Lesbók Morgunblaðsins - 05.08.2006, Side 3
Lesbók Morgunblaðsins ˜ 5. ágúst 2006 | 3
c a r n e g i e
a r t
a w a r d
2 0 0 6
hafnarhús | tryggvagötu 17
8. júní – 20. agúst | opið daglega 10 – 17
leiðsögn sunnudaga kl. 15
ókeypis aðgangur á mánudögum
ein stærstu myndlistarverðlaun í heimi
kynna 21 norrænan myndlistarmann
„Sko,“ segir Sigtryggur, í senn léttur og ábúð-
arfullur, þar sem hann býr sig undir að skýra
frá tilurð plötunnar. „Þannig var mál með
vexti að við vorum nágrannar í Klink og Bank
[hann og Flís þ.e.], ég var með stúdíó ásamt
Gísla Galdri og hinum megin við vegginn voru
Flísbræður. Ég hafði spilað með þeim eitthvað
fyrir þetta en kynntist þeim betur við þessar
aðstæður. Einhverju sinni gaf ég þeim svo ka-
lypsódisk sem ég átti en hann inniheldur sjald-
gæfar upptökur sem út komu upprunalega á
78 snúninga plötum. Sacred 78’s heitir hann og
þar fer mikinn Rafael nokkur DeLeon, öðru
nafni Roaring Lion, en hann samdi ofsalega
mikið af skemmtilegu dóti sem kom út á bilinu
’35 til ’45“.
Roaring Lion var einn af helstu höfundum
kalypsótónlistar – sem upprunnin er á karab-
ísku eyjunum Trínidad og Tóbagó – er hún átti
sína gullöld en tónlistina má rekja til þræla
sem fluttir voru til eyjanna um miðja nítjándu
öld. Þekktustu dæmin um þennan stíl má finna
í lögunum „Rum and Coca-Cola“ sem And-
rews-systur gerðu vinsælt og í laginu „Banana
Boat Song“ sem Harry Belafonte flutti og
hefst á kallinu „Day-o, Dayyyyy-o!“
Sigtryggur segist hafa lagt hart að Flís-
urum að hlusta á textana.
„Það sem stingur mann við að hlusta á þessa
kalypsótónlist er hvað textarnir eru skemmti-
lega skrýtnir. Umfjöllunarefnin eru allt önnur
en í dag, menn eru mikið að velta sér upp úr
tvíræðni og slæmri klæmsku. Roaring Lion
var þó minna í því, var meira í umvöndunum
sem voru skemmtilega orðaðar.“
Sigtryggur hlær með sjálfum sér yfir þessu
áður en hann heldur áfram. „Eins og þegar
hann er að skamma þjónustustúlkuna sína
með orðunum „Melda, why you so nasty/Why
you keep yourself so untidy“. Ég fór að lesa
um þennan kall og komst að því að hann átti
snyrtivörufyrirtæki og var alla tíð annálað
snyrtimenni. Og yfirleitt aldrei við kvenmann
kenndur. Nú fóru fattararnir að leggjast sam-
an hjá manni. Hann var náttúrlega „gay“ kall-
inn en alinn upp í þessum skelfilega hómófób-
íska kúltúr sem er landlægur í Vestur-Indíum
og verst er ástandið á Jamaíka.“
Sigtryggur tiltekur annan texta, þar sem
mönnum er ráðlagt að eignast konur sem eru
ljótari en þeir sjálfir. „Þetta er mjög fyndið á
prakkaralegan hátt og í mikilli andstöðu við
hina svonefndu pólitísku rétthugsun (PC) sem
tröllríður öllu í dag. Mér fannst eins og ég
væri að heyra um hluti sem áttu sér stað á
annarri plánetu. Þetta var mjög heillandi og
strákarnir í Flís gripu þetta alveg. Þeir tóku
svo af mér loforð, um það leyti sem við vorum
að flytja út úr Klink og Bank síðasta haust, um
að ég myndi pína Bogomil til að gera með þeim
kalypsóplötu þegar þeir væru búnir að koma
sér upp nýju stúdíói.“
Bogomil heilsar
Sigtryggur segist nú ekki hafa tekið þessa bón
mjög alvarlega en reyndin varð sú að Flís-arar
fóru að ganga á eftir honum með þetta. Flís
skipa þeir Davíð Þór Jónsson píanóleikari,
Helgi Svavar Helgason trymbill og Valdimar
Kolbeinn Sigurjónsson bassaleikari en þeir
Róbert Reynisson gítarleikari og Eiríkur Orri
Ólafsson trompetleikari lögðu og gjörva hönd
á kalypsóplóginn.
