Tíminn - 07.01.1993, Page 9
Fimmtudagur 7. janúar 1993
Tíminn 9
Howards End
Howards End ★★★ 1/2
Handrlt: Ruth Prawer Jhabvala. Byggt
á samnefndri skáldsögu E.M. Foreter.
Framleiöandi: Ismail Merchant
Leikstjóri: James Ivory.
Aöalhlutverk: Anthony Hopkins, Emma
Thompson, Helena Bonham Carter,
James Wilby, Vanessa Redgrave og
Prunella Scales.
Háskólabíó.
Öllum leyfð.
Bandaríski leikstjórinn James
Ivory hefur gert nokkrar mjög góð-
ar kvikmyndir, flestar í samvinnu
við framleiðandann Ismail
Merchant og rithöfundinn Ruth
Prawer Jhabvala. TVíóið hefur gert
saman um 16 myndir, en frægastar
þeirra eru Heat and Dust, The
Bostonians, Mr. & Mrs. Bridge og A
Room with a View, sem vann þrenn
Óskarsverðlaun.
Allar þessar
myndir eiga það
sameiginlegt að
vera ódýrar í framleiðslu, en engu
að síður eru þær mjög vandaðar og
fagmennskan ávallt í fyrirrúmi.
Howards End er byggð á skáldsögu
eftir E.M. Forster, en tríóið hefur
áður kvikmyndað tvær sögur hans,
A Room wilii a View og Maurice, en
Jhabvala gerði að vísu ekki handrit-
ið að síðamefndu myndinni.
Það er augljóst frá upphafi, þegar
horft er á Howards End, að það er
ekki farið hratt yfir sögu. Þeim,
sem fara á bíó til að sjá skotbardaga
og karatespörk, er vinsamlegast
bent á að róa á önnur mið. Öllum
þeim, sem gaman hafa af vönduð-
um kvikmyndum, er hins vegar
bent á að skella sér á Howards End.
Sagan segir af samskiptum
Schlegel-systranna við Wilcox-fjöl-
skylduna. Þetta er fólk úr efstu
stétt í Englandi á Viktoríutímanum,
sem kynnist á frekar leiðinlegan
hátt, en smám saman takast ágæt
kynni með ýmsum meðlimum Qöl-
skyldnanna tveggja, þótt sumir séu
ekki par ánægðir með framvinduna.
Anthony Hopkins leikur höfuð
Wilcox-fjölskyldunnar, sem eftir
dauða konu sinnar trúlofast eldri
systurinni, sem Emma Thompson
leikur, í vanþökk margra fjölskyldu-
meðlima. Þeir eru hræddir um að
ættarsetrið, Howards End, falli í
hendur konu utan fjölskyldunnar.
Eins og í öðrum sögum Forsters,
fléttast stéttaskiptingin og tvískinn-
ungurinn í kringum hana inn í
söguþráðinn og kristallast það oftar
en ekki í persónu Hopkins. Yngri
Schlegel-systirin (Carter) er mót-
vægi við þetta, því þótt hún sé í efri
stétt þá ber hún hag fátæklinganna
mjög íyrir brjósti, en samkvæmt
Hopkins eru fátækir bara fátækir og
ekkert við því að gera. Nokkuð al-
gengt sjónarmið á þessum tíma,
sem þekkist enn í dag.
Howards End er listilega vel gerð
kvikmynd á allan hátt. Hún er e.t.v.
helst til löng, en með góðri kvik-
myndatöku og tónlist, frábærum
leik og góðum texta verður yfirleitt
mjög gaman að fylgjast með fram-
vindunni. At-
riðin, þar sem
tvískinnungur
stéttaskiptingar-
innar kemur fram, eru virkilega vel
leikin og minnistæð. Anthony Hop-
kins kemst mjög vel frá þeim atrið-
um, en sá hluti handritsins snýr
oftast að honum. Einnig er tekið
með í reikninginn að fólkinu er að
mestu leyti bannað að sýna tilfinn-
ingar sínar, en það sést í brúð-
kaupsveislu í myndinni að slíkt er
litið homauga.
