Morgunblaðið - 10.07.2005, Qupperneq 14
14 | 10.7.2005
þegar pabbi fékk spilaverkefni fannst honum skemmtilegra að láta okkur stelpurnar
spila með sér og þá fengum við stundum aur fyrir. Það var verulega gaman því þá
fannst manni maður einhvers virði.“ Í dag er yngsta systirin, Dísella, nýútskrifuð óp-
erusöngkona með mastersgráðu frá Bandaríkjunum. „Ég er ægilega stolt af henni.
Ingibjörg systir er flugfreyja og við fíflumst oft með það að hún sé eina skynsama
manneskjan í fjölskyldunni, í „alvöru“ starfi. Þar fyrir utan er hún fjögurra barna
móðir – sannkölluð ofurkona.“
Þykkur skrápur nauðsynlegur
Þrátt fyrir uppeldi innan um leikara og tónlistarfólk lá ekki beint við að Þórunn
fetaði leiklistarbrautina. „Mig langaði alltaf í leiklist en þorði bara ekki að viðurkenna
það. Ég útskrifaðist frá MH af náttúrufræðibraut, var aldrei í kórnum eða Leikfélag-
inu og eiginlega ætlaði ég að verða læknir. Eftir menntaskóla ákvað ég þó að fara á
svolítið flakk og finna mig eins og allir Íslendingar og fór að vinna sem fyrirsæta. Ég
var mest í Evrópu – bjó á Ítalíu um tíma og vann í Þýskalandi og Skandinavíu í gegn-
um umboðsskrifstofuna Módel ’79 sem þá var og hét.“ Þórunn segir þennan tíma
hafa verið skemmtilegan og lærdómsríkan. „Oft er sagt að það eina sem fyrirsætur
þurfi að gera sé að sitja fyrir en það er ekki svona
einfalt,“ segir hún með áherslu. „Maður verður
að vera ákveðinn og vita nákvæmlega hvað mað-
ur vill til að komast áfram í þeim bransa.“
Framtíðarkort Þórunnar höfðu þó annað að
geyma en fyrirsætustörf. „Einhvern tímann þegar
ég var að labba heim til mín hugsaði ég: „Hvað
ertu að gera? Þú veist alveg hvað þú vilt.“ Þá lá
leiðin í leiklistina. Ég fór í leiklistarskólaprófið
hér heima og komst inn í svokallaðan 16 manna
hóp en ekki inn. Ég varð auðvitað ægilega svekkt
en það kom upp í mér einhver þrjóska – ég þyrfti
sko ekkert að læra á Íslandi!“ Eftir nokkrar
vangaveltur um staðsetningu varð London ofan á
og Þórunn komst inn í skóla að nafni The Web-
ber Douglas Academy of Dramatic Art. „Þar var
lögð áhersla á Shakespeare og klassísk leikverk
og eins var tónlist gert hátt undir höfði. Til dæmis
þurftum við að fara í söngnám þannig að þetta
hentaði mér mjög vel.“
Það var ekki fyrr en eftir að leiklistarnámið
hófst sem „ballið byrjaði“ eins og Þórunn orðar það. „Þetta er erfið braut að fara og
maður verður að vera tilbúinn til að gefa endalaust af sjálfum sér. Leiklistarnám er al-
gjör tilfinningarússíbani. Svo eftir nám tekur alvaran við ef maður er svo heppinn að
komast inn í bransann. Það er því nauðsynlegt að vera með þykkan skráp.“ Þórunn
þurfti líka að glíma við að leika á öðru tungumáli en móðurmálinu, þótt enskukunn-
átta hennar hafi verið býsna góð þegar hún hóf námið. „Ég er mikill flakkari í eðli
mínu og var í Bandaríkjunum í eitt ár þegar ég var 15, 16 ára þar sem ég var í skóla og
lærði ameríska ensku. Þegar ég kom til Englands fannst mér ég tala mjög fína ensku
og að ég ætti fátt eftir ólært í þeim efnum en ég komst snögglega að því að svo var
ekki. Ég lagði því fljótt áherslu á að læra tungumálið vel enda má segja að tungan sé
hljóðfæri leikarans.“
Í svefnherbergi leikstjórans
Eftir útskrift vorið 1998 komst Þórunn að hjá góðri umboðsskrifstofu, William
Morris að nafni. „Ég fór í milljón prufur og komst ofsalega nálægt hinum fínustu
verkefnum. Ég fékk nokkur leikverkefni í sjónvarpi, stuttmyndum og leikhúsi en
ekkert stórt. Í raun var þetta fínn tími til að sjá og skynja hvernig bransinn virkar úti í
Englandi. Þegar mér bauðst að koma heim til að leika Auði í Litlu hryllingsbúðinni í
Borgarleikhúsinu var ég alveg tilbúin til að fara aftur til Íslands, a.m.k. tímabundið
