Tíminn - 05.10.1990, Blaðsíða 14

Tíminn - 05.10.1990, Blaðsíða 14
14 Tíminn Föstudagur 5. október 1990 ÁRNAÐ HEILLA Sextugur: Þráinn Jónsson Af augljósri ástæðu hefði ég kosið að taka hús á vini mínum Þráni í dag. Á hinn bóginn stendur ekki þann veg á fyrir mér, enda búast menn austur þar rammlega um vegna næstu alþingiskosninga. Ber mér að vera þeim málatilbúnaði sem fjarlægastur, þótt mér renni að vísu blóðið til skyldunnar að veita Agli fóstra mínum Jónssyni, en hann mun reynast sjálfbjarga og vel það. Fyrir því kýs ég kyrr að sitja og senda Þráni örfá kveðjuorð. Vinátta okkar Þráins hefir staðið í meira en aldarfjórðung, og mun svo verða meðan báðir lifa. Hjá þeim hjónum, Ingveldi og Þráni, átti ég ávallt skjól og athvarf og vís- an stuðning til allra verka í tuttugu og fimm ára herleiðingu minni eystra. Þráinn Jónsson fæddist í Gunn- hildargerði í Hróarstungu 5. októ- ber 1930. Alvörulausir strákar höfðu á glaðri stundu uppi orðræð- ur um að menn hefðu búist mynd- arlega um fyrir stórafmælið 1930 og slegið undir í góðan árgang og er Þráinn gott dæmi. Hann er af kjarkmiklum ættum af Héraði, enda verður efniviður í slíkan héraðsstólpa ekki tíndur upp af rekafjöru. Það var áreiðanlega ekki mulið undir hann í æsku, enda lærði hann ungur að bjarga sér og hefur ræktað þann lærdóm betur en flestir menn. Þótt hugur hans stefndi til að taka við ættaróðalinu, og hann gengi í búnaðarskóla þess vegna, sá hann strax að gefa myndi lítið í aðra hönd að hokra að kúm og kindum. Viðskipti og þjónusta ýmisleg fönguðu hug hans og gerð- ist hann brátt umsvifamikill og mikilvirkur á þeim sviðum eins og allt hans æði stendur til. Ég hygg að Þráinn hafi sett sér það í árdög- um sínum að verða bjargálna - og vel það. Hefir honum orðið að ásetningi sínum. Þess gerist raunar ekki þörf að lýsa Þráni Jónssyni fyrir öðrum mönn- um, svo þjóðþekktur sem hann er. Þeir munu ekki margir, sem komn- ir eru til vits og ára, sem ekki kann- ast við Héraðshöfðingjann Þráin Jónsson. En jafnframt því að skara rösklega elda að eigin kökum hefir Þráinn reynst burðarás sveitar sinnar. Hann hefir um árabil verið fremst- ur í flokki jafningja sem fyrirsvars- maður Fellahrepps og -bæjar sér- staklega, sem risið hefir á skömm- um tíma við sporð Lagarfljótsbrúar, hreppstjóri og hreppsnefndarmað- ur óumdeildur til fjölda ára. Að öll- um öðrum ólöstuðum hefir hann verið driffjöðrin í viðgangi fram- faramálanna. Nægir í því sambandi að minna á hinn nýja skóla í Fella- bæ, sem gegnir fjölþættu hlutverki í sveitarfélaginu. Skólahúsnæðið reis svo hratt sem raun bar vitni fyrir lagni og ágengni Þráins. Þegar aðrir báðu grátandi um Ásmundar- járn og snæri forgefins, þrýsti Þrá- inn sínu fram með góðu og illu. Þráinn er mikill félagsmálamaður og hrókur alls fagnaðar, hvar sem hann kemur, í bestu og víðtækustu merkingu orðsins. Héraðsmönnum þykir ekki nóg til þorrablóta koma nema Þráinn sé þar nær, enda ræk- ir hann blótin kappsamlega og hef- ir náð sex á sömu vertíð. Þráinn er mannskapsmaður í sjón og raun, en ekkert er á hann hallað þótt sagt sé að kona hans, Ingveld- ur Pálsdóttir, sé hans betri helm- ingur, enda Húnvetningur myndu menn kannski vilja bæta við norður þar. Þau eiga ágætu gengi og gæfu að fagna saman. Börn þeirra upp- komin sverja sig í ættir að mann- taki og myndarskap. Við Greta sendum þessum miklu vinum okkar heilla- og hamingju- óskir á heiðursdegi. Megi Héraðs- höfðinginn lengi lifa og njóta vel árangurs atorku sinnar og fram- taks, og verða enn um langa hríð máttarstólpi sveitar sinnar og sam- ferðamönnum gleðigjafi. Sverrir Hermannsson Steingrímur Jóhann Haukur Aðalfundur Framsóknarfélags Kjósarsýslu verður haldinn að Hlégarði sunnudaginn 14. október 1990 kl. 17.00. Fundarefni: Venjuleg aðalfundarstörf og þar með talið kjör fulltrúa á kjördæmisþing framsóknarmanna