Tíminn - 10.01.1988, Blaðsíða 5

Tíminn - 10.01.1988, Blaðsíða 5
Sunnudagur 10. janúar 1988 Tíminn 5 Islensk greifynja af Monaco Þurfður Dýrfinna á unga aldri, sem sfðar varð greifynja de Grimaldi. Það er ekki á hverjum degi sem íslensk kona verður greifafrú, en dæmi má finna um slíkt og verður saga þessarar konu sem giftist Grimaldi greifa af Monaco rakin hér. Þuríður Dýrfinna Þorbjarnar- dóttir, en svo hét hún fullu nafni var fædd í Reykjavík 30. okt- óber 1891, á heimili móðurfor- eldra sinna í Garðhúsum við Bakkastíg. Enn þann dag í dag stendur hluti Garðhúsa á upp- runalegum stað en eru þó ail- breytt. Móðurforeldrar fiennar höfðu byggt fyrrnefnd Garðhús á skika úr landi Hlíðarhúsabæja við Vesturgötu. Þuríður var dóttir hjónanna Guðbjargar Bjarnadóttur og Þorbjarnar Jónssonar kaup- manns. Guðbjörgmóðir Þuríðar hafði áður verið lofuð Birni Bjarnasyni frá nágrannabýlinu Bakka. Hann drukknaði í róðri 1875, en seinna sama ár fæddist þeim dóttir sem skírð var Björg. Guðbjörg eignaðist síðan með síðari manni sínum Þorbirni tvö börn, son sem látinn var heita Jónbjörn og síðar Þuríði sem saga þessi segir af. Jónbjörn og Þuríður höfðu misst föður sinn þegar Þuríður var fjögurra ára, hann var þá nýkominn til Skot- lands til að leita sér lækninga. Þegar hún var sjö ára létust bæði bróðir hennar og afi. Hálfsystir hennar, Björg, hafði þá stofnað sitt eigið heimili svo að í Garð- húsum var orðið fámennt þegar Þuríður var að vaxa úr grasi. Aðeins móðir hennar og amma, ásamt einni vinnukonu voru nú í húsinu sem áður hafði verið þéttskipað fólki og útgerð og annríki setti svip á daglegt líf í Garðhúsum. Þuríður og Grimaldi greifi í Lissabon árið 1922. Til vinnu á hótel Skjaldbreið Sagt er að fljótlega hafi komið í ljós að Þuríður hafi verið vel gefin og bókhneigð. Veturinn 1911 til 1912 stundaði hún nám við Kvennaskólann í Reykjavík og tók þá saman á einum vetri báða efstu bekki skólans. Mikil veikindi herjuðu á fjölskyldu hálfsystur hennar og hin skæða berklaveiki hjó skörð í ást- vinahópinn. Þuríður hjúkraði oft sínum nánustu í veikindum þeirra og öðlaðist við það dýr- mæta reynslu. Að öðru leyti vann hún við verslunarstörf einkum hjá Finnboga mági sín- um og í skartgripaverslun Jóns Sigmundssonar að Laugavegi 8 í Reykjavík. Um tíma sinnti Þur- íður einnig kennslustörfum, á heimili vinkonu sinnar og á heimili hálfsystur sinnar. Þuríður er sögð hafa haft mikla hæfni til að bera á mörgum sviðum, ekki síst til að nema tungumál. Lagði hún jafnan rækt við það og auk þess sem ■ hún var ágætlega að sér í ís- lensku var hún vel fær í ensku og Norðurlandamálum. Árið 1921 afréð Þuríðurgagn- stætt venju að vera í Reykjavík það sumarið. Elín Egilsdóttir, sem starfrækti Hótel Skjald- breið bauð Þuríði að starfa á hótelinu, átti hún einkum að sinna þeim útlendingum sem gistu hótelið vegna kunnáttu sinnar í erlendum tungumálum. Grimaldi greifl heimsækir Island Nú er ekki úr vegi að huga að því vernig Grimaldi greifi kemur til sögunnar. Á árunum 1908 til 1910 var ungur íslendingur, Guðmundur Finnbogason síðar landsbóka- vörður við nám erlendis, meðal annars í París. Á sama tíma var Henri de Grimaldi við háskóla- nám við sama skóla og Guð- mundur. Henri de Grimaldi var greifi að tign af elstu konungsætt í Evrópu, þeirri sem nú ræður ríkjum í smáríkinu Monaco. Hann hafði á þessum tíma afsal- að sér furstadæminu sem hann átti tilkall til. Lagði hann eink- um fyrir sig tungumál og mun hann hafa verið talandi á ein þrettán tungumál. Hann hafði einnig áhuga á að kynnast bók- menntum ýmissa þjóða samtím- is því sem hann nam tungu þeirra og beindist áhugi hans einkum að fornnorrænum bók- menntum. Urðu þeir Guðmund- ur mestu mátar og mun greifinn hafa notið leiðsagnar Guðmund- ar í hinum fornu fræðum. Greifinn hafði hug á að heim- sækja ísland 1914 ásamt konu Hótel Skjaldbreið í Reykjavík þar sem leiðir Þuríðar og Grimaldi greifa lágu saman. sinni, en varð að hætta við þá för vegna stríðsins sem þá ógnaði álfunni. Grimaldi var kvæntur konu af portúgölskum aðalsætt- um og átti hún miklar eignir í Lissabon og nágrenni. Hún lést á árum heimsstyrjaldarinnar fyrri og Grimaldi greifi var því ekkjumaður þegar hann lagði leið sína til íslands sumarið 1921. Þegar greifinn kom til Reykjavíkur fékk hann inni á