Tíminn - 19.02.1988, Blaðsíða 12

Tíminn - 19.02.1988, Blaðsíða 12
12 Tíminn Föstudagur 19. febrúar 1988 illlllllllllllllllllllll MINNING lllllllllllllllllllllllll^ iii lillllllllilllllllllllllilllllllllílllillilllí ill ':íi:;!iMÍIIi!ÍiliiillllllllllllÍlllllUllll|l|lllllllllll!llllll lllllllllllllllllllllllllllll Guðmundur Jónasson bóndi í Ási Vatnsdal Fæddur 3. júní 1905 Dáinn 7. febrúar 1988 Á rúmlega átta mánaða tímabili hafa þrír kunnir bændur í Vatnsdal lokið jarðlífsgöngu sinni. Þegar gróðurangan og litskrúð jarðar var að komast í hámark á sl. vori kvaddi Lárus í Grímstungu. Réttum fjórum mánuðum síðar, þegar gróðrarmáttur góðs og gjöfuls sumars var að þverra, kvaddi Ágúst á Hofi og nú kom röðin að Guð- mundi í Ási, einmitt þegar lífsmagn jarðar er fjötrað í bönd vetrarins og Vatnsdalsáin líður hljóðlát undir íshellu í farvegi sínum meðfram löndum þessara kunnu „hölda“ sveitarinnar. Allir áttu þessir bændur það sam- eiginlegt að um þá var ekki hljótt meðan þeir voru í blóma lífsins og höfðu svigrúm til athafna á góðbýl- um sínum, einmitt á þeim tíma sem framfarir hafa orðið mestar í bú- skaparsögu landsins. Saga þessara samtíðarmanna er á ýmsan hátt ólík, en skapaði sterk litbrigði í samfélaginu meðan þeir voru á mestu athafnaskeiði. Guðmundur í Ási fæddist 3. júní árið 1905 að Litla-Búrfelli í Svína- vatnshreppi. Voru foreldrar hans Jónas Jóhannsson bóndi þar og síðar í Kárdalstungu í Vatnsdal og kona hans Jóhanna Jóhannsdóttir. Vegna heilsuleysis móður sinnar var Guð- mundi, kornungum, komið í fóstur til hjónanna Hallgríms Hallgríms- sonar og konu hans Sigurlaugar Guðlaugsdóttur í Hvammi í Vatnsdal. Fékk Guðmundur þar ágætt uppeldi á miklu ráðdeildar- heimili en það kom í hlut einnar dóttur þeirra Hvammshjóna að ann- ast hinn unga svein. Sýndi Guð- mundur henni þakklæti sitt síðar, með því að láta dóttur sína bera nafn hennar. Var þetta Ingunn er síðar varð eiginkona Ágústs á Hofi. Auk venjulegs barnaskólanáms stundaði Guðmundur Jónasson bú- fræðinám á Hólum í Hjaltadal undir handleiðslu Páls Zophoníassonar og síðar fór hann í Samvinnuskólann í skólastjóratíð Jónasar Jónssonar. Enginn vafi er á því að báðir þessir skólamenn höfðu mikil og varanleg áhrif á Guðmund, einkum þó Páll. Ég hefi orð Guðmundar sjálfs fyrir því að hann taldi sig taka áhættu og færast mikið í fang er hann, árið 1940, festi kaup á höfuð- bólinu Ási af Sigurlaugu ekkju Guð- mundar Ólafssonar alþingismanns. Engir sáu þó fyrir hvað í vændum var í efnahagsmálum þjóðarinnar, en jarðakaupin urðu Guðmundi létt og beinn vegur til umsvifa og efna- legrar velmegunar. Hann hafði nokkur ár áður búið á hluta Kornsár í Vatnsdal, sem engan veginn gaf honum nægilegt svigrúm fyrir vax- andi fjölda gangandi fjár. Hafði hann þó haft ítök á fleiri stöðum. Urðu honum allir þessir möguleikar rír hendi á einum og sama stað í si og strax fullnýttir. Gerðist Guð- mundur fljótt einn af sveitarstólpum í Vatnsdal sökum mikils reksturs og góðs efnahags. Hann krafðist mikils af hjúum sínum en var þó hjúasæll og átti hægt um vik að fara frá heimilinu til umsýslunar félagsmála. Var heimilishald fast mótað í hönd- um konu hans og við hlið hennar stóð systir Guðmundar, Sigurlaug af mikilli sæmd meðan kraftar hennar entust. Guðmundur í Ási gegndi mörgum trúnaðarstörfum um dagana. Virtist það honum ekki óljúft og einkennd- ust félagsmálastörf hans mjög, sem búskapurinn, af miklum umsvifum svo að sumum þótti nóg um á stundum. Skulu þessi upptalin í meginatriðum en ártala