Lesbók Morgunblaðsins - 03.06.2006, Blaðsíða 6

Lesbók Morgunblaðsins - 03.06.2006, Blaðsíða 6
6 | Lesbók Morgunblaðsins ˜ 3. júní 2006 Í Hungurvöku er að finna frásögn af komu Ísleifs Gissurarsonar hingað til lands, árið 1056, eftir að hann var vígður biskup fyrstur íslenskra manna. Þar segir: „Síðan fór Ísleif- ur byskup þat sama sumar til Ís- lands og setti byskupsstól sinn í Skálaholti. Hann hafði nauð mikla á marga vegu í sínum byskupsdómi fyrir sakir óhlýðni manna.“ Gissur, sonur Ísleifs, tók við af föður sínum og greinir Hungurvaka frá því að fyrstu árin sem hann gegndi emb- ættinu hafi hann ekki haft alla jörðina til ábúðar þar eð Dalla móðir hans vildi búa á sínum hluta landsins meðan hún lifði. En að henni látinni fékk hann jörðina alla til umráða og lagði hana og fleiri gæði í löndum og lausafé til kirkju þeirrar sem hann hafði látið reisa þar og vígt Pétri postula „ok kvað á síðan, at þar skyldi ávallt byskupsstóll vera, meðan Ísland væri byggt ok kristni má haldast“. Biskupsstóllinn forni í Skálholti fagnar því 950 ára afmæli á þessu ári en fleiri eru stór- afmælin á sama vettvangi þar eð biskupsstóll- inn á Hólum í Hjaltadal fyllir 900 árin á þessu ári, en fyrsti biskup á Hólum, Jón Ögmunds- son helgi, tók vígslu árið 1106. Verður ým- islegt gert til að minnast þessara tímamóta í hinni merku og oft á tíðum stormasömu sögu biskupsstólanna. Þessir fornfrægu staðir eru ekki aðeins samtvinnaðir sögu kristni á Ís- landi, heldur einnig sögu íslensku þjóðarinnar um aldir, menntunar hennar, menningu, efna- hag og samskiptum við umheiminn, svo fátt eitt sé nefnt. Þar safnaðist saman þekking og auður og þar af leiðandi vald. Naut ríkulegs stuðnings kristnihátíðarsjóðs Meðal þess sem hæst ber á afmælisárinu er viðamikið rit um sögu biskupsstólanna, sem bókaútgáfan Hólar gefur út. Þar er fjallað um efnið út frá kirkjusögu, menningarsögu, hag- sögu og félagssögu á tæplega 900 blaðsíðum. Ritstjóri verksins er dr. Gunnar Kristjánsson, prestur á Reynivöllum í Kjós. Dr. Jón Þ. Þór, prófessor, viðraði hugmyndina að slíkri sögu upphaflega og á kirkjuþingi árið 1999 lagði Gunnar fram tillögu um ritun slíks verks. Þar var samþykkt að setja á fót undirbúnings- nefnd sem starfaði í eitt ár. Tillögur hennar voru bornar upp á kirkjuþingi 2000. Vonast var til að kirkjuþing samþykkti að standa að útgáfunni en það hikaði við og vís- aði á kristnihátíðarsjóð, sem var stofnaður sama ár. Gunnar telur helstu ástæðu þeirrar afstöðu þingsins vera þá að árið 2000 kom út ritverkið Kristni á Íslandi í fjórum bindum, sem raunar var kostað af Alþingi. Kirkjuþingi hafi að öllum líkindum vaxið í augum að ráð- ast í umfangsmikið verkefni þegar svo skammt var liðið frá útgáfu fyrrnefndu bók- arinnar. Þingið skipaði hins vegar ritstjórn, er í sátu báðir vígslubiskuparnir, séra Bolli Gústavsson og séra Sigurður Sigurðarson, en formaður nefndarinnar var dr. Gunnar. Vegna veikinda séra Bolla leysti dr. Hjalti Hugason, prófessor í kirkjusögu, hann