Hótel Skjaldbreið. Hann vitjaði vinar síns Guðmundar Finn- bogasonar, sinnti fræðum sínum á söfnum og lagði sig fram við að kynnast landi og þjóð. Hann lagði umfram allt kapp á að ná valdi á íslensku og ritaði hann hana lýtalaust, en málfar hans bar keim af fornmálinu. Vegna starfa Þuríðar á hótelinu lágu leiðir hennar og greifans fljótlega saman og má segja að það hafi orðið ást við fyrstu sýn. Greifinn varð mjög hugfanginn af hinni norrænu konu. Iheimildum er þess getið að hún hefði flest til að bera sem konu má prýða. Sagt er að hún hafi verið hávaxin, grönn og teinrétt og bar sig fallega, prúð í fasi og hógvær, en hafði sínar skoðanir á mönnum og málefn- um sem hún fann stað á grund- vélli þekkingar sinnar, menntunar og lífsreynslu. Sagan segir að þau hafi þetta sumar átt langar samræður þar sem hún opnaði honum sýn í heim gamalla sagna og sérstæða menningu þjóðar sinnar. í því efni naut Þuríður án efa vega- nestis úr bernskuheimili sínu þar sem amman hafði vakið áhuga dótturdóttur sinnar, jafnt fyrir fornum sögum, bókmennt- um sem og málefnum líðandi stundar. Þetta sumar mun Þur- íður hafa orðið altalandi á frönsku. Þuríður verður greifafrú Það kom að því að greifinn bað Þuríðar. Varð það úr að þau ;giftu sig 15. október 1921 á heimili séra Vilhjálms Briem að íLaugavegi 18b í Reykjavík og var það borgaraleg vígsla. En þar sem greifinn var kaþólskur voru þau gefin saman í Landa- kotskirkju viku síðar. Á þessum árum stóð Landa- kotskirkja neðst á Landakots- túni en var síðan flutt ofar við Túngötu og nú betur þekkt sem íþróttahús Í.R. í kirkjubókum Reykjavíkur- prestakalls er brúðguminn skráður Henri Charles Raul Marquis de Grimaldi, fasteigna- eigandi í Lissabon í Portúgal, fæddur 7. júní 1860 í Meulon í Frakklandi. Þuríður er sögð kennslukona og heimilisföst hjá Vilhjálmi Briem. í nýjum heimkynnum Eftir brúðkaupið héldu þau út til Lissabon með Gullfossi 23. október. Greifinn vildi að kona sín hefði hjá sér íslenska stúlku og með þeim fór Gunnlaug Briem, 19 ára gömul dóttir séra Vilhjálms. Dvaldist hún hjá þeim um veturinn en næsta vor fór Gunnlaug til íslands, en út til Þuríðar fór Auður Finnboga- dóttir systurdóttir hennar. Auð- ur var hjá frænku sinni í hálft þriðja ár. Segir hún svo frá að greifahjónin hafi verið mjög hamingjusöm. Féll Þuríði svo vel hin nýju heimkynni að engu var líkara en hún væri borin og barnfædd í því andrúmslofti og þeim siðvenjum sem þar ríktu. Heimilishaldið var ekki um- fangsmikið þó að hús þeirra teldi fjórtán herbergi og höfðu þau aðeins eina ráðskonu, sem ekki þótti mikið í þá daga á heimili sem þessu. Margt var ólíkt þar syðra og á íslandi. Einhverju sinni langaði Þuríði mikið til að jólahaldið minnti örlítið á íslensk jól. Segir sagan að skömmu fyrir jól hafi frænkurnar tekið til við að baka smákökur, þegar ráðskonan sá til þeirra ætlaði hún varla að trúa sínum eigin augum og mun hún hafa spurt hvort þær hefðu verið fátækar þar sem þær bjuggu áður. Ekki mun undrun ráðskonunnar hafa verið minni, þegar þær stöllur fóru að sauma sér kjóla, þar sem að litið var svo á að konur í þeirra stöðu ættu ekki að fást við slíka hluti. Lögð að velli í blóma lífsins Ekki fór Þuríður Grimaldi varhluta af þeim vágesti sem herjað hafði á ættingja hennar á íslandi. Á öðru hjúskaparári sínu veiktist hún af berklum og eftir það miðuðust ferðalög þeirra hjóna við að hún næði heilsu á ný. Lögðu þau m.a. leið sína til Alpanna í þeirri von að fjallaloftið gerði henni gott og heilsuhæli urðu einnig á leið þeirra. Ekkert varð úr fyrirhug- aðri heimsókn greifahjónanna til íslands sumarið 1925, þar sem Þuríður lá þá mjög þungt haldin á heilsuhæli í Spa í Belgíu og lést hún þar 10. október það ár, þá 34 ára að aldri. Lát Þuríðar fékk mikið á greifann og ber þeim saman sem til þekktu að hann hafi unnað konu sinni mjög. Minningu konu sinnar heiðraði greifinn meðal annars með því að reisa veglegt minnismerki á gröf hennar. Greifinn var mjög tekinn að reskjast og var hann hálfsjötug- ur og barnlaus þegar Þuríður lést. Mun hann hafa haft bréfa- skipti við tengdafólk sitt og vini á íslandi. Síðast er vitað um bréf frá honum dagsett á árinu 1941, þá var hann í Brussel. Mun greifinn hafa látist þar skömmu síðar. ABÓ

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.