Lesbók Morgunblaðsins - 16.09.2006, Side 10
10 LAUGARDAGUR 16. SEPTEMBER 2006 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Úlfhildi Dagsdóttur
varulfur@centrum.is
D
eilur um Kárahnjúkavirkjun
hafa verið mjög áberandi und-
anfarið og virðist þar hver at-
burðurinn reka annan.
Skýrslur, sprungur, fundir og
ferðir hrannast upp á síðum
dagblaðanna og í ljósvakafjölmiðlum svo venju-
legt borgarbarn eins og ég verð að hafa mig alla
við að hanga með í helstu beygjum og reyna að
ná taki á landsvæði sem ég þekki ekki, stór-
iðjustefnu sem ég skil ekki (sjáið fyrir ykkur
áhyggjufullar ennishrukkur múmínálfsins hér)
og ofur-rómantískri náttúruverndarumræðu
sem ég þoli ekki (reið Mía hér). Fréttaumfjöll-
unin og umræðan í kringum mig gengur út á
það er linnulaust verið að leggja mat á eitthvað,
það er talað um áhættumat, gróðamat (sem
heitir eitthvað annað), mat á gróða/tapi ferða-
þjónustunnar, mat á menningu og menntun,
mat á landsbyggðastefnu, og loks mat á meng-
un og sjónmengun.
Það tóku margir pistli Stefáns Mána (Lesbók
Morgunblaðsins, 12. ágúst 2006) fagnandi, þar
var kominn umræðugrundvöllur fyrir þá sem
eru með óþol fyrir lopapeysum, dramatík og
málningarslettum, þarna heyrðist rödd sem
hægt var að samsama sig með. Reyndar hafa
fleiri greinar í Lesbókinni fjallað um málið á
öllu aðgengilegri nótum en lopapeysurnar (af-
sakið, en ég er með ofnæmi fyrir lopa), dæmi
um umfjöllun sem sendi ekki hroll niður eftir
bakinu á mér eru greinar eftir Guðna Elísson,
eða jú, vissulega fékk ég hroll en þá af ‘réttri’
ástæðu, þess sem hann sagði, ekki hvernig hann
sagði það. Þessi öllu praktískari umfjöllun um
stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar á sér hverf-
ipunkt í bók Andra Snæs Magnasonar,
Draumalandið, en með henni urðu ákveðin
vatnaskil (afskakið orðaleikinn) í umræðunni
um að hleypa vatni á hálendið með óvissum af-
leiðingum óljósra hagsmuna. Það varð vakning -
já vakning - og fólki eins og mér var boðið uppá
að sjá þessa virkjunarumræðu vs. nátt-
úruverndun í nýju ljósi, ljósi sem var kannski
ekkert sérstaklega óvænt, en þakklátt engu að
síður. Fyrir bókmenntafræðing eins og mig er
ekki síður áhugavert að fylgjast með því hvern-
ig bókin sem fyrirbæri getur haft áhrif, en bók-
inni er stöðugt spáð dauða, af hliðstæðu lopa-
peysuklæddra umhverfissinna í
bókmenntaheiminum.
Áður en bók Andra Snæs kom út, nú í febrúar
á þessu ári, hafði komið fram önnur bók sem
varð fyrir mig ákveðinn lykill að þessari Kára-
hnjúkaumræðu allri og opnaði mér víða og
breiða sýn á málið. Hér er ég auðvitað að tala
um bók Ævars Arnar Jósepssonar, Blóðberg,
sem kom út fyrir jólin 2005. Þar er fjallað um
Kárahnjúka, ekki aðeins sem umdeilda virkjun,
heldur líka sem stað og vinnustað og það var
ekki síst sú hlið sem gerði það að verkum að
mér fannst ég geta sett mig inní málið og jafn-
vel öðlast hugrekki til að klifra yfir lopapeys-
umúrinn og skoða útsýnið þeim megin.
