Tíminn - 06.09.1989, Blaðsíða 6
Miðvikudagur 6. september 1989
6 Tíminn
Tíminn
MÁLSVARIFRJALSLYNDIS, SAMVINNU OG FÉLAGSHYGGJU
Útgefandi: Framsóknarf lokkurinn og
Framsóknarfélögin í Reykjavík
Framkvæmdastjóri:
Ritstjórar:
Aðstoöarritstjóri:
Fréttastjórar:
Auglýsingastjóri:
Kristinn Finnbogason
Indriði G. Þorsteinsson ábm.
IngvarGíslason
OddurÓlafsson
Birgir Guðmundsson
EggertSkúlason
SteingrímurGíslason
Skrifstofur: Lyngháls 9, Reykjavík. Sími: 686300. Auglýsingasími:
680001. Kvöldsímar: Áskrift og dreifing 686300, ritstjórn, fréttastjórar
686306, íþróttir 686332, tæknideild 686387. Setning og umbrot: ■
Tæknideild Tímans. Prentun: Blaðaprent h.f.
Frá og með 1. ágúst hækkar:
Mánaðaráskrift í kr. 1000,-, verð í lausasölu í 90,- kr. og 110,- kr. um
helgar. Grunnverð auglýsinga kr. 660,- pr. dálksentimetri
Póstfax: 68-76-91
Fæðuöflun
Umræður um landbúnaðarmál eru í eðli sínu
umræður um frumþarfir mannkynsins, sjálfa fæðu-
öflunina, sem manninum er nauðsynleg til þess að
halda lífi. En það er ein af þverstæðum nútíma-
þjóðfélags að umræður um landbúnað snúast minnst
um þetta frumgildi hans, heldur þann fjárhagsvanda
sem landbúnaðarframleiðslan sýnist valda í efnahags-
kerfi iðnaðar og viðskipta.
Það jaðrar við að frumframleiðslu matvæla, sjálfri
fæðuöfluninni, sé ofaukið í háþróuðum iðnaðarsam-
félögum, þótt augljóst megi vera að fólkið, sem þau
byggir, þarf ekki síður á mat að halda en aðrar lifandi
verur. Mörgum verður því á að spyrja, hvort það
efnahagskerfi sem ekki rúmar matvælaframleiðslu
innan marka sinna nema með tómum harmkvælum
og afgæðingi sé fært um að standast sjálft sig.
Þótt varla sé í það leggjandi að hugsa svo neikvæða
hugsun um auðvaldssamfélagið til enda, þá fjölgar
þeim mönnum í vestrænum iðnaðarþjóðfélögum sem
bera kvíðboga fyrir þróun matvælaframleiðslunnar í
náinni framtíð. Kvíði þeirra byggist á því að
mannkynið kunni í athafnasemi sinni og fyrirhyggju-
leysi um hvað náttúran þolir að spilla svo gróðri og
öðru lífríki að mannkynið geti ekki brauðfætt sig.
Ekki fer hjá því að almenningi í velsældarlöndum
þyki svona tal þverstæðukennt því að daglega hafa
menn annað fyrir augunum en matvælaskort, auk
þess sem efnahagslegar umræður fjalla fremur um
offramleiðslu matvæla í umhverfi þeirra og leiðir til
þess að komast út úr slíkum vanda en að hvetja til
framleiðsluaukningar.
En „spámenn kvíðans“ um framtíðarhorfur í
matvælaframleiðslu heimsins eru ekki beinlínis að
fjalla um tímabundinn aðlögunarvanda í landbúnaði
iðnríkjanna. Flestir þeirra munu nægilega raunsæir
til þess að viðurkenna að landbúnaður í markaðs-
þjóðfélagi verður að laga sig að markaðsaðstæðum
eins og kostur er.
Kvíðinn um framtíðarhorfur í matvælaframleiðslu
á sér rætur í tillitsleysi fjárgróðaaflanna, sem skeyta
engu um náttúruauðlindirnar, hvort þær endast eða
ekki, og fáfræði ráðandi manna sem gerir gróðaöflun-
um kleift að gjörnýta svo lífríki jarðarinnar í sína
þágu, að jörðin getur ekki haldið mannkyninu við, ef
þannig verður haldið áfram endalaust. Petta þýðir
einfaldlega að hið kraftmikla auðvaldsskipulag og
peningahyggjan eiga sér takmörk sem þau verða að
taka tillit til.