Allir leikarar myndarinnar standa
sig mjög vel með Óskarsverðlauna-
hafann Anthony Hopkins fremstan í
flokki. Hann er mjög minnisstæð-
ur í hlutverki sínu og gerir textan-
um einstaklega góð skil. Emma
Thompson kom mér skemmtilega á
óvart, því áður en ég sá þessa mynd
hafði ég aldrei séð hana sýna nein
sérstök tilþrif, en hún er stórgóð í
sínu hlutverki. Vanessa Redgrave,
sú frábæra leikkona, skilar litlu en
erfiðu hlutverki mjög vel frá sér.
Myndin er öll gerð af einstakri
natni og virðingu fyrir efninu. Fag-
mennskan er höfð í fyrirrúmi í leik-
stjórn, leik, kvikmyndatöku og sér-
staklega er vert að minnast á vel
gerða leikmynd og búninga, en
myndum tríósins hefur einmitt oft
verið hælt fyrir þann þátt. Allir
unnendur vandaðra kvikmynda
mega ekki láta Howards End fram-
hjá sér fara.
Öm Markússon.
DAGBÓK
Félag eldri borgara
Opið hús í Risinu í dag kl. 13-17. Tví-
menningur í brids kl. 12.30.
Kennaraháskóli íslands:
Fyrirlestrar um fjarkennslu
Englendingamir Anthony Kaye og Ro-
bin Mason, sem kenna við Opna háskól-
ann í London, verða hér á landi dagana
6.-10. janúar. Heimsókn þeirra tengist
námsbraut um almennt kennaranám
með fjarkennslusniði, sem hleypt var af
stokkunum 6. janúar 1993.
BILALEIGA
AKUREYRAR
MEÐ ÚTIBÚ ALLT í KRINGUM
LANDIÐ.
MUNID ÓDÝRU
HELGARPAKKANA OKKAR
REYKJAVÍK
91-686915
AKUREYRI
96-21715
PÖNTUM BÍLA ERLENDIS
interRent
Europcar
Anthony Kaye og Robin Mason hafa
mikla reynslu af skipulagi fjarkennslu og
notkun tölvusamskipta og munu fjalla
um það efni í fyrirlestrum sínum:
7. janúar
Kl. 17-19 flytur Anthony Kaye fyrirlest-
ur: „Network Leaming — A Review of
Models and AppIications“.
8. janúar
Kl. 17-19 flytur Robin Mason fyrirlestun
„Refming the Use of CMC in Distance
Education".
Fyrirlestramir, sem verða fluttir á
ensku, verða haldnir f stofu B-201 í
Kennaraháskóla íslands og eru öllum
opnir.
Sex listamenn sýna í
Nýlistasafninu
Laugardaginn 9. janúar kl. 16 verður
opnuð í Nýlistasafninu, Vatnsstíg 3B,
sýning á verkum eftir EIvu Jónsdóttur,
Elsu D. Gísladóttur, Pétur öm Frið-
riksson, Ólöfu Nordal, Ingileif Thorlaci-
us og Rögnu Hermannsdóttur.
„Sýningin er sett upp í tilefni 15 ára af-
mælis Nýlistasafnsins, en það var stofn-
sett 5. janúar 1978, á þeim þrenginga-
tímum þegar Iistasöfti þjóðarinnar og
einkasafnarar sváfu Þymirósarsvefni,
listgagnrýnendur vom með augun í
hnakkanum og litu með söknuði til
kreppu- og eftirstríðslistar, og almenn-
ingur lét sér fátt um finnast hvað snéri
upp og hvað niður í menningu landsins.
Nýlistasafnið umbylti hlutunum, safnaði
saman ungu fólki og braust fram til sig-
urs í baráttunni gegn viðhorfum sem
vom andstæð nýstárlegri tjáningu og
frumlegri hugsun.
Nýlistasafnið er að innsta kjama sígild
og lifandi lisL Það dregur til sín allt hið
ferskasta og besta og varpar Ijóma sínum
inn í framtíðina. Vonandi verður það
áfram hinn mjúki vaxtarbroddur, — eins
og þessi sýning er til vitnis um,“ segir í
fréttatilkynningu.