af hólmi, en þegar séra Jón Aðalsteinn Baldvins- son varð vígslubiskup á Hólum tók hann sæti í nefndinni og Hjalti Hugason varð fræðilegur ráðgjafi hennar. Á lokasprettinum var Óskar Guðmundsson, rithöfundur, ráðinn fram- kvæmdastjóri verksins. Verkið fékk hæsta styrk úr hugvísinda- hluta kristnihátíðarsjóðs þegar veitt var úr honum í fyrsta skipti árið 2001. Síðan hefur kristnihátíðarsjóður verið helsti stuðnings- aðili bókarinnar en hún hefur einnig fengið sem svarar til 10% af framlagi sjóðsins úr kristnisjóði. Í kjölfarið var gengið til samn- inga við aðalhöfunda verksins, Guðrúnu Ása Grímsdóttur, sagnfræðing, sem skrifar yf- irlitssögu um Skálholtsstól, og Jón Þ. Þór, sem skrifar yfirlitssögu um Hólastól. Einnig var samið við nokkra fræðimenn um að skrifa um einstaka þætti í sögu stól- anna. Þannig má nefna að Björn Teitsson magister ritar um jarðir Hólastóls, Jón Viðar Sigurðsson, miðaldafræðingur í Osló, fjallar um samskipti biskupsstólanna við erlent vald, bæði veraldlegt og kirkjulegt, dr. Vilborg Auður Ísleifsdóttir skrifar um afleið- ingar siðbótarinnar, dr. Gunnar Kristjánsson fjallar um siðbót- armenn á Skálholtsstað, Einar G. Pétursson sagnfræðingur ger- ir grein fyrir bókaútgáfu á bisk- upsstólunum, sr. Kristján Valur Ingólfsson fjallar um helgihald, sr. Torfi Hjaltalín Stefánsson fjallar um upplýsingartímann á biskupsstólunum, Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur skrifar um fornleifarann- sóknir á Hólum og Mjöll Snæsdóttir, Gavin Lucas og Orri Vésteinsson fornleifafræðingar gera grein fyrir fornleifarannsóknum í Skál- holti og vígslubiskuparnir rita um ástand Hóla og Skálholts eftir að biskupsstólar voru fluttir þaðan og brúa bilið til samtímans. Gríðarlega litrík saga og mikil „Þótt ótrúlegt megi virðast hefur samfelld saga biskupsstólanna aldrei verið skrifuð og þess vegna voru mjög sterk rök fyrir því að taka hana saman,“ segir séra Gunnar að- spurður um tilurð verksins. „Einnig hefur átt sér stað ákveðin endurnýjun á báðum stöðum eftir að vígslubiskuparnir settust þar að, þar á meðal margvísleg markviss uppbygging sem beint hefur kastljósinu að þeim í meira mæli en fyrr. Saga biskupsstólanna er gíf- urlega litrík og mikil, enda voru þeir ekki að- eins kirkjulegar valdamiðstöðvar heldur mikil menningarsetur, og í reynd höfðu þeir mikil pólitísk völd. Einnig leggjum við mikla áherslu á hagsöguna, bæði þá efnahagslegu undirstöðu sem starfsemi stól- anna hvíldi á og líka áhrifin af starfsemi stólanna á ýmsa hag- sögulega þætti í sögu þjóð- arinnar. Þess vegna drögum við mjög vel fram hvaðeina í sam- bandi við jarðaeign stólanna, sýnum t.d. fram á hvernig rekst- ur þeirra fór fram, og sömuleiðis er fjallað um útgerðina, sem var einkum mikilvæg í starfsemi Skálholtsstóls. Það er augljóst að stólarnir voru gríðarlega um- fangsmiklir vinnuveitendur og margir áttu allt sitt undir rekstri þeirra, á sama hátt og stólarnir áttu allt sitt undir því að jarðirnar væru vel setnar og útgerðin