Áhrifaöflin í iðnaðar- og viðskiptasamfélögunum
þurfa í rauninni að breyta grundvallarhugsun sinni
um sitt eigið þjóðfélag og efnahagskerfi. M.a. er
þeim nauðsynlegt að breyta almennum viðhorfum
sínum til landbúnaðar, sem oftar en ekki byggjast á
mjög einhæfu mati og beinum fordómum á stöðu og
þjóðfélagsástandi þeirrar atvinnugreinar. Efnahags-
kerfi sem amast leynt og ljóst við matvælaframleiðslu
hlýtur að bera dauðann í sér, ef það verður
allsráðandi um heim allan. Þegar öllu er á botninn
hvolft er fæðuöflun grundvallaratvinnuvegur hvers
þjóðfélags og mannkynsins í heild.
Illllllllllllllllllll GARRI '!Á
„Stefnuskrá“
Ekki cr um annað meira rætt
þessi dægrin en aðild Borgara-
flokks að ríkisstjórninni og hefur
sú umræða snúist upp í mikið
fjaörafok vegna stefnu eða stefnu-
lcysis þessa flokks, sem eins og
kunnugt er hefur siglt gegnum
marga stórsjói á skömmum ferli.
Flokkurinn var myndaður á mjög
stuttum tíma, og sú stefnuskrá sem
nú er mest um deilt var harla
hraðsoöin og kannske fyrst og
fremst nokkurs konar „Potemkin-
tjöld“, ætluö til þess að þoka
aðeins úr sviðsljósinu þeirri stað-
reynd að flokksstofnunin kom ein-
göngu til vegna gremju margra í
Sjálfstæðisflokki með það er Al-
bert Guðmundssyni var gert að
víkja úr ríkisstjórn Þorsteins Páls-
sonar. Þessi gremja reyndist hafa
skotið rótum nógu víða til þess að
flokkurinn varð hinn óumdeildi
sigurvegari næstu kosninga. Kom
enda á daginn að sjónarmið og
viðhorf þess hóps er tók sæti á
Alþingi í nafni hans voru alls ekki
steypt í sama mótið. Var slíks ef til
vill ekki að vænta, þar sem menn
höfðu fylkt sér um ekki umfangs-
meira málefni en persónu Alberts
- með fullri virðingu fyrir sendi-
herranum að öðru leyti! Þannig
hefur flokkurinn oft reynst skiptur
í afstöðu til núverandi ríkisstjórnar
og hefur komiö henni til stuðnings
í veigamiklum málum. Má vel
deila um það hvort þyngra eigi að
vega á metunum persónuleg af-
staða (tekin af bestu vitund, hljót-
um vér að ætla) hvers þingmanns
fyrir sig til einstakra mála eða
stefnuskrá sú, sem drifin var saman
af skyndingu á sínum tíma. í Ijósi
þessa þarf ekki að vera um að ræða
þá breytingu frá fyrra ástandi og
margir vilja láta, taki einstaklingar
úr hinum upphaflcga Borgara-
flokki sæti í stjórn.
Þessi fyrirætlun, sem eins og
ekki hefur farið fram hjá neinum,
hefur verið lengi í deiglunni, verð-
ur sjálfstæðismönnum tilefni mik-
illa gífuryrða þessa dagana. Mikið
er gert úr dvínandi vinsældum
ríkisstjórnarinnar samkvæmt skoð-
anakönnunum, þótt þeir sem mest
gera úr þessum tölum ættu að vita
hve tímabundnar slíkar lægðir eða
uppsveiflur eru. Þingmenn
Kvennalista, sem taka undir með
sjálfstæðismönnum og ganga svo
langt að ræða um „skrumskælingu
á lýöræöinu“, ættu ckki síst að
hafa reynslu af slíku. Hið mikla
fylgi sem kannanir sýndu flokkinn
njóta fyrir nokkru rcynist ekki
vera nándar nærri fyrir hendi nú.
