Fréttablaðið - 01.10.2002, Blaðsíða 4
4 1. október 2002 ÞRIÐJUDAGUR
STJÓRNMÁL
ERLENT
AFPLÁNUN Enginn þeirra ósakhæfu
afbrotamanna sem dæmdir hafa
verið til vistunar á Sogni og þaðan
útskrifaðir hafa framið brot eftir
útskrift, að sögn Magnúsar Skúla-
sonar, yfirlæknis á Sogni. Hann
segir afskaplega vel hafa tekist til
með þá afbrotamenn sem dæmdir
hafa verið ósakhæfir. „Eftir að
þessir menn útskrifast frá okkur
er ákveðin eftirfylgni af okkar
hálfu sem þeir gangast undir. Mér
er ekki kunnugt um að neinn þeir-
ra hafi brotið af sér eftir að henni
lýkur. Þvert á móti finnst mér þeir
sýna deildinni á Sogni mikla holl-
ustu eftir að þeir hverfa frá okkur.
Þeir koma gjarnan í heimsókn og
halda tengslum að eigin frum-
kvæði.“
Magnús segir að menn rugli
gjarnan saman þeim geðfötluðu af-
brotamönnum sem dæmdir eru
óskahæfir við hina sem séu sak-
hæfir en eigi að síður mjög veikir.
„Við höfum haft þá til meðferðar
hjá okkur en höfum enga lögsögu
yfir þeim eins og hinum. Því er það
oft að eftir að afplánun lýkur fara
þeir frá okkur, burtséð frá því
hvort þeir eru hæfir til þess eða
ekki. Vissulega reynum við allt
sem í okkar valdi stendur til að
hjálpa þeim og koma þannig í veg
fyrir að þeir fari frá okkur í slæmu
ástandi en Fangelsismálastofnun
hefur lögsögu yfir þeim og eftir að
dómi lýkur eru þeir frjálsir ferða
sinna.“
Steinn Ármann Stefánsson, sem
grunaður er um að hafa orðið Braga
Ólafssyni að bana, var vistaður um
tíma á Sogni en hafði verið fluttur
aftur í almennt fangelsi áður en
honum var sleppt. Steinn Ármann
var talinn sakhæfur.
Réttargæsludeildin á Sogni:
Enginn framið brot eftir meðferð
MAGNÚS SKÚLASON
Hann segir að þegar sakhæfir afbrota-
menn fari frá Sogni eftir að afplánun þeirra
ljúki séu þeir í sumum tilfellum alls ekki
hæfir til að takast á við lífið og sama
hringrásin hefjist því miður að nýju. Ekki
sé við Sogn að sakast því þeir hafi ekki
lögsögu yfir sakhæfum afbrotarmönnum.
Kvenkyns stjórnendur:
Oftar
einhleypir
DANMÖRK 20% danskra kvenna í
stjórnunarstöðu eru einhleypar
en eingöngu 6% karla. Þetta
kemur fram í nýrri danskri
rannsókn sem gerð var fyrir
tímaritið Lederne eða stjórnend-
urnir. Karen Schultz, atvinnu-
lífssálfræðingur, segir að hluti
skýringarinnar sé sú hefð að
konur giftast heldur mönnum
sem hafa meiri menntun en þær
og eru í betri stöðu. Karlar vilji
hins vegar alveg giftast konum
sem eru minna menntaðar en
þeir. Langur vinnutími sjái ein-
nig til þess að færri konur endi í
stjórnunarstöðu, þær beri nefni-
lega enn meginábyrgð á heimil-
inu og geti því ekki unnið jafn
mikið og karlarnir.
LÖGREGLUFRÉTTIR
Þorgerður Þorgilsdóttir hefurtilkynnt þátttöku í prófkjöri
Samfylkingar í Norðausturkjör-
dæmi. Þorgerður er sjúkraliði og
hefur verið formaður Norður-
landsdeildar SÁÁ um árabil.
Jóhann Geirdal, oddviti Sam-fylkingarinnar í Reykjanes-
bæ, sækist eftir 2. sæti í próf-
kjöri Samfylkingar í Suðurkjör-
dæmi.
Lára Stefánsdóttir gefur kost ásér í prófkjöri Samfylkingar í
Norðausturkjördæmi. Lára hef-
ur unnið við upplýsingatækni
um langt skeið, meðal annars í
Menntaskólanum á Akureyri.
