Morgunblaðið - 24.05.2005, Síða 25

Morgunblaðið - 24.05.2005, Síða 25
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 24. MAÍ 2005 25 UMRÆÐAN ÉG HEFI ferðast mikið um Ís- land. Farartækið oftast venjulegur fólksbíll. Á síðari árum er ég þó farinn að ferðast um á jeppa. Allt- af er jafnmikil ánægja af þessum ferðalögum. Eftir að jeppinn kom til sögunnar er ferðast meira um há- lendið og við það hafa komið í ljós staðir og svæði sem voru mér lokuð áður. Nú er mikið rætt um ferðaþjónustu og ferðalög. Það er fjallað um hraðbraut yfir Stórasand, akst- ur utan vega o.fl. Lít- ið hefur verið fjallað um þá hálendisvegi sem fyrst og fremst eru til þess að auð- velda almenningi að skoða landið og njóta þess. Samt er furðu- mikið til af þeim veg- um. Flest vitum við hve mikla auðlegð, feg- urð, tign og mik- ilfengleik er að sjá og finna á þeim svæðum sem slíkir vegir liggja um og þar sem nýir vegir munu koma í framtíð- inni. Nokkrir af þessum vegum eru áratugagamlir, aðrir eru að verða til ár frá ári. Á sama hátt og bílaumferð eykst um hringveginn er umferð að aukast um þessar leiðir. Gallinn er bara sá að um hálendisvegina komast ekki nema sumir. Hálendisvegirnir eru víðar en á miðhálendinu, þeir eru um allt land og þeim er mjög mismunandi mikill sómi sýndur. Viðhald þeirra er sumstaðar mjög bágborið, á öðrum stöðum nokkuð gott. Til að skoða þessa stöðu er rétt að taka dæmi – skoða tvo vegi. Taka leiðina að Herðubreið- arlindum og Öskju og veginn inn að Laka. Yfir þá renna lækir og smáár og þangað komast ekki nema fjórhjóladrifsbílar og rútur. Farartálmar fyrir venjulega fólks- bíla eru vatnsföllin. Herðubreiðarlindir, Askja og Laki eru djásn í náttúru Íslands. Djásnin eru miklu fleiri. Þeir sem eru útilokaðir frá því að komast til þessara staða á bílnum sínum eru líklegast að stórum hluta eldri borgarar, einnig fatlaðir og ungt fólk sem hefur ekki efni á því að eiga jeppa – eða almenningur sem telur að venjulegur fólksbíll sé betri kostur en jeppi. Hér er um að ræða meirihluta Íslendinga. Þótt ótrúlegt sé er furðumargt náttúruverndarfólk á því – að halda eigi því fólki sem ekki á jeppa frá þessum stöðum. Að koma á bílastæð- ið við Öskju á góðum sumardegi er líkt því að koma á jeppasýn- ingu sem er puntuð upp með torfærutröll- um erlendra ferða- manna. Og það er sömu sögu að segja inn við Laka. Það er svo sem ánægjulegt að sjá hvað bílarnir eru fallegir og hvað fólk hefur efni á að veita sér. Það kann ekki góðri lukku að stýra að skipta okkur í tvo hópa. Annar hópurinn er sá sem má fara inn á hálendið – hinn hóp- urinn má það ekki. Áhugi minn beinist að því að fá þessari stöðu breytt. Ég tel að opna eigi hálend- isvegina og gefa al- menningi tækifæri til njóta þess sem þar er að sjá. Náttúruverndarsamtök, samtök eldri borgara o.fl. ættu að beita sér fyrir því að hálendisvegir á landinu verði færir sem flestum bílum. Jafnframt að vegirnir verði ekki uppbyggðir með tilheyrandi spjöllum á landslagi og útsýni heldur verði þeir ofaníbornar slóð- ir sem lítið ber á með góðum bíla- stæðum við útsýnisstaði og svo bílastæðum á skjólgóðum stöðum til áningar. Ég tel það augljóst mál að markmið framannefndra samtaka eigi að vera það að allir njóti jafn- réttis við að skoða hálendi Íslands. Með því aðbeita sér fyrir því mál- efni mun liðsmönnum fjölga í því liði sem verja vill hálendi Íslands jafnt fyrir tröllavegum sem virkj- unum. Þetta kostar mikla peninga. Nei, það gerir það ekki. Það sem þarf fyrst