Fréttablaðið - 06.02.2009, Side 2
2 6. febrúar 2009 FÖSTUDAGUR
STJÓRNSÝSLA Bankastjórar Seðla-
bankans ætla að svara Jóhönnu
Sigurðardóttur forsætisráðherra
því „fyrr en seinna“ hvort þeir
munu fara að tilmælum hennar um
að víkja úr stjórn Seðlabankans, að
sögn Ingimundar Friðrikssonar
bankastjóra. Bankastjórarnir þrír
funduðu um málið í gærkvöldi, en
gáfu ekkert svar þótt frestur sem
ráðherra gaf þeim til að svara hefði
runnið út í gær.
Það sem skýrir töfina, að sögn
Ingimundar, er að Davíð Oddsson,
formaður stjórnarinnar, hefur
verið í vinnuferð í London og kom
ekki til landsins fyrr en um fimm-
leytið í gær. Hann vildi ekki tjá sig
við blaðamann í Leifsstöð og svar-
aði stuttaralega „nei“ þegar hann
var beðinn um viðtal. Hann hélt
síðan til fundar við Ingimund og
Eirík Guðnason, hina bankastjór-
ana tvo, í gærkvöldi.
„Við gerðum ráðuneytinu við-
vart undir kvöld að svar kæmi ekki
í kvöld [gærkvöld] og því var vel
tekið þar,“ segir Ingimundur.
Jóhanna Sigurðardóttir vildi
ekki tjá Fréttablaðinu viðbrögð
sín við ákvörðun bankastjóranna
í gær. Samkvæmt heimildum
Fréttablaðsins var ekki rætt við
hana beint, heldur barst tilkynn-
ing bankastjóranna til ráðuneytis-
stjóra forsætisráðuneytisins. Þeir
munu ekki hafa farið fram á lengri
frest til að svara, einungis tilkynnt
að svar myndi ekki berast í tíma.
Spurður hvenær svars er að
vænta segir Ingimundur: „Ég get
ekki sagt um það. Það verður fyrr
en seinna.“ Hann segist heldur
ekkert geta sagt um það hvort nið-
urstaða náðist um málið á fundi
þeirra. „Ráðherranum verða kynnt
viðbrögðin fyrst,“ segir hann.
Í frumvarpinu um Seðlabankann,
sem ríkisstjórnin hefur lagt fram á
Alþingi og verður tekið til umræðu
í dag, er kveðið á um að forsætis-
ráðherra skipi seðlabankastjóra
til sjö ára í senn að undangeng-
inni auglýsingu. Seðlabankastjóri
skal hafa lokið meistaraprófi í hag-
fræði og búa yfir víðtækri reynslu
og þekkingu á peningamálum. Ekki
er heimilt að skipa sama mann
seðlabankastjóra oftar en tvisvar
sinnum. Forfallist hinsvegar seðla-
bankastjóri getur forsætisráðherra
sett annan mann tímabundið í emb-
ættið. stigur@frettabladid.is
ghs@frettabladid.is
Við gerðum ráðuneytinu
viðvart undir kvöld að
svar kæmi ekki í kvöld og því var
vel tekið þar.
INGIMUNDUR FRIÐRIKSSON
SEÐLABANKASTJÓRI
Gunnar, ertu farinn úr
LÍNklæðunum?
„Já, ég er farinn úr þeim enda orðin
slitin eftir sautján og hálft ár.“
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra
hefur vikið frá stjórn Lánasjóðs íslenskra
námsmanna (LÍN). Gunnar I. Birgisson,
bæjarstjóri Kópavogs, var formaður
stjórnarinnar.
EFNAHAGSMÁL Kristin Halvor-
sen, fjármálaráðherra Noregs,
kemur til landsins á hádegi í dag,
og fundar með Steingrími J. Sig-
fússyni fjármálaráðherra klukk-
an 15.45.
Steingrímur lýsti áhuga sínum
á efnahags- og myntsamstarfi
við Norðmenn í viðtali við norska
blaðið Klassekampen á föstudag-
inn fyrir viku. Þar var sagt að
Steingrímur hefði boðið Halvor-
sen til viðræðna um þetta, en
henni var upphaflega boðið til
að fagna tíu ára afmæli Vinstri-
græns framboðs.
