Tíminn - 12.10.1991, Blaðsíða 8

Tíminn - 12.10.1991, Blaðsíða 8
8 Tíminn Laugardagur 12. október 1991 Nauðsynlegt að þjóðarsátt ríki áfram, en launahækkanir koma ekki til greina. Þórarinn V. Þórarinsson, framkv.stjóri VSÍ: Niðurskuröur ríkisbáknsins er forsenda kjarasamninga Þórarínn V. Þórarinsson, framkvæmdastjórí VSÍ, er í helgarviðtalinu. Nú standa kjarasamningar fyrir dyrum og VSÍ hefur gefið út svarta þjóðhagsspá og segir að um kjarabætur geti ekki orðið að ræða í ljósi þess hve efnahagshorfur séu dökkar. Ekk- ert sé nú til skiptanna. f fyrradag birti VSÍ viðhorfskönnun, sem Gallup gerði fyrir sambandið og fjallar um þjóðarsáttina og hugsanlegt framhald henn- ar. 70% þeirra, sem tóku afstöðu, voru fylgj- andi því að samið yrði með hliðstæðum hætti í þeim samningum sem framundan eru. Þeir, sem þannig svöruðu, voru síðan spurðir hvort þeir væru fylgjandi nýrri þjóð- arsátt, þótt litlar sem engar launahækkanir fylgdu með. Já við því svöruðu nær 80% þeirra sem afstöðu tóku. — Vill þá landinn stöðugleika, þrátt fyrir verðbólguuppeldi? „Já, fólkið er farið að sjá kosti þess.“ — En þið bjóðið núll eða minna en það og komið fram með bleksvarta þjóðhagsspá í upphafi samningaviðræðna. „Það er sagt að við gerum það í hvert sinn þegar á að fara að semja, og því miður er nokkuð til í því, en það kemur ekki til af góðu. Undanfarin fimm ár höfum við verið svartsýnir í spám okkar og því miður hafa þær gengið eftir. Ef litið er til áranna 1988- 1991, þá hafa þessi fjögur ár einkennst af stöðnun eða samdrætti í þjóðarbúskapnum. Á þetta höfum við verið að benda. Nú eru dökkar blikur á lofti og á það bendum við. Við verðum að gera okkur grein fyrir því hvert stefnir í efnahagsmálum, og leynum því ekkert ef við sjáum að stefnan er niður á við. Annað væri ábyrgðarleysi." — En eruð þið ekki að mála skrattann á vegginn til að sleppa betur út úr kjarasamn- ingum? „Nei. Því miður eru horfurnar afleitar. Efnahagsspár eru orðnar tiltölulega ná- kvæmar, og það er t.d. sáralítil óvissa um hvernig afli verður. Nýhafið fiskveiðiár er það fyrsta þar sem ekki er gert út á sóknar- mark, og því er næsta ljóst hver hámarksafli af botnfiski verður, en hann skiptir sköpum. Eini verulegi óvissuþátturinn er loðnan. Reiknað er með 500 þús. tonna loðnuafla. Sumir telja að hann geti orðið meiri, sem er óskandi, og fréttir af loðnufundi gefa vonir um það. Við höfum ekki reynt að spá í loðnuaflann, en látum fiskifræðingum það eftir. Sama er að segja um útflutning á áli og kísilmálmi: Við erum ekkert að spá um hann, heldur spyrjum fyrirtækin sem fram- leiða og selja vöruna. Álverksmiðjan og járn- blendiverksmiðjan segja okkur hverjar séu áætlaðar tekjur næsta árs, og á því byggjum við. Þar hafa horfurnar versnað mjög á til- tölulega fáum vikum. Við teljum að á þessu ári muni skuldir þjóðarinnar við útlönd aukast um 16000 milljónir, sem er um 250 þúsund kr. á hverja fjögurra manna fjöl- skyldu, og það er síður en svo neitt fagnað- arefni. Og ef fram heldur á næsta ári eins og við óttumst, þá er útlit fyrir 20 milljarða halla til viðbótar. Ef verða á framhald á þessu, mun greiðslubyrði þjóðarinnar — vextir og afborganir af erlendum Iánum — hækka mjög verulega. Greiðslubyrðin er nú 20% af útflutningstekjum, en gæti, ef illa tekst til, verið orðin 30% eftir fimm ár. Við höfum þá sérstöðu meðal spámanna að vonast yfirleitt eftir því að spárnar raetist ekki, og viljum vinna að því. Spár af þessum toga eru hins vegar nauðsynlegar til að meta hvert óbreyttar aðstæður leiða atvinnu- rekstur og þjóðfélög, og þær eru raunar for- senda þess að brugðist sé við með skynsam- legum hætti.