á Reykjanesi, sem haldið verður f Keflavik sunnudaginn 4. nóvember nk. og flokksþing í nóvember. Alþingiskosningar og önnur mál. Að aðalfundi loknum verður gert hlé til skrafs og viðræðna til kl. 19.15, en þá hefst kvöldverður. Gestir fúndaríns veröa: Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og frú Edda Guðmundsdóttir, Jóhann Einvarðsson alþingismaður og frú Guðný Gunnarsdóttir, Haukur Níelsson fv. hreppsnefndarmaður og frú Anna Steingrimsdóttir. Fólki sem ekki hefur tök á að mæta til aðalfundar er bent á, að það er velkomið með gesti sína i hlé eftir aðalfund og síðan til kvöldverðarins. Vinsamlegast hafið samband vegna kvöldverðarins við Gylfa vinnusimi 985-20042, heimasimi 666442 og við Helga í vinnusíma 82811, 985-21719, heimasimi 666911, hið fyrsta. SQómin. 21. flokksþing MPJ Framsóknarflokksins 21. flokksþing Framsóknarflokksins verður haldið á Hótel Sögu, Reykjavík dagana 16.-18. nóvember 1990. Um rétt til setu á flokksþingi segir í lögum flokksins eftirfarandi: 7. grein. Á flokksþingi framsóknarmanna eiga sæti kjörnir fulltrúar flokksfélaga. Hvert flokksþing hefur rétt til að senda einn fulltrúa á flokksþing fyrir hverja byrjaða þrjá tugi félagsmanna. Fulltrúar skulu þó aldrei vera færri en 1 fyrir hvert sveitarfélag á félagssvæðinu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. 8. grein. Á flokksþinginu eiga einnig sæti miðstjórn, framkvæmdastjórn, þingflokkur, formenn flokksfélaga og stjómir LFK, SUF og kjördæmissambanda. Dagskrá þingsins verður auglýst slöar. Framsóknarflokkurínn. Kópavogur- Bæjarmálaráð Fundur verður haldinn laugardaginn 6. október kl. 11.00 að Hamraborg 5. Mætum öll. Stjómin. Þorsteinn Matthíasson kennari og rithöfundur frá Kaldrananesi Fæddur 23. apríl 1908 Dáinn 28. september 1990 í dag verður til moldar borinn Þor- steinn Matthfasson frá Kaldrana- nesi, kennari og rithöfundur. Hann fæddist að Bjarnarnesi í Kaldrananeshreppi, Strandasýslu, þann 23. aprfl 1908. Foreldrar hans voru hjónin Matthías Helgason, hreppstjóri á Kaldrananesi, og Margrét Þorsteinsdóttir. Átján ára gamall hóf hann nám í Kennaraskóla íslands. Eftir þennan eina vetur verður hlé á hans skóla- göngu. Um það hefur hann sjálfur skrifað: „Örlögin skipuðu málum þannig að mörg næstu ár var ég heima og fór hvergi í skóla. Sumar- ið 1927 lést Halldór bróðir minn og lengi eftir það áfall má kalla að heimilið væri í sárum þó að ekki væri hátt yfir Iátið. En um skóla- göngu mína var ekki frekar rætt að sinni. Ég fór að sinna búfé og öðru því sem hefðbundin búskaparstörf á hlunnindajörð útheimtu." Haustið 1930 er Þorsteinn beðinn um að taka að sér barnakennslu í Kaldrananeshreppi. Því starfi gegndi hann til 1935, ef undan er skilinn veturinn 1933-34, sem hann var í Kennaraskólanum. Kennara- próf tók Þorsteinn vorið 1934 og þar með var framtíðarstarf hans ákveðið. Kennslustörf stundaði Þorsteinn í nærri 60 ár, þar af mörg sem skóla- stjóri, m.a. á Hólmavík og Blöndu- ósi. Um fyrstu kynni sín af fræðslumál- um, kennslu og prófum hefur hann ritað skemmtilega grein í 22. árg. Strandapóstsins. Þar kemur vel í ljós skopskyn hans og mannlegur skilningur. Á síðari hluta ævi sinnar gerðist Þorsteinn mikilvirkur rithöfundur. Eftir hann liggja fjölmargar bækur, flestar um þjóðlegan fróðleik, sem mikill fengur er að. Þorsteinn kvæntist árið 1937 Jó- fríði Jónsdóttur frá Ljárskógum f Dalasýslu. Hún lést 1971. Þau eign- uðust þrjá syni, þeir eru: Matthías, stud., Halldór, kennari og grafískur hönnuður, og Jón, prestur á Mos- felli. Leiðir okkar Þorsteins lágu saman í Átthagafélagi Strandamanna í Reykjavík. Þar var hann forgöngu- maður og starfaði af lífi og sál. For- maður Átthagafélagsins var hann fyrstu sex árin og á 25 ára afmæli fé- lagsins var hann gerður að heiðurs- félaga. í stofnfundargerð Átthagafé- lagsins segir m.a.: „Þorsteinn Matt- híasson frá Kaldrananesi flutti ávarp og gerði grein fyrir aðdrag- anda stofnfundarins og störfum undirbúningsnefndar... Líkti ræðu- maður félaginu við brú er tengdi saman Strandamenn í Reykjavík og sýslungana í átthögunum." Átthagafélag Strandamanna f Reykjavík hefur í öll þessi ár frá stofnun 1953 haldið uppi fjölþættri starfsemi. Síðan 1967 hefur félagið gefið út ársritið Strandapóstinn. Aðalhvatamaður að stofhun ritsins var Þorsteinn Matthíasson og lengst af hefur hann verið þar í ritnefnd. í ávarpi sem Þorsteinn ritar í 1. hefti Strandapóstsins segir hann: „Þar sem barnsfingur struku um blöðruþang, vorlangan dag og bár- an hljóðláta kvað sitt fagnaðarlag - þar eiga margir sitt óðal, þótt þá hafi tekið út og borist að landi við ókunnar strendur. Og það er þessi dula kennd, sem er undirrót þess að fólk frá hinum ýmsu byggðum myndar með sér félög til að geta komið saman og rifjað upp endur- minningar þaðan, sem forðum var þess heima. Hin sama hugsun stendur að baki útgáfu þessa ársrits, sem Átthagafé- lag Strandamanna sendir nú frá sér og hefur gefið nafnið Strandapóst- urinn. Það er von þeirra, sem að rit- inu standaa, að það geti orðið tengi- liður milli fólksins heima og heim- an. Brugðið upp svipmyndum horf- inna tíma og líðandi stundar." Þetta ávarp lýsir vel Þorsteini, til- fmningum og hug hans til heima- byggðarinnar. Hann var bundinn átthögunum mjög sterkum bönd- um. Þorsteinn kenndi sig jafnan við Kaldrananes í Bjarnarfirði á Ströndum, þar sem hann átti sín bernsku- og unglingsár, þó að meirihluta ævinnar ætti hann heima annars staðar. Þegar Strandapóstinum er flett þá rekumst við á margs konar efni eft- ir Þorstein Matthíasson frá Kaldr- ananesi, ritgerðir, viðtöl, ljóð og síðast en ekki síst þjóðlegan fróð- leik. Þegar ég heimsótti Þorstein síðast um mánaðamótin ágúst/sept- ember sl., þá var honum tíðrætt um eyðibýlin á Ströndum. Hann sagði að hin mörgu eyðibýli ættu hvert sína sögu sem vert væri að varð- veita. Við vorum sammála um að það væri gott og þarft efni fyrir Strandapóstinn. Eg fann að hann hafði hug á að vinna það verk og ég held hann hafi verið byrjaður, en því miður entist honum ekki aldur til að ljúka því. Sláttumaðurinn slyngi kom of snemma. Þorsteinn átti mjög létt með að yrkja, þó að ekki hafi mikið birst eft- ir hann af ljóðum. Þegar hann orti þá var það með þjóðlegum hefð- bundnum hætti, rím, stuðlar og höfuðstafir voru sannarlega á sín- um rétta stað. Á fundi ritnefndar Strandapóstsins fyrir um þrem vik- um sýndi hann okkur ljóð sem hann var nýbúinn að yrkja. Kveikj- an var aldarafmæli Hólmavíkur sem verslunarstaðar. Þetta ljóð mun birtast í næsta hefti Strandapósts- ins. En mig langar til að birta hér síðasta erindið, sem sýnir vel færni hans á þessu sviði. „Sá sem saman vefur vit og dáð valið efni fékk í gæfuþráð. Geti aeskan unnið afrekslík er gndislegur staður - Hólmavík. “ Þorsteinn var sérlega orðhagur maður. Hann átti mjög auðvelt með að færa hugsanir sínar í búning og hafði hann þá stundum viðhafnar- mikinn, ef hann vildi svo við hafa, hvort sem var í mæltu eða rituðu máli. Af því sem að framan er sagt er ljóst, að við í Átthagafélagi Stranda- manna eigum Þorsteini Matthías- syni mikið að þakka. Þorsteinn var glæsimenni, stór og höfðinglegur, sem setti svip á um- hverfi sitt. Reisn sinni hélt hann til hinstu stundar. Hann var marg- slunginn persónuleiki. Hann var vissulega alvarlega þenkjandi, en átti auðvelt með að blanda geði við fólk og á samkomum og í ferðalög- um lék hann við hvern sinn fingur og var hrókur alls fagnaðar. Við hjónin þökkúm Þorsteini fyrir einlæga vináttu og hlýhug í okkar garð. Blessuð sé minning Þorsteins Matthíassonar. Sonum, öðrum aðstandendum og vinum sendi ég samúðarkveðjur. Þorsteinn Ólafsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.