Má vafalaust kenna það því að
flokkur þeirra hefur kinokað sér
við að taka á nokkrum vanda og
forðast raunverulega ábyrgð, sem
núverandi stjórnvöld eru ásökuð
fyrir að hliðra sér ekki hjá að axla.
Rikisstjórnin fæst við mörg og
brýn vandamál um þessar mundir,
sem valda því að flest er meir
aðkallandi en að gengið sé frá
hálfloknum verkum og kannske
efnt til kosninga, eins og Sjálf-
stæðismenn helst vilja. Virðast þeir
telja sig um þessar mundir eygja
langþráðan meirihluta flokksins á
þingi sem þá hefur dreymt um í
áratugi. Sem betur fer eru þó litlar
horfur á að þær vonir mundu verða
að raunveruleika, því enn mundi
sannast að er á hólininn kæmi
kærði meirihluti kjósenda sig ekki
um flokkseinræði og óhefta frjáls-
hyggjustefnu, sem menn svo eftir-
minnilega hafa fengið smjörþeflnn
af. Þorsteinn Pálsson, sem nú gerir
mest úr óvinsældum stjórnar þeirr-
ar sem nú situr, reyndist fær um að
skera fylgi flokks síns niður við
trog á mettíma, eins og öllum er
eftirminnilegt. Hætt er við að Sjálf-
stæðisflokkurinn, hvort sem væri
með aðstoð Þorsteins eða án,
mundi og fyrr en varði vera búinn
að tapa þeim Ijóma í skoðana-
könnunum (sem nú fær liðsmönn-
um hans glýju í augu) kæmist hann
að stjórnveli með þau úrræði sem
honum eru tömust og menn mættu
vel muna, hugsi þeir sig um.
Að þessum vangaveltum sleppt-
um vekja athygli hugmyndir um
nýtt umhverfismálaráðuneyti, en
þessi málaflokkur er orðinn það
mikilvægur í þjóðfélagi samtímans
að full ástæða er til að honum sé
ætluð sérstök stjórnardeild. Þessi
mál eru ekki síður brýn hér á landi
en annars staðar í Ijósi þeirrar
ábyrðar sem við hljótum að teljast
bera vegna stöðu okkar í norður-
höfum. Þannig er sennilegt að
stofnun slíks ráöuncytis verði á
engan hátt neitt stundarfyrirbæri,
en verði að finna í stjórnkerfinu
framvegis. Garri
lllllllllllllllllllll VÍTT OG BREITT llllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllllll
HVERT STEFNIR?
Samkvæmt framreikningum
Byggðastofnunar mun íbúum utan
höfuðborgarsvæðisins fækka veru-
lega næstu áratugina en þéttbýlis-
búum fjölga að sama skapi. Sem
sagt, þróun síðustu ára mun halda
áfram að öllu óbreyttu.
Margir ala nú ugg í brjósti vegna
hrikalegra gjaldþrota burðarása at-
vinnulífs í útgerðarplássum víða
um landið. Hrakspár eru uppi um
að hrun blasi við á enn fleiri
stöðum og að fiskvinnslu- og út-
gerðarfyrirtæki hætti starfsemi og
kvóti færist milli byggðarlaga í æ
ríkari mæli.
Einföldum skýringum á ástand-
inu er hampað og eru t.d. Vestfirð-
ingar ekki í neinum vafa um að
fiskveiðikvótinn sé að leggja alla
byggð vestur þar í auðn. Einu
gildir þótt kvótaeigendurnir, sem
sjálfir búa í verstöðvunum. láti
skip sín landa víðs fjarri heim-
ahöfnum, oftast í útlöndum. Það
er kvótinn sem veldur atvinnuleys-
inu segja Vestfirðingar, eða öllu
heldur talsmenn þeirra.
DV heldur líka uppi sínum
skýringum á ástandinu, ekki aðeins
á Vestfjörðum, heldur víðast hvar
um landið. Fyrirgreiðsla og ódýrt
fjármagn til handa framleiðendum
og fyrirtækjum á larrdsbyggðinni er
að setja allt á hausinn og er farið
að valda stórfelldu atvinnuleysi.
