Tíminn - 26.08.1989, Síða 7
Laugardagur 26. ágúst 1989
Tíminn 7
heima fyrir, en ekki munaði
minna um hitt að innan þeirra
ríkja, sem þröngvað höfðu skil-
málum Versalasamninganna
upp á Þjóðverja á sinni tíð, var
engin samstaða um að halda
þeim til streitu, þegar til átti að
taka. Afstaða Breta í því efni
varð hvað augljósust og einna
kunnust eftir að Neville Chamb-
erlain varð forsætisráðherra
Breta 1936. Hann beittist fyrir
fastmótaðri stefnu, sem hann
sjálfur kallaði eftirgjafarstefnu
og kom fram í því að Bretar létu
ekki egna sig til ófriðar við
Þjóðverja, þótt þeir gerðust
ágengir við nágrannalönd. Ekki
varð annað séð en að Chamb-
erlain teldi Þjóðverja hafa sinn
rétt til að ná undir sig landssvæð-
um annarra ríkja, þar sem þýsk-
ættaðir menn voru fjölmennir
fyrir. Frægust er eftirgjöf hans
við Hitler við töku Súdetahérað-
anna frá Tékkóslóvakíu. Að
Þjóðverjar legðu undir sig Aust-
urríki og innlimuðu í þýska
ríkið virtist Chamberlain ekki
mikið mál. Hertaka Austurríkis
átti sér stað fyrri hluta árs 1938
og innlimun Súdetahéraðanna
um haustið sama ár, eftir hinn
fræga Munchenarfund þeirra
Chamberlains og Hitlers. Eftir
þann fund kom Chamberlain
heim til Bretlands og vildi sann-
færa þjóð sína um að Hitler
myndi ekki gera frekari landa-
kröfur, friður í Evrópu væri
tryggður um langa framtíð.
Stefnubreyting Breta
Hins vegar liðu ekki margir
mánuðir áður en ljóst var að
spádómur Chamberlains var
innantóm orð. Hitler fann nýja
ástæðu til að þjarma að Tékkó-
slóvakíu og lagði landið hrein-
lega undir sig, gerði það að
leppríki Þjóðverja í mars 1939.
Þegar svo var komið fóru hlut-
irnir að gerast hratt. Hitler tók
nú að krefjast þess með vaxandi
þunga að Þjóðverjar fengju
yfirráð fríríkisins Danzig, sem
var undir vernd Þjóðabanda-
lagsins, en laut pólskum lögum
að verulegu leyti. Hann kráfðist
þess einnig að fá viðurkenndan
rétt Þjóðverja til þess að fá
frjálsan og sérstakan umferðar-
rétt um „pólska hliðið", ef ekki
yfirráð þess landssvæðis sem svo
var nefnt. Þetta svæði lá milli
Þýskalands (Pommern) og Aust-
ur-Prússlands og klauf því þýska
ríkið landfræðilega. Fleiri landa-
kröfur gerði Hitler reyndar á
hendur Pólverjum og fylgdi fast
á eftir.
Þessir atburðir luku jafnvel
upp augum Chamberlains og
skoðanabræðra hans um að yfir-
gangur Hitlers ætti sér lítil
takmörk. Það kom þó ekki fram
í því að forsætisráðherra Breta
viðurkenndi í orði skipbrot eftir-
gjafarstefnunnar að svo komnu.
Hins vegar ráku atburðir fyrri
hluta ársins 1939 hann til þess að
breyta stefnu sinni verulega í
reynd. Bretar tóku að vígbúast
framar því sem verið hafði, m.a.
var komið á herskyldu karla á
aldrinum átján til tuttugu og
eins árs. Slík herskylda var ný-
lunda í Bretlandi, því að Bretar
höfðu yfirleitt mannað her sinn
með sjálfboðaliðum nema mikið
stæði til og ríkar ástæður rækju
þar á eftir.
