Tíminn - 01.12.1990, Blaðsíða 9

Tíminn - 01.12.1990, Blaðsíða 9
8 Tíminn Laugardagur 1. desember 1990 Laugardagur 1. desember 1990 Tíminn 21 Haraldur Briem, sérfræðingur í smitsjúkdómum á lyflækningadeild Borgarspítalans: Við höfum tækifæri til að hefta útbreiðslu alnæmis Haraldur Briem, sérfræðingur í smitsjúkdómum á Ivflækningadeild Borgarspítalans Reykjavík, hefur unnið að rannsóknum á alnæmi á Islandi frá því um 1983 er hann hóf störf við Borgarspítalann. í dag er alþjóðlegi alnæmisdagurinn og að því tilefni var Haraldur tekinn tali í helgarviðtali Tímans. Hann var fyrst spurður að því hvort ein- hver fjölgun hefði orðið á alnæmissmituðum einstaklingum á íslandi á þessu ári. „Það hefur ekki orðið nein fjölgun að ráði hér- lendis á þessu ári, sem betur fer. Það hafa fáir fúndist smitaðir og fáir fengið alnæmi. í raun færri en við bjuggumst við í upphafi. Sá hópur sem var smitaður í upphafi áratugarins virðist hafa verið minni en við héldum í fyrstu. Svo getur verið að áróðurs- og upplýsingarherferð stjórnvalda hafi borið árangur. Þá höfúm við hafið lyfjameðferð á einkennalitlum einstak- lingum sem heldur niðri virkni HlV-veirunnar sem veldur alnæmi. Þetta hefur líklega allt átt sinn þátt í að halda sjúkdómnum niðri." Útbreiðsla alnæmis á íslandi — Er von til að hefta útbreiðslu alnæmis á ís- landi? „Nú þegar sjúkdómurinn alnæmi er kominn til okkar á íslandi er lítil von til þess að útrýma honum alveg, en það er hægt að hefta út- breiðslu hans með ýmsum ráðum. Við höfum okkar tækifæri núna á meðan útbreiðslan er takmörkuð." Á íslandi í dag hafa greinst 56 einstaklingar með smit af völdum HIV, veirunnar sem orsak- ar alnæmi, sé miðað við 30. september s.l. og hefúr einn einstaklingur, ffkniefnaneytandi, bæst við frá 30. júní s.l. Af þessum 56 eru 14 einstaklingar sem hafa greinst með alnæmi — lokastig sjúkdómsins — og eru 8 þeirra látnir. Alls 8 konur hafa greinst með alnæmi og er það um 1 kona fyrir hverja 6 karlmenn sem er smit- uð hér á landi. Enginn þeirra smituðu er undir 20 ára aldri. „Við höfum gert kannanir á sjúklingum sem leggjast inn á Borgarspítalann, nafnlaust. Við athuguðum 5000 sjúklinga sem komu til rann- sókna á spítalanum á síðasta ári og þá fannst einungis einn einstaklingur smitaður af HIV sem ekki var vitað um áður. Við gerðum svona könnun líka árið 1986 og þá voru 1000 skoðað- ir og þá fannst einn líka. Það hefur sem sagt ekki orðið nein veruleg stökkaukning á fjölda smitaðra á þessum fjórum árum. Við höfum gert þessar kannanir af og til, til að kanna hvort það hafi orðið einhver markviss útbreiðsla í samfélaginu. Við hefðum búist við að ef einhver mikil út- breðsla hefði orðið á þessum áratug, þá hefði fólk líklega leitað Iækninga vegna einhverra óþæginda, ef það vissi ekki að það væri smitað og það kæmi þá í ljós við rannsókn. En þetta útilokar ekki að það séu vissir lokaðir hópar í samfélaginu sem eru smitaðir og hafa ekki enn leitað læknis." Fíkniefnaneytendur loka eyrum og augum fyrir áhættunni — Hvaða hópar eru í mestri smithættu hér- lendis? ,Af þeim sem eru smitaðir nú eru um 66% hommar, um 16% eru fíkniefnaneytendur og um 7% eru