„Ég hafði haft lítinn metnað lengi vel fyrir
því að gera eitthvað með þennan karakter,
þ.e.a.s. Bogomil. Fyrir mér var hann meira að
spila á árshátíðum og græða peninga (glottir).
En það var ekki verra að láta hann gera eitt-
hvað skemmtilegt, því að ég var orðinn ansi
þreyttur á því að syngja „Fly me to the Moon“
og „Mambo Italiano“ (skellihlær). Kallinn var
orðinn ansi þreyttur á þessu og var orðinn
sjálfsmorðsþenkjandi á köflum. Ég var alvar-
lega farinn að velta því fyrir mér hvort ég ætti
ekki bara að pakka honum ofan í tösku ásamt
hattinum. En þá kom þessi hugmynd upp, að
setja hann í eitthvert skemmtilegt verkefni,
svo maður yrði ekki leiður á honum.“ Sig-
tryggur segir að undanfarin ár hafi hann stráð
sköpunarpúðri sínu að langmestum hluta á
verkefni eins og Steintrygg og Parabólu og
Bogomil hafi því legið í hálfgerðri vanrækt.
„Ég var samt ekki sannfærður lengi vel
hvort hægt væri að gera þetta svo vel væri,“
heldur hann áfram. „Ég var t.d. að velta text-
unum fyrir mér, ætti ég að syngja upp-
runalegu textana eða snara þeim á íslensku?
Svo byrjaði ég bara að prufa að þýða textana
og fannst þetta svo gaman – sogaðist eiginlega
inn í þetta. Ég fékk í upphafi svila minn sem er
einkar hagmæltur, Einar Malmberg, til að
taka að sér þrjá texta og ég myndi gera þrjá.
Það var svona prufa á þetta.“
Sigtryggur segir að upptökur hafi fyrst átt
að vera mjög hráar en svo hafi fleiri hljóðfæri
bæst við; trompet, ukulele og alls kyns áslátt-
arhljóðfæri. Athygli vekur að hljómur plöt-
unnar er einkar gamaldags, hlýr og lífrænn.
Sigtryggur segir að það hafi þó verið meira
óvart, menn hafi ekki lagt sig sérstaklega í
líma við að ná hæfandi hljómi, ekkert frekar.
„Hljómurinn varð til vegna hljóðnemanna
hans Finns Hákonarsonar, sem á stúdíóið með
þeim. Við tókum þetta upp mikið til beint og
notuðum gamla lampahljóðnema þannig að
hljómurinn verður skemmtilega „retro“.
Reyndar er þessi hljómur nokkuð sem Flís
hefur verið að kúltivera að undanförnu.“
Sigtryggur dæsir kankvíslega þegar hann
er spurður hvort hann sé hissa á því hvernig
ferill Bogomils hefur þróast.
„Þú meinar frá Djasshljómsveit Konráðs
Bé?“ spyr hann á móti og brosir.
„Þetta var auðvitað komið í heilhring þegar
mömmur smekkleysuaðdáenda voru farnar að
hafa dálæti á Bogomil. Ég hætti með hann árið
1993 þegar hann fór að verða vinsæll. Þá
meina ég vinsæll vinsæll. Hann var orðinn vin-
sæll hjá öllum aldurshópum. Það má segja að
hann hafi orðið hálfstjórnlaus. Upphaflega átti
þetta að vera prakkaralegur karakter sem ég
og aðrir vissu ekki nákvæmlega hvar þeir
hefðu. Hann var stóryrtur, sagðist hafa samið
öll lögin sem hann söng, drakk mikið og lét
dólgslega. Þannig fannst mér hann fínn. Núna
finnst mér ég loksins vera búinn að end-
urheimta þennan vin minn eins og hann á að
vera. Myndin á umslaginu segir mikið um
þessa tilfinningu mína. Við erum loksins
komnir í gírinn aftur. Gamli maðurinn er kom-
inn aftur inn á sína … (hugsar) … snúnu
braut. Af beinni braut hins vinsæla dæg-
urlagasöngvara (hlær). Það þarf nefnilega að
vera svolítið „twist“ í Bogomil ef hann á að
gera sig.“
Bogomil kveður Milla
Bogomil kvaddi Milljónamæringana á sínum
tíma, en sveitin átti eftir að verða ein vinsæl-
asta ball- og árshátíðasveit landsins – iðn-
aðarmambó eins og Páll Óskar orðaði það ein-
hverju sinni í útvarpsviðtali.
