Tíminn - 24.06.1989, Blaðsíða 8

Tíminn - 24.06.1989, Blaðsíða 8
8 Tíminn Laugardagur 24. júní 1989 Halldór Árnason fiskmatsstjóri í helgarviðtali um gæðamál í sjávarútvegi: Uppskeran ákvarðast af gæðum afurðanna Ef fiskur sem veiddur er hér við land væri alltaf meðhöndlaður rétt mætti auka verðmæti aflans um milljarða króna á ári. Halldór Árnason fiskmatsstjóri segir að færa megi gild rök að því að gæðarýrnunin nemi átta milljörðum króna á ári og ekki væri óraunhæft að setja sér það markmið að minnka gæðarýrnunina um a.m.k. helming á nokkrum árum. Aðrir vilja meina að gæðaskaðinn sé jafnvel enn meiri en 8 milljarðar á ári. Sem kunnugt er kvörtuðu heilbrigðisyfirvöld í Hull á dögunum yfir að fiskur sem þangað var sendur væri ekki hæfur til neyslu. Halldór Árnason fór utan til að huga að umkvörtunarefninu. - Hvað var það sem átti sér stað og hverjar eru niðurstöður þínar eftir að hafa skoðað þetta? „Það sem um er að ræða, er að á markaðinum hefur verið frádæmdur fiskur sem ekki var talinn neysluhæfur. Á árinu 1987 voru dæmd frá 3 tonn, 68,7 tonn árið 1988 og fyrstu fimm mánuði þessa árs hafa verið dæmd frá 55 tonn, sem er um 0,25% heildar- magnsins. í framhaldi af þessum auknu frádæmingum þá höfðu yfirvöld í Hull samband við sendiherra okkar á Bret- landi og tjáðu honum áhyggjur af þróun mála. Ég tel að ekki sé hægt að draga ályktun út frá þessum tölum um þróun gæða vörunnar, vegna þess að þær eru einfaldlega ekki sambærilegar. Það er búið að herða eftirlit með ástandi þess fisks sem seldur er á markaðinum á tímabilinu. Menn tala jafnvel um að þegar þeir dæmdu frá þrjú tonn, þá hafi matsmennirnir kom- ið einu sinni til tvisvar í mánuði á markaðinn, en núna séu þeir farnir að koma á hverri nóttu. Við getum hins vegar ekki snúið okkur svo léttilega út úr málinu og sagt að tölurnar séu fyrst og fremst mæli- kvarði á aukið eftirlit en ekki gæðin, því við getum líka sagt um leið, að þegar farið er að skoða þetta af meiri nákvæmni, þá kemur í ljós að óhæfur fiskur er á markaðinum. Þar að auki þá fer á markaðina töluvert magn af fiski sem er alveg í lægstu mörkum. Spurningin sem við stöndum frammi fyrir að svara er; - viljum við keyra svona á lágmörkunum með stóran hluta af því sem við sendum á markað? Svarið við henni er að hluta til pólitískt. Persónulega tel ég að það eigi að taka þessi mál til mjög alvarlegrar endur- skoðunar. Pessi athugun leiðir í ljós að mjög mismunandi er hvernig menn standa að þessu, sumir koma með góðan fisk, eða tiltölulega góðan, með- an aðrir koma með mun lakari fisk. Það er tvennt sem skiptir þarna megin máli. í fyrst lagi er það~ aldur fisksins, frá því hann er veiddur og þar til hann er seldur á markaðinum og í öðru lagi hvaða meðferð hann hefur hlotið á þessum tíma. Við vitum það að aldurinn ræðst af því hvenær fisknum er landað, flutningsleiðum og öðru slíku, og þeir sem koma honum yngst- um á markað eru, þegar best lætur, með fimm til sex daga gamlan fisk. Elsti fiskurinn er kannski fjórtán til fimmtán daga gamall. Hann er fluttur í gámum og mjög misjafnt hvernig frá honum er gengið, hann þveginn, ísaður og hvernig honum er raðað í kassana eða körin. Einnig er misjafnt hversu vel einangraðir gámarnir eru og ýmis önnur atriði sem hafa áhrif, þannig að þegar upp er staðið kemur fiskurinn í góðu eða slæmu ástandi á markaðinn. Það virðist vera að mönnum farist þetta mjög misjafnlega úr hendi.