Þótt Chamberlain væri ófús til
að játa beinum orðum að afstaða
hans til Þýskalands hefði reynst
illa, þá flutti hann ræðu í þinginu
31. mars 1939 sem sýndi að hann
hafði skipt um skoðun. Að gefnu
tilefni frá talsmanni Verka-
mannaflokksins lýsti hann skor-
inort yfir því, að ef Þjóðverjar
réðust á Pólland myndu Bretar
veita Pólverjum alla þá aðstoð
sem þeir þörfnuðust. Chamb-
erlain tók það fram að franska
ríkisstjórnin hefði gefið sér um-
boð til að tilkynna að Frakkar
myndu gera slíkt hið sama.
Nokkrum dögum síðar gaf hann
sams konar yfirlýsingu um að
Bretar teldu sér skylt að koma
Grikklandi og Rúmeníu til
hjálpar, ef á þau lönd yrði
ráðist. og hafði þá hugsanlega
árás Itala í huga, enda höfðu
ítalir ekki síður lagt stund á
landvinninga en Þjóðverjar á
þessum árum.
Það sýndi einnig hvernig
friðarhorfur voru á þessum
fyrstu mánuðum ársins, að
Roosevelt Bandaríkjaforseti
boðaði þjóð sinni og heiminum
öllum að hann teldi rétt að
afnema lög um hlutleysisstefnu
Bandaríkjanna. Hann gat að
vísu ekki framfylgt þeirri hug-
mynd vegna andstöðu þingsins.
En allir þessir atburðir gerðu
það ljóst að stórstyrjöld gat
skollið á áður en langt um liði.
Þessa gætti í ráðstöfunum ríkis-
stjórna í allri Evrópu, þ. á m. í
hlutlausum löndum eins og
Norðurlöndum.
íslenska ríkisstjórnin, sem var
minnihlutastjórn Framsóknar-
flokksins, gerði sér fulla grein
fyrir friðarhorfum. 17. apríl var
mynduð þriggja flokka stjórn
Framsóknarflokks, Sjálfstæðis-
flokks og Alþýðuflokks og ekki
vafi á að horfur í heimsmálum
flýttu fyrir þeirri stjórnarmynd-
un.
Hitler og Stalín
Við hin nýju viðbrögð Breta
og samstöðu þeirra og Frakka
kom hik á nasistastjórnina í
Þýskalandi. Hitler gerði sér ljóst
að afstaðan var breytt frá því
að hann gat átölulaust lagt
undir sig Austurríki og Tékkó-
slóvakíu. Hann sá fyrir að Bret-
ar og Frakkar ætluðu að grípa til
vopna gegn honum, ef hann
réðist inn í Pólland. Þótt Hitler
reyndi öðrum þræði að friðmæl-
ast við Vesturveldin og enn
væru til menn, einkum í Bret-
landi, sem trúðu því að rétt væri
að semja við Hitler, þá sneri
hann sér nú þangað sem síst
þótti von til.
Á vordögum þessa eftirminni-
lega árs tók að draga saman með
Hitler og Stalín, fyrst á þann
hátt að semja um verslunarvið-
skipti milli Þjóðverja og Sov-
étmanna. Viðskiptasamningur
var undirritaður og staðfestur í
lok júlímánaðar. Sá samningur
leiddi til þess að 24. ágúst var
undirritaður samningur miili
Þýskalands og Sovétríkjanna
um að hvorugt ríkið gerði árás á
hitt og skipti sér ekki af hernaði
Ribbentrop utanríkisráðherra Hitlers kannar heiðursvörð Stalíns á dögum vináttusamningsins milii
Þjóðverja og Sovétmanna 1939.
sem annað hvort ríkið hæfi á
hendur öðrum ríkjum. Þetta var
megininntak hins opinbera
samnings. Auk þess gerðu ríkin
með sér leynisamning um að
skipta með sér áhrifasvæðum,
sem í reynd þýddi það m.a. að
Finnland og Eystrasaltsríkin
féllu undir áhrif Sovétríkjanna.
Sovétríkin innlimuðu með hern-
aði hluta af Finnlandi og neyddu
Eystrasaltsríkin til að taka upp
sovétskipulag ári síðar.
