Morgunblaðið - 11.09.2005, Side 30
30 | 11.9.2005
SMÁMUNIR…
Hver kannast ekki við vesenið sem fylgir því þegar mað-
ur ætlar sér að vera smart og menningarlegur og borða
með kínverskum prjónum? Sé maður ekki útbúinn
galdrafingrum er afraksturinn gjarnan sá að prjónarnir
hlaupa langt frá hvor öðrum í höndunum á manni og
maturinn endar utan á maganum, en ekki inni í honum
eins og til stóð í upphafi. Nú hefur lausn verið fundin á
þessu vandamáli. Til eru plastprjónar sem eru þeirrar
náttúru að þeir hanga saman á endanum. Á hinum end-
anum eru þeir flatir og með rifflum til að auðvelda grip-
ið utan um matinn. Ekki er ósvipað að beita þessum am-
boðum og flísatöng, bara auðveldara ef eitthvað er.
Plastprjónunum má svo henda í uppþvottavél að notkun
lokinni. Kínversku töfraprjónarnir fást í Tiger og kosta
200 krónur parið.
Kínverskir prjónar …
… fyrir þá sem eru lélegir í að borða
með kínverskum prjónum
Litaklónun er orðið sem Helena Rubinstein notar yfir
virkni nýs rakakrems sem sett var á markað í sumar.
Liturinn í Color Clone-kreminu ku samlagast húðlit
notandans með þeim hætti að útkoman er eins og
náttúruleg sólarbrúnka. Magicproof-maskarinn frá
sama merki er gegnsæ hula sem sett er yfir þann
maskara sem notaður er daglega. Með því verður
hann vatnsheldur og förðunin helst lengur fram eftir
degi. Loks setja frísklegir sumartónarnir í Lotus Leg-
end-augnskuggunum punktinn yfir i-ið.
Nýjungar fyrir augu og húð
Nýstigin upp úr skaðræðisflensu drattaðist ég áflóamarkað og ráfaði þar um í dálitla stund. Alltum kring hjalaði fólk og handlék misgamla
hluti. Kannski leyndust enn flensuleifar í líkamanum eða
þá að pensilínið hafði tekið sinn toll því skyndilega
svimaði mig. Bjóst hálft í hvoru við að svífa upp úr
sjálfri mér og ofan í einn af öllum þessum lömpum sem
verið var að selja. Og ég fann fyrir undarlegum trega,
mildum og ertandi í senn; þyrsti í eitthvað sem ég vissi
ekki almennilega hvað var, ekki strax. Svo þegar heim
kom rann upp fyrir mér að mig langaði að hitta ömmur
mínar.
Hafði gamla dótið haft þessi áhrif eða kallar líkaminn
ósjálfrátt á hugulsama ömmu þegar hann berst við að ná
sér upp úr máttleysinu sem fylgir inflúensu? Vissi það
ekki – en þörfin fyrir ömmurnar
ágerðist. Brátt var hún orðin svo
fyrirferðarmikil að mig langaði að
hitta bara einhverja eldri mann-
eskju: sitja með henni við dúkað
borð, dreypa á kaffisopa og rabba
um lífið og tilveruna.
En hvar átti ég að finna mann-
eskju um áttrætt síðdegis á sunnu-
degi í ungdómshverfinu Norðurbrú
í Kaupmannahöfn? Kannski séns að
finna slíka manneskju – en líklega
yrði hún bara hrædd ef ég ávarpaði hana úti á götu. Ég
gat ekki einu sinni hringt í ömmur mínar heima á Íslandi
því ég var nýflutt og símalaus næstu daga.
Í örvæntingu minni rámaði mig í auglýsingapésa sem
höfðu legið á víð og dreif í fyrra, en í þeim var skorað á
unga nýbúa í Danmörku að gerast ,,vinir“ eldra fólks:
veita því félagsskap, njóta nærveru þeirra og bæta
dönskukunnáttuna í leiðinni. Nú dauðsá ég eftir að hafa
ekki gripið gæsina meðan hún gafst og vingast við elsku-
lega(n) konu eða karl (þá myndi ég líklega tala drottn-
ingardönsku í staðinn fyrir Jónsdóttur-dönsku sem er
tungumál talað af einni manneskju í heiminum). Bara ef
ég hefði stungið á mig bæklingi – þá hefði verið auðvelt
að seðja skyndilegt hungrið í eldri borgara. En maður
tryggir ekki eftir á.
Aftur á móti reif þetta klúður mig eitt augnablik upp
úr eigin fýsnum og minnti mig á hvað eldri manneskjur
eru mikið einar og hve oft þær hljóta að sakna fé-
lagsskapar sér yngra fólks, oft á tíðum barna og barna-
barna. Þessar einmana manneskjur hljóta að vera margar
hér í Danmörku fyrst auglýsingapésarnir voru prentaðir í
tugþúsundatali – og eflaust er ekki vanþörf á að prenta
svipaða pésa heima á Íslandi: skora á ungt fólk að njóta
félagsskapar eldra fólks. Það er synd og skömm hve
margar eldri manneskjur sitja einar á öllum sínum ágæt-
um, meira en reiðubúnar að deila þeim með öðrum – en
því miður búa ófáar ungar manneskjur í öðrum löndum
eða hafa alltof þéttskipaðan hvunndag til að heimsækja
ömmur sínar og afa sína.
Tilhugsunin gerði mig sorgmædda, já nú var ég bæði
meyr og leið yfir þessu öllu saman. Kannski var ég sjálf
dálítið gömul þennan dag. Maður verður það þegar
skrokkurinn gefur sig sisona.
En daginn eftir hringdi tæplega sjötug tengdamamma
mín, sem dvelur hér tímabundið og var nýkomin heim
úr stuttri ferð. Við hittumst á kaffihúsi og það lifnaði yf-
ir mér þegar ég sá hana með hvíta fartölvu, mjóan vindil,
ískaffi og kaskeiti úr H&M. Hún var jafnung og ég hafði
verið gömul deginum áður. | audur@jonsdottir.com
Ömmur mínar –
ég sakna ykkar!
Pistill
Auður
Jónsdóttir
Það er synd og skömm
hve margar eldri mann-
eskjur sitja einar á öll-
um sínum ágætum.