Tíminn - 27.05.1988, Page 13
Föstudagur 27. maí 1988
Tíminn 13
MINNING . ■■ ■ . ■ ' ■ "" "■
Aðalheiður Sigríður
Sigurðardóttir
Fædd 3. ágúst 1903
Dáin 16. maí 1988
Fyrir hálfum öðrum áratug kynnt-
ist ég ágætum hjónum hér í borg,
nánast af tilviljun. Bjuggu þau á
Kleppsvegi 118. Bæði Austfirðingar,
fædd þar og uppalin. Nú er hann
látinn fyrir ellefu árum, en hún skildi
við hinn 16. þessa mánaðar, tæplega
hálf níræð að aldri.
Aðalheiður Sigríður var hún
nefnd í skírninni. Foreldrar hennar
bjuggu allan sinn búskap að Urðar-
teigi í Berufirði, skammt frá Djúp-
avogi, en þau voru Sigurður Berg-
sveinsson og Sigríður Helgadóttir.
Sigurður var annáluð skytta og önd-
vegis sjómaður. Faðir hans hafði
sömu eigindir til að bera. Þá voru
synir Sigurðar, bræður Aðalheiðar,
góðir sjósóknarar og skyttur. Á
Urðarteigi er gróðurlendi mjög af
skornum skammti. Varð því að reiða
sig á sjóinn sér til lífsbjargar.
Aðalheiður var þriðja barn for-
eldra sinna, en alls fæddust þeim níu
börn. Eru nú aðeins tvö á lífi, eftir
að Aðalheiður er öll, en þau eru
Hansína og Gunnar.
Þau sem látin eru, auk Aðalheið-
ar, voru: Helgi, bóndi á Krossi á
Berufjarðarströnd, Ragnar, verka-
maður í Keflavík, Skúli, bóndi á
Urðarteigi, Guðrún, dó ung, Guð-
laug húsfreyja á Djúpavogi, og
Unnur, húsfreyja á Litla-Hólmi í
Leiru.
Og lífið heldur áfram. Hinn 29.
maí 1926 giftist Aðalheiður, þá rúm-
lega tvítug, Kristjáni Þorsteinssyni
frá Löndum í Stöðvarfirði. Varhann
sonur bóndans þar á einu býlinu
(þríbýli er á Löndum), Þorsteins
Kristjánssonar og Guðlaugar Gutt-
ormsdóttur prests í Stöð Vigfússonar
konu hans. Hófu þau þegar búskap
á Löndum. Kristján stundaði raunar
sjó svo til eingöngu. Var hann dug-
legur og aflasæll sjósóknari. Aflann
verkaði hann með aðstoð fjölskyldu
sinnar. Þá var saltfiskurinn þurrkað-
ur, áður en hann gat talist söluhæf
vara. Góð skilyrði voru til fiskþurrk-
unar á Löndum, þar sem grófgerð
möl er rétt við flæðarmálið. Eftir að
frystihús var reist á Stöðvarfirði,
lagði Kristján inn fisk sinn þar. Tveir
synir Kristjáns réru með föður sínum
strax og aldur leyfði.
En mikið erfiði þola menn ekki
þegar aldur fer að færast yfir. Upp
úr fimmtugu voru kraftar Kristjáns
teknir að bila, og Aðalheiður ekki
heilsusterk þá. Varð þá að ráði að
flytjast burt af jörðinni og setjast að
í höfuðstaðnum. Kristján fékk vinnu
hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkis-
ins. Vann hann þar þar til sjötugs-
aldri var náð. Ekki lifði hann lengi
eftir það, tók banvænan sjúkdóm og
leið miklar þjáningar áður en dauð-
inn batt enda á þær. Hann andaðist
19. apríl 1977, en fæddur var hann
19. febrúar 1905.
. Átti þetta ekki að vera minningar-
grein helguð henni Aðalheiði? Jú,
vissulega, en þar sem Kristján var
lífsförunautur hennar um hálfa öld,
gat ekki hjá því farið að hans væri
einnig getið í þessum minningarorð-
um. Heimili þeirra á Kleppsvegi 118
var hlýlegt. Kristján var bókamaður
og las mikið. Hún var iðin við
handavinnu, prjónaði á alla fjöl-
skyldumeðlimina til hins síðasta
meðan heilsa og þróttur leyfði. Sem
betur fór, var Aðalheiður ekki las-
burða lengi, áður en dauðinn barði
að dyrum. Um ársbil. Við hjón litum
inn til Aðalheiðar einstöku sinnum
eftir að hún var orðin ein í snotru
íbúðinni sinni. Hún var svo glöð og
hress, að öllum hlaut að líða vel í
návist hennar. Hún naut þess að lifa.