Hvað Þýskaland snerti varð
samningurinn við Sovétríkin til
þess að Hitler taldi sig hafa
frjálsar hendur og fulla getu til
þess að ná undir sig þeim Iands-
svæðum sem hann ágirntist af
Pólverjum. Hann lét sig engu
skipta, þótt skýrar yfirlýsingar
lægju fyrir af hálfu Breta og
Frakka að þeir myndu koma
Pólverjum til hjálpar. Þýskur
her hafði tekið sér stöðu við
landamæri Póllands og réðst inn
í landið að morgni 1. sept. 1939.
Á þriðja degi innrásarinnar lýstu
Bretar og Frakkar stríði á hend-
ur Þjóðverjum. Þar með var
heimsstyrjöldin síðari hafin.
í skjóli þýsk-rúss-
neska samningsins
í frétt Tímans 2. september,
daginn eftir innrásina, er iögð
áhersla á að Þjóðverjar hafi
ráðist á Pólland í skjóli þýsk-
rússneska samningsins. Segir
blaðið að fyrirsjáanlegt hafi ver-
ið að til stórtíðinda myndi draga
í Evrópu jafnskjótt og vináttu-
samningur ríkjanna yrði stað-
festur og kæmi til framkvæmda.
Hitler taldi sig hafa fulla trygg-
ingu fyrir hlutleysi Rússa og léti
þá til skarar skríða og hefði að
engu síðustu tilraunir Vestur-
veldanna til að fá hann ofan af
ætlun sinni.
Hins vegar vissu menn þá
ekki um tilveru leynisamnings
Hitlers og Stalíns um „áhrifa-
svæði“, sem ekki var síður af-
drifaríkur en hinn opinberi
samningur um frið milli ríkja
þeirra. Leynisamningurinn gaf
hvorum um sig frjálsar hendur
um að ráðskast með fullveldi
smáríkja þeirra sem um var
fjallað. Mun leitun á purkunar-
lausari myrkraverkum í milli-
ríkjasamningum en fólust í
ákvæðum þessa leynisamnings
einræðisherranna í Moskvu og
Berlín. Enda fór svo, eins og
viðurkennt er í Sovétblaðinu
Moscow News 20. þ.m., að það
hefur verið opinber afstaða sov-
éskra stjórnvalda allt fram á
síðustu mánuði að bera á móti
því að slíkur leynisamningur
hafi verið gerður. Það er ekki
fyrr en nú, þegar nýir valdhafar
í Sovétríkjunum hafa innleitt
málfrelsi og aflétt sögufölsun-
um, að sovétstjórnin opinberar
sannleikann í málinu og játar
óhæfuverkin á Jósef Stalín í
makki sínu við Adolf Hitler.
Ómur sögunnar
Hér hafa verið lauslega raktir
hálfrar aldar gamlir söguþræðir
í tilefni þess að um þessar mund-
ir eru 50 ár síðan heimsstyrjöldin
síðari braust út. Enn muna
margir þessa atburði af eigin
reynslu og það sem á eftir fór í
nærri sex ára hildarleik, sem
gerði svo til hvern blett á jörð-
inni að vígvelli. Hinir eru þó
fleiri sem skynja þessa viðburði
aðeins sem óm af fjarlægri sögu.
En saga þessara ára er þó ekki
fjarlægari en svo að hún er hluti
af sögu nútímans, sögu 20.
aldar, sem engum ætti að vera
ofvaxið að þekkja í heild.
Hversu mjög sem heimurinn
hefur breyst frá því sem var fyrir
50 árum og hversu fjarlægt sem
það er að gera ráð fyrir heims-
styrjöld af því tagi sem þá var
stofnað til, fer því lfka fjarri að
friðvænlegt sé eða friðsamleg
þróun eigi sér stað í öllum
löndum og heimshlutum. Ekki
er loku fyrir það skotið að
ofbeldi styrjalda muni elta sjálfa
mannúðaröldina til enda.