Morgunblaðið - 03.04.2005, Qupperneq 19

Morgunblaðið - 03.04.2005, Qupperneq 19
3.4.2005 | 19 ELÍSABET: Unnur er þremur árum eldri en ég. Við hittumst annað slagið sem börn, til dæmis í afmælum. Ég fór í afmælið hennar og hún kom í afmælið mitt og síðar í afmæli Illuga og Hrafns. Einnig hittumst við systkinin í fjölskyldu- og jóla- boðum. Samgangurinn einskorðaðist við þetta, við fórum ekki saman í sumarfrí eða þess háttar. Við erum hálfsystur og sjálfsagt hefur þetta fyrirkomulag tilheyrt þeim tíma, án þess að ég viti það nákvæmlega. Unnur bjó í vesturbænum, ekki langt frá okkur. Hún var alltaf voðalega fín og dularfull, svona prinsessa í fjarlægð. Ég var meira villibarn, hún segir að ég hafi dansað uppi á borðum og stolið kókflöskum á jólaböllum. Hún var dama í sér og í minningunni finnst mér hún oft hafa verið með sítt ljóst hár, þótt það hafi verið styttra inni á milli. Ég var auðvitað stóra systirin í minni fjölskyldu en nýt stundum þeirra forréttinda að geta verið litla systirin í sambandi okkar Unnar. Það er svona á mörkunum að ég ráði við hlutverkið. Fyrsta sagan sem mér dettur í hug frá þessum tíma tengist dvöl fjölskyldunnar í Grikklandi. Í garðinum okkar var fullt af villiköttum og okkur Illuga fannst þeir all- ir líta út eins og Unnur Þóra. Á þeim tíma var hún alltaf kölluð Unnur Þóra. Á hippaárunum kom síðan í ljós að hún var kölluð Kisa, við Illugi fundum hins vegar upp á þessu nafni fyrst, enda er Unnur dálítið kattar- leg í útliti. Önnur svipmynd sem kemur upp í hugann er frá þeim tíma þegar ég var í Melaskóla, í 11 eða 12 ára bekk, minnir mig. Þá kom hún einn dag- inn í skólann minn með vinkonu sinni. Þessi vinkona var hálfgert goð í augum stelpnanna í bekknum og ég óx því þónokkuð í áliti við þessa heimsókn. Hún bankaði bara allt í einu upp á í bekknum og spurði eftir mér. Þegar ég kom fram stóð Unnur systir mín fyrir utan stofuna með þessari vinkonu sinni. Þetta er í fyrsta skipti sem ég man eftir að hún hafi nálgast mig án þess að fullorðna fólkið í fjölskyldunni ætti hlut að máli. Mér þótti mjög merkilegt að hún skyldi banka upp á og forða mér út úr þessari voðalegu skólastofu. Þær voru líka báðar svo ofboðslegar skvísur að maður lak niður í gólfið. Nema maður ætti svona skvísu fyrir systur. Alla- vega hlaut ég óvænt aðdáun bekkjarklíkunnar. Ég eignaðist mitt fyrsta barn 17 ára og byrjaði þá að hanga stundum á kaffihúsi sem hét Tröð og var beint fyrir ofan Eymundsson. Tröð var þekkt hippakaffihús. Unnur var í þessari hippaklíku, sem mér fannst mjög spennandi. Ég var nýbúin að eiga barn en Unnur var hins vegar í þessari klíku, ægilega kúl. Hún hafði verið lengi í ákveðinni fjarlægð og mér þótti því vænt um áhugann sem hún sýndi mér og stráknum mínum. Þótt ég elskaði barnið hugsaði ég líka með mér hvort það væri nógu smart að vera mamma 17 ára gömul og hvort ég ætti ekki að vera gera eitthvað annað við líf mitt. Áhugi hennar hjálpaði mér. Upp úr unglingsárunum fórum við síðan að kynnast betur. Við vorum saman á Ísafirði einn vetur. Hún og Þorbjörn maðurinn hennar leigðu hús þar og ég velti því fyrir mér hvort ég ætti ekki að fá leyfi til þess að búa hjá henni meðan ég færi í skóla. Þá gætum við kannski kynnst betur og orðið vinkonur. Ég skrifaði henni og bjó svo með þeim einn vetur. Svo kom pabbi vestur og var á sjó. Þetta var síðasta veturinn sem hann lifði. Eftir þetta höfðum við samband af og til. Hún fór síðan í skútuferðalagið sitt og þá byrjaði ég að skrifast á við hana. Ég var þá að ala upp tvíburana mína hérna heima. Þessi bréf væru efni í heila bók. Unnur segir að þá hafi ég haft frumkvæðið að því að byrja að skrifa. Ég hef í raun aldrei hugsað út í það, en kannski höfum við oft verið uppteknar af því hver ætti að hafa frumkvæði. Ég veit það ekki. Þessi bréf eru til og í raun efni í heila bók um tvær systur. Önnur systirin er heima að ala upp tvíbura, hin systirin siglir á skútu um heimshöfin. Líf þeirra gæti ekki ver- ið ólíkara. Þegar hún kom heim úr skútuferðalaginu fannst mér hún svo sigld, hún var komin með ummál hnattarins á tilfinninguna, eins og hún sagði sjálf. Mér fannst ég ekki hafa gert neitt, bara verið á Íslandi að ala upp börn. Ég hafði ekki farið í skóla og ekki farið til útlanda og var ein í basli. Ég hafði ekki orðað þetta, enda á maður að halda svoleiðis hlutum fyrir sig. Þá