Samsýningin í Nýlistasafninu verður
opin daglega frá kl. 14-18. Henni lýkur
sunnudaginn 24. janúar.
Gary og Michelle Lineker undirbúa Japansdvölina meö japönskunámi. George er ársgamall og pabbi
hans segir hann þegar kunna máliö, eöa a.m.k. hljómi þaö eins og japanska í hans eyrum!
Gary Lineker á
förum til Japan
Gary Lineker er einhver ástsælasta
knattspymuhetja Englendinga og á
langan feril að baki á fótboltavellin-
um. Nú er rétt einu sinni komið að
kaflaskilum í lífi þessa 31 árs gamla
manns sem þekktur er fyrir gott
skap. Hann er bráðum á förum til
Japan með fjölskyldu sinni en þar
bíður hans brautryðjandastarf við
að hrinda af stað glænýju fótbolta-
liði, „Grampus Eight“.
Þau hjónin hafa undirbúið Japans-
dvölina vel. Þau hafa stundað nám í
japönsku og kynnt sér sögu þjóðar-
innar, en Gary segir það erfitt og
sennilega eigi hann hvorki eftir að
geta lesið né skrifað málið. Hins
vegar segir Gary að George tali
reiprennandi japönsku, a.m.k.
hljómi málið hans þannig! Hann
segir að þau hafi líka lagt stund á
spænsku áður en þau fóru til Spán-
ar og það hafi gert lífið þar miklu
léttara, enda sé það staðreynd að
þeir ensku knattspyrnumenn sem
hafa leikið með erlendum liðum og
hafa lært málið og lagað sig að sið-
— er að læra japönsku!
um heimamanna, hafi náð góðum
árangri.
Gary og Michelle hafa búið víða.
Hann fór frá Leicester til Everton
og eftir að hann varð mesti marka-
skorari enska landsliðsins í heims-
bikarkeppninni 1986, sóttust Spán-
verjar eftir að fá hann til iiðs við
sig. Þá fluttust þau til Barcelona
þangað til hann gekk til liðs við
Spurs. Og Michelle sýndi snemma
áhuga á ferðalögum, hún vann sem
snyrtidama um borð í QE 2 í gamla
daga.
Gamla daga? Gary segist ekki
muna nákvæmlega hvar og hvenær
þau kynntust, það hafi samt senni-
lega verið þegar hann var um tví-
tugt. En því miður sé hann ekki
sérlega rómantískur, það sé einn af
veikleikum hans. En Englendingar
eru einmitt ákaflega ánægðir með
hvað hann hefur góða og skemmti-
lega framkomu og hugsa gott til
glóðarinnar að eiga slíkan sendi-
mann meðal ókunnra þjóða.
Gary og Michelle hugsa líka með
tilhlökkun til Japansdvalarinnar, en
þar hefur enginn breskur fótbolta-
maður starfað fyrr. Það finnst Gary
spennandi. Og nú virðist alveg úr
sögunni óhamingjan sem ógnaði
þeim á árinu 1992, þegar George
litli reyndist vera með hvítblæði og
varð að gangast undir erfiða læknis-
meðferð, sem lauk í maí sl. Hún
virðist hafa heppnast með ágætum.
Gary Lineker hefur verið lánsmað-
ur í lífinu og metur það mikils.
Hann gerir sér fulla grein fyrir því
að knattspymuferlinum fer senn að
ljúka og hefur þegar haslað sér völl
í sjónvarpi og útvarpi. Þar hefur
hann notið vinsælda ekki síður en á
fótboltavellinum.
„Japönum finnst greinilega erfitt aö bera fram nafnið mitt en það er allt í lagi, þeir geta kallaö mig
hvaö sem þeir vilja. En eitt er vist, okkur á eftir aö þykja maturinn þeirra góöur, viö boröum á japönsk-
um matstööum viö hvert tækifæri, “ segir Gary Lineker.