Og hún var ánægð með hið liðna.
Hún eignaðist ágætan eiginmann og
efnileg börn, sem reyndust henni
vel. Þegar Kristján var allur skrifaði
ég stutta minningargrein um hann í
blöðin. Þá var Aðalheiður enn hin
hressasta til heilsu. Og alltaf var hún
lagleg kona. Aldurinn breytti henni
undra lítið. Og ég held, að hin létta
lund hennar hafi átt þar ríkan þátt.
Börn Aðalheiðar og Kristjáns eru
öll búsett á Reykjavíkursvæðinu.
Þau eru Þorsteinn, Guðrún, Sigurð-
ur og Brynhildur.
f huga mínum geymi ég bjarta
mynd af henni Aðalheiði frá Urðar-
teigi, eða á kannski að telja hana frá
Löndum? Það skiptir ekki miklu
máli. Nú er hún komin heim eftir
langa og farsæla ferð. Lífið var
henni gjöfult, hún skilur eftir sig
mæta niðja, og það sem mest er um
vert: þakklæti í hugum þeirra sem
henni kynntust.
Við hjónin sendum aðstandend-
um hinnar látnu sómakonu innilegar
samúðarkveðjur. Fari hún í friði,
friður Guðs hana blessi.
Auðunn Bragi Sveinsson
f dag fylgjum við tengdamóður
minni Aðalheiði Sigríði Sigurðar-
dóttur til hinstu hvíldar. Margt kem-
ur í hugann á slíkum stundum. Efst
er þakklætið fyrir að fá að eiga hana
að.
Hún fæddist á Urðarteigi í Beru-
firði 3. ágúst 1903. Bærinn stendur í
einu hrikalegasta bæjarstæði sem
sést. í fljótu bragði virðist það
aðeins vera stórgrýtisurð. En hann
stendur undir einu tignarlegasta
fjalli landsins, Búlandstindi. Trúlega
hefur Aðalheiður lært að meta feg-
urð landsins þar.
29. maí 1926 giftist hún Kristjáni
Þorsteinssyni og bjuggu þau í
Löndum, Stöðvarfirði til ársins 1957,
er þau fluttust til Reykjavíkur. Þau
eignuðust 4 börn, sem öll eru á lífi.
Afkomendur þeirra eru nú 32.
Kristján lést árið 1977.
Aðalheiður hafði unun af að ferð-
ast um landið og mátti þá helst ekki
missa af neinu. Að öllu varð að dást.
A.m.k. tvisvar fór hún sjóleiðina
kringum landið með manni sínum.
Mér finnst ég enn heyra hana segja:
„Oh, fjöllin voru svo falleg". Gengi
maður með henni úti í náttúrunni,
varð hvert blóm og gras að aðdá-
unarefni og hún vissi nöfn á flestu.
Að ég nú ekki tali um áhuga hennar
á fallegum steinum. Hún átti talsvert
safn, sem prýddi heimili hennar.
Hún las mikið og þá helst eitthvað
fróðlegt, enda vel heima um menn
og málefni. Þó hún nyti ekki mikillar
menntunar, ntiðað við það, sem nú
gerist, var hún menntaðri bæði í
háttum og tali en margur langskóla-
genginn. Aldrei varð henni t.d. á
stafsetningarvilla. Slík var tilfinning
hennar fyrir málinu.
Yfir heimili hennar hvíldi friður
og gleði og öll barnabörnin löðuðust
að henni. Hún var þeim ómetanleg
amma. Hennar ánægja var að gleðja
þau og aðra. Sárlasin útbjó hún að
vanda handa þeim og okkur öllum
jólapakka s.l. jól. Mest var það
mjög smekkleg handavinna hennar
sjálfrar.
Hún var falleg kona og vakti
athygli uppábúin í íslenska búningn-
um sínum og möttlinum.
Að leikslokum stendur eftir í
hugum okkar yndisleg kona, sem
stóð á bak við fjölskyldu sína alltaf
glaðleg, blíð og full af umhyggju
fyrirokkuröllum. Fyrir það þökkum
við í dag. Hvíli hún í friði.