“ — Er ekki atvinnulífið allt of staðnað og einhæft? „Það er rétt að of lítil framþróun hefur ver- ið í atvinnulífi okkar síðustu ár, sem birtist e.t.v. best í því að störfum í einkageiranum fækkaði um rúm 6%, eða um liðlega 6000 frá 1987 til 1989. Auðvitað er þetta mikið áhyggjuefni, því velferðin verður ekki byggð á samdrætti í almennum atvinnurekstri. Þar þarf þvert á móti vöxt. Við þessum vanda hafa stjórnmálamenn reynt að bregðast og þá oft með mikilli fjár- hagslegri hvatningu til einhverra tiltekinna greina, sem verða skyldu vaxtarbroddur. Þannig var miklu opinberu fé varið til að laða bændur til fylgis við loðdýr, með al- kunnum afleiðingum. Þá skyldi gera stóra hluti í fiskeldi og fleira má tína til. Þetta eru dæmi um atvinnustefnu sem byggði á skyndilausnum og mikilli opinberri hvatn- ingu. í þessu felst sá misskilningur að stjórnvöld geti, eða eigi að hafa forgöngu um atvinnurekstur. Ég fullyrði að við stæð- um efnalega miklu betur í dag, ef stjórnvöld hefðu látið sér nægja að tryggja almenn starfsskilyrði. Atvinnurekstur þarf fyrst og fremst stöðugleika til að geta blómstrað. Ef verðbólga hefði verið svipuð hér og í Evrópu allan síðasta áratug, þá væri staðan önnur í dag.“ — Skipta vextir og vaxtastefna ekki máli fyrir atvinnuvegina? Hvað með vaxtastefnu núverandi stjómar? „Ég tel að mikilvægt sé að markaðsöflin fái sem rýmst svigrúm hvar sem er, og er hlynntur samkeppni á peningamarkaði. Mistökin liggja í gríðarlegri aukningu eftir- spurnar opinberra aðila eftir lánsfé. Á þessu ári hefur eftirspurn ríkissjóðs, sveitarfélaga og húsnæðiskerfis farið töluvert fram úr öll- um innlendum sparnaði og er um 36 millj- arðar. Á sama tíma er nýr innlendur sparn- aður áætlaður 29 milljarðar. Slíkt getur ekki endað með öðru en vaxtasprengingu. Við bendum á að það verði einfaldlega að draga úr ásókn hins opinbera — ríkis, sveitarfé- laga og fyrst og fremst húsnæðiskerfisins — á lánamarkaðinn, því það er þessi skrúfa sem keyrir vextina svo upp, að það er engin von til þess að menn geti reiknað minnstu vitglóru í nokkra fjárfestingu. Engin fjár- festing stenst þetta vaxtastig. Því er það flestu mikilvægara að draga úr eftirspurn hins opinbera eftir lánsfé og leggja þannig grundvöll að lægri vöxtum. Eg hef ekki trú á að hægt sé að hrópa vextina niður. Það verða að vera forsendur á markaðnum. Á fyrri hluta árs 1990 var flýtt fyrir því að nafnvextir lækkuðu, með samkomulagi við bankakerfið. Vextir voru ekki töfraðir niður, heldur var búin til áætlun um þróun verð- lagsmála, sem bankarnir trúðu á að myndi halda og tóku þess vegna þátt í því að keyra niður vexti með tilteknum hætti." — Eru skikkanlegir vextir höfuðforsenda þess að hægt sé að ganga til samninga nú? „í raun held ég að svo sé. Á næsta ári mun- um við fara inn í kreppu og þjóðartekjur munu minnka um 3-6%. Spurningin er því hvernig deila eigi byrðunum milli einka- rekstraraðila, opinberra aðila og launafólks. Það er ekki hægt að ganga bara að fyrirtækj- unum í þessari stöðu, vegna þess að það er öllu öðru mikilvægara að þau fái starfað. Annars blasir við enn meira atvinnuleysi strax á næsta ári. Launafólk tekur ekkert meira á sig en sem nemur fyrirsjáanlegum samdrætti þjóðartekna. Hinn raunverulegi samdráttur verður því að vera í opinbera geiranum. Þar verður að draga úr útgjöldum og lánsfjáreftirspurn. Þetta er forsenda þess að vextir lækki, sem aftur er forsenda fyrir hagvexti. Ég er því ekkert viss um að íslenskir kap- ítalistar séu