gagnkynhneigðir og hafa smitast við kynmök og um 7% eru blóðþegar, en smit- un vegna blóðgjafar heyrir nú sögunni til. Svo er einn einstaklingur sem ekki er vitað hvernig smitaðist. Mér sýnist að af stærstu áhættuhópunum séu fíkniefnaneytendur sá hópur sem lokar eyrun- um alveg fyrir hættunni. Það virðist enginn áróður ná til þeirra eða hefur ekki gert það hingað til. Það hefur nú ekki verið nein stór- vægileg útbreiðsla á meðal þeirra, en það sem við höfum áhyggjur af er að það kom upp nán- ast faraldur af lifrarbólgu B hjá ungum fíkni- efnaneyténdum sem sprauta sig, á síðasta ári. Þessi lifrarbólga smitast eins og alnæmi, með því að margir nota sömu nálina. Það bendir til þess að þessir einstaklingar hafi ekki hlustað á umræður um alnæmi. Ef alnæmi nær fótfestu meðal þessa fólks, þá smitast þau öll líklega mjög fljótt ef þau passa sig ekki og þá gæti al- næmi farið af stað. Dæmi um slíkt er t.d. frá Thailandi: Þar varð alger sprenging í alnæmis- útbreiðslu og á tveimur árum jókst fjöldi al- næmissmitaðra fíkniefnaneytenda og vændis- kvenna frá um 1000 upp í 100.000 manns. Alþjóðlegi alnæmisdagurinn 1. desember er nú í þriðja sinn tileinkaður bar- áttunni gegn alnæmi á alþjóðlegum vettvangi. Nú í ár beinist athyglin einkum að konum og alnæmi og er ástæða þess sú að í mörgum sam- félögum er réttarstaða kvenna mun veikari en karla. Þar með talinn er réttur þeirra til náms, en þekking á smitleiðum alnæmis er stærsti þátturinn í að koma í veg fyrir smit. Samkvæmt alþjóðlegu heilbrigðismálastofn- uninni, WHO, eru u.þ.b. 8-10 milljónir manna smitaðir af HIV í heiminum í dag og þar af eru yfir 1,2 milljónir karla, kvenna og barna sem hafa sýkst af alnæmi og þar af að minnsta kosti 400.000 böm undir 5 ára aldri. WHO segir einnig að í lok þessarar aldar munu að minnsta kosti 25-30 milljónir manna í heiminum vera smituð af HIV og um 3,5 milljónir kvenna og barna hafi þá dáið af völdum alnæmis í heimin- um.“ Alnæmi ein aðal dánarorsök bama um aldamótin —Af hverju er alþjóðlegi alnæmisdagurinn tileinkaður konum? .Ástæðan fyrir því að hann er tileinkaður konum er sú að eyðni er að verða svo mikið vandamál út um allan heim. Fyrst héldu menn hér á Vesturlöndum að þetta væri bundið við homma, en svo sýndi sig í Afríku að konur gátu alveg eins smitast eins og karlmenn. Þetta er nú að gerast t.d. í Bandaríkjunum þar sem útbreiðslan nú er hvað hröðust hjá gagnkynhneigðum og þá sérstaklega hjá konum. Aðalvandamálið í þessu sambandi er að þeg- ar kona er smituð getur hún smitað barnið sitt. Þetta er að verða mikið vandamál um all- an heim og menn halda að um aldamótin verði alnæmi ein aðal dánarorsök barna í heiminum. Þetta er að gerast með sjúkdóm sem varla þekktist 20 árum áður.