Morgunblaðið - 10.07.2005, Blaðsíða 18

Morgunblaðið - 10.07.2005, Blaðsíða 18
18 | 10.7.2005 ist án minnar vitundar. Að öðru leyti hef ég verið í ágætu sambandi við þessa fjöl- miðla. T.d. var hringt í mig þegar við Snorri [Petersen viðskiptafræðingur] byrjuðum saman. Viðkomandi blaðamaður vildi athuga hvort hann væri ekki örugglega að segja rétt frá og það finnst mér bara fínt. Þeir eiga örugglega eftir að fjalla um þetta hvort sem er og ef maður neitar samvinnu getur útkoman orðið verri,“ segir hún æðrulaus. „Auðvitað finnst mér agalegt að þetta sé svona. Sjálf forðast ég eins og heit- an eldinn að lesa þessi blöð enda hafa vinir mínir lent illa í þeim. Ég hef ekki kviðið umfjöllun þeirra en þetta nýja blað veldur pínulitlum áhyggjum því það svífst greini- lega einskis.“ Flóra fjölmiðlanna inniheldur fleiri miðla en dagblöð og tímarit og ekki er langt síðan talsvert uppnám varð vegna sjónvarpsþáttar Opruh Winfrey um íslenskar kon- ur, sem Þórunn kom fram í ásamt fleirum. Lítið fór fyrir viðbrögðum Þórunnar á þeim tíma sem umræðan stóð yfir hér heima. „Mér fannst furðulegt að allt þetta fjaðrafok yrði áður en þátturinn var sýndur á Íslandi. Ég ákvað því að segja ekki neitt fyrr en fólk væri búið að sjá hann. Eftir að þátturinn var sýndur var engin frekari umræða og það er eig- inlega allt sem segja þarf. Nokkrum dögum áður en þátturinn var sýndur hér heima heyrði ég í útvarpinu að ég og Svanhildur Hólm hefðum auglýst íslenskar konur sem lauslátar og drykkfelldar. Ég gat ekki annað en hlegið því ég tala hvorki um brenni- vín né lauslæti í þættinum. Reyndar segi ég að við förum á bari til að skemmta okkur og stundum séum við að skemmta okkur allt til sex á morgnana. Ef fólk skoðar miðbæinn um helgar sér það fljótt að þetta er staðreynd. Hvorug okkar Svanhildar hefur löngun til að sverta íslenskar konur og báðar reyndum við að hafa áhrif á hvað yrði sagt í þessum þætti. Eins og alþjóð veit núna var þetta klippt til og til dæmis fékk það sem við sögðum um menntun og sjálf- stæði íslenskra kvenna að fjúka. Mér tókst þó að koma íslenskri fatahönn- un að og sömuleiðis sagði ég frá því hvernig við hitum upp húsin okkar á vistvænan hátt. Ég reyndi eftir bestu getu að skilja eftir fallega mynd af Ís- landi.“ Aldrei verið flugfreyja Í gegnum tíðina hefur Þórunn ekki bara birst fólki í líki ólíkra kvenna á leiksviðinu heldur hefur andlit hennar dúkkað upp hér og þar í ólíku sam- hengi. Einhverjir muna eftir henni sem happdrættisstýru hjá sjónvarpshappdrætti DAS sem fram fór í beinni sjónvarpsútsendingu á fimmtudagskvöldum um tíma. Hún var No Name-andlit ársins 2002, fjallkonan á þjóðhátíðarfagnaði Reykvíkinga árið 2001 og þeir sem hafa lagt leið sína í Geysisstofu í Haukadal hafa tekið eftir henni í hlutverki annars konar fjallkonu, þar sem risastór afsteypa af andliti hennar öðlast líf fyrir tilstilli margmiðlunartækni og fer með ljóð eftir Thor Vilhjálmsson. Þá býður Þórunn farþega Icelandair velkomna og kynnir þá fyrir helstu öryggisatriðum og þjónustu um borð í myndbandi sem sýnt er á millilandaleiðum flugfélagsins. „Það er kannski ágætt að það komi fram hér og nú að ég hef aldrei verið flugfreyja því ég hef verið oftar spurð að því hvenær ég hætti að fljúga en hvað ég heiti,“ segir Þórunn. „Ingibjörg systir sér alfarið um flugið – ég fæ bara að vera með henni í vélinni á skerminum. Ég hóf samstarf við Flugleiðir 1999 og átti upphaflega að vera andlit þeirra í útlöndum. Á þessum tíma var ég að leika í Litlu hryllingsbúðinni og þeir vissu að ég væri að flakka á milli Englands og Íslands og gæti því hagnast á samstarfi við þá. Það samstarf hefur svo þróast þannig að ég sinni fleiri verkefnum fyrir Ice- landair núna en upphaflega var lagt upp með.“ Í sukkborginni Berlín Verkefnið framundan er Þórunni ljúft að taka að sér, enda segir hún Sally Bowles algjört draumahlutverk. „Söngleikurinn Kabarett gerist á uppgangstíma nasista í Þýskalandi í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar,“ segir hún. „Það þekkja flestir tónlistina í verkinu: Mein Herr, Money Makes The World Go ’Round og fleiri lög, en færri þekkja söguna sem er rosalega flott dramatísk saga. Á þessum tíma var Berlín sukkborgin. Fólk, eins og ég og þú, átti ekki í sig og á og neyddist út í vændi því það hafði ekki annað lifibrauð. Ástandið var svakalegt, ekki síst vegna óðaverðbólgu sem geisaði í Þýskalandi. Þess vegna komust hugmyndir eins og nasisminn á flug því þær gáfu von um einhverjar lausnir.