og fremst að gera er að brúa árnar og lækina. Ef það yrði gert komast allir bílar í Öskju, Herðubreiðarlindir og inn að Laka. Vitaskuld þarf að bera í þessa og aðra vegi, lagfæra og halda þeim við umfram það sem gert er í dag, en það kostar ekki mikla fjármuni. Í framtíðinni er sjálfsagt að leggja á suma þeirra bundið slitlag og í sumum til- fellum að breyta legu þeirra. Aukin umferð um hálendið og betri vegir mun leiða til þess að minna verður um akstur utan vega. Ökumenn munu einnig síður freistast til þess að gera nýja slóða. Erlendir ferðamenn sem margir hverjir hafa t.d. Öskju og Laka efst á lista yfir þá staði sem þeir stefna á að skoða á Íslandi þurfa þá ekki að vera á stórkostlegum torfærubílum til þess að komast á óskastaðina. Þessir gestir myndu í minna mæli koma með bíla með sér til landsins en í staðinn not- færa sér leigubíla. Íslenski bílaflotinn sem um há- lendið færi hvert sumar breyttist frá því að vera eingöngu jeppar og þeir sumir stórir, í það að vera sýnishorn af bílaeign landsmanna. Þá væri hátt í helmingur þeirra sem væru á ferð um hálendið á litlum sparneytnum bílum. Meng- un frá umferðinni myndi minnka mikið. Á dálítið ósagt um þetta mál- efni. Mér finnst samt nóg komið í bili. Ef til vill skrifa ég aðra grein um þetta efni. Hálendisvegir Skúli Alexandersson fjallar um hálendisferðir Skúli Alexandersson ’Ég tel að opnaeigi hálend- isvegina og gefa almenningi tækifæri til að njóta þess sem þar er að sjá.‘ Höfundur hefur starfað við ferðaþjónustu. HLUTVERK RÚV hefur verið til umræðu undanfarnar vikur. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að ríkisreknir ljósvakamiðlar eigi ekki rétt á sér og að einkareknir ljósvakamiðlar geti vel sinnt þörfum landsmanna fyrir fjölbreytt sjónvarps- efni. Aðrir vilja treysta stoðir RÚV. Ýmsar athugasemdir hafa komið fram, m.a. að RÚV sé í samkeppni við einka- stöðvarnar með því að sýna vinsælt er- lent sjónvarpsefni. Í nýju lagafrumvarpi er tilvist RÚV á fjöl- miðlamarkaði tryggð. Eigi ríkið að reka sjón- varpsstöð er vert að benda á nokkur sjónarmið varðandi hlut- verk og stöðu RÚV. Óskastaðan er sú að hægt sé að sýna meira af íslensku efni í sjón- varpi. En vegna þess hve íslensk- ur fjölmiðlamarkaður er lítill og hversu dýrt það er að framleiða gott innlent efni er hlutfall erlends efnis óvenjulega hátt hér á landi. T.d. kostar klukkustundar langur leikinn sjónvarpsþáttur um 60–90 m.kr. í framleiðslu í Evrópu. Til viðmiðunar má nefna að árlega ver Kvikmyndamiðstöð 15 m.kr. í styrki til framleiðslu á leiknu sjón- varpsefni. Sjónvarpsstöðvarnar hafa einnig takmörkuð fjárráð og geta ekki boðið sama hlutfall inn- lends efnis og fjölmennar ná- grannaþjóðir. Það á við um RÚV jafnt og einkastöðvarnar. Af þessu leiðir að 72% þess efnis sem sýnt var í íslensku sjónvarpi árið 2003 var erlent efni. Því hlýtur erlent efni ávallt að vera stór hluti af dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva. Bæði samkeppnisaðilar og ýmsir stuðningsmenn RÚV hafa lýst því yfir að RÚV eigi fyrst og fremst að sinna menningar- og fræðslu- hlutverki og hafa lýst andstöðu við það að stofnunin sýni vinsælt er- lent efni í samkeppni við einka- stöðvar. Út frá menningar- fræðilegu sjónarhorni lýsa slíkar skoðanir mjög ákveðnum hug- myndum um það hvað geti talist menning. Þessi afstaða lýsir hug- myndum um skiptinguna í há- menningu og alþýðumenningu. Ekki er víst að allir áhorfendur RÚV geti fallist á þessa afstöðu. Einnig vert að geta