Morgunblaðið - 30.04.2006, Blaðsíða 14

Morgunblaðið - 30.04.2006, Blaðsíða 14
14 | 30.4.2006 É g er búin að vera hérna í eitt og hálft ár eða síðan í október 2004,“ segir Kol-brún Sigurjónsdóttir, starfsmaður á leikskólanum Austurborg. „Dætur mínar, tvíburarnir, eru fjögurra ára og ég var alveg heima með þær í tvö ár áður en ég kom hingað. Ég hafði unnið áður á leikskóla og vissi að mér líkaði starfið svo ég ákvað að slá til. Reyndar tók ég Viðskipta- og tölvuskólann árið 1999–2000 og vann í þeim geira áður en ég átti stelpurnar en hitt freistaði meira eftir að börnin voru komin til sögunnar. Svo spillti ekki fyrir að Austurborg er í göngufæri við heimili okkar fjöl- skyldunnar.“ Kolbrún viðurkennir aðspurð að vera mikil barnakerling og það fer ekki á milli mála að hún nýtur starfsins. „Ohh, það er svo yndislegt – þetta er svo gaman,“ segir hún með innilegri áherslu. „Vissulega er þetta oft erfitt og sérstaklega getur starfið reynt á andlega en það gefur manni miklu meira á móti. Börnin eru svo opin og skemmtileg og ólík – það eru engir tveir einstaklingar eins. Á hverri deild eru um 24 börn sem hvert um sig hefur sínar þarfir. Það tekur dágóða stund að læra á hvern ein- stakling og þess vegna er mikið rót á deildum alls ekki gott. En fjölbreytnin er mikil í starfinu og líf og fjör allan daginn.“ Fjölbreytnin getur verið býsna krefjandi að sögn Kolbrúnar enda að mörgu að huga. „Við reynum að skipuleggja hlutina mjög vel og til dæmis læra börnin fljótt að fara ekki úr fataklefunum fyrr en þau eru búin að ganga frá fötunum sínum. Sömu- leiðis er alltaf gengið frá dóti sem búið er að leika með áður en nýtt er tekið fram. Starfið er líka líkamlega erfitt, sérstaklega á yngri deildunum þar sem starfsfólkið þarf mikið að lyfta börnunum, skipta á þeim og svo framvegis. Það er heilmikið álag fyrir bakið og axlir og getur tekið sinn toll. Á eldri deildunum reynir hins vegar meira á andlegu hliðina enda eru krakkarnir þar orðnir sneggri og meira krefjandi og farnir að prófa sig meira á starfsfólkinu. Hluti af ánægjunni við starfið er líka að fylgjast með þeim stækka og þroskast eftir því sem þau fara deild af deild.“ Knús á morgnana | Aðspurð segist Kolbrún finna fyrir þakklæti í starfi sínu. „Manni finnst maður í það minnsta vera mjög mikilvægur – börnin gefa manni gjarnan knús á morgnana og eru ótrúlega gjafmild. Þau eru alltaf að bjóða manni hitt og þetta, í af- mælisboð eða í sumarbústað með fjölskyldunni.“ Kolbrún hlær við tilhugsunina. „Þau eru ófeimin við að láta vita hvað þeim finnst og á sama hátt hika þau ekki við að hvæsa á mann ef þau eru ekki sátt.“ Hvað varðar aðra sem hlut eiga að máli segir Kolbrún foreldra yfirleitt ánægða með þjónustuna. „Það hafa ekki verið miklir árekstrar og ef það er eitthvað sem þeir eru ekki ánægðir með láta þeir mann einfaldlega vita. Oftast leysist það á einfaldan hátt en ef ekki vísum við þeim til deildarstjóra eða leikskólastjóra. Það er mjög sjald- gæft. Almennt finnst mér foreldrahópurinn mjög góður og jákvæður.