„Bogomil hætti í Milljónamæringum og
hætti þar með að hafa slæm áhrif á hljómsveit-
ina (hlær). Hún varð því fljótlega vönduð dans-
hljómsveit. Þeir urðu reyndar helvíti skemmti-
legir þegar Páll Óskar byrjaði með þeim, öll
lögin spiluð allt of hratt og þetta var ennþá
skemmtilega bilað.“
Bogomil fæddist er Sigtryggur og Bragi
Ólafsson voru á fylleríi í Zagreb, í fyrrverandi
Júgóslavíu, en þá voru Sykurmolarnir að túra
þar. Fæðingarstaðurinn var rauðplus-
sklæddur bar á Hotel Intercontinental.
„Barþjónninn var niðurgrafinn. Við sátum á
stólum en barþjónninn stóð. En var engu að
síður í sömu sjónlínu og við, þar sem við vorum
á háum stólum. Þetta hafði svo skemmtilega
súrrealísk áhrif að við fórum að spauga með
þetta fram og til baka. Bragi fór í framhaldinu
að segja mér frá því að hann vildi endilega
stofna þessa djasshljómsveit þegar við kæm-
um heim. Hún ætti að vera í því að spila tónlist
sem hún kynni alls ekki og vera hinum megin
við öll velsæmismörk. Hljómsveit sem kynni
ekki að spila, væri skítfull en samt rosalega fín
í tauinu. Svo var bara smalað saman þessu
góða gengi sem var í kringum Smekkleysu á
þessum tíma. Þetta var Hamgengið, Risaeðlu-
gengið og Langa Sela og Skuggagengið. Það
var eiginlega lunginn í þessu en svo var reyt-
ingur af einhverjum vitleysingum sem þvæld-
ust með. Þetta var um fjórtán manna djass-
sveit sem var alveg „legendary“ vond og góð í
senn. Það var ofsalega gaman hjá öllum og
rosa fjör á tónleikum. Sveitin hélt böll á Borg-
inni þar sem var „dress code“ og allt. Okkur
fannst það mjög fyndið, „dress code“ var
nokkuð sem tilheyrði annarri kynslóð og því
var þetta mikill djókur. Við vorum engu að síð-
ur heilluð af þessu og vorum að uppgötva eldri
tónlist – á okkar forsendum.“
Sigtryggur segir að djasssveitin hafi lagst af
sumarið eftir að Stick Around for Joy, síðasta
plata Sykurmolanna, kom út. Þetta var árið
1992 en Konráð Bé og félagar voru í gangi ’90
til ’91, á meðan Molarnir sömdu plötuna.
„Þegar platan var tekin upp var djasssveitin
formlega lögð niður af hljómsveitarstjóranum,
Braga Ólafssyni,“ rifjar Sigtryggur upp.
„Hann var reyndar búinn að eiga í hótunum
því að þarna var hann búinn að eignast son
sinn sem heitir Konráð. Hann var því búinn að
vara okkur við (hlær dátt). Bragi er mjög
fyndinn maður, en þú þarft eiginlega að
þekkja hann til þess að fatta af hverju mér
finnst þetta svona fyndið. Þetta var sumsé
gert með nokkuð sérstökum formerkjum. Svo
kemur Sykurmolaplatan út og Sykurmolarnir
halda slatta af tónleikum í upphafi árs 1992.
En sú sveit var kapút. Það vissi hver einasti
maður að þetta var búið spil. En við vorum bú-
in að eyða svo miklum peningum fyrirfram að
við vorum illa blönk í lokin (brosir). Þannig að
ég segi við Braga um vorið, þegar við erum bú-
in að túra og eigum ekki bót fyrir rassgatið á
okkur, hvort við ættum ekki að setja saman
míníútgáfu af Djasshljómsveit Konráðs Bé?
Bara svona til að spila á börum og verða okkur
þannig úti um skotsilfur svo við gætum nú
keypt okkur hrísgrjón og búið okkur til graut.
Þá sagðist Bragi hættur í músíkbransanum,
hann ætlaði sér að verða rithöfundur og þetta
væri ekkert illa meint en ég skyldi nú bara fá
einhverja almennilega tónlistarmenn til að
spila með mér. Fá einhverja almennilega
djasshljómsveit sem gæti skemmt sér yfir
þessari vitleysu allri saman.“
Æra Bogomils
Sigtryggur segist þá hafa hóað Milljónamær-
ingum saman, vorið ’92.