BYGGINGAR Byggingarkostnaður
við hvern fermetra í nývígðum
alþingisskála við Alþingishúsið
er 330 þúsund krónur en alls er
byggingin 2.460 fermetrar og
kostaði rúmar 800 milljónir
króna. Hluti byggingarinnar er
neðanjarðar í formi bílageymslu,
alls 1.310 fermetrar, og að mati
sérfræðinga er kostnaður þar á
hvern fermetra mun lægri en of-
anjarðar; slá byggingameistarar
á 100 þúsund krónur á fermetra.
Að því gefnu er byggingarkostn-
aður á hvern fermetra í alþingis-
skálanum 590 þúsund krónur. Til
samanburðar má geta þess að í
vönduðu íbúðarhúsi er reiknað
með að hver fermetri kosti um
150 þúsund krónur í byggingu.
„Það er ekki hægt að bera
þessa byggingu saman við annað
hús sem stendur upp á holti. Í
bílageymslu gætir flóðs og fjöru
og við bygginguna þurfti að taka
tilliti til hugsanlegra fornminja,“
segir Halldór Blöndal, forseti Al-
þingis. „Samanburðurinn er því
út í hött. Það var vandað vel til
þessa húss án þess að vera með
óhóf. Skálinn fellur vel að virðu-
legu Alþingishúsinu sem margir
telja fallegasta hús á Íslandi
vegna þeirra tilfinninga sem fólk
ber til þess,“ segir forseti Al-
þingis.
Viðbyggingin við Alþingishúsið:
Fermetrinn á 330
þúsund krónur -
og jafnvel meira
HALLDÓR BLÖNDAL Í GÓÐUM FÉLAGSSKAP VIÐ VÍGSLU ALÞINGISSKÁLANS
Ekki hægt að bera saman við annað hús sem stendur upp á holti. Flóðs og fjöru gætir
í kjallara.
FR
ÉT
TA
B
LA
Ð
IÐ
/B
IL
LI
JERÚSALEM, RAMALLAH, AP Ísraelskir
fjölmiðlar og ráðherrar í stjórn
Ariels Sharons gagnrýndu í gær
tíu daga langt umsátur ísraelska
hersins um höfuðstöðvar Jassers
Arafats í Ramallah. Gagnrýnin
beindist þó einkum að því að Shar-
on hefði vanmetið andstöðu
Bandaríkjanna við þessar aðgerð-
ir. Mikill þrýstingur frá Banda-
ríkjunum varð til þess að Sharon
aflétti umsátrinu á sunnudags-
kvöldið.
„Við tókum ekki með í reikn-
inginn hve langt Bandaríkin voru
komin af stað með að telja niður í
árásina á Írak,“ sagði Natan
Sharansky, húsnæðismálaráð-
herra í stjórn Sharons. „Ákvörð-
unin var tekin í flýti, og þetta er
útkoman.“
Sharon sjálfur hélt á sunnu-
dagskvöld í þriggja daga heim-
sókn til Rússlands strax eftir að
hann hafði skýrt frá því að um-
sátrinu yrði aflétt.
Ísraelski herinn lagði í rúst
nánast allar byggingar á stjórnar-
lóð Palestínumanna í Ramallah.
Aðeins ein bygging stóð að hluta
til uppi. Þar dvaldist Arafat ásamt
um það bil 200 manns meðan á
umsátrinu stóð.
Í gær drápu ísraelskir her-
menn 13 ára palestínskan dreng í
bænum Nablus á Vesturbakkan-
um. Tíu önnur börn særðust, flest
á leiðinni í eða úr skóla. Algengt
er að palestínsk börn brjóti gegn
útgöngubanni ísraelska hersins til
þess að komast í og úr skóla.
Tvö ár eru liðin frá því uppreisn
Palestínumanna hófst. Linnulítil
átök Ísraelsmanna og Palestínu-
manna síðan þá hafa kostað á ann-
að þúsund manns lífið.
Í nýrri skýrslu frá mannrétt-
indasamtökunum Amnesty
International segir að í átökum
Ísraelsmanna og Palestínumana
síðustu tvö ár hafi meira en 250
palestínsk börn og 72 ísraelsk
börn týnt lífinu.
Samtökin segja að bæði ísra-
elsk og palestínsk stjórnvöld beri
ábyrgð á því, hve mörg börn hafa
látið lífið í þessum átökum. Ísra-
elsk stjórnvöld hafa ekki látið
rannsaka misgerðir eigin her-
manna og leiðtogar Palestínu-
manna hafi hvorki komið í veg
fyrir árásir á Ísraelsmenn né látið
draga fyrir dóm þá sem bera
ábyrgðina.
