Morgunblaðið - 10.07.2005, Qupperneq 22
22 | 10.7.2005
ára og býr í Washington-borg. „Mamma kom hingað heim í fyrra, eftir töluvert
hlé, og hitti þá alla gömlu vini sína og var í endalausum kaffiboðum. Hún hefur
komið hingað nokkrum sinnum frá því við fluttum og finnst í hvert sinn að mik-
ið hafi breyst.“
Og hvað fannst henni um þá ákvörðun þína að flytja allt í einu til Íslands?
„Hún varaði mig við, sagði að það gæti tekið svolítið á taugarnar fyrir mig, til
dæmis að bíða eftir að hjólin í bransanum færu að snúast. Og hún hafði að vissu
leyti rétt fyrir sér. En hún dró samt alls ekki úr mér, þvert á móti.“
Þegar færi gefst ekur Chuck um þjóðvegi Íslands og finnst það eftirsókn-
arverð upplifun. „Hér eru margir stórbrotnir staðir. Ég fór nýlega um Borg-
arfjörð, keyrði upp í Skorradal og til baka um Hvalfjörð-
inn. En ég á alveg eftir að fara um Vestfirðina og
Austfirði, til dæmis, og hlakka til að láta verða af því. Ég
bíð eftir því að dóttir mín sjái sér fært að koma í heim-
sókn, til þess að geta farið með hana í almennilegan bíl-
túr.“
Í Grafarvoginum býr Chuck með Guðrúnu Birgisdóttur, alþjóða- og kynning-
arfulltrúa hugvísindadeildar Háskóla Íslands, og dóttur hennar Unni Helgu
Briem. Varlega er spurt hvernig þau Guðrún hafi kynnst og svarið er alls ekki
flókið. „Á dansleik í Iðnó. Þegar ég kom hingað til þess að eyða áramótunum,
fyrir nokkrum árum, kynntist ég Guðrúnu. Við fórum að hittast, kynntumst bet-
ur og skrifuðumst svo á. Það var ekki síst fyrir hennar tilstuðlan að ég ákvað að
flytja hingað.“
Chuck segir að Guðrún hafi frá fyrstu stundu hvatt sig til þess að koma sér á
framfæri, enda kunnug mikilvægi kynningarmála. „Þetta snýst samt ekki um
frægðardrauma, heldur að koma hlutunum til notenda. Ytra vann ég mest að
klæðskerasniðinni hönnun, ef svo má segja, að sértækum lausnum. Og geri
reyndar enn, ef fólk vill,“ segir hann og bendir á vefsíðu sína www.chuck-
mackdesign.com. „En iðnhönnun til fjöldaframleiðslu höfðar líka til mín því
þannig getur maður talað til stórs hóps fólks. Það felst ákveðin umbun í því að
koma á ókunnan stað og ganga þar fram á sína eigin hönnun, sem einhverjum
hefur þótt ástæða til að eignast. Síðan ég flutti til Íslands hef ég eytt meira fé í
vinnu mína en ég hef grætt, en það hlýtur að fara að snúast við.“
Hann kveður vinnubrögð sín ólík sumum öðrum hönnuðum að því leyti að
hann geri ávallt módel í fullri stærð af hlutunum. „Sumir gera þrívíddarlíkan í
tölvu, eða teikna tvívíðar myndir, en ég verð alltaf að sjá hlutinn sjálfan í þrívídd,
hið sjónræna jafnvægi. Þannig er líka auðveldara að útskýra notkun hans fyrir
öðrum.“ Vestra vann hann lengi í byggingariðnaði og vandist því þá að þurfa að
leysa úr ýmsum smíðaverkefnum með hugmyndaauðgi og verksviti. Og eins og
hann lýsir því á heimasíðu sinni fara gjarnan saman verksvit og ástríða, þegar
verk er í undirbúningi: „Ég ráfa um eins og annars hugar prófessor á meðan
vandamál þarfnast lausnar. Um leið og ég dett niður á lausnina æði ég af stað
eins og brjálaður vísindamaður til að prófa hana.“
Hvar birtist helsti munurinn á daglegu lífi íslensku
og bandarísku?
„Menningarmunurinn er talsverður, og ég er smám
saman að stilla mig inn á hann. Íslenskt samfélag er sér-
stakt að ýmsu leyti og margt er hér hressandi – eins og
til dæmis viðhorf til trúarinnar. Streitustuðullinn finnst
mér hins vegar hærri í Bandaríkjunum,“ segir Chuck, sem hlýtur að vekja athygli
þeirra sem telja Íslendinga stressinu ofurselda. „Jú, jú, hér er margt fólk afar
virkt og framtakssamt, en þið takið til dæmis mun lengri frí og sumarleyfi. Í
Bandaríkjunum er aldrei neinu lokað, allt er nánast opið allan sólarhringinn.
Hér fara hins vegar allir út úr bænum um helgar til þess að komast í sum-
arbústað, þeir hætta jafnvel fyrr á föstudögum. Í New York kemst fólk hvorki
lönd né strönd – því það er að vinna frameftir.“ Chuck brosir, tekur þó fram að
Íslendingar hafi hert sig í hinni svokölluðu neyslumenningu á síðustu misserum,
hvort sem það sé nú kostur eða skaði. „Þeir eru líka að verða tengdari umheim-
inum á margslungnari hátt, ein birtingarmynd þess eru fjárfestingar á al-
þjóðavettvangi, sem mikið eru í fréttum.“
Hann á hér að sjálfsögðu ættingja úr móðurætt, sem hann hittir þegar færi
gefast, en slær þó ekki slöku við í bílskúrnum. „Að útfæra hugmynd krefst mik-
illar einbeitingar og hluti af öllu ferlinu er að lenda stundum í öngstræti. Auðvit-
að er heimurinn fullur af hlutum en ég hef þá trú að ef maður skynjar þörf og
mætir henni með sniðugu verki, þá sé alltaf pláss fyrir nýja hönnun.“
| sith@mbl.is
Tölvuteikning af tillögu Chuck um minnisvarða um Tvíburaturnana, hringur á sjö steinsúlum.