„Ég og Steingrímur (trymbill Millanna sem
er með Sigtryggi í Steintryggi) höfðum grín-
ast mikið saman þegar hann rak hljóð-
færaverslunina Samspil. Mér fannst hann
fyndinn gaur. Hann hafði verið að spila latin-
tónlist og ég sá fyrir mér lítið kombó sem gæti
leikið latíniseraðar útgáfur af einhverjum Si-
natra-blöðrum. Farið mátulega illa með tón-
listarsöguna. Ég var þá reyndar farinn að
hlusta mikið á gamlan djass og kominn með
svolitla bakteríu fyrir þessu. Morthensæði
mikið stóð þá líka yfir, en Haukur er besti krú-
ner Íslandssögunnar fyrr og síðar.“
Bogomil Font gaf svo út plötu árið 1993,
Ekki þessi leiðindi, ásamt Milljónamæring-
unum. Þar er m.a. lagið „Marsbúa cha cha
cha“, sem sló í gegn svo um munaði. Platan
kom út á vegum Smekkleysu, eins og platan
nýja.
„Ég ætlaði aldrei að gera plötu með þessari
hljómsveit því að í mínum huga var þetta bara
sprelliband okkar vinanna. Ég átti erfitt með
að ná hausnum utan um það að gefa út plötu
sem innihéldi ekki verk frá eigin hendi. Að
gefa út plötu með koverlögum fannst mér …
frekar sloppy. Ég hafði a.m.k. ekki áhuga á því
persónulega. En síðan var gengið á eftir mér
og mér tjáð að þessi hljómsveit væri nú orðin
svo vinsæl að það væri gott fyrir útgáfuna, og
alla aðila væntanlega, ef við gæfum út plötu.
Ég lét til leiðast og við gáfum út tónleikaplötu
sem var tekin upp á tveimur kvöldum í Hlé-
garði í Mosfellsbæ. Platan varð vinsæl, seldist
vel og það var bara hið besta mál.“
Sama ár flutti Sigtryggur ásamt fjölskyldu
sinni til Madison í Bandaríkjunum. Ekki leið
þó á löngu uns gamall vinur kíkti þar í heim-
sókn.
„Ég kynntist skemmtilegu liði í Chicago og
var farinn að hanga dálítið í leikhúsum. Ég var
kominn með hálfgerða Kurt Weill-dellu á
tímabili. Þá hringdi Ásmundur (Ási í Gramm-
inu, Smekkleysu) í mig og spurði mig hvort ég
ætlaði nú ekki að gera aðra Bogomil-plötu.
Hún, Út og suður, var þokkalega „artí“ og
seldist nú ekki mikið. Innihélt tónlist eftir
Kurt Weill og var gerð með hinum og þessum
furðufuglum í Chicago. Mér þótt nú miklu
skemmtilegra að gera hana en þessa Ekki
þessi leiðindi-plötu. En strangt til tekið hefur
Bogomil ekki gefið út plötu í ellefu ár og þögn-
in því rofin með Bananaveldinu.“
Kalypsótónlistarmenn notuðu texta, eins og
áður hefur komið fram, markmiðsbundið til að
koma skilaboðum á framfæri, oft lykluðum.
Átti þetta ekki síst við í pólitík og oft birtist
andstaða við ráðandi öfl í háði bundnum
söngnum og áreiðanlegustu fréttirnar á hverj-
um tíma var jafnan að finna í kalypsólögum.
Svo fór að tónlistin var beinlínis talin hættuleg
af ríkisstjórninni sem fór að skanna innihald
texta og banna ákveðin lög, ef skaðsöm þóttu.
Sigtryggur játar því að hann sé að leika sér
með þessa háttu í íslensku textunum.
„Ég reyndi að halda í þennan anda sem svíf-
ur yfir textagerð kalypsóiðkendanna. Það
tókst ágætlega finnst mér. Stundum þýðum
við textana beint en svo eru lög eins og „Land-
þvættirnir“ sem er bein tilvísun í stór-
iðjustefnu stjórnvalda sem við erum ekkert
sáttir við. En ég er mjög sáttur við þessa
plötu. Ég er loksins kominn á einhvern reit
með þennan aumingjans kall eftir mörg, mörg
ár. Mér finnst hann hafa fengið nokkurs konar
uppreisn æru. Þessi karakter þarf að vera með
smá prakkaraskap og uppsteyt.“
Bogomil og bandið Þögnin rofin með Bananaveldinu.
Uppreisn
Bogomils