Tíminn - 16.08.1989, Qupperneq 5
Miðvikudagur 16. ágúst 1989
Tíminn 5
Hafrannsóknastofnun leggurtil verulegan samdrátt í þorsk- og grálúðuveiðum:
Þorskafli niður
90 þús.
„Hér er um feiknarlegan samdrátt að ræða verði farið að
tillögum Hafrannsóknastofnunar og þetta eru að sönnu mjög
alvarleg tíðindi,“ sagði Þórður Friðjónsson forstjóri Þjóð-
hagsstofnunar er hann var spurður um tillögur Hafrannsókna-
stofnunar um aflamagn á næsta ári.
Stofnunin leggur til að dregið
verði verulega úr þorskveiðum en
áætlað er að á þessu ári verði veidd
um 340 þúsund tonn af þorski en eigi
þorskstofninn ekki að skreppa sam-
an frá því sem nú er, megi ekki veiða
meir en 250 þúsund tonn á næsta ári
og árið 1992 megi afli heldur ekki
fara yfir 250 þúsund tonn. Hér er því
lagt til að næsta ár berist á land
hvorki meira né minna en níutíu
þúsund tonnum minni þorskur en í
ár.
í skýrslu stofnunarinnar segir að
gera megi ráð fyrir því að þorsk-
árgangarnir frá 1983 og 1984 verði
þrír fjórðu hlutar aflans. Nýliðun í
þorskstofninn sé með þeim hætti að
1985 árgangurinn sé undir meðallagi
og árgangarnir frá 1986, 1987 og
1988 mjög lakir. Þá hafi ekki orðið
vart við neinar göngur frá Græn-
landsmiðum og ekki verði ráð fyrir
þeim gert fyrr en 1991.
Vegna þessa ástands stofnsins
myndi 350 þúsund tonna þorskveiði
á ári næstu tvo árin hafa í för með
sér að veiðistofninn minnkaði úr um
milljón tonnum í 820 þúsund tonn
fram til ársins 1992 en hrygningar-
stofn standa í stað. Yrðu hins vegar
aðeins veidd 250 þúsund tonn þorsks
á ári myndi veiðistofninn vaxa um
5% næstu tvö árin en hrygningar-
stofninn um rúm 100 þúsund tonn.
í þessum útreikningum er ekki
gert ráð fyrir göngu þorsks frá Græn-
landsmiðum og sagði Jakob Jakobs-
son forstjóri Hafrannsóknarstofnun-
ar í gær að nokkuð skorti á upplýs-
ingar um ástand þorskstofnsins og
veiðar við Grænland. Þeirra væri
vænst í ársbyrjun 1990 og þá yrði
nauðsynlegt að endurskoða tillögur
stofnunarinnar í ljósi hugsanlegra
gagna frá Grænlandi um þessi efni.
Hafrannsóknastofnun hefur einnig
verulegar áhyggjur af grálúðustofn-
inum. Grálúðan vex fremur hægt en
sókn í hana hefur aukist gífurlega
undanfarin þrjú ár. Árið 1986 var
grálúðuaflinn um 31 þúsund tonn en
gert er ráð fyrir að hann verði um 60
þúsund tonn á þessu ári. Verði
núverandi sókn haldið áfram eru
líkur á því að mati stofnunarinnar að
grálúðustofninn minnki verulega á
næstu árum. Því er lagt til að afli
verði minnkaður niður í 30 þúsund
tonn á næstu tveim árum og leggur
stofnunin það í hendur stjórnvalda
hvernig að samdrættinum verði
staðið.
„Við erum að skoða þessar tillög-
ur út frá þjóðhagsdæminu en engar
niðurstöður liggja enn fyrir. Óneit-
anlegt er þó að verr horfir með næsta
ár en reiknað hafði verið með í
fyrstu dæmum I>jóðhagsstofnunar,“
sagði Þórður Friðjónsson.
Þórður vildi ekki nefna neinar
tölur að sinni um hvað það þýddi
fyrir þjóðarhag ef afli á næsta ári
yrði í samræmi við tillögur Hafrann-
sóknastofnunar. Ljóst væri þó að
um þriðja samdráttarárið í röð yrði
að ræða á næsta ári og það væru
sannarlega slæm tíðindi.
Jakob Jakobsson forstöðumaður
Hafrannsóknastofnunar.