þess að margt erlent skemmtiefni nær til breiðs hóps fólks sem hefur e.t.v. ekki allt áhuga á sértæku menningar- eða fræðsluefni. Skilj- anlegt er að sam- keppnisaðilar geri at- hugasemdir við það að RÚV nái til allra landsmanna með vin- sælu erlendu afþrey- ingarefni. Ástæðan er sú að með því að skil- greina menningarlegt hlutverk á breiðum grunni kaupir RÚV og sýnir efni sem er að hluta til í beinni sam- keppni við einkareknu sjónvarpsstöðvarnar. Sams konar gagnrýni hefur heyrst hjá talsmönnum einkarekinna ljós- vakamiðla erlendis þegar þeir gagnrýna ríkisreknar sjónvarps- stöðvar. Reynslan sýnir að með því að blanda saman fjölbreyttu menn- ingar- og fræðsluefni og ýmiss konar innlendu og erlendu efni nær sjónvarpsstöð til breiðari hóps áhorfenda. Með því að hætta að sýna ákveðið efni, t.d. erlent skemmtiefni, er hugsanlegt að áhorfendum fækki og að stöðin færist út á jaðarinn. Með því að bjóða fjölbreytt dagskrárefni fá áhorfendur aðgang að ólíku efni og horfa á dagskrárliði sem þeir hefðu e.t.v. ekki annars horft á. Því má færa rök fyrir því að með því að sinna víðtæku menningar- hlutverki með fjölbreyttu innlendu og erlendu efni aukast líkurnar á því að almenningur horfi á það sértæka menningar- og fræðslu- efni sem í boði er í dagskránni í bland við annað. Þá má benda á að hætti RÚV að sinna þörfum breiðs hóps áhorfenda og flyst út á jað- arinn með efnisframboði sínu má gera ráð fyrir því að gagnrýn- israddir heyrist þar sem efast er um tilvist slíkrar sjónvarps- stöðvar. Gagnrýnendur myndu spyrja hvort réttlætanlegt væri að halda úti ríkisrekinni sjónvarps- stöð með tilheyrandi kostnaði ef áhorfendur eru fáir. Þess má geta að talsmenn Sky í Bretlandi hafa lýst þeirri skoðun sinni að ríkisútvarpið, BBC, eigi að selja einkastöðvunum vinsæl- ustu sjónvarpsþætti sína. BBC eigi að einbeita sér að sértæku menningar- og fræðsluefni og láta einkastöðvarnar um skemmtiefnið. Stuðningsmenn BBC hafa bent á að með þessu reyni forsvarsmenn Sky að veikja stöðu BBC, þeir vilji ná sterkari stöðu á markaðnum. Einnig er þess að geta að flestir landsmenn fjármagna RÚV og eiga að hafa aðgang að fjölmiðl- inum hvar sem þeir búa. Áhorf- endur vilja eðlilega horfa á sjón- varpsefni sem þeir hafa áhuga á. Því hlýtur ríkisfjölmiðill að þurfa að sýna fjölbreytt efni sem höfðar til ólíkra hópa. Þá hefur sumt fólk ekki efni á að horfa á dagskrá einkamiðlanna. Í stafrænu sjón- varpi framtíðarinnar er ekki víst að dreifbýlustu svæðin hafi aðgang að öllu því erlenda skemmtiefni sem verður á einkastöðvunum. Engu að síður vilja flestir horfa á fjölbreytt sjónvarpsefni, þar með talið erlent skemmtiefni. Í ljósi þessa má spyrja hvort rétt sé að skilgreina hlutverk RÚV svo þröngt að stofnuninni sé óheimilt að kaupa og sýna vinsælt erlent efni. Ljóst er að ekki er hægt að gera kröfu til þess að RÚV sýni nær eingöngu íslenskt efni sökum þess hversu dýrt það er. Ef RÚV yrði einungis heimilt að kaupa sértækt menningar- og fræðsluefni erlendis frá, er hætta á að áhorfendum fækkaði. Ef RÚV verður einungis leyft að sýna slíkt efni og meinað að höfða til breiðari hóps kann að reynast erf- itt að réttlæta tilvist sjónvarps allra landsmanna. Á að gera RÚV að hámenningarstofnun? Elfa Ýr Gylfadóttir fjallar um RÚV og breytingar á lögum þess Elfa Ýr Gylfadóttir ’Í ljósi þessa má spyrjahvort rétt sé að skil- greina hlutverk RÚV svo þröngt að stofn- uninni sé óheimilt að kaupa og sýna vinsælt erlent efni.