Tíminn - 10.02.1990, Blaðsíða 6

Tíminn - 10.02.1990, Blaðsíða 6
14 Tíminn I 4 r > «» l l Laugardagur 10. febrúar 1990_ Guðmundur J. Guðmundsson formaður Dagsbrúnar um samningana og útlitið framundan: Gömlu aðferðirnar dugðu ekki lengur „Svona samstaða um kjarasamninga hefur aldrei áður tekist á íslandi. Ástæða þess held ég að sé sú að menn hafi bókstaflega horft framan í dauðann ef verðbólgan hefði átt að fá að geisa áfram. Auk þess er ástæðan að ýmsu leyti frjálslegri bragur milli aðila. Jafnframt gefa bændur eftir ákveðna hluti, en samningamenn þeirra héldu ákaflega vel á málum og sýndu mikla hæfni og sanngirni. Gömlu reiknings- og samningaaðferðirnar þar sem öllum kostnaði var sjálfvirkt velt út í verðlagið, þær gengu ekki lengur. Við hefðum vitanlega viljað fá það sem við höfum misst en hefði það orðið hefðum við ekki fengið þær tryggingar sem við fengum,“ segir Guðmundur J. Guðmundsson. Þessa dagana er verið að bera undir atkvæði í verkalýðsfélögunum nýju samn- ingana. Þar sem þegar hafa verið greidd atkvæði um þá hafa þeir verið samþykktir með tveggja þriðju til þriggja fjórðu hluta yfirburðum. Við ræðum við helsta frum- kvöðul samninganna; Guðmund J. Guð- mundsson formann Dagsbrúnar og Verka- mannasambands íslands. Gjörólíkar fyrri viðræðum „Samningaviðræðurnar nú voru gjörólík- ar fyrri viðræðum. í upphafi þeirra mættu menn ekki með fríðu föruneyti og alvæpni, heldur fóru þeir hægt af stað strax í nóvemb- er. Þá fór fram rólegt opinskátt spjall þar sem menn veltu fyrir sér möguleikum. Staða fiskvinnslunnar vóg þungt í umræð- unni: Hún, öðrum greinum fremur, hafði fengið gengislækkun árið 1989 um tæp 30%. Megnið af fyrirgreiðslu Atvinnutryggingar- sjóðs hefur runnið til hennar, eða 5-7 milljarðar. Ef fyrirgreiðsla Atv.trygginga- sjóðs hefði ekki komið til þá hefði a.m.k. annað hvert frystihús í landinu, jafnvel tveir þriðju þeirra stöðvast og heilu byggðarlögin flosnað upp. Þar á meðal mörg gróin sjávarpláss þar sem gríðarmikil framleiðsla er og verulega verðmæt framleiðslutæki, hús og fiskiskip eru til staðar. Menn gleyma oft ástæðum vandans: Hann er sá að kvóti hefur minnkað um 10% tvö til þrjú ár í röð en til að mæta því hefur gengið verið látið síga viku- til hálfsmánaðarlega. Vandi fiskvinnslunnar hefur einkum verið fólginn í minna hráefni, háum vöxtum og verðbólgu. Aðilar urðu sammála um að ef ekki tækist að stemma stigu við verðbólg- unni og að lækka vexti þá myndu kjör almennings strax rýrna eftir samninga.“ Samið um heilbrigðara efnahagslíf? - Telurðu þá að aðilar vinnumarkaðarins hafi staðið frammi fyrir því að semja um óbreytt ástand, víxlverkanir kaupgjalds og verðlags, eða að koma á nýsköpun í efna- hagsmálum, leiðrétta ranga stjórnarstefnu fyrri ára? „Já, sér í lagi stjórnarstefnu all margra síðustu ára. Ég á hér við fjárfestingar í sjávarútvegi samhliða minnkandi kvóta og stækkandi flota. Keypt voru skip fyrir hundr- uð milljóna til þess að sækja í minnkandi kvóta. Jafnframt áttu sér stað gífurlegar fjárfest- ingar í landi Byggðar voru verslunarhallir hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í land- búnaðinum var sama sagan. Ég minni á mjólkurstöðina miklu á Bitruhálsi sem mér er sagt að geti þjónað 