lélegir, eins og einhverjir hafa sagt. En það eru skilyrðin, sem þeir búa við, hins vegar. Það er ekkert auðvelt að búa við hinar hroðalegu sveiflur sem verið hafa í hagkerfinu lengst af. Nú þegar samningar standa fyrir dyrum, hefur verið talað um að komið sé að því að launafólk uppskeri fyrir þær fórnir sem það hefur fært. I þessari fúllyrðingu felst hins vegar talsverður misskilningur, því þegar launaþróun hér er borin saman við það sem annarsstaðar gerist, þá blasir við frá upphafi þjóðarsáttartímabilsins og til fyrsta ársfjórð- ungs þessa árs að kaup hækkaði á íslandi um 10%, en á sama tíma hækkaði það í OECD-löndum að meðaltali um 5%. í Dan- mörku, þar sem náðst hefur meiri árangur í efnahagsmálum en í mörgum öðrum grann- löndum okkar, hækkaði kaup um 4%. Þær launahækkanir hérlendis, sem oft er talað um sem litlar, eru samt tvöfaldar á við þær sem verið hafa í samkeppnislöndum, reikn- að í sömu mynt. Frá 1987 hefur verið samdráttur í þjóðar- tekjum okkar. Þessa hefúr gætt í einkaneysl- unni, sem dregist hefur saman, enda hefur hún að jafnaði fylgst að við þjóðarfram- leiðsluna. Það sama gildir hins vegar ekki um ráðstöfunarfé hins opinbera: Ríki og sveitarfélög hafa haldið áfram að auka sinn hlut með nákvæmlega sama hraða og verið hafði árin fyrir 1987, algerlega án tillits til þess hvernig búnast hefur í undirstöðu- greinunum. Frá 1980 hefur hagvöxtur til jafnaðar verið 2% á ári, en samneyslan hefur á sama tíma aukist um 4,5% á ári. Það er þetta sem ekki fær staðist." — Það er því ríkið, að þínu mati, sem þarf að taka sig á til að gera kjarasamninga mögulega? „Ég held að það þurfi mjög víðtæka nálgun að þessu máli nú. Hlutur sveitarfélaganna er ekki smár. Við höfum tekið saman yfirlit yfir hvernig skatttekjur þeirra hafa þróast frá 1980-1991. Þar sést að raunhækkun skatt- tekna sveitarfélaga á þessum tíma hefur ver- ið 47%, sem er gríðarleg hækkun. Stað- reynd er að þenslan hefur verið hjá sveitar- félögunum þennan tíma. Þau verða því að koma að málum, eigi að takast að skapa for- sendur þjóðarsáttar á nýjan leik.“ — Sýnist þér af nýja fjárlagafrumvarpinu að ríkið sé að taka sig eitthvað á? „Það eru tilburðir í þá átt, en ekki nægir og vantar mikið á. Þá virðist mér enn meira vanta á að þingmennirnir okkar geri sér grein fyrir því að mikilvægasta hlutverk þeirra við þessar aðstæður er að halda aftur af sér. Sérhver útgjaldatillaga við þessar að- stæður er tilræði við möguleika til að lækka vexti, tilræði við möguleika til að skapa skil- yrði til hagvaxtar á nýjan leik, sem er það mikilvæga nú. Það bliknar allt við hliðina á þessu markmiði, hvort heldur það eru stór- virki á sviði samgöngu- eða velferðarmála. Ef ekki tekst að koma hagvexti í gang á ís- landi á nýjan leik, þá brotna undirstöður þjóðfélagsins undan samneysluyfirbygging- unni sem búið er að hlaða á þær. Við erum síst á móti því að hér sé haldið uppi öflugu velferðarkerfi. Velferð er hins vegar ekki var- anleg, nema hún grundvallist á öflugu at- vinnulífi. Hættan felst ekki í því að vöxtur opinberra útgjalda sé of lftill, heldur hinu þveröfuga.“ — Tölur um meðallaun launþegahópa benda til þess að fæstir vinni fyrir þeim taxtalaunum sem samið hefur verið um. Hvemig stendur á því og til hvers er þá ver- ið að semja, ef ekki er samið um laun? „í fyrsta lagi eru taxtar, sem samið er um, að uppistöðu til lágmarkslaun. Þetta er einkum áberandi í skrifstofustörfúm, en þar gera ýmsir beinlínis ráð fyrir því að samið sé einstaklingsbundið um laun. Stéttarfélögin gæta fyrst og fremst hagsmuna félagsmanna í stóru málunum — almennra hagsmuna þeirra, en ekki að því hvað hver og einn á að hafa í kaup, enda er það orðinn úreltur hugsunarháttur. Vinnan er orðin svo marg- þætt, og það er vinnuframlagið og hvernig vinnan er unnin sem skiptir orðið miklu máli, þannig að einstaklingurinn ræður meiru um launasamninga sína en áður var. Hann semur víða beint um kaup sitt og kjör, en þó á þeim grunni sem kjarasamningur- inn setur.