og þær gæfu góðan arð. Stólunum mætti helst líkja við risafyrirtæki á þess tíma mælikvarða. Þetta var þaulskipulagt kerfi sem gekk vel upp. Það kom ánægjulega á óvart hvað kirkjustólarnir virðast hafa verið góðir vinnuveitendur. Það varð ekki vart við teljandi óánægju bændanna, heldur miklu heldur hið gagnstæða. Stólarnir virðast hafa verið mjög umburðarlyndir og ekki sótt af- gjöldin fast þegar illa áraði. Við beinum einnig sjónum að samskiptum stólanna við útlönd, en þar gegndu þeir lyk- ilhlutverki um aldir, enda höfðu flestar nýjar hugmyndir og stefnur sem komu að utan fyrst viðdvöl í Skálholti og á Hólum. Þeir voru tengiliðir við heimsmenninguna, og þá skipti engu hvort um var að ræða sérstaka kirkjulega menningarstrauma eða almenna menningarstrauma og -stefnur frá meg- inlandinu.“ Er hægt að öðlast skýra mynd af því hversu áhrifamiklir stólarnir voru í efnahags- legu tilliti, þ.e. hversu voldugir og auðugir þeir voru í raun og veru? „Veldi stólanna stóð hæst á 13., 14. og 15. öld og þá var mikill glæsibragur yfir þeim. Við reynum að fara í saumana á veldi og auð- legð stólanna og veita eins góða mynd af hinni efnahagslegu undirstöðu stólanna og unnt er, birtum t.d. kort sem sýnir jarðirnar, látum fylgja með skrá og lýsingu á þeim, og gefum hugmynd um hversu mikinn arð þær gáfu af sér. Sem dæmi má nefna að á fyrri hluta 16. aldar áttu Hólar rúmlega 350 jarðir, eða um fjórðung allra jarða í Norðlend- ingafjórðungi. En ekki er síður áhugavert að fara heim á stólana og velta vöngum yfir hvað menn byggðu á þessum efnahagslega grunni, en þar kennir margra grasa. Í fyrsta lagi voru reknir þar skólar, þar sem fram fór menntun presta og almenn menntun, þarna var stjórn- unarmiðstöð íslensku kirkjunnar, bókaútgáfa og fleira, ásamt gríðarlega umfangsmiklum búrekstri. Fleira má tína til og í grein Vil- borgar Auðar Ísleifsdóttur, sagnfræðings, sem kynnt hefur sér sérstaklega siðbótartím- ann, þegar efnahagsleg undirstaða stólanna hrynur samfara því að jarðeignirnar fara und- ir Danakonung, er bent á að um leið hrynur mjög mikilvægt velferðarkerfi fyrir þjóðina. Þannig kemur í ljós að stólarnir voru að vissu leyti sambærilegir við nútíma ríkisvald, hvað lýtur að velferðarmálum. Þangað gátu menn sótt margvíslega aðstoð þegar á bjátaði.“ Biskuparnir lifðu ekki við óhóf og spillingu En ríkti almennt ráðdeild, heiðarleiki og skynsemi í umsýslan stólanna á þessum miklu fjármunum seinustu aldir fyrir siðaskiptin? „Þetta er mjög áhugaverð og réttmæt spurning. Athuganir fræðimannanna sem skrifa í bókina, hvort sem um er að ræða textaheimildir eða fornleifarannsóknir, benda ekki til þess að biskuparnir hafi lifað í nokkr- um lúxus, eða að þar hafi menn lifað í óhófleg- um munaði. Þeir spillingartímar sem settu mark sitt á kirkjuna á meginlandinu á 15. öld og við upphaf þeirrar 16. – eins og alþekkt er þegar leiðtogar kirkjunnar lifðu víða í vellyst- ingum og ofgnótt á hnignunarskeiði sem leiddi m.a. til siðbótar Lúthers – þeirra