HUGMYNDIN KVIKNAÐI Í BÍLALEST
C huck Mack var eini fulltrúi Íslandsí samkeppni um minnisvarða um
árásirnar á Tvíburaturnana í New York
11. september 2001 og 26. febrúar
1993, en auglýst var eftir tillögum á al-
þjóðavettvangi og úrslit kynnt í fyrra. Um
þessar mundir er verið að vinna að út-
færslu sigurtillögunnar, sem skiptar skoð-
anir hafa verið um, en þátttakan í sam-
keppninni er Chuck ofarlega í huga, enda
lærdómsríkt ferli.
„Eiginlega var algjör tilviljun að ég sog-
aðist að þessu verkefni. Það hafði verið
orðað við mig snemma að hugsa upp verk
í þessa keppni, en mér fannst það einum
of stórt og umfangsmikið. Svo var það
einn daginn að ég sat fastur í umferð-
aröngþveiti í New York, eftir að hafa
slysast til þess að aka inn í borgina en
ekki fram hjá henni, á leið minni til Bost-
on. Þar sem ég sat í bílnum hafði ég næg-
an tíma til að hugsa og sá fyrir mér þenn-
an upphafna hring. Þegar auglýst var
formlega eftir tillögum hvatti dóttir mín
mig til þess að taka þátt,“ segir Chuck en
bætir við að tillögurnar hafi þurft að
mæta flóknum og ströngum reglum
keppnishaldara. „Þetta var heilmikið mál
og kostaði nokkurt fé. En ég fékk góða
menn í lið með mér, reyndar fékk ég mjög
góðan íslenskan stuðning. Kjartan Guð-
jónsson listmálari teiknaði tillöguna,
Ragnar Th. Sigurðsson útfærði myndir,
Egill R. Sveinbjörnsson hjá Onno gerði
mjög flottar grafískar útfærslur. Þetta
var ómetanlegur stuðningur og hvatning.
Ég komst auðvitað ekki í úrslit, enda
gerði ég mér aldrei í hugarlund að ég
myndi sigra í þessari keppni, en þó fékk
ég dálitla vísbendingu um það frá keppn-
ishöldurum að tillaga mín hefði enn verið
til skoðunar á síðari stigum. Hvað sem
því líður er ég kátur með að hafa tekið
þátt í svo stórri keppni, mitt eina mark-
mið var að senda inn tillögu sem ég gæti
verið stoltur af.“
Í minnismerki Chucks býr töluverð tákn-
fræði, það byggist á 9 metra háum steins-
úlum sem halda uppi hring með 11 metra
radíus. Tölurnar níu og ellefu vísa í dag-
setningu hryðjuverkaárásarinnar, 11.9.
eða 9/11 eins og Bandaríkjamenn segja.
Þá eru súlurnar sjö talsins. „Flugvélarnar
voru fjórar og flugu á þrjár byggingar;
turnana tvo og Pentagon,“ útskýrir
Chuck, 4+3=7. Þá skýrir hann merkingu
hringsins. „Mér sýnist sem dómnefndin
hafi verið mjög með hugann við hinn
harmræna þátt atburðanna, fjörtjónið
sem árásirnar ollu. Ég einbeitti mér hins
vegar að því að túlka samhug fólks eftir
árásirnar, hvernig fólk kom saman og
hjálpaðist að. Hringurinn táknar þetta
bandalag fólks, ásamt því að lýsa hvernig
atburðirnir tengdust í eina keðju.“ Í texta
með tillögu sinni lýsir Chuck því hvernig
fólk lagði handleggi á axlir hvert annars
og stóð hljóðlega í litlum hringjum við
minningarathafnir á svæðinu, meðan
nöfn hinna látnu voru lesin upp. Þá segir
hann ennfremur að fólk um alla heims-
byggðina hafi tekið höndum saman um að
sýna íbúum New York stuðning. „Ég er
sjálfur fæddur í New York. Reyndar lít ég
ekki á mig sem New York búa, því ég hef
ekki dvalið þar að staðaldri, en ég kem
þangað reglulega.“
Sigurvegari samkeppninnar var Ísraeli,
búsettur í New York, og er tillaga hans
sögð endurspegla tóm og fjarveru hinna
horfnu turna. „Mikill styr hefur staðið
um þessa framkvæmd alla og enn er
þarna gapandi sár í jörðinni. Fjölskyldur
fórnarlambanna eru meðal þeirra sem
ekki hafa verið alls kostar ánægðar með
ráðstöfun svæðisins, en yfirvöld virðast
ætla að halda sínu striki. Landsvæðið er í
eigu hafnaryfirvalda á Manhattan, en
verkefnið er styrkt með alríkisfjármunum.
Mér finnst spennandi að fylgjast með
þessu, bæði vegna þátttöku minnar en
ekki síður vegna þess að þetta voru stórir
atburðir og áhrifamiklir á líf margra.“
Á heimasíðu keppninnar, www.wtcsiteme-
morial.com, má skoða allar innsendar til-
lögur, frá 63 þjóðlöndum.
Tillaga að minnisvarða um hryðjuverkaárásirnar í New York
En ég á alveg eftir að fara
um Vestfirðina og Austfirði,
til dæmis, og hlakka til.
MAMMA VARAÐI MIG VIÐ