„Welcome to Alcatraz“
Blóðberg er skáldsaga, nánar tiltekið glæpa-
saga, sem gerist að mestu leyti á Kárahnjúkum
að vetrarlagi og lýsir, fyrir utan rannsókn máls-
ins, deilum um virkjun, deilum um erlenda
verkamenn og deilum um náttúruvernd. Skriða
verður sex manns að bana og í kjölfarið virðist
ábyrgðarmaður öryggismála hafa framið sjálfs-
morð. Rannsóknarteymið úr fyrri bókum Æv-
ars (sjá nánar um verk Ævars í grein minni á
bokmenntir.is) mætir á staðinn, hálftimbrað, en
kvöldið áður hafði verið partý hjá Árna, rann-
sóknarlögreglumanninum sem er aðalsöguhetja
bóka Ævars. Í því partýi fá nýir lesendur gott
tækifæri til að kynnast teyminu og ætti því van-
þekking á fyrri verkum ekki að koma að sök.
Aðalpersónurnar eru í stuttu máli fjórar, fyrir
utan Árna eru það Stefán, sem er yfirmaðurinn,
gamall og ljúfur kall, Guðni, sem er fauti og
ruddi og Katrín sem er Konan (með stórum
staf, fulltrúi kvenna) í hópnum og á í nokkuð
stöðugum útistöðum við Guðna. Fljótlega kem-
ur í ljós að lögreglufólkið er ekki sammála um
náttúruverndarsjónarmiðin og þar takast gamli
fordómapésinn Guðni og Katrín á um land, nátt-
úru og vernd. Staða Árna er einhversstaðar
mitt á milli, hann er illa klætt borgarbarn, full-
komlega óundirbúinn fyrir aðstæðurnar, bæði
hvað varðar efnislegan aðbúnað (fatnað og skó)
og þekkingu eða áhuga á virkjanamálum.
Inní málið blandast svo undarlegar hótanir
frá einhverjum sem kalla sig “Græna herinn“ og
lögreglufólkið á erfitt með að taka alvarlega
(engin furða), en neyðist til að taka með í reikn-
inginn eftir að pólski verkamaðurinn sem lifði
skriðuna af fullyrðir að hann hafi heyrt spreng-
ingu áður en skriðan féll. Og það er byrjað að
tala um hryðjuverk og sérsveitir, en líka mögu-
leikann á óstöðugu landi og misgengi sem gæti
hafa valdið skriðunni.
Hér höfum við ýmsa þræði umræðunnar und-
anfarið: virkjanasinnann sem hefur engan
áhuga á íslenskri náttúru utan að nýta hana og
svo manneskju sem þekkir landið (og keyrir bíl-
inn í allri ófærðinni) og svo þá sem eru þarna
einhversstaðar mitt á milli og hafa ekkert sér-
staklega leitt hugann að þessu. Umverfissinnar
eru á sínum stað, þó frekar virki þeir hjárænu-
legir með þetta hallærisheiti á aðgerðum sínum,
og minna því mest á það lið sem Stefán Máni
lýsir í grein sinni sem lopapeysuðum vinstri-
mönnum, hippum, listamönnum, grænmet-
isætum og erlendum stúdentum, sem “hoppa
hæð sína, skvetta málningu (eða var það skyr?),
orga á Austurvelli, semja ljóð og tjalda uppi á
fjalli“. Og svo eru það dramadrottningarnar á
hinum vængnum, þeir sem verja stífluna og
stjórnina með oddi og egg og sjá hryðjuverka-
menn í hverju horni. Hlutur mögulega þver-
sprungins landsins sjálfs birtist í misgenginu
sem tengist skriðunni og svo eru það auðvitað
sjálfir verkamennirnir.
