Morgunblaðið - 10.07.2005, Qupperneq 26

Morgunblaðið - 10.07.2005, Qupperneq 26
26 | 10.7.2005 Á tveggja ára fresti safnast vínheimurinn saman í Bordeaux í Suðvestur-Frakklandi. Á sýningunni Vinexpo sýna vínframleiðendur úr öllum heims-álfum afurðir sínar og framleiðendur, kaupendur, seljendur, innflytjendur, ráðgjafar, blaðamenn og aðrir þeir er hafa atvinnu af víni safnast saman til að treysta sambönd, kynna sér nýjungar og fylgjast með straumum og stefnum. Að þessu sinni voru gestir sýningarinnar um 50 þúsund talsins og aldrei hafa útlendingar verið fleiri. Sýningarsvæðið er gífurlega stórt og geta verið heilu kílómetrarnir á milli ein- stakra sýnenda. Það er mikið skrafað, spáð og spekúlerað í kringum Vinexpo enda gefst ekki betra tækifæri til að velta fyrir sér því sem er að gerast á þessu sviði, þarna eru sam- ankomin nær öll þau fyrirtæki og þeir einstaklingar sem skipta máli á þessu sviði í heiminum. Færri ráða ferðinni | Og hverjir skyldu nú meginstraumarnir vera? Það sem stend- ur upp úr er að togstreitan milli gamla heimsins og hins nýja í víni er að aukast og víglínurnar að breytast. Gamli heimurinn (það er hin hefð- bundnu víngerðarríki Evrópu) á enn undir högg að sækja – en er að leita að vopnum sínum – og sá nýi er ekki lengur jafn nýr og hann var en hefur á móti mun meira sjálfstraust en áður hefur sést. Að sama skapi blasir við að samþjöppun markaðar- ins verður æ meiri og stærri og færri aðilar ráða ferðinni í auknum mæli. Þessi þróun bitnar hvað harðast á ríkjum á borð við Frakkland og Ítal- íu sem eru annars vegar mjög hefð- bundin vínframleiðsluríki og hins vegar ríki þar sem framleiðslan byggir í ríkum mæli á öreindum – einstaka bændum og smáfyrirtækj- um – í stað risavaxinna samsteypna er eiga auðveldara með að byggja dreifi- og markaðskerfi á heimsvísu og semja við hin risavöxnu smásölu- fyrirtæki er í auknum mæli ráða ferðinni víðast hvar í heiminum. Fyrir áratug komu 90% þeirra vína sem flutt voru út frá framleiðslurík- inu frá fimm stærstu vínframleiðsluríkjum Evrópu, nú er það hlutfall komið niður í 64%. Tökum Frakkland sem dæmi en Frakkar eru enn mesta vínútflutningsríki heims og vín er fimmta mikilvægasta útflutningsafurð Frakklands á eftir flugvélum, bíl- um, lyfjum og hátæknibúnaði. Um fimmtungur allra vína í heiminum kemur frá Frakklandi en það er ekki víst að svo verði í framtíðinni. Frakkar þurfa annars vegar að horfast í augu við stöðugan samdrátt í innlendri neyslu (neytendur drekka minna magn, en dýrari vín) og hins vegar rúmlega 5% samdrátt í útflutningi á síðasta ári. Þegar horft er til einstakra svæða er útlitið enn svartara og til dæmis dróst fram- leiðsla frá Bordeaux (sem framleiðir sambærilegt magn árlega og Ástralía) saman um fimmtung í fyrra. Hvernig stendur á þessu? | Stóra spurningin sem Frakkar (og aðrar vínfram- leiðsluþjóðir Evrópu sem standa frammi fyrir svipuðu) spyrja sig er hvernig standi á þessu? Svarið er margþætt en mestu máli virðist skipta að annars vegar eru vín í auknum mæli seld í stórum verslanakeðjum á borð við Tesco og Sainsbury’s í Bret- landi eða Carrefour í Frakklandi og þessar keðjur eru í auknum mæli farnar að leggja áherslu á framlegð í stað úrvals. Í Bretlandi fara um 80% vínsölunnar fram í stóru verslanakeðjunum og þær eru nú flestar að skera niður úrvalið svo um munar. Hins vegar virðist meðalneytandinn í auknum mæli leggja áherslu á umbúðir, ímynd og verð í stað þess að festa sig við einstök héruð. Vínframleiðendur eru í auknum mæli farnir að laga sig að þessari samþjöppun þar sem mestu máli skiptir að umbúðir séu frambærilegar og innihaldið „alþjóðlegt“ og aðgengilegt. Þá er mikið talað um að vínin þurfi að höfða til kvenna eftir að rannsóknir hafa leitt í ljós að það eru í flestum tilvikum konur sem sjá um víninnkaupin! Allt kemur þetta Nýja heiminum til góða þar sem fá en mjög stór fyrirtæki ráða yfir nær öllum útflutningi (Ástralía og Chile eru skýr dæmi um það en um handfylli fyrirtækja er allsráðandi í útflutningi) auk