meðan á því verkefni stæði.“ Leikstjóri Litlu hryllingsbúðarinnar var Kenn Oldfield
sem Þórunn kannaðist við frá fornu fari. „Hann leikstýrði mömmu í Gæjum og píum
árið 1984 og ég þekkti hann síðan þá. Það var hins vegar frændi minn, Stefán Hilm-
arsson, sem benti Jóni Ólafssyni, tónlistarstjóra sýningarinnar, á mig eftir að hafa
heyrt mig syngja í afmæli. Þetta leiddi til þess að Kenn hringdi í mig og spurði hvort
ég væri til í að koma í prufu til sín úti í London. Þórhildur Þorleifsdóttir, þáverandi
leikhússtjóri í Borgarleikhúsinu, var þá stödd þar úti svo ég fór í prufu heima hjá
Kenn. Það fyndnasta var að prufan fór fram í svefnherbergi leikstjórans,“ segir hún
hlæjandi en flýtir sér svo að fyrirbyggja allan misskilning: „Hann var nefnilega með
hljómborðið í svefnherberginu sínu!“
Eftir aðra prufu hér heima var Þórunni boðið hlutverkið en verkið var frumsýnt í
byrjun júní 1999. Viðtökurnar voru góðar svo hún ílengdist á Íslandi. „Samningurinn
við Borgarleikhúsið var framlengdur auk þess sem mér var boðið hlutverk í Þjóðleik-
húsinu. Í byrjun árs 2000 gerðist svo sá hræðilegi atburður að pabbi minn dó mjög
snögglega og fráfall hans hafði mjög mikil áhrif á mig. Ég flakkaði dálítið milli Íslands
og Englands á þessum tíma, var búin að kaupa
mér íbúð í London og þótti gott að komast að-
eins burt til að ná áttum og fá að syrgja svolítið i
friði. Í febrúar 2001 hringdi Stefán Baldursson,
þáverandi þjóðleikhússtjóri, í mig og bauð mér
að leika Línu Lamont í Syngjandi í rigningunni.
Mér fannst það spennandi strax frá upphafi því
þarna fékk ég tækifæri til að leika með mömmu.
Það hafði ekki gerst áður og hefur reyndar ekki
gerst síðan. Þegar ég las handritið sá ég fyrst hvað
hlutverkið var bitastætt. Síðar sama ár fékk ég
fastráðningu við Þjóðleikhúsið sem gerði það að
verkum að ég flutti alkomin til Íslands.“
Flest stærstu hlutverk Þórunnar hafa verið í
söngleikjum, líkt og nú í Kabarett, en sjálf segist
hún fyrst og fremst vera leikkona. „Ég er oft titl-
uð leik- og söngkona og eiginlega finnst mér það
hálfgerð móðgun við söngvara,“ segir hún og
hlær. „Ég byrjaði ekkert að syngja fyrr en í leik-
listarnáminu en fram að því hafði ég bara sungið í
sturtu eins og aðrir. Hins vegar finnst mér söng-
urinn æðislegur og hann virkar eins og jóga fyrir mig. Það ættu allir að syngja.“
Með einn af þremur yngstu samningunum
Undanfarin ár hefur Þórunn starfað sem fastráðinn leikari í Þjóðleikhúsinu en nú
er komið að vatnaskilum. „Ég var með samning þar til nýverið því ég var einn þeirra
tíu leikara sem var sagt upp í febrúar þegar Tinna Gunnlaugsdóttir tilkynnti að hún
vildi losa tíu samninga til að geta róterað nýjum leikurum inn í sýningar. Í sjálfu sér
finnst mér það mjög flott hugmynd hjá henni. Hins vegar höfðu mörg okkar sem
lentum í þessu verið að vinna þarna eins og skepnur mánuðina og árin á undan og
þess vegna fannst mörgum þetta mjög ósanngjarnt. Mér fannst þó skárra að þetta
væru tíu yngstu samningarnir því það er þægilegra að vera sagt upp vegna stuttrar
starfsreynslu en vegna þess að maður standi sig ekki. Þetta var samt erfitt því þetta
var svo opinbert. Einhverjir leikarar sem höfðu önnur plön ákváðu svo að hætta
þannig að á endanum voru ekki nema þrír samningar sem þurfti að segja upp. Minn
samningur var einn af þeim. Það eru svo fáir samningar sem hafa verið gerðir á und-
anförnum árum að þó að minn samningur hafi verið orðinn þetta gamall var ég næst í
röðinni.“
Litla hryllingsbúðin 1999 Ferðir Guðríðar 2000 Veislan 2002
ÞAÐ VAR OFT GERT GRÍN AÐ ÞVÍ
AÐ VIÐ VÆRUM EINS OG VON TRAPP
FAMILÍAN Í SOUND OF MUSIC.
Syngjandi í rigningunni 2001
ÉG ER OFT TITLUÐ LEIK- OG SÖNGKONA OG EIGINLEGA FINNST MÉR ÞAÐ
Fjölskyldan á Spáni 1982.