Morgunblaðið - 30.04.2006, Blaðsíða 8

Morgunblaðið - 30.04.2006, Blaðsíða 8
8 | 30.4.2006 ég. Þetta dugði til þess að hann lét rannsaka mig betur og greindist ég með ósæðargúl á nákvæmlega sama stað og bróðir minn. Ekki nóg með það, stækkunin á ósæðinni var nákvæmlega jafn mikil og hjá Snorra. Hún var orðin 57 millimetrar.“ Bræðurnir segja lækna ekki hafa gefið þeim neina skýringu á þessu. Vefjasýni hafi verið tekin en ekkert komið í ljós sem bendi til samhengis í þessum veikindum, að því er þeir best vita. „Þetta er bara tilviljun,“ segir Snorri. „En allur er varinn góður. Ég á sjálfur eineggja tvíburadætur, sem eru að verða 16 ára, og þótti vissara að láta heim- ilislækninn líta á þær. Það kom allt vel út. Auðvitað á þetta að vera eins og á Kúbu en Castro heimtar að allir íbúar landsins fari í læknisskoðun einu sinni á ári. Þannig er örugglega komið í veg fyrir allskonar ótímabær áföll og veikindi.“ Þegar ég meiði mig finnur hann bara til | Fólki finnst sjúkrasaga Snorra og Viðars með ólíkindum. Sumir hafa spurt hvort svona lagað gerist ekki oft með tvíbura. Það er ekki raunin. Eða hvað? „Það er bara eitt hjá okkur. Það er svo merkilegt að þegar ég meiði mig þá finnur hann bara til. Það kemur sér ágætlega fyrir mig,“ segir Snorri og horfir á bróður sinn. Þeir skellihlæja. Bræðurnir fóru báðir í hjartaþræðingu og þar kom í ljós að hjartað sjálft var í fínu lagi. Ósæðargúll hefur heldur ekkert með líferni fólks að gera. Að sögn bræðranna kunna læknar enga skýringu á því hvers vegna hann myndast. „Ég er íþróttakennari og kenni ungbarnasund. Reyni mikið á mig og var í mjög góðu formi,“ segir Snorri. „Viðar dettur hins vegar fram úr rúminu á morgnana, fær sér kaffi og situr svo við tölvuna allan dag- inn,“ heldur hann stríðnislega áfram og lítur á bróður sinn sem hlær. „En að öllu gríni slepptu þá hefði ég líklega dáið á undan, ef þetta hefði ekki uppgötvast, þar sem ég reyni meira á mig. Ósæðargúll finnst yfirleitt við krufningu og þannig hefði ég hugsanlega bjargað Viðari.“ Bræðrunum var gert að fara vel með sig meðan þeir biðu eftir aðgerðunum. Þeir máttu vinna en urðu að forðast alla áreynslu. Þeir segjast ekki hafa verið sérlega smeykir en vissu- lega hafi verið óþægilegt að vita af kvillanum og þurfa að bíða. Aðgerðin sem bræðurnir gengust undir er ákaflega stór og flókin. Tekur um fjórar klukkustundir. Ýmsir hjartaskurð- læknar á Íslandi framkvæma kransæðaaðgerðir en aðeins einn aðgerðir af þessu tagi, Bjarni Torfason. Aðgerðin fer þannig fram, í grófum dráttum, að ósæðin er tekin í sundur, gúllinn fjarlægður og æðin tengd saman á ný. Snorri átti að leggjast undir hnífinn 21. júní í fyrra og var búinn að undirbúa sig af kostgæfni. Þegar á hólminn var kom- ið var aðgerðinni hins vegar frestað um viku og hann sendur heim. Ástæðan var sú að ekki var laust rými á gjörgæslunni. „Það var mjög óþægilegt. Ég var búinn að búa mig vandlega undir aðgerðina en þetta þýddi að ég þurfti að gera það upp á nýtt. Svo var biðin líka orðin býsna óþægileg.