500 þúsund neytend- um. Ég minni líka á stóra mjólkurstöð í Borgamesi sem nú er notuð að þriðjungi til að framleiða vodka og að þriðjungi til að framleiða pizzur. Gæti verið að þessar fjárfestingar í landbúnaðinum séu ein ást- æða þess hve lítið bændur fá í sinn hlut? Allt þetta var meira og minna byggt fyrir lánsfé og þetta fjárfestingafyllerí heídur launum fólks niðri nú og hefur verið elds- neyti almennrar verðbólgu í landinu og tröllriðið öllu atvinnulífi landsmanna. Grundvöllur samninganna nú hafði verið lagður: Atvinnutryggingasjóður og hluta- fjársjóður hafa beinlínis afstýrt hruni og hefðu þeir ekki komið til væri nú fjöldaat- vinnuleysi á íslandi og gjaldþrotin miklu fleiri. En það þurfti fleira til en fast gengi til að þeir tækjust. Vaxtabyrðar léttast Vextir eru víðtækt hugtak. Menn eru spekingslegir stundum og tala um nafnvexti, raunvexti og fleira sem ruglar allan almenn- ing. Það eru ekki bara vextir upp á 8-10% um að tala, heldur verðbætur út af lánskjara- vísitölu til viðbótar við þá. Fræðimenn tala um nafnvexti og raunvexti. Hvað eru nafn- vextir? Tökum dæmi um gamaldags víxil- vexti án vísitölutryggingar. Þeir voru um 30%. Af einni milljón þurfti að greiða 300 þúsund í vexti á ári. Með 25% verðbólgu og 9% vöxtum þarf fólk að greiða um 340 þúsund á ári. Þetta býr almenningur við. Þegar vísitala er reikn- uð út er þessi kostnaðarliður aldrei tekinn inn í hana. Það er talað um að samningarnir nú þýði 1/2% kaupmáttarskerðingu og óvíst sé hve mikið verðlag muni lækka. Það er hins vegar ekki tekið með að verði verðbólga um 8% þá þarf sá sem skuldar milljón að greiða 155 þúsund í vexti af milljóninni sem hann skuldar, ekki 340 þúsund. Þetta skiptir öllu máli því að ákaflega margt fólk, einkum ungt, skuldar mikið og ég held að það sé gæfusamt sem ekki skuldar meir en milljón. Vextirnir eru að drepa það nú, en ekki bara það, heldur líka fyrirtækin. Það eru því gagnkvæmir hagsmunir að verðbólgunni verði komið niður. Grundvöllur samninganna hefur verið lagður sagði ég áðan og forsendur samning- anna eru stöðugt gengi. Atvinnurekendur hafa fyrirvara á um að þeir standi svo framarlega sem að ekki verði verðfall á útflutningsafurðum og ekki olíuverðspreng- ing. Það hefur hins vegar aldrei orðið verulegt verðfall á útflutningsafurðum ís- lendinga, eða verðhækkun á olíu að ekki fylgdi gengislækkun. Sérhver ríkisstjórn sem þá hefur setið hefur fellt gengið við slíkar utanaðkomandi aðstæður. Gagnvart okkur snýr málið þannig að kaupmáttur hefur hrapað á árinu 1989 um 7-10% auk þess sem vinna hefur dregist saman. Þess vegna er það okkur betri trygging en flest annað að gengið sé ekki sífellt að falla. Þá er það brennandi hags- munamál launafólks, einkum ungs fólks, að vextir fari niður. Lán hafa hækkað stöðugt þótt greitt hafi verið af þeim og þær hækkanir í engu samræmi við kaupmátt launa. Stöðugt verðiag, þáttur bænda og ríkisvalds Viðræðurnar snerust því um að færa vexti og verðbólgu niður en fleira hangir á spýtunni. Lítum á verðlagsmál og búvöru- verð. Ég tek það skýrt fram að ég er ákaflega gagnrýninn á íslenska landbúnaðarstefnu. Hins vegar geri ég mér fulla grein fyrir því að meginhluti bænda er fátækt stritandi fólk. Mönnum