“ — í hveijum einustu kjarasamningum er talað um að hinir lægstlaunuðu verði að hækka í launum, en það gerist aldrei. Er það vegna þess að þeir sem vinna á taxta- kaupi — strípuðum töxtum — séu hlið- stæðir þeim, sem í nágrannalöndunum eru atvinnulausir? Er hér dulbúið atvinnuleysi eða falin atvinnubótavinna? „Þar sem atvinnuleysi er um 10%, þá er ljóst að atvinnurekendur þar hafa úr fleira fólki að velja. Hér er mikill þrýstingur á at- vinnureksturinn að hafa fólk í vinnu, og menn geta sagt sem svo að þetta sé slæmt og haldi niðri lífskjörum hinna. Það er vissu- lega hægt að finna „félagsmálastofnanir" í flestum fyrirtækjum, en auk þess hefur hér verið mikil eftirspurn eftir vinnuafli og hörgull á því. Sjálfsagt er því til fólk sem vinnur nokkurs konar atvinnubótastörf. Það er hins vegar langur vegur frá því að það sé vísbending um „atvinnubótavinnu", þótt greitt sé samkvæmt kauptaxta. Ennþá er samið um laun fyrir fjölmörg störf, þannig að samningurinn endurspegli kaupið að öllu leyti. Þetta geta verið kauptaxtar, bónus- kerfi, akkorð eða blanda af þessu. Það er ekkert einhlítt í þessu." — Verða einhveijar kauphækkanir mögu- legar? „Nei.“ — Verður ekki verkalýðshreyfingin ólm? Vitnar hún ekki í þjóðarsáttarsamningana sem forsendu betri kjara á næsta samn- ingstímabili? Verður ekki allt vitlaust? „Við finnum vaxandi skilning á mikilvægi þess að halda í stöðugleikann og aukinn skilning á erfiðleikum útflutningsgrein- anna. Við vitum að á næsta ári verður þorri fiskvinnslufyrirtækja rekinn með tapi. Þau geta f mesta lagi hjarað við óbreytt kaup- gjald og lága verðbólgu, því þau verða að takast á við afleiðingar samdráttar í sjávar- afla um 7.500 milljónir. Á þau verður því ekkert lagt og raunar er staða þeirra vonlaus, ef ekki tekst að skapa skilyrði fyrir lækkun vaxta og minni opin- berum álögum. Þetta skilja flestir og eins hitt að fyrr á tíð var svona áföllum jafnan mætt með gengisfellingum. Það er hins veg- ar ótæk leið að okkar mati, sem byggir fyrst og fremst á þeirri blekkingu að allir geti fengið sitt: launþegar kauphækkun og út- flutningsfyrirtækin gengislækkun til að vega þær upp; ríkið og sveitarfélögin geti haldið áfram útgjaldaþenslunni athuga- semdalaust. Við teljum að þessi leið sé ekki Iengur fær. Tekjurnar hafa fallið og því verður að draga úr útgjöldunum. Og skásta leiðin til þess sé að gera það beint og án þess að beita verð- bólgublekkingunum. Það vita það allir að lækkun þjóðartekna fylgja lakari kjör. Valið stendur um það hvort þetta gerist við skil- yrði stöðugleika eða óðaverðbólgu. Við trú- um því að stöðugt gengi, stórfelld lækkun opinberra útgjalda og tilsvarandi minni lán- tökur, veruleg og hröð lækkun vaxta, bæði raunvaxta og nafnvaxta og verðbólga innan við 3% á næsta ári sé rétta meðalið við sam- dráttarverkjunum. Þannig verði tekjusam- drátturinn bærilegastur, bæði fyrir fólk og fyrirtæki, og í þessu umhverfi er von til þess að eitthvað nýtt taki að spretta." Stefán Ásgrímsson

x

Tíminn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tíminn
https://timarit.is/publication/50

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.