Fjármagnskostnaður og afætu-
liðið í Reykjavík sjúga allan merg
úr landsbyggðinni, sogar til sín
fjármagnið og lokkar og laðar
unglinga og kvenfólk suður og
aðrar byggðir tæmast, segja enn
aðrir og eru ekkert hissa á að allt
sé að fara fjandans til, eða til
Reykjavíkursvæðisins, sem í
sumra augum er nokkurn veginn
eitt og hið sama.
Gloruleysi
Hvað sem öllum útskýringum og
svartagallsrausi líður, er það stað-
reynd að víða hallar undan fæti í
byggðamálum og atvinnuþróun
sýnist vera að fara á allt annan veg
en til var stofnað með stórfelldum
skipakaupum og stórhuga fram-
kvæmdum við uppbyggingu at-
vinnulífs, sem í mörgum tilfellum
reynist svo eins og myllusteinn um
háls byggðarlaganna.
Þess ber einnig að gæta að fjár-
hagserfiðleikar og gjaldþrot hrjá
einnig atvinnufyrirtæki á höfuð-
borgarsvæðinu og þar er ekki allt
sem sýnist, þótt athyglin beinist
nær óskipt að þeim stöðum sem
eru að missa öflugustu fyrirtækin
út í greiðsluþrot og aðra óáran
hverju sinni.
Flest sjávarpláss byggja að veru-
legu leyti á einu eða tveimur stór-
um fyrirtækjum, sem halda uppi
atvinnu og þar með mannlífi öllu.
Þegar svo þessi fyrirtæki sigla í
strand verður fátt til bjargar og
atvinnuleysi og bölsýni grípur um
sig og orðhákar fara að leita að
sökudólgum og finnur hver blóra-
böggul eftir sínu geðslagi.
Stjórnvöld eru krafin um ráð-
stafanir til útbóta sem einatt eru á
sömu lund, að vísa til sjóða sem
leysa vanda, það er að segja þegar
eitthvað er í þeim, eða afleggja
kvóta og bæta þjónustu og íþrótta-
aðstöðu og samgöngur eða eitt-
hvað í þeim dúr, sem eyðir vanda-
málum líðandi stundar.
Þótt bændum fækki ár frá ári er
enn talað um að þeir séu svo sem
helmingi of margir miðað við fram-
leiðslugetu, enda þrengir búvöru-
kvótinn verulega að þeim sem enn
búa. Á sama hátt þrengir fiskveiði-
kvótinn víða að útgerð og sala á
óunnum fiski í stórum stíl til út-
landa veldur óhjákvæmilega at-
vinnuleysi á útgerðarstöðum, þar
sem togarar og bátar eru of margir
miðað við leyfilegan aflahlut.
Reynt er að sporna við sífelldum
skipakaupum stækkunar fiski-
skipaflotans, en allt kemur fyrir
ekki. Flotinn stækkar og stækkar
og verður dýrari og dýrari í rekstri
og verður ekki haldið úti nema
með því að selja aflann óunninn í
erlendum höfnum.
Það á ekki að þurfa að koma
neinuni á óvart að fiskvinnslan í
landi missir spón úr aski sínum og
fyrirtækin standa hvorki undir fjár-
magnskostnaði né vinnulaunum.
Þeir vísu menn sem hafa hönd í
bagga með mótun byggðastefnu og
mannlífs í einstökum byggðalögum
ættu að fara að líta á hvaða stærð-
arhlutföll eru æskileg á milli íbúa-
fjölda og fyrirtækja.
Líka væri hugsanlegt að leggja
einhverjar kvaðir á kvótaeigendur,
sem eiga fiskinn í sjónum.
Ef viðhalda á byggð um allt land
verður það ekki gert með svartag-
allsrausi og billegum fréttaskýring-
um um ástandið, heidur með vit-
rænum aðgerðum, sem láta stund-
arhag lönd og leið en byggja upp
lífsgæði til framtíðar.
Og lífsgæði eru ekki endilega
pengingaaustur og glórulausar
framkvæmdir.
OÓ