Öllu er þessu vel haldið til haga og lesandi
fær skýra mynd af hinum ýmsu þáttum umræð-
unnar - þó á þessum tíma hafi sprungu-skýrslan
enn verið undir stól - en það sem mér fannst
áhrifamest var það hvernig umræðunni er gefið
sannfærandi baksvið og það er hreint með ólík-
indum hvernig alls grunlaus lesandi er skyndi-
lega staddur í kulda og trekki í grófhöggnu
landslagi virkjunarframkvæmda, innanum snjó
og sand og urð og grjót. Hér komum við með
Árna að Kárahnjúkum, en hvorki blaðagreinar,
ljósmyndir né “óteljandi“ loftmyndir Ómars
Ragnarssonar í fréttatímum sjónvarpsins höfðu
undirbúið hann undir veruleikann sem blasti
við, veruleika sem honum finnst portúgalinn
lýsa best þegar hann bauð fólkið “Velkom tú
Alkatras“:
Hvar sem ekki var snjór var var annaðhvort grjót,
drasl eða svartur hamar. Og svo mórauður beljandinn
í gljúfrinu miðju. Á leiðinni frá brúnni að búðunum
mætti þau nokkrum gulum, skítugum risatrukkum
sem snigluðust niður brekkurnar, þau óku framhjá
lokaðri bensínsjopppu, risavöxnum skemmum og
óteljandi gámum, ryðguðum olíutunnum og brotnum
klóakrörum sem stóðu upp á endann, kerrum og
vinnuvélum af öllum stærðum og gerðum á víð og
dreif. Allt var þetta meira og minna á kafi í snjó og
það var lágreist húsaþyrpingin líka sem þau óku
framhjá skömmu síðar. Hún var nöturleg að sjá og lítt
aðlaðandi í grámóskulegri birtunni, minnti helst á
hesta í höm eða afskekkt kotbýli í löngu gleymdum
frásögnum af hrakningum á heiðum uppi. Þráttfyrir
vinalegt ljós í gluggum og algjöran skort á girðingum
virkaði þetta alltsaman alveg jafn fjandsamlegt á
Árna og tilhugsunin um fangelsisklettinn alræmda,
þótt hann væri ekki frá því að orðið gúlag ætti jafn-
vel enn betur við þennan stað. (138-139)
Eins og þessi lýsing gefur til kynna er áhersl-
an lögð á að draga upp mynd af staðnum, sem
áþreifanlegum bústað fólks, en annað sem vek-
ur eftirtekt í sögunni er umfjöllunin um daglegt
líf verkamannannaog er þar fjallað um þær
ólíku þjóðir sem þarna er slegið saman, aðbúnað
þeirra, tungumálavandamál, og svo auðvitað
glæpi og refsingar, en við sögu kemur einnig
umræða um eiturlyf og gleðikonur. Hvað eftir
annað er umhverfinu lýst sem óvinveittu og
óbyggilegu, sérstaklega fyrir þá verkamenn
sem koma frá suður-Evrópu. Lögreglufólkinu
er fyrst boðið “inní tvílyftan, grænan kassa sem
minnti meira á gámastæðu en mannabústað“
(139). Seinna þegar Árni heimsækir íverustaði
verkamannanna sér hann að “gul kvoða virtist
vella útum allar rifur á ómáluðum, bárujárns-
klæddum íbúðaskálunum í Impregilo-búðunum.
Meðfram þakskegginu, dyrastöfunum, glugga-
póstum og meiraðsegja niðrundan bárujárninu
við sökkulinn og útum loftræstitúðurnar á
veggjunum“. Portúgalskur verkamaður út-
skýrir: “Vindurinn“ ... “fara alstaðar inn með
sand og snjó. Kalt.“ Hann faðmaði sjáfan sig og
skalf. “Brrr,“ sagði hann og brosti. “Og skítugt,
sandur alstaðar. Og blautt, snjórinn bráðnar.
Ekki góð hús fyrir Ísland““ (338-9). Þessi aug-
ljósi skortur á réttum aðbúnaði (svo ekki sé tal-
að um sjónmengun) kemur auðvitað vel á vond-
an, því Árni kemur sjálfur gersamlega
óundirbúinn á þetta veðurhverfa svæði, og end-
urspeglar á skemmtilegan hátt það hvernig að-
stæður allar geta verið vanmetnar.