“ Starfsandinn er ekki síður mikilvægur og þar er Kolbrún á grænni grein. „Mórall- inn hérna er góður og mikil samheldni meðal starfsfólksins,“ segir hún. „Við gerum mikið saman utan vinnu, förum til dæmis í keilu og að undanförnu höfum við verið að safna fyrir námsferð til London, sem við ætlum að fara í í lok maí. Við fáum líka klapp á öxlina þegar við stöndum okkur vel, t.d. á erfiðleikatímabilum þegar vantar fólk eða þegar starfsmenn eru veikir en þá lendir meira á okkur hinum. Þá höfum við lengt vinnutíma okkar, jafnvel upp í níu klukkustundir á dag til að koma til móts við aðstæður. Reyndar er óvenju hátt hlutfall faglærðra hér hjá okkur svo það eru ekkert rosalega miklar mannabreytingar, að undanskildum haustunum sem eru alltaf erfið. Og mannabreytingarnar fara alltaf verst í litla fólkið.“ Fljótir út aftur | Kolbrún segir gert vel við sig í starfi. „Til að mynda er ég búin að fara á námskeið eftir námskeið sem hífa launin svolítið upp,“ segir hún og upplýsir að mánaðarlaun hennar fyrir 100% starf séu 144 þúsund krónur. „Reyndar detta af því tveir launaflokkar á næsta ári því hluti af þessu eru tímabundnar launahækkanir. Eins er ég ekki í 100% starfi heldur 90% þannig að ég er að fá útborgað á bilinu 100–110 þúsund krónur, eftir því hversu mikla yfirvinnu ég vinn.“ Hún viðurkennir að líklega kæmist hún ekki langt á þeirri upphæð einni saman. „Ég framfleyti ekki fjögurra manna fjölskyldu á þessu þegar þarf að borga fyrir íbúð, bíl og allan pakkann – alla vega myndi það endast mjög stutt. Maðurinn minn er aðal- fyrirvinna heimilisins, hann vinnur við tölvur og tekur að sér aukavinnu af og til. Mín laun duga rétt fyrir matnum. Reyndar fæ ég, sem starfsmaður á leikskóla, nið- urgreidd leikskólagjöldin sem eru rosaleg hlunnindi. Með tvö börn á leikskólaaldri munar um það og þegar ég byrjaði leit ég einmitt til þess að það myndi lyfta laun- unum töluvert upp. Ef gjaldfrjáls leikskóli verður hins vegar að veruleika munu þessi hlunnindi að sjálfsögðu detta út en hingað til hefur leikskólinn notið góðs af þeim og jafnvel fengið fólk frekar til starfa, t.d. eftir fæðingarorlof.“ Kolbrúnu er augljóslega brugðið við næstu spurningu sem eiginlega er staðhæfing: hún myndi líklega ekki ná endum saman ef hún væri einstæð móðir? „Guð minn góður nei, ég sé það ekki. Ég hafði ekki einu sinni hugsað út í þetta, nú fékk ég bara sjokk!“ segir hún, hlæjandi þó. „En þetta finnst mér einmitt svo sorglegt – maður finnur sér starf sem er skemmtilegt og hefur allt sem maður óskar en lítur svo á launa- seðilinn í hverjum mánuði með tárin í augunum. Þótt starfið gefi okkur sem vinnum hérna mikið gefum við mikið á móti og þá er svo ótrúlega dapurlegt að það sé ekki metið meira. Það er líka hugsunin hjá mörgum sem koma við í þessu starfi. Þeir átta sig kannski ekki á því hvað þetta er mikil vinna og þegar þeir sjá launin sín eru þeir fljótir út aftur.“ Það á hins vegar ekki við um Kolbrúnu sem stefnir á leikskólakennaranám í fjar- námi í Kennaraháskóla Íslands í haust. „Ég ákvað í vetur að ef ég ætlaði að halda áfram myndi ég einfaldlega læra þetta eða hætta. Mig langar ekki að ílengjast í þess- um launaflokkum. Þó launin séu ekkert himinhá hjá þeim sem hafa menntun eru þau þó ívið skárri en hjá okkur hinum og fara vonandi batnandi. Svo græðir maður auð- vitað heilmikið á náminu faglega, öðlast meiri virðingu í starfi og atvinnuöryggi þann- ig að ég hlakka virkilega til að takast á við skólann.“ | ben@mbl.is KOLBRÚN SIGURJÓNSDÓTTIR, STARFSMAÐUR Á LEIKSKÓLANUM AUSTURBORG MANNABREYTINGARNAR VERSTAR FYRIR LITLA FÓLKIÐ … maður finnur sér starf sem er skemmtilegt og hefur allt sem maður óskar en lítur svo á launa- seðilinn í hverj- um mánuði með tárin í augunum.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.