Morgunblaðið - 03.04.2005, Qupperneq 24

Morgunblaðið - 03.04.2005, Qupperneq 24
Hótelveitingastaðir hafa í huga margra á sér leiðinlegan stimpil. Er ekki nóg aðgista á hótelinu, er ekki óþarfi að borða þar líka, oft í sama sal og morgun-verðurinn er snæddur? Staðreyndin er hins vegar sú að frambærilegustu veitingastaðir viðkomandi borga eru oft til húsa á hótelum. Það á til dæmis við um Reykjavík. Ég nefni Hótel Holt, Sigga Hall, Grillið, Vox, 101. Það getur því borgað sig að velja hótel eftir veitingastað, að láta reyna á veitingastaðinn á hótelinu eða jafn- vel gera sér ferð á annað hótel en maður gistir á til að fá sér að borða. Hér eru þrjú dæmi um ágæta veitingastaði á hótelum sem ég hef snætt á nýlega og myndi mæla með: Zen – Orlando Veitingastaðurinn Zen er til húsa í einu af nýjustu hótelum Orlando – Omni Champion’s Gate í Kissimmee. Þetta er einn af þremur veitingastöðum hót- elsins og jafnframt sá besti. Hann er sagður pan-asískur en áherslan er fyrst og fremst á Kína og Japan, þótt einnig bregði fyrir réttum með taílensku ívafi. Innréttingar eru í japönskum stíl en starfsfólkið nær allt spænskumælandi (svolítið súrrealískt). En maturinn er mjög góður og á hófstilltu verði, ekki síst miðað við gengi dollars þessa dagana. Sérstaklega má mæla með því að taka það sem staðurinn kallar Zen Experi- ence en þá má smakka alla þá rétti sem mann fýsir á seðlinum fyrir einungis 32 doll- ara. Svo sannarlega þess virði. Klassísk Peking-önd með pönnukökum kom vel út og sömuleiðis wok-steikt nautakjöt með engifer og seschuan-kjúklingur. Það er ekki gengið of langt í því að laga austurlensku réttina að vestrænum bragðlaukum og krydd fær að njóta sín vel. Vínseðill er ágætur og við fengum okkur Pinot Grigio sem small vel að asíska matnum. Fyrir börn (sem oft eru með í för í Orlando) er boðið upp á barnaseðil sem er amerískur en ekki asískur. Zen, Omni Resort, 1500 Masters Boulevard. Exit 58 á I4-W. Brasserie Bleue – Kaupmannahöfn Annar hótelveitingastaður sem er þess virði að heimsækja er Brasserie Bleue á hótelinu Skt. Petri í Kaupmannahöfn rétt við Strikið og Ráðhústorgið. Petri er nýtískulegt design-hótel, þar sem dönsk hönnun nýtur sín til fulls og er veitingastaðurinn þar engin undantekning. Brasserie Bleue er í aðalrými hótelsins og sækir margt til frönsku brasserie-anna en heiðblá tjöld er hanga niður úr háu loftinu setja sterkan svip á staðinn. Matseðillinn er franskur út í gegn og elda- mennska og hráefni til fyrirmyndar í alla staði. Ostrurnar reyndust góðar, gæsalifur sömuleiðis og það má virkilega mæla með nautasteikinni – oxemørbrad – með heimatilbúinni béarnaise. Það er ekki dýrt að borða á Bleue miðað við gæði og nær allir aðalréttir kosta innan við 200 danskar krónur. Vínlistinn er ekki langur en mjög góður, flest vínin vel þess virði að panta þau og verð í lagi. Brasserie Bleue, Hotel Skt. Petri, Krystalgade 22. Menu and Grill – London Hvergi er líklega ríkari hefð fyrir því að hafa góða veit- ingastaði á hótelum en í London þar sem gömlu glæsihótelin hafa öll í gegnum árin og jafnvel aldirnar státað af bestu veitingahúsum borgarinnar. Sú er raunin enn í dag og er Menu and Grill á The Connaught í miðju Mayfair-hverfinu ágætt dæmi um það. Connaught er gamalt og íhaldssamt glæsihótel, látlaust að utan en íburðarmikið að innan. Matsalurinn er þungur í gömlum breskum stíl en það á svo sannarlega ekki við um matinn. Þegar ráða þurfti nýjan matreiðslumann fyrir nokkru var tekin sú djarfa ákvörðun að kúvenda algjörlega hvað stíl varðar. Í stað þess að bjóða upp á hefðbundið breskt hótelfæði (steikarvagn og kidney pie) var ráðin í eldhúsið Angela Hartnett, einn af skjólstæðingum og lærisveinum matargoðsins Gordons Ramseys. Hartnett býður upp á matseðil sem er ekki ítalskur en undir mjög sterkum ítölskum áhrifum og þá ekki síst norður-ítölskum. Góð önd og yndislegt dádýr. Stífpressaðir dúkar en ekkert allt of stífir þjónar. Vínseðill mikill um sig og klassískur, sterkur í Frakklandi jafnt sem Ítalíu. Menu and Grill, The Connaught, 16 Carlos Place. MATUR | STEINGRÍMUR SIGURGEIRSSON SNÆTT Á HÓTELINU Brasserie Bleue í Kaupmannahöfn.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.