segir Unnur, nýkomin úr heimsreisu: ég er ekki búin að gera neitt við líf mitt, ég er ekki einu sinni búin að eignast börn. Þetta fannst mér merkilegt. Það er sama hvað maðurinn tekur sér fyrir hendur, hvaða forsendur býr hann sér til til þess að vera ánægður? Hvað er það raunveru- lega sem hann vill? Unnur er villiblóm og náttúrubarn og miklu viðkvæmari en ég gerði mér í hugar- lund áður en ég fór að kynnast henni nánar. Hún er ofboðslega vel lesin og uppgötv- ar oft bækur og höfunda úti í heimi löngu áður en þeir koma á markað hér, jafnvel í dag þegar allt er orðið hnattvætt. Unnur er mjög góður lesandi, ef hún er ánægð með eitthvað getur maður yfirleitt treyst því að eitthvað sé varið í þann texta. Í dag erum við saman í skáldkvennafélagi og hittumst því aðallega í tengslum við það upp á síðkastið, en hringjumst á í staðinn. Hún hefur verið dálítið upptekin við það að ala upp litla barnið sitt, hana Öldu Áslaugu. Unnur er mjög opin en þykist oft vera lokuð. Hún tekur allt inn og ég held að henni líði vel þar sem hún getur gefið af sér. Félags- og stjórnunarstörf eiga vel við hana að því leyti, hún vill vera innan um fólk. Hún hefur snerpu og ég held að henni finnist samtöl við fólk skemmtileg. Hún er hestamanneskja og hestatemjari og mjög gjöful og örlát. Hún segir oft mjög fallega hluti við mann, eitthvað allt öðruvísi en aðrir, bæði um það sem ég skrifa og um mitt líf. Ég man þegar ljóðabókin mín kom út árið 1995, þá sagðist hún hafa farið með hana út í horn og gleymt jólunum. Það er miklu sterkara en að segja að bókin sé góð eða eitthvað slíkt. Ég myndi segja að við Unnur værum nánar. Stundum felur það að vera náinn í sér að maður á eitthvað eftir ósagt. Öll systkini keppa leynt og ljóst um athygli foreldr- anna og geta fundið til afbrýðisemi. Vegna þessa flókna föðursambands okkar og þess að eiga bæði pabba og eiga hann ekki höfum við kannski setið uppi með draug, sem hefur stundum verið erfitt að kveða niður og getur skotið upp kollinum þegar minnst varir. Ef ég sé sambandið utan frá hef ég stundum upplifað föður minn splundra okkar systrasambandi, eins og karlmenn splundra í þjóðfélaginu. Þeir splundra samtökum og samstöðu kvenna og virðast byrja á því mjög snemma á lífs- leiðinni, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað. Maður getur verið afbrýðisamur út í systur sína, rétt eins og vinkonu sína. Það er svo spurning hvort maður láti það stjórna sér eða leyfi neikvæðum tilfinningum að fljóta út í loftið. Þegar ég veiktist af geðhvörfum í annað sinn árið 1997 var Unnur of- boðslega góð við mig. Það var mér ómetanlegt, ekki síst vegna þess að hún er systir mín. Hún kom hérna. Hún gisti hjá mér og hún hlustaði á alls konar bull. Það hafna manni flestir þegar maður er geðveikur, en það fallegasta sem hún sagði var: Ég væri nú bara alveg til í að koma í maníu með þér. Það er ekki hægt að fá fallegri ástarjátningu þegar mað- ur er geðveikur og í maníu því þetta er sjúkdómur einmanaleikans og það er í raun enginn til í að vera með manni. Unnur gerir allt fallegt í kringum sig með fallegum, vönduðum hlutum og fötum. Hún tekur oft afdrifaríkar ákvarðanir, sem er mjög skemmtilegt í hennar fari. Hún er mjúk og fljótandi en virðist líka geta reitt hnífinn til höggs. Hún ákveður að fara í skútuleiðangra, verða rík, byggja sér hús og ættleiða barn og gerir það svo bara. Hún hefur bæði snerpu og mýkt, sem er spennandi saman. Hún hefur líka þann hæfileika, sem ég tel að komi frá pabba, að búa til alls kyns furðuleg nöfn. Sissíbet eða Lissídú, ég man þau ekki einu sinni öll. Hún er mikill dýravinur og er bæði með hunda og hesta, alltaf að vasast í kringum dýrin sín og býr einmitt til svona furðuleg nöfn á þau. Hún hefur líka skemmtilega yfirsýn yfir samfélagið og er mjög næm á fólk. Svo hefur hún góðan húmor og er rosalega góður kokkur. Unnur kom mér á óvart þegar hún skrifaði fyrst barnasögu. Mér finnst hún mjög fínn penni. Ég var að lesa kafla um Dranga sem hún skrifaði í Íslendingabók. Ég hef oft komið að Dröngum og fannst ég hreinlega vera þar við lesturinn, hún skrifar mjög skemmtilegan og myndrænan texta. Textinn hennar er mjög flæðandi. Hún býr í raun til nýjan stíl. VILLIBLÓM OG NÁTTÚRUBARN L jó sm yn d: K ri st in n In gv ar ss on Eins og prinsessa í fjarlægð

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.