lítið getið.: Hreppsnefndarmaður í Áshreppi, tvö kjörtímabil og sýslunefndarmað- ur lengi. Formaður stjórnar Veiði- félags Vatnsdalsár meira en aldar- fjórðung. Fulltrúi og trúnaðarmaður Sauðfjárveikivarna í meira en þrjá áratugi. í byggingarnefnd Héraðs- hælisins á Blönduósi. Formaður stjórnar Kaupfélags Húnvetninga í fimmtán ár. Búnaðarþingsfulltrúi um árabil. Um eitt skeið formaður Ungmennafélagsins Vatnsdælingur og stjórnarformaður ungmenna- sambands sýslunnar í átta ár. í stjórn byggðasafnsins á Reykjum í Hrútafirði við stofnun þess. Stjórn- arformaður í Framsóknarfélaginu í Austur-Húnavatnssýslu um skeið og þá í miðstjórn Framsóknarflokksins. í>á var hann varaþingmaður Fram- sóknarflokksins í Norðurlandskjör- dæmi vestra og sat á Alþingi árið 1967. Hann var og formaður nefndar er stóð að útgáfu ritsins Húnaþing og fleira mætti telja. Framanskráð lýsir í rauninni mjög manninum Guðmundi í Ási. Að hann átti trúnað sinna samtíðar- manna, sem fólu honum svo marg- háttuð störf. Frá ungmennasam- bandsárum hans er í margra minni setning er hann kallaði inn yfir fullan salinn í gamla samkomuhúsinu á Blönduósi, en fleiri vildu inn komast og Húnavakan stóð yfir: „Þjappið ykkur betur saman um miðjuna“ og varð nokkrum fleiri inn komið. Var hent gaman að þessu, en atburður- inn lýsti vel kappgirni Guðmundar. Ágúst á Hofi sagði stundum um Guðmund „að hann reiddi upp stóru svipuna" er honum væri mikið í huga og var þetta líkingamál Ágústs, sem hann var svo kunnur fyrir. Allir, sem þekktu Guðmund í Ási svo sem við sveitungar hans, vissu að hann átti hlýtt hjartalag og að hann fann mjög til með þeim sem stóðu höllum fæti í lífinu. Má vera að í vitund hans hafi ætíð vakað minning- in um umkomuleysið í frumbernsku er hann varð að fara frá móður sinni sjúkri. Varð þessi þáttur í skapgerð Guðmundar honum mjög til vin- sælda. Segja má að Guðmundur í Ási hefði mikið veraldargengi í lífinu. Sjúkleiki ásótti hann þó oft og ekki síður konu hans, svo að skyggði af. Guðmundur Jónasson kvæntist þann 15. ágúst árið 1936 Sigurlaugu Efemíu Guðlaugsdóttur bónda á Sæunnarstöðum í Hallárdal og konu hans Arnbjargar Þorsteinsdóttur. Lifir Sigurlaug mann sinn, farin mjög að líkamlegum kröftum og þreki. Hún er hljóðlát kona og fínleg. Kaus hún mjög að vera í heimaranni er heilsa hennar leyfði. Börn þeirra hjóna er upp komust eru Eggert bókhaldari og endur- skoðandi á Blönduósi og Ingunn húsfreyja í Ási í Vatnsdal, gift Jóni B. Bjarnasyni núverandi oddvita Áshrepps. Vaxa nú upp í Ási fjögur börn þeirra Ingunnar og Jóns, tveirr' piltar og tvær stúlkur, öll á náms-' aldri. Guðmundur í Ási var kjörinri” heiðursfélagi Kaupfélags Húnvetn- inga árið 1981 og sæmdur gullmerki samvinnufélaganna í tilefni áttatíu ára afmælis hans 3. júní 1985. Auk- inn sjúkleiki sótti mjög á Guðmund síðustu misserin, svo að hann tók vart á heilum sér. Naut hann mjög takmarkað þess heiðurs sem samfél- agið veitti honum og þá ekki heldur hins milda aftanskins viðburðaríkrar ævi, sem æskilegt hefði verið, en samúð átti hann allra sem þekktu hann. Hin síðustu misseri nokkur dvöldu þau Áshjón í Hnitbjörgum á Blönduósi. Að lokum fór þó svo að þau þurftu bæði á hjúkrun að halda á Héraðshælinu. Þeim auðnaðist þó að vera alltaf heima í Ási yfir jólahátíðina. Rík er í huga mínum löng samleið með Guðmundi í Ási, sem og hinna tveggja Vatnsdælinganna, sem nefndir eru í upphafi þessara minn- ingarorða. Er þeir eru horfnir af sviðinu finnst mér „skarð fyrir skildi“, en þeir urðu, sem