“ Viðar fór í aðgerðina sjö vikum síðar en hans aðgerð var líka seinkað um eina viku. Hann var þó ekki lagstur inn eins og Snorri þegar sú ákvörðun var tekin. Gott að hafa undanfara | Bræðurnir höfðu upphaflega hug á að verða samferða gegn- um ferlið, fara í aðgerðina á svipuðum tíma og styðja við bakið hvor á öðrum í end- urhæfingunni. Það gekk ekki upp. Viðar kveðst hafa hagnast á því. „Þetta gerði það að verkum að ég var með undanfara sem var auðvitað dýrmætt. Ég gat fylgst grannt með gangi mála hjá Snorra og undirbúið mig þannig. Þegar í ljós kom á spítalanum að ég þoldi ekki mjög sterkt verkjalyf, þ.e. Contalgin, hringdi ég bara í Snorra, sem þoldi það ekki heldur, og hann vissi upp á hár hvaða lyf ég ætti að biðja um. Þetta var mjög þægilegt í alla staði.“ Sannast hér hið fornkveðna, að ber er hver að baki nema sér bróður eigi. Bræðurnir segja aðstöðuna á hjartadeild Landspítalans mjög góða, starfsfólkið sé frábært og vel hafi farið um þá. Þar dvöldust þeir í viku eftir aðgerðina, þar af í á ann- an sólarhring á gjörgæslu. Þar sem bræðurnir eru sláandi líkir varð uppi fótur og fit á deildinni þegar Viðar lagðist inn. „Það þekktu mig auðvitað allir. Heilsuðu mér með virktum og spurðu hvers vegna ég væri kominn aftur. „Mistókst þetta eitthvað síð- ast?“,“ segir hann hlæjandi. Eftir heimkomuna tók við hvíld í fimm vikur. Þeir máttu reyna á neðri hluta lík- amans og gátu því gengið. En lítið annað meðan beinin voru að gróa. „Þetta var mjög skrýtin lífsreynsla. Við vorum heilbrigðir og hraustir menn sem skyndilega urðu ónýtir. Gátum ekkert gert,“ segir Viðar. „Lungun falla yfirleitt saman við þessa að- gerð og við þurftum að vinna allt okkar þrek upp frá grunni, auk þess að gróa sára okkar.“ Snorri sótti það stíft að komast sem fyrst í endurhæfingu. Vildi ekki vera lengi frá vinnu. „Það var nóg að gera hjá mér og ég vildi rífa mig sem fyrst upp úr þessu. Mað- ur má ekki keyra í sex vikur eftir svona aðgerð og það var einmitt þá sem ég fékk pláss í endurhæfingu á Reykjalundi. Og þar sem ég var farinn að keyra samdi ég um að koma að morgni og fara heim að kvöldi. Það hentaði ágætlega og varð til þess að ég komst fyrr að. Yfirleitt er biðin eftir plássi þrír mánuðir. Hjartasjúklingar fá fjórar vikur á Reykjalundi og við nýttum okkur það. Ég var auðvitað í yngri kantinum af hjartasjúklingunum þarna og ég sá eini með þetta vandamál. Hinir voru allir krans- æðasjúklingar.“ Á sama tíma og Viðar var á Reykjalundi var aftur á móti einn annar sjúklingur sem þjáðst hafði af sama kvilla. Ósæðin hjá honum var orðin 62 millimetrar. Sex fet niður | Endurhæfing er alvarlegt mál en bræðurnir segja Magnús R. Jónasson yfirlækni á hjartadeild eigi að síður hafa verið duglegan að brjóta dvölina upp með léttara hjali. „Einhvern daginn var ég til dæmis að tala um það að mér fyndist end- urhæfingin miðast meira við kransæðasjúklinga en okkur, t.d varðandi fyrirlestra, mataræði og annað. „Það er alveg eðlilegt,“ svaraði hann þá grafalvarlegur. „Þeir sem eru með hjartagúl fara annað.“ Nú, hvert fara þeir? spurði ég forvitinn. „Sex fet niður.““ Ungum og sprækum manni eins og Snorra fannst róðurinn sækjast hægt í fyrstu. „Eftir hálfan mánuð var farið í fjallgöngu, 26–27 manns saman, hjartasjúklingar og aðrir. Ferðinni var heitið upp á Helgafell, sem er ekki svo hátt, 270–80 metrar. Ég staðnæmdist hins vegar eftir 200 metra og hefði ekki komist lengra þó ég ætti lífið að leysa. Ég var gjörsamlega búinn. Allir aðrir fóru upp. Það var erfitt að sætta sig við það. Hálfum mánuði seinna var farið í aðra sambærilega göngu upp á Mosfell og þá komst ég á leiðarenda. Það var áfangasigur.