Halvorsen brást við í norska
miðlinum e24 í vikunni: „Ég býst
við að ræða ýmsar hliðar efna-
hagsástandsins á Íslandi við
Steingrím Sigfússon fjármála-
ráðherra, einnig myntsamstarf,
beri það á góma.“
Formaður norska Miðflokksins,
Liv Signe Navarsete, sagði sama
dag og Klassekampen-viðtalið
birtist að Norðmenn ættu að taka
vel í það, ef íslensk stjórnvöld
sýndu áhuga í þessa veru. Þannig
mætti koma í veg fyrir að Ísland
gengi í Evrópusambandið.
Halvorsen var svo hvött til þess
í leiðara Dagens Næringsliv að
gefa Steingrími skýr svör. Sagði
þar að norskir andstæðingar ESB
virðist vilja kaupa aftur eyjuna,
sem Norðmenn hafi misst þegar
þeir fóru inn í Kalmarsambandið
á 14. öld. - kóþ
Fjármálaráðherrar Noregs og Íslands ræða efnahags- og myntsamstarf:
Norski ráðherrann lendir í dag
FJÖLMIÐLAR Uppsetningu á Frétta-
blaðskössum í Fjarðabyggð lauk
í vikunni. Með þeirri vinnu hefur
dreifing blaðsins á Eskifirði,
Fáskrúðsfirði, Neskaupstað og
Reyðarfirði aukist til mikilla
muna, en áður var Fréttablaðið
einungis fáanlegt í verslunum á
ofannefndum stöðum.
Þá hefur Vestmannaeyjabær
framlengt leyfi fyrir Fréttablað-
skössum til tveggja ára, og er það
til marks um ánægju bæjarbúa
með dreifingu blaðsins.
Fréttablaðskassarnir stuðla
að umhverfisvernd, því öllum
umframblöðum er komið í endur-
vinnslu. - kg
Uppsetning Fréttablaðskassa:
Betri dreifing í
Fjarðabyggð
DÓMSMÁL Hæstiréttur dæmdi í gær
hálfáttræðan karlmann í tveggja
ára fangelsi fyrir kynferðisbrot
gegn tveimur ungum stúlkum.
Hæstiréttur staðfesti með þessu
dóm héraðsdóms, en hækkaði auk
þess skaðabætur til annarrar stúlk-
unnar, úr 700 í 900 þúsund krónur.
Maðurinn braut gegn annarri
stúlkunni árið 1994 og hinni í
kringum aldamót. Þær voru báðar
um ellefu ára aldur. Hann káfaði
á báðum þeirra og stakk fingri
sínum inn í leggöng annarrar.
Hann er stjúpafi annarrar.
Fram kemur í dómnum að fleiri
konur hafi vitnað um að hann hafi
einnig brotið gegn þeim þegar
þær voru á barnsaldri. - sh
Öldungur í fangelsi í tvö ár:
Misnotaði tvær
ungar stúlkur
KRISTIN
HALVORSEN
STEINGRÍMUR J.
SIGFÚSSON
DÓMSTÓLAR Ríkissaksóknari hefur ákært þrjá karl-
menn fyrir hlutdeild í smygli á rúmlega einu kílói
af maríjúana, sem sent var hingað til lands frá Pól-
landi.
Pakkinn sem um ræðir innihélt matvæli og
rúmlega 1,1 kíló af maríjúana. Hann var send-
ur á nafngreindan íbúa að Kjarrhólma í Kópavogi.
Sá einstaklingur átti alls ekki von á neinni send-
ingu. Lögreglan tók fíkniefnin úr pakkanum og
setti önnur lögleg efni í staðinn. Pakkinn var síðan
sendur á heimilisfangið í Kjarrhólma. Þar voru
þremenningarnir mættir fyrir utan og gerði einn
þeirra tilraun til að fá pakkann í hendur fyrir utan
húsið áður en hann yrði afhentur skráðum móttak-
anda. Það gekk ekki eftir. Sá ákærði átti að fá tut-
tugu þúsund krónur fyrir að komast yfir sending-
una.