hættir við að ráðast á þetta strit- andi fólk, margt skuldum vafið, þegar landbúnaðarstefnan er gagnrýnd. Það er alrangt að bændafólk sé ógæfa þjóðarinnar, fólk sem ekkert hefur gert af sér annað en að vinna. Það er annað mál en það að illa hafi verið að skipulagi landbúnað- armála staðið. Ég er t.d. ekki sannfærður um að mjólkurframleiðslusvæði Reykjavík- ur eigi að vera frá Þorskafjarðarbotni til Lómagnúps og að búskapur fyrir austan fjall og í Borgarfirði dragist saman. Það er sagt að þegar mjólk er sótt til vissra staða við ísafjarðardjúp þá eyðist þrír lítrar af olíu fyrir hvern einn mjólkurlítra sem kemst til neytenda. Dæmið er að vísu öfgafullt en er þetta ekki einn þáttur í þeim milliliðakostn- aði sem bændur tala um. Hvað um það, búvörur fara hækkandi og samkvæmt samkomulagi sexmannanefndar var óhjákvæmilegt annað en þær hækkuðu verulega á árinu. Ríkið treysti sér ekki til að greiða þær meir niður en gert var. Þetta hefði þýtt að allt þetta ár hefðu búvörur verið að hækka. Endirinn varð sá að ríkis- valdið kom til móts við fólk með því að lækka fóðurbætisskatt sem raunar ætti að afnema með öllu og jók niðurgreiðslur um 800 milljónir. En þáttur ríkisvaldsins tekur til fleiri atriða: Því miður hefur það verið plagsiður að eftir kjarasamninga hafa opinber fyrir- tæki verið fyrst til að hækka þjónustu sína. Samningarnir taka til fjögurra höfuðþátta: Gengið skal vera fast, vextir lækki, búvöru- verð skal standa í stað, opinber þjónusta hækki ekki og nýir skattar verði ekki lagðir á. Bankarnir lofa jafnframt að lækka nafn- vexti úr 30% í 22% frá 1. febrúar og frá 1. mars niður í 18% og í aprfl niður í 14%. Þá lækkar vaxtakostnaður af milljóninni um- talsvert eins og ég sagði áðan. Samningagerðin var gífurlega snúin og erfið. Menn skiptu með sér verkum og unnu saman í smáhópum og margir afskaplega hæfir menn komu við þá sögu. Ég get þar nefnt Ásmund Stefánsson og Þórarin V. Þórarinsson. Það er sjálfsagt hægt að deila um ýmsar skoðanir þeirra hvors um sig en því verður ekki mótmælt að báðir eru þeir ákaflega hæfir tæknilega. Skref í rétta átt Samningarnir sjálfir eru ekki algóðir. Til dæmis lofa bankarnir ekki raunvaxtalækk- un. Þeir lofa að leitast við það með hliðsjón af verðbólgu. Verðbæturnar lækka hins vegar og ef allt gengur eftir og verðbólga verður þetta 5-7% þá rjúka vaxtaklyfjarnar niður. Það er út af fyrir sig gífurlegt hagsmunamál fyrir fyrirtæki og launafólk líka sem skuldar verulega, einkanlega ungt fólk sem hefur verið að missa íbúðir sínar. Mér sýnist að allir vildu Lilju kveðið hafa nú. Ég er sammála Einari Oddi þótt við séum ósammála um flest annað, að samning- arnir nú eru raunverulega ekki annað en grundvöllur undir nýsköpun í íslensku efna- hagslífi. Bresti einn hlekkur í þessu, þá hrynur allt og gamla verðbólguskriðan kem- ur yfir okkur. Ábyrgðin er þung hjá ríkinu. Fari stjórn- völd að fikta við skattlagningu og hækkun opinberra gjalda þá springur þetta. Ef bankarnir bregðast í vöxtunum þá gerist það sama. Ef ríkið bregst í því að halda verði á nauðsynjum niðri þá gerist það sama.