Jónína Eiríksdóttir
Kveðjuorð að austan
Einn af minnstu Austfjörðunum
er Stöðvarfjörður. Yst við fjörðinn
að austan til eru bæirnir í Löndum.
Þeir standa undir allháum kletta-
brúnum, sem liggja í sveig fyrir ofan
bæina. í brekkunum neðan við klett-
ana vaxa á sumrum margar fallegar
blómjurtir eins og bláklukka og
blágresi. Landatangi skerst út í
fjörðinn til suðurs. Þar út og suður
af eru rastir, en í hléi við tangann
inni á Landabótinni er mjög gott
bátalægi og uppsátur í fjöru. Þaðan
voru oft margir bátar gerðir út fyrr á
árum.
Þegar ég var strákur að alast upp
í þessu áhrifamikla umhverfi bjuggu
bróðir minn Kristján, Aðalheiður
kona hans og börn þeirra, Þorsteinn,
Guðrún, Sigurður og Brynhildur í
Mið-Löndum. Samskipti mín við
þau voru dagleg. Ég átti margar
ferðirnar yfir túnið út í Hús ýmissa
erinda, svo sem til að spjalla saman,
fá lánaðar bækur, hlusta á útvarp,
eða jafnvel til að leika leikrit með
frændsystkinum mínum, sem við
settum á svið í stofunni hjá þeirn
bróður mínum og mágkonu. Ég man
svo vel, að Aðalheiður hvatti okkur
varðandi þetta og sagði að lokinni
sýningu: „Þið stóðuð ykkur vel
krakkar mínir“. Þannig var Aðal-
heiður skilningsrík við alla og ekki
síst við unglingana, sem í návist
hennar voru. Nú cr hún lögð upp í
ferðina miklu, á Drottins fund. Þar
siglir hún sæinn með manni sínum
Kristjáni í gamla bátnum hans,
Framfara, eins og hún gerði stundum
er þau bjuggu í Löndum.
Reyndar var það fremur hennar
mikilvæga hlutverk, eins og svo
margra annarra íslenskra kvenna að
sjá um hlutina í landi, þegar eigin-
maðurinn var á sjó. í því efni var
Aðalheiður eins og klettur úr hafinu.
Hún bjó fólki sínu mjög svo notalegt
heimili, eiginmanni, börnum og
sjómönnum, sem voru á bátnum
með Kristjáni. Aðalheiður hafði frá
barnæsku kynnst lífinu við sjóinn,
því hún var fædd og uppalin í
Urðarteigi við Berufjörð. Það var
notalegt fyrir sjómennina á Landa-
bátnum Framfara, sem oft stigu
krappan dans við öldur ægis við hin
austustu nes, að eiga í vændum
hlýjar móttökur húsfreyjunnar í
Mið-Löndum. En slíkt var Aðal-
heiði eðlilegt, því hún var myndar-
húsmóðir í matseld og saumaskap,
og prýddi heimilið með blómum,
sumum úr Landabrekkunum. Hún
vildi að allir hlutir væru í sem bestu
lagi, eftir því sem efni og aðstæður
leyfðu. Mér er óhætt að segja, að
hún kunni þá list að gera mikið úr
stundum litlum efnum. Þó að bróðir
minn og hún væru aldrei sérstaklega
fátæk, eins og sumt fólk var á
íslandi, sem hóf búskap á kreppuár-
unum, fyrir síðustu heimsstyrjöld.
Vissulega voru þau ekki rík af ver-
aldar gæðum, en þeini mun ríkari af
þeirri hjartahlýju, sem þarf til að
laða að sér ungviði og aðra þá, sem
hennar þurfa að njóta.
En árin líða og kynslóðir koma og
fara, fólkinu í Löndum hefur fækkað
eins og svo víða á landsbyggðinni.
Nú eru ekki lengur bátar í fjöru í
Löndum eins og var í tíð Kristjáns
og föður míns og afa. Þau Aðalheið-
ur og Kristján fluttu frá Löndum
haustið 1958ogfórutil Reykjavíkur.