“ Jafn líklegt að kona smiti mann eins og hið gagnstæða — Er rétt að það séu meiri líkur á því að kona fái alnæmi ef hún sefur hjá smituðum manni, en ef maður sefur hjá alnæmissmit- aðri konu? „Þetta er nú dálítið umdeilt atriði og ég tel að þarna skipti tímaþátturinn verulegu máli. í Afríku er enginn munur sjáanlegur hvort karlmaður smitast af konu eða kona af karl- manni; þó hafa menn haldið að Afríka hafi sérstöðu hvað þetta varðar og að ef til vill auðveldi aðrir kynsjúkdómar smitunina þar. Mönnum á Vesturlöndum hefur einfaldlega fúndist þetta vera tilhneigingin, að karlmað- ur smiti konu frekar. Það álit byggist á því að sjúkdómurinn kom fyrst upp í hommahópn- um. Einnig er það svo að um 70% af fíkni- efnaneytendum eru karlmenn, svo að veikin kom seinna upp meðal kvenna. En það er ekki þar með sagt að konur smiti ekki. Það eru meiri líkur á smiti eftir því hve lengi við- komandi hefur gengið með sjúkdóminn. Því lengur sem menn ganga með smit, þeim mun meira smitandi verða þeir.“ Tækífæri nú til að halda alnæmi í skeíjum — Hvaða leiðir telur þú að best sé að fara til að stemma stigu við útbreiðslu alnæmis hér- lendis? „Halda áfram með fræðslu. En það er ekki nóg að ffæða fólk ef við vitum ekki hvað það gerir við fræðsluna eða hvernig það hagar sér almennt. Við sjáum t.d. núna að fíkniefna- neytendur hafa ekki tekið neitt af áróðrinum til sín. Það þarf með einhverjum ráðum að ná til þessa hóps og það er hægt með því að koma skilaboðunum til þeirra þegar fólkið kemur til meðferðar, sem margir fíkniefria- neytandanna gera fyrr eða síðar. Það er líka mikilvægt að gera almenna at- ferliskönnun til þess að sjá hvar vandinn er, hvert atferli fólks er og hvaða vitneskju það hefur um sjúkdóminn og þess háttar. Hvað eru t.d. íslendingar að gera þegar þeir fara til Suður-Evrópu? Svona starf þarf að vera vinna stöðugt, því við erum ekkert einangruð hér. En það geta þó samt verið hópar í samfélag- inu smitaðir, sem við vitum ekki af.“ Lyf sem nú eru notuð gegn alnæmi — Hefúr eitthvað markvert gerst í þróun lyfja gegn alnæmi? „Það hafa nú ekki orðið neinar stórar breyting- ar á. Það lyf sem mest er notað til að halda veir- unni sjálfri niðri kallast AZT. Það truflar fjöl- földun veirunnar þannig að það eru minni líkur á því að hún geti valdið usla. En þetta er engin lækning í sjálfu sér samt, því veiran er afar klók. Þetta lyf deyfir bara möguleika veirunnar á að valda skaða. Það er nú ekki komin löng reynsla á þetta lyf eða hvað það þýðir til langs tíma, en það er alveg ljóst að það hefur dregið úr fjölg- unarhraða veirunnar og þá úr alnæmi. Síðan hefur verið unnið að því að þróa lyf sem eru skyld þessu lyfi og verka á mjög svipaðan máta og sem jafnvel eru notuð í staðinn fyrir AZT-lyfið, ef það veldur of miklum aukaverkun- um til dæmis. AZT er notað mest gegn veirunni sjálfri. Fólk fær oft fylgisýkingar svokallaðar sem koma í kjölfarið á HlV-sýkingu, en það hafa orðið ýms- ar framfarir í gerð lyfja til að fást við slíkt. Síðan hefur verið farið út í að beita fyrirbyggjandi að- gerðum til að koma í veg fyrir að fólk fái þessar fylgisýkingar, en það eru þær sem leiða fólkið yfirleitt til dauða og valda miklum vandræðum. Aðbúnaður smitaðra — Hvert á einstaklingur, sem grunar að hann sé smitaður, að leita? „Hann getur leitað til hvaða heilsugæslulækn- is sem er, hann getur komið á rannsóknardeild Borgarspítalans og beðið um prófun. Hann get- ur leitaö til göngudeildar Landspítalans og húð- og kynsjúkdómadeildar við Barónsstíg, svo eitt- hvað sé nefnt. Það er í raun mjög auðvelt að fá