‘ Höfundur er MA í fjölmiðlafræði frá Kent-háskóla í Kantaraborg og í margmiðlun og fjarskiptafræðum frá Georgetown-háskóla. STÓRKOSTLEG upplyfting var það íslenzkri þjóð, þegar Okkar Maður birtist á myndum með for- ingjum veraldar í Kreml á dögunum. Þar fór hann fremstur meðal jafn- ingja. Það hefir verið sjón að sjá mikilmennin olnboga sig áfram í mannþrönginni, með ljósmyndara í eftirdragi, að ná tali af Okkar Manni og eignast ljósmynd af þeim saman að senda Morgunblaðinu til birt- ingar. Í þessum atgangi hefir Okkar Maður naumast haft ráðrúm til að staupa sig að ráði fyrr en eftirá. Mikið lifandis ósköp væri gaman að íslenzka þjóðin eignaðist kvikmynd af þessum heimsviðburði. Myndin af Okkar Manni og Bush hinum bandaríska ber greinilega með sér að Okkar Maður hefir verið að upplýsa hinn stríðsherrann um eiturefnavopnin í Írak, sem „hann hefir alltaf vitað að voru til“ eins og hann lýsti fagnandi yfir fyrir þremur misserum eða svo, en helvítis aum- ingjarnir vestra gefizt upp við að finna. Bros Bush lýsir feginleik og aðdáun, sem vonlegt er. Schröder hinn þýski horfir á einni myndinni fullur vonbrigða á, þar sem franski frekjuhundurinn Chirac er búinn að ná Okkar Manni undir sig í örlagaríkar viðræður um Evr- ópubandalagið sjálfsagt, eða einhver önnur meiriháttar stórmál á heims- byggðinni. Eða kannski táknar von- brigðasvipur Schröders að hann ótt- ist að Okkar Maður sé ekki búinn að fyrirgefa Hitler heimsstyrjöldina síðari. Það er ástæðulaus ótti, þar sem Okkar Maður hefir lýst því yfir, að hann hafi ekki fæðst fyrr en styrj- öldinni var lokið, og komi hún þess- vegna ekkert við. Auk þess sem Okkar Maður er sjálfur orðinn stríðsherra og hann og Bush og Blair búnir að útrýma eitthundrað þúsund hryðjuverkamönnum í Írak – og von um fleiri. Á myndinni með Pútín er Okkar Maður vafalaust að segja frá hag- ræðingu sinni í íslenzkum sjávar- útvegi og þeim stórkostlega árangri að brátt muni verða eftir í landinu svo sem eins og fimm einkabú í sjáv- arútvegi, en skakarar og skektukarl- ar fluttir til þjóðþrifastarfa á fjöllum uppi. Pútín brosir breitt og kannast mætavel við árangursríka hagræð- ingu atvinnuvega. Forveri hans, Stalín, gekk svo hressilega fram í hagræðingu í landbúnaði á sinni tíð, að hann neyddist til að svelta í hel tíu milljónir smábænda (Kúlakka) í Úkraínu einni, þegar hann stofnaði þar samyrkjubúin, en flutti tvær milljónir þaðan á heilsuhæli í Síb- eríu, sem kallast Gúlag. Á Eldhúsdegi í alþingi á dögunum kvartaði Flórgoði framsóknar yfir því að flokkur hans lægi undir ágjöf frá hugsjónalausum mönnum um af- glöp og afbrot í ráðstjórn sinni. Allt spyrst og líka til útlanda. Þessvegna gæti kvis um þetta komið í eyru myndvinanna nýju. Ber því nauðsyn til að ráðstjórnin láti semja kríthvíta bók um hreinlífi Okkar Manns í öll- um athöfnum, einkavæðingu sem öðrum. Bezt væri að fá til þess rit- færan mann, sem einskis missir í líf- eyri, þótt góð ritlaun séu greidd – gegn því loforði að hann minnizt ekki einu orði á stólaskiptin. Og svo verða öllum höfðingjum heims hverjum um sig send fimm- hundruð eintök af hinni kríthvítu bók á frummálinu, enda yrði hér um að ræða íslenska kóngasögu, þar sem báðir ættu hlut að máli. Okkar Maður Sverrir Hermannsson fjallar um utanríkismál ’Mikið lifandis ósköpværi gaman að íslenzka þjóðin eignaðist kvik- mynd af þessum heims- viðburði. ‘ Höfundur er fv. formaður Frjálslynda flokksins. Ljósmynd/Steingrímur S. Ólafsson

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.