Þar eignuðust þau hlýlegt og nota-
legt heimili, fyrst í Njörvasundi og
síðar á Kleppsveginum. Þau að-
löguðust fljótt nýjum og breyttum
staðháttum, en oft leitaði hugur
þeirra austur á bóginn, þar sem þau
höfðu tekist á við öðruvísi lífsbaráttu
en höfuðborgarlífið er. Sitthvað var
sem minnti á gantlar slóðir undir
klettunum við hið ysta haf. Á vegg í
íbúðinni var málverk af Löndum og
á skrifborði var mynd af gamla
bátnum Framfara á Landabótinni,
þar sem Kristján stóð sjógallaður
við stýri. Þetta yfirbragð og alúð
þeirra hjóna laðaði að. Oft átti ég
og fjölskylda mín leið til þeirra á
Kleppsveginn og nú síðustu árin til
Aðalheiðar. Alltaf var okkur vel
tekið eins og í gamla daga, þá er ég
hljóp yfir túnið út á Hús. Ávallt var
Aðalheiður veitandinn, jákvæð og
bjartsýn. í hennar fari sannaðist að
sælla er að gefa en þiggja. Góð-
mennskan geislaði af henni.
Fyrir þetta allt þökkum við þér
kæra mágkona nú við þessi leiðar-
lok. Það er trúa mín, að Kristján sé
viðbúinn mcð gamla bátinn sinn, svo
að þið getið siglt saman á eilífðar-
sænum. Ég bið Drottin að beina fari
ykkar hjónanna framhjá röstunum
inn á öruggan sjó hinnar miklu
sköpunar og eilífa lífsins, þar sem
Drottinn sjálfur stendur við stjórn-
völinn á lífsfarinu mikla frá upphafi
til lokatakmarksins.
Einar Þ. Þorsteinsson
Afmælis- og minningargreinar
Þeim, sem óska birtingar á afmælis- og eða minningar-
greinum í blaðinu, er bent á, að þær þurfa að berast
a.m.k. tvcim dögum fyrir birtingardag. Þær þurfa að
vera vélritaðar.
The Smithereens - Green Thoughts:
Stjórnmálin og
málalengingar
Stjörnugjöf frá einni til fimm = ★★★
Á dögunum fékk ég í hendurnar
nýjustu afurð kókþambarana í The
Smithereens. Eftir þeirra síðustu
plötu + tónleika + orðspors +
annarra afurða þeirra, varðégfyrir
vonbrigðum. Ég hafði nefnilega
gert mér nokkuð háar vonir um
þessa plötu.
Green Thoughts, sem ég hef
leyft mér að nefna „Pólitísku plötu-
na“, hefur að geyma 11 lög, 10
þeirra eftir höfuðpaurinn Pat Di-
Nizio og það 11. eftir DiNizio og
Jim Babjak, gítarleikarann góð-
kunna.
Ég hef, eins og áður sagði nefnt
plötuna „Pólitísku plötuna", því
heiti laganna minnir mann auð-
veldlega á stjórnmál. Fyrsta lagið,
Only A Memory, getur t.d. auð-
veldlega átt við fylgi Borgara-
flokksins. Það næsta, House We
Used to Live In, gæti minnt á
hugsanir Bandalags jafnaðar-
manna þegar þeir horfa á Alþingis-
húsið. Something New getur pass-
að við splunkunýtt fylgi Kvenna-
listans. The World We Know, gæti
átt við deilur innan Alþýðubanda-
lagsins. Especially For You, gæti
átt við stefnuskrá Framsóknar-
flokksins. Drown In My Own
Tears, Deep Black, Elaine og
Spellbound getur átt við Flokk
mannsins og Grænfriðungana. If
The Sun Doesn’t Shine getur átt
við Alþýðuflokkinn ef húsnæðis-
málabreytingarnar ganga ekki í
gegn. Og loks getur Green
Thoughts aftur átt við Framsókn-
arflokkinn.
En einhvern veginn er ég sann-
færður um að DiNizio hafði ís-
lensku stjórnmálaflokkanna ekki í
huga þegar hann samdi lögin. Nóg
um það, í bili að minnsta kosti.
Platan sjálf er ósköp venjuleg.
Hún er kringlótt, svört, með gati í
miðjunni og kringlóttan límmiða í
kring. (Ástæðan fyrir málalenging-
unum er einfaldlega sú að ég á
erfitt með að skrifa leiðinlega um
hljómsveit sem ég hefi venjulega
gaman af).
Ég dembi mér samt í veðurbar-
inn sannleikann.
Ég varð fyrir vonbrigðum. Ég
bjóst við plötunni miklu betri.
Þetta er alls ekki slæm plata, en
* hún er heldur alls ekki mjög góð.
Svekkelsi á svekkelsi ofan, er það
sem ég segi og skrifa. Platan er
ekki áhugavekjandi og verðskuldar
í raun ekki meira pláss íTímanum.
-SÓL