“ Treystum ríki og bönkum mátulega - Er ríkinu og bankavaldinu treystandi til að halda samkomulagið? Treystið þið þeim. „Nei. Þess vegna verður að hafa ljóskast- ara á hverjum þeim sem sýnir merki um að hann ætli að bregðast. í þessum samningum felast ekki miklar kjarabætur. í ár var spáð 5-10% kjaraskerðingu. Við náðum ekki upp kjaraskerðingunni frá 1989 og ekki heldur skerðingunni frá 1988 en við afstýrum því að hún haldi áfram á þessu ári. Vissulega geta komið utanaðkomandi áföll en rekst- ursskilyrði grunnatvinnuveganna eiga að geta haldist. í þessu er þó margt ákaflega valt. Það þýðir ekki að neita því að þetta er erfitt fyrir ríkissjóð þótt hann hafi nú lagt ansi myndar- lega á landsmenn undanfarin ár. Undanfarin ár hefur einnig skapast stöðugt minni tiltrú almennings á loforðum valdsmanna og fólk þorir ekki lengur að taka mark á yfirlýsing- um um að ríkisstjórnir hyggist stefna að eftir mætti, eða eitthvað í þeim dúr. Við erum því ekkert öruggir um efndir en teljum að ef vel er á haldið við þessa 20 mánaða samninga þá muni skapast grund- völlur til að bæta lífskjörin. Þetta eru merkilegir samningar. Það er ekki aðeins að ASÍ og VSÍ nái saman um þessa lausn heldur einnig ríkisvaldið, bændasamtökin og bank- arnir og ég skal viðurkenna að ríkið og bankamir eru tortryggðir. Erfiðast fyrst Fyrsta skrefið verður erfiðast. Færast vextirnir nógu fljótt niður? Koma þær hækkanir sem ekki verða umflúnar of snemma? Ég bind vonir við að Reykjavíkur- borg lækki aftur rafmagnsverðið sem hækk- að var um áramótin um 10%. Það yrði mikilvægt atriði því að allar lækkanireru svo gríðarlega mikilvægar til að þessi stórkost- lega tilraun takist. Mistakist hún hinsvegar þá þýðir ekki að reyna neitt þessu líkt næstu þrjú til fjögur árin að minnsta kosti. En það er ýmislegt annað sem gæti treyst samninginn og markmið hans: Fjárhagsáætl- anir sveitarfélaga eru miðaðar við 20-22% verðbólgu. Fari hún niður í 10% geta þau lækkað fasteignaskatta, þjónustugjöld. í fylgiskjali með samningunum frá formanni Sambands sveitarfélaga er yfirlýsing um þetta. Hann lofar engu og segir að virðis- aukaskatturinn kosti sveitarfélög talsvert og eitthvað er nú til í því. En óneitanlega held ég að sveitarfélögin hljóti að verða að koma til móts við okkur. Allar lækkanir hafa ómetanlegt gildi, sérstaklega nú í upphafi samningstímans." - Verða samningarnir samþykktir í Dagsbrún? Verkalýðsfélögin vilja stöðva óðaverð- bólguna og víxlhækkanir. Félögin úti um land vita um hryllilegar afleiðingar hennar á atvinnu og byggðarlög. í Reykjavík er að sumu leyti annað viðhorf: Meðal Dagsbrún- armanna ríkir að vonum sár gremja yfir því sem menn hafa misst og vantrú á loforð stjórnvalda og banka. f Reykjavík er hins vegar minna atvinnuleysi en víða úti um land þar sem ástand er mjög alvarlegt. Ég á því von á að Dagsbrúnarmenn verði þungir fyrir. Hins vegar held ég að flestir skilji að það er mesti misskilningur að lífskjör geti ekki versnað enn og einasta færa leiðin í stöðunni hafi verið farin. Það er alger forsenda þess að þessi tilraun sem samningarnir eru takist, að enginn bili og að engir sérhópar eða hálaunahópar með sterka verkfallsstöðu komi og knýi fram meiri hækkanir í krafti stöðu sinnar. Þá springur þetta,“ sagði Guðmundur J. Guð- mundsson. Stefán Ásgrímsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.