf og er það sem hún gerir. Hún getur verið mjög vís og vitur, eins og gamalreynd ugla, og því getur verið mjög gott að tala við hana um hin ýmsu mál. Elísabet er heiðarleg í gegn og skemmtilegasta manneskja að rabba við sem ég veit, þegar þannig liggur á henni. Elísabet er eina systirin sem ég á og mér því afskaplega dýrmæt. Þótt mér finnist varla til tvær ólíkari manneskjur eru óútskýranleg bönd á milli okkar, sem valda því að ég get hreinlega bráðnað af væntumþykju þegar ég stend andspænis henni. HEILT ÆVINTÝRI INNI Í SÉR TENGSL | SYSTURNAR UNNUR OG ELÍSABET JÖKULSDÆTUR EFTIR HELGU KRISTÍNU EINARSDÓTTUR Elísabet Kristín, Unnur Þóra og Illugi í afmæli árið 1961. Unnur Þóra Jökulsdóttir fæddist árið 1955. Eftir stúdentspróf frá MR lagðist hún í ferðalög og sigldi meðal annars um heims- höfin í fimm ár á skútunni Kríu. Hún sendi frá sér ferðabækurnar Kjölfar Kríunnar árið 1989 og Kría siglir um suðurhöf árið 1993 ásamt Þorbirni Magnús- syni. Fyrsta barnabók hennar Eyjadís kom út árið 2003. Unnur á eina dóttur. Elísabet Kristín Jökulsdóttir fæddist árið 1958. Hún lauk stúdentsprófi frá Kvennaskólan- um í Reykjavík árið 1987. Fyrsta bók hennar, ljóðabókin Dans í lokuðu herbergi, kom út árið 1989. Síðan þá hefur hún sent frá sér ljóð, sögur og skáldsögur. Elísabet hefur jafnframt skrifað fjölda leikrita sem sett hafa verið upp hér á landi og erlendis. Hún á þrjá syni. Svolítið villibarn að sumu leyti

x

Morgunblaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.