aðrir, að hlýða kallinu þegar það kom. Þannig verða allir jafningjar við leiðarlok. Vinátta við Guðmund í Ási varð okkur báðum því opinskárri sem árunum fjölgaði og við uxum upp úr veraldarvafstri og umsvifum at- hafnalífsins. Tímabil þetta var okkur mikils virði og hefði mátt vera lengra. En nú er það á enda runnið. Ég gleðst yfir því að Guðmundur hefur verið leystur frá þeim þrautum sem hrjáðu hann undir leiðarlokin. Hann andaðist aðfaranótt hins 6. þ.m. og verður jarðsettur að Undir- felli í Vatnsdal í dag. Við hjónin vottum eiginkonu Guðmundar og afkomendum þeirra öllum samhug okkar og biðjum þeim blessunar um ókomin ár. Grímur Gíslason. Guðmundur Jónasson frá Ási í Vatnsdal, sem lést þann 6. febrúar s.l., tæplega áttatíu og þriggja ára gamall, verður í dag til moldar borinn frá Undirfellskirkju. Guðmundi man ég fyrst eftir á heimili afa míns og ömmu, þar sem hann gisti oft á þeim árum, þegar hann kom til Reykjavíkur. Guð- mundur hafði stundað nám í Bænda- skólanum á Hólum, þegar afi minn og nafni var skólastjóri þar og náinn vinátta hélst með þeim upp frá því. Ekki man ég hvort ég spurði hann sjálfur eða hvort amma mín gerði það, en okkur talaðist svo til að ég fengi að koma í sveit til Guðmundar í Ási. Ég kem fyrst í Ás í júnímánuði árið 1950 þá sjö ára gamall. Vistin hjá þeim Guðmundi og Sigurlaugu konu hans, sem í daglegu tali er kölluð Silla, var svo góð, að ég kom þangað til sumardvalar næstu átta árin í röð. Mörg eru þau orðin börnin og unglingarnir sem dvalið hafa í Ási sumarlangt og ég get fullyrt að öll höfðum við gott af þeirri dvöl og hugsum til baka með hlýjum huga og þakklæti til þeirra hjónanna Guð- mundar og Sillu. Fyrstu árin held ég að við höfum nú ekki gert mikið gagn, en það lærðist með árunum og með auknum þroska fórum við að taka þátt í daglegum störfum, enda nóg að gera á stóru búi. Guðmundur var afar duglegur og kappsamur til allra verka og vænti þess sama af öðrum. Hann sýndi okkur hvernig gera ætti hlutina og valdi okkur störf við hæfi. Auðvitað voru sum störfin skemmtilegri en önnur og ekki alltaf jafnauðvelt fyrir hann að skipta þeim á milli okkar. En þegar ég lít til baka er ég undrandi yfir hversu vel honum tókst að fá fram starfsgleði og ánægju með þau störf sem hann fól okkur. Fyrir kom að Guðmundi þætti við ekki standa nógu vel að verki og gat þá orðið svolítið óþolin- móður. Þá var gott að eiga Sillu að, til þess að ræða við og í millitíðinni hafði Guðmundur gleymt atvikinu. Hann var mjög góður við okkur krakkana og öllum þótti okkur vænt um Guðmund, og bárum við mikla virðingu fyrir honum. Seinna varð ég var við að hann reyndist mörgum öðrum vel og ég varð var við að margir leituðu til hans bæði sveitung- ar hans og aðrir. Eftirminnilegustu og um leið skemmtilegustu stundirnar sem ég átti með Guðmundi, voru þegar við fórum ríðandi í smalamennsku, eða til að vitja silungsneta upp á heiði. Þá lék Guðmundur á als oddi og sagði mér frá því sem fyrir augu bar, landslagi, náttúrunni, örnefnum og sögum sem tengdust þeim. Ennfrem- ur sagði hann mér frá uppvaxtarár- um sínum sem voru mér framandi. Líklega hefur bernska hans verið svipuð og hjá öðrum, á þeim tíma, sem álíka var statt fyrir. Guðmundur ólst upp hjá fósturforeldrum í Hvammi og lærði snemma að vinna fyrir sér. Hann var kominn á þrítugs- aldur er hann hafði greitt fyrir sig, að honum fannst og eignast nægilegt fé til þess að komast í Bændaskólann á Hólum. Til þess að drýgja fjárráð sín þar, vann hann með náminu, sá um matarinnkaup