Hann nefndi til samanburðar að
árið 1983 hefði þorskafli dregist
saman úr 380 þúsund tonnum í um
290 þúsund tonn. Ef farið yrði að
fullu eftir tillögum Hafrannsókna-
stofnunar um samdrátt þorskveið-
anna væri um að ræða svipað magn
og árið 1983. „Menn eiga misgóðar
minningar um það ár,“ sagði Þórður
Friðjónsson.
Tillögur Hafrannsóknastofnunar
eru þó ekki allar um samdrátt því að
lagt er til að veidd verði 90 þúsund
tonn af ufsa en ráð er fyrir gert að
hann verði um 80 þúsund á árinu.
Einnig er lagt til að hörpudiskveiði
verði aukin úr 12,5 þús. tonnum í
13,5 og um aðrar tegundir verði um
svipaðan afla að ræða og á þessu ári.
-sá
Áð var við Geysi í Haukadal og þar fengu menn sér kaffi. Fremst á
myndinni má sjá Halldór Klemensson bónda á Dýrastöðum í Norðurárdal,
Guðmund Egilsson mjólkurbílstjóra í Borgarnesi, Kristínu Halldórsdóttur
skrifstofumann og Kristinn Guðmundsson nema.
Árleg sumarferö framsóknarmanna
fór fram á laugardaginn:
400 manns í
átta rútum
Hin árlega sumarferð Framsókn-
arfélaganna í Reykjavík var farin
síðastliðinn laugardag. Yfir 400
manns á öllum aldri voru í ferðinni
og farið var á 8 rútum. Lagt var af
stað úr Reykjavík um klukkan átta
um morguninn og ekið upp í
Grímsnes og að Geysi í Haukadal.
Þar var áð f stutta stund en síðan
haldið að Guilfossi. Stoppað var á
Bláfellshálsi og steinum kastað í
vörðu sem þar er svo sem er siður
ferðalanga. Þá lá leiðin inn á Kjöl
og að Hveravöllum. Þar flutti
Steingrímur Hermannsson forsæt-
isráðherra ræðu. Frá Hveravöllum
var ekið í Kerlingarfjöll og þaðan
til Reykjavíkur. Komið var í bæinn
um kl. 11 um kvöldið.
Ágætt ferðaveður var á laugar-
daginn, bjart og þurrt en nokkuð
hvasst og kalt, sérstaklega uppi á
hálendinu. Vel sást til fjalla allan
tímann og það átti sinn þátt í að
gera ferðina ánægjulega. Góð
stemmning var í ferðinni eins og
jafnan er þegar framsóknarmenn
koma saman. Umsjón með ferð-
inni hafði Finnur Ingólfsson for-
maður fulltrúaráðs Framsóknarfé-
laganna í Reykjavík. -EÓ
Á Hveravöllum flutti Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra ræðu
Nýr grunnskóli tekur til starfa í haust í Reykjavík:
Miðskólinn, grunn-
skóli í einkaeign
„í þessum skóla verður um að
ræða samfelldan skóladag. Börnin
koma klukkan átta að morgni en
kennsla hefst klukkan níu. Hug-
myndin er að nýta þennan tíma áður
en kennsla hefst og eins klukkutíma
eftir að kennslu lýkur á daginn til að
aðstoða börnin sérstaklega við
heimanámið og það mun væntanlega
þýða að þau geta verið ótrufluð með
foreldrum sínum heima á kvöldin og
blandað geði við þau,“ sagði Ottó
A. Michaelsen formaður skóla-
nefndar nýstofnaðs einkagrunnskóla
í Reykjavík; Miðskólans.
Bragi Jósepsson lektor hefur viðr-
að opinberlega hugmyndir um skóla
þar sem kennslu afburðagreindra
barna yrði sinnt sérstaklega og að-
spurður um hvort Miðskólinn yrði
slíkur skóli sagði Ottó A. Michaels-
en það ekki vera.
Hann sagði að lögð yrði rækt við
sérhvern nemanda sem einstakling
og reynt eftir megni að koma til móts
við þarfir hans. Sérstaka áherslu ætti
að leggja á kennslu í listgreinum og
auka og glæða áhuga nemendanna á
þeim.