Eftir að íbúinn hafði fengið pakkann lét hann
annan þremenninganna hafa hann í stigaganginum
í Kjarrhólma. Mennirnir óku á brott við svo búið og
héldu að Álfatúni í Kópavogi. Þar komst einn þeirra
undan lögreglu á hlaupum. Mennirnir, sem allir eru
af erlendu bergi brotnir, eru á tvítugs- og þrítugs-
aldri. Einn þeirra er, auk þess sem að ofan getur,
ákærður fyrir vörslu á amfetamíni og hassi. - jss
PÓSTURINN Pakkinn var sendur með póstinum.
Þrír karlmenn ákærðir fyrir þátttöku í fíkniefnasmygli til landsins:
Pakki frá Póllandi með mat
og einu kílói af maríjúana
LÖGREGLUMÁL TF-EIR, þyrla Land-
helgisgæslunnar, leitaði að neyð-
arsendi í um klukkustund eftir að
stjórnstöð barst tilkynning um að
flugvélar í yfirflugi næmu merki
frá neyðarsendi í gærmorgun.
Þyrlan gat þrengt leitarsvæðið
og við tóku starfsmenn flugdeil-
ar gæslunnar, sem fundu sendinn
með aðstoð handmiðunartækis
eftir þriggja tíma leit. Í ljós kom
að sendinum hafði verið komið
fyrir og hann gangsettur í Breið-
holti.
Að sögn vaktstjóra hjá Land-
helgisgæslunni er ekki vitað
hverjir voru að verki, en líklegast
er að sendinum hafi verið stolið
út báti eða skipi. Hrekkurinn
kosti nokkur hundruð þúsunda,
en svipuð mál hafi komið upp
áður. - kg
Neyðarsendis leitað:
Hundruð þús-
unda hrekkur
TF EIR Þyrla Landhelgisgæslunnar var í
gær send af stað vegna símahrekks.
LÖGREGLAN Ragna Árnadóttir
dómsmálaráðherra hefur ekki
tekið afstöðu til notkunar lög-
reglu á rafbyssum.
Hún segir að skoðun standi yfir
á eiginleikum rafstuðtækja og
reynslu af þeim í samvinnu við
ríkislögreglustjóra.
Sífellt þurfi að skoða hvaða
leiðir séu bestar til að auka
öryggi lögreglumanna og tryggja
að þeir geti sinnt starfi sínu.
„Ég legg áherslu á að þetta
verði skoðað vandlega og á ekki
von á því að ákvörðun liggi fyrir
fyrir næstu kosningar,“ segir
hún. - kóþ
Nýr dómsmálaráðherra:
Rafbyssur eru
enn í skoðun
Tveir vilja túnfiskinn
Tvö fyrirtæki sendu inn umsóknir
um tæplega 50 tonna túnfiskskvóta
Íslendinga þegar umsóknarfrestur
rann út um síðustu mánaðamót.
Niðurstaða úthlutunar liggur fyrir á
næstu vikum.
SJÁVARÚTVEGUR
Samtök verslunar og þjónustu í
Árborg óttast að ný lega þjóðvegar
1 um nýja Ölfusárbrú norðan við
byggðina á Selfossi hafi neikvæð
áhrif í bænum. Meirihluti bæjarráðs
segir núverandi legu vegarins ekki
ásættanlega.
VERSLUN
Óttast veg framhjá Selfossi
Bæjarstjórn Fjallabyggðar segir skýrslu
atvinnuráðgjafa sýna að Siglufjörður
sé ákjósanlegur til að byggja upp
þjónustuaðstöðu við þann flota sem
starfar við rannsóknir og boranir á
Drekasvæðinu.
SIGLUFJÖRÐUR
Vilja þjóna olíuleitarflota
Seðlabankastjórarnir
svara „fyrr en seinna“
Seðlabankastjórar svöruðu forsætisráðherra ekki hvort þeir hygðust láta af
störfum áður en frestur sem þeim var veittur til svars rann út. Þeir funduðu í
gærkvöldi eftir heimkomu Davíðs Oddssonar og ætla að svara „fyrr en seinna“.
DAVÍÐ KOMINN HEIM Bílstjóri og töskuberi biðu Davíðs við heimkomuna í gær.
Hann neitaði að tala við blaðamann. MYND/VÍKURFRÉTTIR
INGIMUNDUR
FRIÐRIKSSON
EIRÍKUR
GUÐNASON
SPURNING DAGSINS