og fleira fyrir nemendur. Guðmundur var þá þeg- ar orðin útsjónarsamur og áræðinn. Tæplega fertugur, kaupir Guðmund- ur jörðina Ás í Vatnsdal, sem hann gerði að einni (stærstu og) bestu jörðinni í héraðinu. Þar bjó hann svo ásamt konu sinni Sillu og börnum, þeim Eggerti og Ingunni. Á heimilinu voru auk þeirra, þegar ég kom þangað fyrst, margt um manninn, m.a. Lauga systir Guð- mundar og Jón gamli, svo einhver séu nefnd. Eggert fór snemma til náms í Verslunarskóla íslands og snéri sér að bókhalds- og endurskoð- unarstörfum, en Ingunn tók við búinu ásamt manni sínum Jóni Bjarnasyni, þegar Guðmundur og Silla bregða búi fyrir um áratug sfðan. Ég vil með þessum fátæklegu orðum minnast Guðmundar, sem var mér svo mikils virði og um leið senda Sillu og Eggerti, Ingu og Jóni og börnum þeirra mínar innilegustu samúðarkveðjur. Páll Zóphóníasson Hálf öld er liðin, reyndar fimm ár í viðbót, frá því ég fyrst kynntist Guðmundi Jónassyni sem síðar var kenndur við Ás í Vatnsdal. Það var á útmánuðum vetrar að hann kom að Hvammi og dvaldist þar í viku hjá þeim hjónum Steingrími Ingvarssyni og konu hans Theodóru Hallgríms- dóttur, uppeldissystur Guðmundar. Þeir voru alla tíð miklir vinir, Stein- grímur og Guðmundur, og oft heyrði ég Guðmund minnast þess hversu Steingrímur væri mikill afbragðs- maður. Þarna var ég heimilisfastur þegar Guðmund bar að garði. Það verður að segjast eins og er að strax við fyrstu sýn líkaði mér vel við manninn. Vinátta og trygglyndi myndaðist þarna sem stóð alla tíð. Hann varð síðar aufúsugestur okkar hjóna hvenær sem hann kom á heimili okkar. Vegna tveggja ára dvalar í þessum norðlenska fallega dal á árunum milli 1930-1940 kynnt- ist ég Vatnsdælingum nokkuð vel og alla tíð síðan höfðar þessi dalur og fólkið, sem hann byggir, þó nokkuð til mín, prýðis menn upp til hópa og nokkrir afbragðs menn og þar í er Guðmundur hvað bestur. Guðmundur var af fátækum for- eldrum kominn, sem ekki var óal- gengt á fyrsta tug þessarar aldar, og vegna þess var hann látinn í fóstur að Hvammi í Vatnsdal. Þar byrjaði hans fyrsta heppni, því hjá Hallgrími og Sigurlaugu fékk hann gott uppeldi á stórbúi þar sem mikið var umleikis og í góðum efnum. Ég vissi að Guðmundur dáði fóstra sinn alla tíð og ekki síst fyrir að þar lærði hann að nokkru á hvern veg átti að fara að í peningamálum, gæta fengins fjár og ávaxta það. Hallgrímur í Hvammi var á undan sinni samtíð í peningamálum; hann stofnaði sinn eigin banka, lánaði út peninga til bænda, bæði í Vatnsdal og lengra frá. Auðvitað varð hann að taka vexti svo útlánin gætu þrifist, en vel kom sér fyrir bændur sem voru að byrja búskap eða vantaði peninga stuttan tíma. Þarna kynntist Guð- mundur nýrri hlið á búskapnum og með góðum árangri mun þessi hjálp- arbúgrein hafa sýnt Guðmundi hvernig með peninga ætti að fara og hversu mikið atriði var að afla þeirra. Fjármálavit Hallgríms virðist hafa fest rætur hjá fóstursyni hans og svo vel að honum virðist aldrei hafa verið fjárvant; þó efa ég ekki að þar hafi líka komið til meðfætt vit Guð- mundar. Guðmundur var til höfðingja bor- inn enda dugði honum ekki minna en þrjú höfuðból um ævina. Hann fluttist kornungur að Hvammi á fornt höfuðból og fyrrum sýslu- mannssetur, stór og góð jörð sem hefur verið tvíbýli á, allt frá því Hallgrímur hætti búskap. Þegar Guðmundur fór sjálfur að búa, þá lausamaður, einhleypur, byrjar hann sinn búskap á höfuðbólinu Kornsá. Þar var líka gamalt sýslu- mannssetur og líka sat þar alþingis- maður í eina tíð. Þá