gætir ekki hér á landi. Menn reyndu vissulega að sitja stólana með reisn og þeirri sæmd sem þeim hæfði og standa vel að málum, eins og vera ber þegar um svo öflugar miðstöðvar er að ræða, en engar vísbendingar eru um alls- nægtir eða óhóf. Þvert á móti áttu stólarnir oft í vök að verjast, ekki síst eftir siðbótina. Nefna má í því sambandi Jón Vídalín, sem varð biskup í Skálholti árið 1698. Hann sýndi ákaflega mikla andlega reisn og var nokkurs konar andlegur faðir þjóðarinnar, ekki bara á eigin æviskeiði heldur um tvær aldir á eftir, en bjó við fjárhagslegt mótlæti og allt að því skort þegar hart var í ári. Einnig má nefna hugsjónamenn á borð við Þorlák helga og Guðmund góða sem lifðu nánast algjörlega við fátækt og allsleysi, hinn síðarnefndi líktist einna helst betlimunki sem ekkert átti. Einnig má nefna að biskuparnir höfðu miklum skyldum að gegna, þar á meðal eftirlitsskyldum, og voru vísitasíur þeirra mjög útgjaldasamar. Þeir þurftu einnig að bera margvíslegan kostnað vegna jarðanna og reksturs stólanna. Reksturinn kostaði því mikið en tekjur voru lengst af góðar. Slæmt árferði gat höggvið stórt skarð í tekjustofna biskupsstólanna, enda gáfu jarðirnar ekki það sama af sér þegar illa áraði og þegar vel viðr- aði. Sama máli gegndi um útgerðina. Bisk- upsstólarnir höfðu sömuleiðis náin tengsl við klaustrin, og þar var ekki auðlegð fyrir að fara þótt klaustrin þyrftu vitanlega sitt til að standa undir rekstri. Sumir biskupar voru þó auðugir af jörðum og þá standa þrír upp úr, Brynjólfur Sveins- son, Guðbrandur Þorláksson og Jón Arason. En allir voru þeir mjög öflugir menn, aðsóps- miklir einstaklingar og sterkir biskupar. Segja má að auður þeirra hafi skilað sér í af- reksverkum á sviði trúar og menningar sem varð þjóðinni til varanlegs gagns.“ Fer bókin ofan í áhuga hins veraldlega afls á auði kirkjunnar í aðdraganda siðaskipta og upptöku eigna sem verður í kjölfar þeirra? „Já, við förum talsvert í saumana á þeim málum, einkum gerir Vilborg Auður Ísleifs- dóttir það í fyrrnefndri ritgerð sinni. Þetta var mikil sorgarsaga, ekki bara fyrir kirkjuna Miðstöðvar valds, trú Nýverið lauk ritun Sögu biskupsstólanna í Skálholti og á Hólum og kemur hún út í tengslum við stórafmæli þeirra, sá fyrrnefndi er 950 ára á þessu ári og hinn síðarnefndi 900 ára. Þetta er veigamikið rit þar sem farið er ofan í kjölinn á þessum valdamiklu mið- stöðvum trúar og menningar. En pólitísk völd þeirra voru líka mikil og auðlegðin með ólíkindum. Stólarnir höfðu því ekki aðeins áhrif á trúarlíf þjóðarinnar heldur líka á ver- aldlega þætti og hagsögulega, atvinnumál, stjórnsýslu og efnahagsmál. Eftir Sindra Freysson sindrifreysson- @hotmail.com Gunnar Kristjánsson Skálholtsdómstóll „Í kafla Guðrúnar Ásu Gríms- dóttur um Skálholt og vísitasíuferðir Brynjólfs biskups Sveinssonar kemur í ljós að fáir svöruðu kalli um að koma til kirkju þegar biskup vísiter- aði, jafnvel aðeins fáeinar hræður.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.