“ Þrátt fyrir sögusviðið og tímann sem verkið gerist á er ekki efi í huga Þórunnar um að það eigi erindi við Íslendinga nútímans. „Það er stutt síðan fréttist af því að Ísland væri að verða að einhvers konar stoppistöð fyrir mansal. Við vitum að vændi er stundað á Íslandi. Hérna eru fatafellustaðir og maður heyrir sögur af því að stúlk- urnar sem starfa þar fái ekki að kynnast innfæddum svo þeir fari ekki að aðstoða þær á nokkurn hátt. En einhverra hluta vegna lærum við aldrei af sögunni og leikhús er ágætis vettvangur fyrir okkur til að rifja hana upp. Þarna fór nasisminn allt í einu að taka yfir líf fólks, það mátti ekki lesa ákveðnar bækur og var skikkað til að gera þetta og hitt. Í dag eru stjórnvöld farin að stjórna fólki ofboðslega mikið, til dæmis í sjálfu landi frelsisins, án þess að ég sé að líkja því við nasismann. Við þurfum einfaldlega að vera á varðbergi og minna öðru hvoru á hverjar afleið- ingar stríðs og valdagræðgi eru. Það er svo mikil vitfirring í kringum stríð – fólk tapar sjálfu sér og getur ekki hugsað rökrétt.“ Það er við slíkar aðstæður sem áhorfendur kynnast hinni bresku Sally Bowles og bandaríska rithöf- undinum Cliff Bradshaw í líki Felix Bergssonar. „Við fyrstu sýn er Sally svolítið brjáluð stelpa, kabarettsöng- kona sem langar til að verða æðis- lega dramatísk leikkona. Hún er allt- af pínu drukkin og alltaf ógurlega glöð en undir niðri blundar gríðar- leg óhamingja sem hún leyfir ekki að komast út. Hún á í sambandi við þennan unga rithöfund en í leikrit- inu er Cliff eiginlega málpípa Chri- stophers Isherwoods sem skrifaði Berlínarsögur, bókina sem verkið byggist á. Samband Sallyar og Cliff er þó afskaplega órætt. Þau ná teng- ingu sem að öllum líkindum er ekki kynferðisleg. Einhverra hluta vegna finna þau fyrir gagnkvæmri vænt- umþykju og lifa í einhverri blekk- ingu til að fela það sem er að gerast í alvörunni.“ Auk Þórunnar og Felix fer Magn- ús Jónsson með stórt hlutverk í sýn- ingunni. „Í stykkinu er líka eldra par, sem leikið er af Eddu Þórarinsdóttur og Borg- ari Garðarssyni. Edda leikur konuna sem leigir út herbergin þar sem ævintýri Sallyar og Cliffs gerist og hún er ástfangin af gyðingi sem Borgar leikur. Í gegnum þau sjáum við nasismann og sársaukann sem af honum hlýst og hvernig allt leysist upp í alls- herjar martröð. Reyndar var Edda fyrsta leikkonan sem lék Sally Bowles á sviði hér heima og þess vegna þykir mér mjög vænt um að fá að leika á móti henni í þessu verki núna.“ Hún bætir því við að valinn maður sé í hverju rúmi í sýningunni sem leikstýrt er af Kolbrúnu Halldórsdóttur en tónlistarstjórn er í höndum Karls Olgeirssonar. Þórunn geislar af ákefð þegar hún talar um verkið og Sally, sem hún segir „ótrú- lega flókinn“ karakter. „Ef maður þekkti hana í alvörunni yrði maður sjálfsagt dauð- uppgefinn á henni en Guð minn góður hvað er gaman að leika hana. Mér þykir ótrú- lega vænt um hana enda er þetta bara lítil stelpa sem er rosalega týnd og fer alltaf ranga leið, eins og svo margir.“ Þórunn brosir afsakandi. „Þú verður að fyrirgefa, ég er á bólakafi í sálfræðinni núna af því að ég er að stúdera þessa konu. Eiginlega er ég komin á það að mannkynið í heild sé stórkostlega skrýtið!“ Hún segir þessa und- irbúningsvinnu óskaplega gefandi. „Sérstaklega þegar maður er enn að leita að kar- akternum, áður en búið er að frumsýna. Þetta er eins og að hafa ekki drukkið vatn í fjóra daga og vera alls staðar að leita að því.“ Það styttist í að leitinni að Sally ljúki því frumsýning á Kabarett er 4. ágúst næst- komandi. Hvað framtíð Þórunnar áhrærir heldur leitin þó áfram. „Það eru svo marg- ar dyr að opnast fyrir mér – hugmyndirnar hrúgast að mér og þar sem ég er orðin frjálsari en áður getur bara vel verið að ég láti verða af því að skoða fleiri en eina þeirra.“ | ben@mbl.is EF MAÐUR ÞEKKTI HANA Í ALVÖRUNNI YRÐI MAÐUR SJÁLFSAGT DAUÐUPPGEFINN Á HENNI… MANNKYNIÐ ER STÓRKOSTLEGA SKRÝTIÐ

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.