“ - Hvað væri hægt að gera til úrbóta með útflutning á gámafiski? „Það er náttúrulega fyrst og fremst að menn hafi þekkingu og aðstæður til að gera betur. Á markaðinum í Hull sögðu mér menn sem þar vinna að skipta mætti þeim í þrjá hópa sem senda út fisk. Það eru þeir sem kallaðir eru atvinnumennirnir og stunda þessa markaði reglubundið og miða veiðarn- ar við skipaferðir, þannig að fiskurinn sem sendur er verði alltaf eins nýr og kostur er. Hjá þeim eru gæðin, að þeirra mati, yfirleitt í lagi. Síðan eru það þeir sem kalla mætti íhlaupamenn- ina, það er yfirleitt þar sem veiðar og vinnsla er á sömu hendi og markaðir erlendis notaðir sem yfirfall. Þegar of mikið er af fiski hér heima þá er hann sendur út. í þessum hópi segja þeir að gæðin séu ansi misjöfn, allt frá því að vera eins og þau gerast mest, í það að vera mjög lítil. Síðan er það þriðji hópurinn, sem kalla mætti göslarana, sem gera þetta með öfugum klónum og eru yfirleitt með gæðin í ólagi.“ - Nú erum við í öllum auglýsingum erlendis að segja að við höfum hrein- asta sjóinn og besta hráefnið sem völ er á, stöndum við undir því? „Tvímælalaust, hins vegar er það spurning hvort við stöndum undir því að fara nógu vel með gott hráefni. Það verður gífurlega mikil gæðarýrnun á sjávarafurðum. Áhrif okkar á fiskinn byrja þegar hann lendir í veiðarfærinu. Afkoman byggir á því að koma fiskin- um á disk neytandans þannig að hann sé í því ástandi að neytandinn sé ánægður og kaupi af okkur aftur og gjaldi fyrir hann því verði sem við þurfum á að halda til að halda uppi okkar lífskjörum. Menn hafa ríka tilhneigingu til að beita veiðarfærum þannig að þau eyði- leggja fiskinn. Á trolli þá taka menn stundum allt of stór höl, veiðimennskan er svo rík í mönnum að hún verður allri gæðahugsun yfirsterkari. Það sýnir okkur það að vanda þarf hvernig við beitum þessum veiðarfærum. Síðan er það þegar við tökum fiskinn um borð hvernig hann er blóðgaður, þveginn og ísaður. Á allri leiðinni, þó sérstaklega á hráefnisstiginu þá verður mikil verð- mætarýrnun.“ - Gæðamálin, eru þau í nógu góðu lagi? „Ég held að allir sem við sjávarútveg starfa geri sér grein fyrir því að gæðin eru eitt megin atriðið. Við þurfum að stýra fiskveiðunum þannig að við tök- um ekki of mikið magn, en þegar búið er að ákveða hvað á að veiða, þá eru það gæðin sem ráða því hvað við uppskerum. Hins vegar er það spuming hvort við höfum fyllilega stjórn á þeim þáttum sem ráða gæðunum, þannig að við fáum á endanum út þau gæði sem að er stefnt. Það er svo að ódýrara er að vinna góðan fisk og sýna má fram á með gildum rökum að með því að bæta meðferðina á hráefninu, þá megi lækka vinnslukostnaðinn, um leið og nýtingin og afurðaverðið er aukið.“ - Hvað mundi það þýða í verðmæt- um fyrir sjómenn og þjóðarbúið í heild ef þessi mál væru í lagi? „Ef menn gerðu alltaf alla hluti rétt og kæmu þannig í veg fyrir óþarfa gæðarýrnun og gerðu þá rétt í fyrsta skipti þannig að ekki þyrfti að lagfæra vöm í vinnslu vegna þess að búið væri að gera mistök á fyrri stigum, þá erum við að tala að mínu mati um marga milljarða króna. Hvað þetta er mikið er erfitt að setja á nákvæma tölu. í fréttabréfi Ríkismatsins setti ég fram á sl. hausti hugmyndir um að það mætti meta þetta á 8 milljarða króna, þ.e.a.s. gæðarýrnunina og það væri ekki óeðli- legt að minnka þessa gæðarýmun um helming á tilteknum árafjölda. Þetta var rétt fyrir Fiskiþing. Þegar ég kem á Fiskiþing, kallar einn ágætur maður í sjávarútveginum á mig og segir: - Hall- dór nú ertu endanlega orðinn ruglaður að slá fram svona tölu. Við tökum tal saman og ég býðst til þess að koma til hans og útskýra hvað ég eigi við með þessu. Eftir að við vorum búnir að fara yfir málið og ræða hvað lægi að baki þessum hugmyndum, þá segir hann: - Þetta er rangt hjá þér, gæðarýrnunin er miklu meiri. Þetta sýnir okkur að þegar menn fara að skoða málið, þá vita þeir sem eru að vinna við fiskinn, hvað það er mikið af honum sem farinn er að slakna og hversu miklu dýrara er að vinna þannig fisk.