prófun. Öllum er gefinn kostur á því, en enginn er þó þvingaður til þess. Fólki er boðið upp á prófun, t.d. er óléttum konum jafnan boðið að láta taka af sér alnæmispróf. Hins vegar ef einhver kæmi til mín sem lækn- is með einhver einkenni sem gætu samræmst alnæmissmiti þá þyrfti ég að athuga alla mögu- leika. Ég gerði ráð fyrir því að sá myndi heimila mér að leita allra ráða til þess að finna hvað að væri og því myndi ég taka þetta próf eins og önnur, ef ég teldi ástæðu til.“ Einkenni smits — Hver eru helstu einkenni HIV- smitsins? Hverju finnur fólk fyrst fyrir ef það er smitað? „Það lúmska við þennan sjúkdóm er að fólk finnur oft engin einkenni, jafnvel árum saman. Svo þegar fólk veikist þá geta einkennin verið mjög almenns eðlis: flensueinkenni, hiti, háls- bólga, útbrot, lungnabólga, niðurgangur, megrun, höfuðverkur, heiiahimnubólga, gleymni og rugl, því þetta sest líka í miðtauga- kerfið. Þegar sjúkdómurinn er kominn á alvar- lega hátt stig þá getur komið t.d. visst húð- krabbamein. Þegar fólk er komið með alnæmi getur það fengið t.d. sérkennilega lungnabólgu sem venjulegt fólk fær ekki; þannig fannst al- næmi í upphafi. En fólk getur fundið einkenni t.d. stuttu eftir smit, það getur verið eitla- og hálsbólga, eða jafnvel væg heilahimnubólga sem gengur yfir á viku til tíu dögum. Meðgöngutími HlV-veir- unnar, áður en fólk fær það sem kallað er al- næmi, er um 8-9 ár.“ — Verður þú var við hræðslu og fordóma hjá fólki? „Nei, ekki lengur. Mér finnst bera miklu minna á því en áður. Þetta er t.d. orðið daglegt brauð á þessum spítala og fólk kippir sér ekki upp við þetta lengur; umgengst sjúklingana kannski með vissri gát en ekki með fordómum, að mér virðist." Er alnæmi dauðadómur? „Ja, ef þú (sagði Haraldur og benti á ljósmynd- ara Tímans sem dæmi) kæmir til mín hér al- næmissmitaður þá væri ég nú bara nokkuð bjartsýnn við þig. Það gæti ég verið vegna þess að ég veit að þú hefur helmings líkur til þess að lifa við ágæta heilsu næstu 10 árin. Svo er nú orðið hægt að taka fólk strax í fyrirbyggjandi meðferð og nú hafa verið að berast tölur sem sýna að það er hægt að halda sjúkdómnum niðri töluvert lengi. Það er engin spurning um það. í það heila tekið er svo komið að það að vera smitaður er í raun ekki bráður dauðadóm- ur.“ Er lækning á alnæmi í sjónmáli? — Er lækning í sjónmáli fyrir þá sem smitað- ir eru nú þegar? „Það er nú lítil von til þess að losna við HIV- veiruna ef smit er orðið, því hún er blönduð inn í erfðaefni okkar. Helsta vonin er sú að finna lyf sem hefur áhrif á stýrikerfi veirunnar. Það er vitað nú að veiran hefur rofa sem kemur henni af stað og/eða lamar hana, en hvernig það gerist er ekki alveg vitað. Það er vonast til þess að geta haldið henni óvirkri eins lengi og mögulegt er og slíkt lyf gæti komið fyrr frekar en síðar. Menn eru orðnir heldur bjartsýnni á að fyrir- byggjandi bóluefni finnist gegn veirunni. En það hefur ekkert marktækt gerst ennþá í því og það getur því miður orðið svolítil bið í það enn- þá,“ sagði Haraldur að lokum í helgarviðtali sínu við Tímann. Guðrún Erla Ólafsdóttir

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.