Sharon gagn-
rýndur í Ísrael
Umsátrið um höfuðstöðvar Arafats sagt vanhugsað. Meira en 300 börn
hafa látist í átökum Ísraelsmanna og Palestínumanna. Tvö ár frá því
uppreisn Palestínumanna hófst.
KOMIÐ ÚT ÚR RÚSTUNUM
Nokkrir Palestínumenn sjást þarna koma út úr rústunum af höfuðstöðvum Jassers Arafats
í Ramallah. Ísraelsher gjöreyðilagði í síðustu viku flestar byggingar á stjórnarlóðinni.
AP
/N
AS
SE
R
N
AS
SE
R
Tuttugu og sjö ökumenn vorustöðvaðir fyrir hraðakstur í
Reykjavík um helgina. Athygli
vakti að langflestir þeirra voru
undir tvítugu og nokkrir nýkomn-
ir með bílpróf. 17 ára stúlka var
meðal þeirra sem var stöðvuð.
Hafði hún mælst aka eftir Sæ-
braut á 101 km hraða. Þá ók 17
ára piltur fram úr lögreglubifreið
á 120 km hraða á Vesturlandsvegi
í Ártúnsbrekku. Kvaðst hann
ekki hafa tekið eftir því að það
var lögreglubifreið sem hann ók
fram úr.
Tími nagladekkja er ekki runn-inn upp. Lögreglan í Reykja-
vík þurfti að hafa afskipti af
tveimur ökumönnum um helgina
sem vildu vera klárir í tíma fyrir
veturinn.
Nokkrir ungir menn gerðu til-raun til að svíkja út vörur
með stolnu greiðslukorti í sölu-
skála Shell á Selfossi um helgina.
Athugull starfsmaður veitti því
athygli að kortið tilheyrði þeim
ekki. Þegar mönnunum varð ljóst
að þeir fengu ekki afgreiðslu með
þessum hætti höfðu þeir sig á
brott hið snarasta.
Fjölskylda
Steins Ármanns:
Ráðuneyti
vinni að
úrræðum
fyrir geð-
sjúka
YFIRLÝSING Fjölskylda Steins Ár-
manns Stefánssonar, sem grun-
aður er um morðið á Braga
Ólafssyni, hefur sent frá sér yf-
irlýsingu þar sem hún harmar þá
skelfilegu atburði sem áttu sér
stað að kvöldi fimmtudagsins 26.
september. Telur fjölskyldan að
ekki verði hjá því komist að
benda á aðgerðarleysi stjórn-
valda og heilbrigðisyfirvalda í
málum hins grunaða.
Jafnframt segir: „Við fjöl-
skylda Steins höfum í nær 25 ár
gengið frá Pontíusi til Pílatusar í
þeirri von að einhverjar úr-
lausnir finnist á málum hans, en
árangurinn er sá sem alþjóð
veit. Krafa okkar er að öll ráðu-
neyti taki höndum saman og
vinni að úrræðum sem duga fyr-
ir það ógæfusama fólk sem
greinist geðsjúkt. Enginn ræður
sínum skapadómi. Ísland er að
flestu gott samfélag en aðstæður
geðsjúkra eru smánarblettur
sem verður að eyða. Geðsjúkir
eiga ekki að liggja utangarðs í
velferðarsamfélaginu forsmáðir
og fyrirlitnir.
Og að lokum. Er eðlilegt að
maður með lögheimili á Réttar-
geðdeildinni á Sogni skuli á
sama tíma vera í haldi lögreglu
grunaður um morð?“
KJÖRKASSINN
Farðu inn á frett.is og segðu
þína skoðun
frétt.is
54,4%
Nei 45,6%
Fylgist þú með Íslenskum
handbolta ?
Spurning dagsins í dag:
Finnst þér Alþingi starfa of stuttan tíma,
hæfilega lengi eða of lengi ?
Niðurstöður gærdagsins
á www.frett.is
Já
HANDBOLTI
Rúmur helmingur
segist fylgjast með
Íslenskum handbolta.
Sextán lík hafa fundist eftir að snjó- og aurskriða gekk
yfir í suðurhluta Rússlands fyrir
ellefu dögum. 132 manna er enn
saknað.