“ - Getum við náð milljörðum? „Það er hægt. Til eru aðferðir sem beitt hefur verið annarstaðar, t.d. má nefna hvernig Japanir snéru sínum iðnaði úr því að framleiða lélega vöru yfir í það að „Made in Japan“ er tákn fyrir gæðavöru í dag. Með samstilltu átaki, skipulögðum vinnubrögðum, fræðslu og þjálfun allra sem við koma, hvort sem það eru sjómenn, fiskverk- unarfólk, skipstjórar eða stjórnendur fiskvinnslustöðva og sölusamtaka. Og með stjórnun sem skilar réttum upplýs- ingum til réttra aðila á réttri stundu, þannig að teknar séu réttar ákvarðanir, hvort sem það er við flökun á fiskinum, blóðgun eða þvott þá er hægt að ná í þessa milljarða. Fjárfestingin í gæða- umbótum er bara örlítið brot af því sem hún skilar á hverju ári.“ - Bera menn nógu mikla virðingu fyrir þeim fiski sem verið er að veiða? „Ég held að menn geri það, en ýmis vandamál eru í veginum og stundum vilja menn éta kökuna áður en hún er bökuð. Eitt af vandamálunum við að bæta gæðin, er að einhver hagnast á bættum gæðum og þá vilja menn ekki vera að leggja á sig aukið erfiði ef einhver annar hagnast. Það held ég að séu stærstu erfiðleikarnir við að bæta þetta, að finna réttar leiðir til að skipta kökunni, þ.e. þeirri stækkun á kökunni sem verður vegna bættra gæða.“ - Eru þessi viðbrögð frá Hull einhver merki um tæknilega tollamúra? „Ég held alls ekki. Ég fór með þetta atriði í huga þegar ég fór út til að kanna málið. Mín niðurstaða er að ef menn ætla að gefa sér það að sú sé ástæðan, þá er það bara til að skjóta sér undan vandamálinu. Hins vegar hefur þróunin innan Evrópubandalagsins mikil áhrif, vegna þess að það verða hertar kröfur um gæðaeftirlit innan Evrópubanda- lagsins. Yfirvöld í Hull vita að ef markaðurinn þar á að vera starfræktur áfram eftir 1992 þá þurfa þau að gera eitthvað í málinu. Þau eru að undirbúa sig fyrir þessa breytingu, með því að herða eftirlitið. Það er ekkert sem bendir til þess að gerðar séu öðruvísi kröfur til okkar, frekar en annarra sem eru að vinna þarna innan bandalagsins. Það er eitt sem mér þykir í þessu máli og vert er að skoða. Við erum með 80% af þeim fiski sem seldur er í Hull. íslenski fiskurinn er gífurlega mikil- vægur fyrir fiskvinnsluna á þessu svæði og yrði mikið áfall fyrir hana að missa fiskinn. Mér sýnist að menn séu mjög áfjáðir um að fá fiskinn áfram. Þeir vilja líka fá gæðin bætt, hins vegar heid ég að þeir séu smeykir við að ganga svo hart til verks í því að það geti haft áhrif á hvort þeir fái fiskinn eða ekki. Það er meira hagsmunamál fyrir þá að fá fiskinn áfram en að auka gæðin. Staðan er þessi í dag, en hún gæti orðið önnur síðar. Það er líka annað sem hefur mikil áhrif og það eru auknar kröfur neytendamarkaðarins, hinna endan- legu notenda vörunnar.“ - Hver er töfraformúlan að gæða- fiski? „Það er kannski engin töfraformúla til, en ef við ætlum að koma gæðafiski frá okkur þá verður hvert einasta handtak við fiskinn að vera rétt frá byrjun og við verðum að hafa í huga að ef gæðaskaðinn er skeður, þá verður því ekki breytt. Það er ekki hægt að bæta fisk sem hefur tapað gæðum.“ Agnar Óskarsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.