Lýsing á borð við þessar búa að auki yfir
ýmsum skemmtilegum blæbrigðum en það er
ekki hjá því komist að ákveðið þjóðarstolt rísi
upp í íslenskum lesanda yfir harðneskju náttúr-
unnar, sem okkur er stöðugt sagt að sé lýsandi
dæmi um stórkostleika hennar. Getur fólkið
ekki bara búið sig alminnilega? Það er jú tími
flís-ins (flíssins, flísarinnar, hvernig beygir mað-
ur þetta #$% orð?) og um þessar mundir gerum
við beinlínis útá kulda og trekk, vernduð af flís-
inni, ef marka má 66° norður, afsakið NORTH,
auglýsingarnar. Sami þjóðrembni íslenski les-
andi vílir þó ekki fyrir sér að bölva íslensku veð-
urfari við hvert tækifæri og myndi aldrei láta
sjá sig (dauðan eða lifandi) í flís.
Að segja sögu
Undanfarið hef ég, starfa minna vegna, velt
hlutverki frásögunnar mikið fyrir mér. Við er-
um alltaf að segja sögur, af sjálfum okkur þar-
sem við færum atburði í lífi okkar í búning frá-
sagnar, af öðrum sögum (eins og til dæmis í
bókmenntagöngum) og af fréttum og fræðum.
Frásagan býr yfir fróðleik og er okkur mik-
ilvægt tæki til skilnings og greiningar, hún fær-
ir hugmyndir í form og skapar þeim útlínur og
ramma. Í gegnum frásagnir getum við öðlast
upplifanir, jafnvel uppljómanir, tengst fólki,
stöðum og atburðum og áttað okkur á helstu
þáttum átaka og deilumála. Þessar frásagnir
geta verið af ýmsu tagi eins og Draumalandið
og Blóðberg eru gott dæmi um; ein tegund sög-
unnar af Kárahnjúkum er sögð í fræðiriti Andra
Snæs, og önnur tegund er sögð í skáldsögu Æv-
ars Arnar. Munurinn felst ekki aðeins í formun-
um heldur einnig í markmiðinu, en markmið
Ævars er ekki endilega að færa sönnur á neitt
annað en sem viðkemur glæpaplottinu. Jafn-
vægið í hinum ólíku sjónarmiðum sem takast á í
sögunni er nokkuð gott, því þótt virkjanamað-
urinn Guðni sé vissulega ósympatísk persóna,
þá fær hann nokkra uppreisn æru í bókinni, auk
þess sem sterkasta rödd bókarinnar, sjónarmið
Árna, er í heildina frekar lítið rómantísk gagn-
vart íslenskri náttúru. Undarlegar fréttir eins
og þær af kínverjanum sem virðist hafa skaðað
sjálfan sig verða ofurlítið skiljanlegri þegar þær
eru settar í samhengi við lýsingar Ævars á
verkamannabúðunum og bústöðunum (svo ekki
sé talað um matinn), og allar fréttir af svæðinu
taka á sig örlítið nærtækari blæ eftir að lesandi
hefur dvalist þar um stund með rannsóknarlög-
regluteyminu. Þó að samúðin með „græna hern-
um“ sé takmörkuð fer ekki hjá því að vog-
arskálin hallist meir á þá hlið sem gagnrýnir
virkjunina, en aldrei svo að um dramatískan
áróður sé að ræða, né er slík skoðun sett fram á
skýran hátt af hálfu söguhöfundar, hún birtist
frekar í textanum, lýsingum, og svo auðvitað því
sem snýr að sjálfum glæpunum. En það er önn-
ur saga, og verður ekki sögð í þessari grein.
Ljósmynd/Carlo Mazzetti
Í skjóli myrkurs Blóðberg er glæpasaga sem gerist að mestu leyti á Kárahnjúkum að vetrarlagi og lýsir deilum um virkjun, um erlenda verkamenn og deilum um náttúruvernd.
Hnjúkar Kára og blóð úr bergi
Hvaða ljósi geta bókmenntir varpað á þær
deilur sem nú standa um virkjanir og stíflu-
gerð á hálendinu? Getur verið að glæpasaga
Ævars Arnar Jósepssonar, Blóðberg, geti
sett þessar deilur í nýtt samhengi?
Höfundur er bókmenntafræðingur.
» Þó að samúðin með „græna
hernum“ sé takmörkuð fer
ekki hjá því að vogarskálin
hallist meir á þá hlið sem gagn-
rýnir virkjunina, ...