bjuggu þeir menn einir á jörðinni en í tíð Guðmundar voru að mig minnir þrír bændur á Kornsá. í Hvammi og síðar á Kornsá leggur Guðmundur drög að sínum framtíðar búskap. Svo er það um 1940 að Guðmundur kaupir Ás af Guðmundi Ólafssyni alþingismanni sem þar hafði búið í rúm fjörutíu ár. Hafi Ás í Vatnsdal ekki verið höfuðból í tíð Guðmund- ar Ólafssonar, ja þá varð hann það undir handleiðslu Guðmundar Jón- assonar sem rak þar stórbúskap alla tíð og byggði stórt og vandað íbúðar- hús auk allra útihúsa og þarf ekki að lýsa því fyrir þeim sem um Vatnsdal hafa farið - þar er allt til fyrirmynd- ar, hvert sem litið er, og óvíða á landinu hygg ég vera stærra eða meira bú en var í tíð Guðmundar, nema um félagsbú sé að ræða. Svo ég hafi orð Ágústs á Hofi um „höldana" bá er ekki vafi að Guð- mundur í Ási var mesti búhöldur í Vatnsdal á sinni tíð. Þegar býður sýslusómi þá var að sjálfsögðu leitað til Guðmundar í Ási. Héraðshælið á Blönduósi var byggt á árunum 1954- 1956. Þar átti Guðmundur þátt í og var hann alveg óþrjótandi við að safna fé til framkvæmda. Hann gekk þar fram af sínum alkunna dugnaði við söfnun í sýslunni og einnig utan hennar meðal burtfluttra Húnvetn- inga og varð vel ágengt. Nú eru þeir þrír burt fluttir sem mest og best börðust fyrir því að Héraðshælið væri reist: Páll V.G. Kolka, Guð- brandur Isberg og Guðmundur í Ási, en tveir af þeim nutu þar hvíldar seinustu æviárin, þeir ísberg og Guðmundur. Guðmundur var góður fulltrúi sinnar sveitar og sýslu hvar á mannþingum sem hann kom. Hann var sannur Húnvetningur og sem slfkur vann hann sýslu sinni vel og var traustur málsvari alls þess sem betur mátti fara. Sjálfsagt tí- unda það einhverjir aðrir en einu vil ég hér við bæta. Það var ekki óeðlilegt með slíkan frammámann að bent væri á hann sem væntanlegt þingmannsefni og var það í eina tíð gert og fór fram val milli tveggja valinkunnra manna. Annar gerði í því að sækjast eftir fylgi en Guðmundur hafðist ekkert að, í því lá gæfumunurinn. Ekki er það óhugsandi að Guðmundur hafi viljandi látið þetta fram hjá sér fara. Ég get mér þess tii að þingseta hafi ekki freistað hans, hafi ekki átt við þennan dugnaðar- og ákafamann. Hann sat reyndar á Alþingi einhvern tíma sem varamaður, svo hann vissi á hvern hátt málin þróuðust þar. En það er annað að vera varamaður stuttan tíma en aðalmaður; efa ég að honum hefði fallið það. Þrátt fyrir mikil umsvif og tímaleysi við stór- búskap fylgdist Guðmundur vel með þjóðmálum og lét þar ekkert fram hjá sér fara. Öllu, sem horfði til heilla landi og þjóð, var hann óskipt- ur með. En svo komu upp mál, bæði á þingum og í flokknum, sem honum líkaði ekki við. Jafnvel hjá hans eigin flokki; hann skynjaði oft að betur hefði mátt fara hefði annar háttur á verið. Það hefur vafalaust haft áhrif á Guðmund að foreldrar hans höfðu litlu úr að spila, það var fátækt í landi og mörg heimili bjarg- arlítil. Guðmundi lágu alltaf vel orð til þess fólks sem minnimáttar var vegna fátæktar og margt hefði hann viljað hafa öðruvísi til hjálpar ef hann hefði mátt ráða. Ég minnist þess, ef efnalítill maður réðst í að reisa bú, kaupa jörð og bústofn, að ekkert gladdi Guðmund meira en ef þessum sama manni farnaðist vel. Margra stunda sakna ég þar sem við ræddum um eitt og annað í okkar þjóðfélagi. Stundum var það fræðsla frá hans hendi af fundum, sem hann var á varðandi bændastéttina, og ævinlega lagði hann aðaláhersluna á þau málefni sem varðaði hinn vinn-

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.