þess sem varan er auðþekkjanleg og að- gengileg. Vín eru flokkuð eftir því hvaða þrúga er notuð en ekki samkvæmt flókn- um landfræðilegum reglum líkt og í Evrópu. Einungis í Frakklandi falla um 450 svæði undir skilgreininguna AOC (Appelation d’Origine Controllée) en stór hluti neytenda – jafnvel í Frakklandi – hefur ekki hugmynd um það hvað þetta kerfi þýð- ir. Þá eru franskir vínframleiðendur um 40 þúsund og vínbúgarðarnir – oft nefndir chateaux eða domaine – eru um jafnmargir. Sumir svara því til að Frakkar, Ítalir og aðrar evrópskar vínframleiðsluþjóðir verði að laga sig að markaðnum, bjóða vöru sem hægt er að markaðssetja um allan heim með einföldum hætti. Búa til vörumerki eða „brand“. Vandinn er sá að það getur verið erfitt að gera slíkt án þess að kippa fótunum undan öllu því sem gerir Evrópu að mikilvægasta víngerðarsvæði veraldar. Því þótt t.d. Frakkland eigi undir högg að sækja á heildina litið þá breytir það ekki því að bestu vín bestu svæðanna eru enn þau eft- irsóttustu í heimi. Menn kvarta ekki mikið í Crand Cru-húsum Bordeaux en bilið á milli þeirra húsa og litlu framleiðendanna á jað- arsvæðunum verður stöðugt breið- ara. Það var hins vegar ljóst á Vin- expo að stóru vínríkin í Evrópu ætla að mæta samkeppninni af full- um krafti og landbúnaðarráðherra Frakka lýsti því yfir að hann teldi rétt að endurskoða AOC-löggjöfina til að gefa framleiðendum aukinn sveigjanleika og tækifæri. Slíkt hefði verið óhugsandi fyrir nokkr- um árum. Það er hins vegar á bratt- ann að sækja. Fyrirtæki sem sér- hæfa sig í því að spá fyrir um vínmarkaðinn telja að vínneysla í heiminum muni aukast um allt að 60% á næsta áratug, ekki síst vegna nýrra markaða í Asíu. Það eru hins vegar nýju framleiðsluríkin á borð við Ástralíu, Chile og Argentínu sem munu fyrst og fremst njóta góðs af því. Eina Evrópuríkið sem spáð er stórauknum umsvifum er Portúgal. Jafn- vel er talið að Bandaríkin muni á næstu árum sigla fram úr Frakklandi sem mesta vínneysluríki veraldar (hér er ekki miðað við höfðatölu, heldur heild), líklega þegar árið 2008. Líbýa, Kanada og góðkunningjar | Nýi heimurinn þarf hins vegar einnig að takast á við margvísleg vandamál. Aldrei hafa til dæmis fleiri framleiðendur frá Chile verið á Vinexpo en nú en fæstir þeirra nýju höfðu nokkur sérkenni. Þeir sem fylgjast grannt með markaðnum spá því að fljótlega muni stærri og eldri fyrirtæki með sterk mark- aðstengsl kaupa upp stóran hluta smærri framleiðenda. Lítil og ný framleiðsluríki eiga sömuleiðis erfitt uppdráttar. Framleiðendur frá Uruguay reyna að vekja athygli á Tannat-þrúgunni sem hefur hins vegar aldrei verið ein af mikilvægustu þrúgum upprunalandsins Frakklands, ólíkt t.d. Cabernet Sauvignon, Chardonnay og Syrah. Líbanskir framleiðendur voru nokkuð áberandi og sömuleiðis reyndi Kanada að vekja athygli á sér. Kanadískur sérfræðingur sem gjörþekkir markaðinn sagði hins vegar við mig: Hver í ósköpunum sækist eftir kanadísku víni? Þýskir vínframleiðendur voru hins vegar brattir og buðu upp á stórkostlegar smakkanir sem sýndu og sönnuðu að þýsk vín eiga svo sannarlega möguleika ef menn kjósa hæstu gæði. Það sama var uppi á teningnum hjá austurrísku framleið- endunum og mörgum af þeim ítölsku og spænsku að ekki sé minnst á einstök héruð Frakklands á borð við Cahors, Loire. Vínunnendur þurfa því ekki að örvænta alveg strax um að einsleitnin verði alls- ráðandi þótt vissulega sé það gífurlegt áhyggjuefni að einsleitnin virðist vera leið- arljós í smásölu í Evrópu og er ÁTVR þar ekki undanskilið. Því miður er það svo að framboðið hér á Íslandi virðist vera á sömu leið og t.d. í breskum stórmörkuðum, þ.e. stöðugt minna um gæðavín sem bjóða upp á einhver sérkenni. VÍN | STEINGRÍMUR SIGURGEIRSSON EINSLEITNI EÐA FJÖLBREYTNI – SPEKINGAR SPÁ Togstreitan milli gamla heimsins og hins nýja í víni er að aukast RANNSÓKNIR HAFA LEITT Í LJÓS AÐ ÞAÐ ERU Í FLEST- UM TILVIKUM KONUR SEM SJÁ UM VÍNINNKAUPIN!

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.