Ottó sagði að skólanum væri ætlað
að skipa það rúm sem er milli
ísaksskóla og Tjarnarskóla. ísaks-
skóli sinnir kennslu barna að níu ára
aldri. Úr Isaksskóla gætu börn kom-
ið í Miðskólann og þegar honum
lýkur með sjötta bekk geta nemend-
ur haldið áfram í Tjarnarskóla og
lokið þaðan níundabekkjarprófi.
Með Miðskólanum skapaðist því
tækifæri fyrir börn að stunda allt
grunnskólanámið og raunar nám til
stúdentsprófs í einkaskóla.
Miðskólinn hefur enn ekki fengið
endanlegt starfsleyfi en viðræður
hafa staðið við menntamálaráðu-
neytið frá því í júní og búast stofn-
endur skólans við því þá og þegar.
Þegar leyfið verður gefið út verður
fyrst tilkynnt formlega hverjir munu
verða skólastjóri og kennarar hins
nýja skóla enda verður ekki gengið
endanlega frá ráðningu starfsmanna
fyrr en starfsleyfi liggur fyrir.
í Miðskólanum verður um eina
bekkjardeild að ræða í hverjum
árgangi. Kennt verður í almennum
greinum samkvæmt námsskrá fyrri
hluta dags. í hádeginu verður heitur
matur framreiddur og eftir hádegið
tekur við leiðsögn og heimavinna.
Skólagjald hefur verið ákveðið 12
þúsund krónur á mánuði með nem-
anda en auk þess verður innheimt
fimm þúsund króna innritunargjald
í citt skipti.
í skólanefnd Miðskólans sitja
Ottó A. Michaelsen forstjóri, Mar-
grét Sigurðardóttir húsmóðir, Bragi
Jósepsson dósent, Jón Ásgeirsson
tónskáld, Anton Bjarnason lektor,
Þóra Kristinsdóttir lektor og Einar
Sveinsson framkvæmdastjóri en auk
þess munu foreldrar barna í skólan-
um eiga tvo fulltrúa í skólanefnd.
Reykjavíkurborg lætur skólanum
í té húsnæði og starfsaðstöðu og
munu nemendur úr Reykjavík ganga
fyrir um skólavist. Fræðsluráð hefur
samþykkt starfsemi skólans en
áheyrnarfulltrúar kennara í ráðinu
hafa lýst andstöðu sinni við þá
samþykkt. -sá
Bankaráö íslandsbanka skipti með sér
verkum og skipaði í yfirstjórn í gaer:
Ásmundurformaður ráðsins,
Valur Vals yf irbankastjóri
Bankaráð Islandsbanka kom sam-
an til síns fyrsta fundar í gær eftir að
fundinum hafði ítrekað verið frestað
vegna ósamkomulags ráðsmanna um
hverjir skyldu gegna æðstu stöðum í
stjórn bankans og bankaráði.
Samkomulag hafði tekist fyrir
fundinn um þessi mál og skipti ráðið
formlega með sér verkum á fundin-
um í gær: Ásmundur Stefánsson er
formaður bankaráðs, Gísli V. Ein-
arsson er varaformaður og Brynjólf-
ur Bjarnason er ritari.
Þá voru þeir Björn Björnsson,
Tryggvi Pálsson og Valur Valsson
formlega ráðnir bankastjórar og
mynda þeir saman bankastjórn sem
taka á sameiginlega ákvörðun um
stærstu lánveitingar. Formaður
bankastjórnarinnar er Valur
Valsson.
I íslandsbanka verða sex rek-
strarsvið og munu Björn Björnsson
°g Tryggvi Pálsson stjórna hvor sínu
sviði en aðrir sviðsstjórar verða
Guðmundur Hauksson, Jóhannes
Siggeirsson, Kristján Oddsson og
Ragnar Önundarson. Gert er ráð
fyrir að sviðsstjórarnir skiptist á
störfum innbyrðis á nokkurra ára
fresti.
Á hluthafafundi sem haldinn var
þann 1. ágúst var ákveðin hlutafjár-
aukning en hlutafé íslandsbanka
þegar hann hefur starfsemi verður
2.880 milljónir króna. Af því eiga
eignarhaldsfélag Alþýðubanka, Iðn-
aðarbanka og Verslunarbanka hvert
um sig 29%. Fiskveiðasjóður á 10%
og aðrir eiga 3%. -sá