“ Viðar segir dvöl sína á Reykjalundi hafa verið svipaða. Hann er sölumaður hjá BYKO og var mættur til vinnu þremur mán- uðum eftir aðgerðina. „Þeir voru alveg sérstaklega almennilegir við mig í vinnunni. Sögðu mér bara að hafa þetta eins og ég vildi. Ég gæti byrjað þegar mér hentaði og unnið eins lengi í einu og ég treysti mér til. Það setti kapp í mig. Ég byrjaði á því að mæta í klukkutíma í senn, svo hálfan daginn og eftir tvær vikur var ég kominn í fulla vinnu á ný. Ég þarf að vísu ekki að reyna á mig lík- amlega, sem munar auðvitað miklu, en það var samt býsna strembið að sitja uppi fyrstu dagana, að ekki sé talað um allt áreitið. Ég þurfti því að hvíla mig inn á milli.“ Snorri og Viðar eru heilbrigðir menn í dag og ekkert meiri lík- ur á því að þeir greinist aftur með ósæðargúl en hver annar. Þeir eru í reglubundnu eftirliti hjá læknum og verða um sinn. Tíu mánuðir eru nú síðan Snorri var skorinn upp og rúmir átta mán- uðir frá því Viðar lagðist undir hnífinn. Þeir segjast ekki orðnir jafngóðir og áður en séu á réttri leið. „Það tekur venjulega árið að ná sér að fullu eftir svona aðgerð,“ segir Snorri. „Ég fékk kvef um daginn og það reyndi mikið á efri hluta líkamans. Þá fann ég að ég er ekki alveg búinn að jafna mig en þetta er allt að koma.“ Í hverju er brellan fólgin? | Ekki er hægt að sleppa bræðrunum án þess að spyrja þá út í auglýsinguna góðu sem minnst var á hér að framan en hún hefur verið bæði í sjón- varpi, útvarpi og á prenti. Hvernig kom það til að þeir léku í henni? „Það var nú hálfgerð tilviljun,“ segir Snorri. „Auglýsingastofan Hér og nú sem gerði auglýsinguna fyrir SÍBS hafði samband við Magnús yfirlækni á Reykjalundi og spurði hvort það væri einhver möguleiki að fá tvíbura í þetta verkefni. Hugmyndin er sumsé alfarið frá þeim komin. Magnús hélt það nú og hafði samband við okkur til að spyrja hvort hann mætti gefa upp nöfnin. Okkur fannst það allt í lagi. SÍBS á og rekur Reykjalund sem er frábær stofnun. Dvölin þar gerði okkur mjög gott og það var því sjálfsagt mál að þakka fyrir okkur með þessum hætti. Hugmyndin um að taka auglýsinguna upp í sundlaug kviknaði út frá mínu starfi með ungbarnasundið. Örin máttu sjást og það er eðlilegt að menn séu berir að ofan í sundi, a.m.k. eðlilegra en að þeir standi úti á víðavangi.“ Auglýsingin vakti mikla athygli og komu margir að máli við bræðurna fyrst eftir að hún tók að birtast. „Það spurðu mig margir út í þetta,“ segir Viðar. „Fyrst vildi fólk vita hvort eitthvað hefði í raun og veru komið fyrir mig en svo sagði það að þetta hefði verið snjöll brella og átti þar við að ég hefði verið tvöfaldaður. Það eru svo margir sem hafa ekki hugmynd um að ég er tvíburi.“ Snorri segir að ýmsir vinklar séu á þessu með brelluna. „Það má til dæmis velta því fyrir sér hvort þetta sé ekki ein allsherjar brella frá byrjun, þ.e. að auglýsingastofan hafi fengið hjartalækninn til að skera okkur upp til að geta gert auglýsinguna og svo framvegis,“ segir hann kíminn og það er greinilegt að bræðurnir sjá spaugilegu hlið- ina á veikindum sínum líka. Ekki veitir af þegar stiginn er dans við dauðann. | orri@mbl.is TÍMASPRENGJA AFTENGD „Það þekktu mig auðvitað allir. Heilsuðu mér með virktum og spurðu hvers vegna ég væri kominn aftur.“ Snorri og Viðar sex ára gamlir.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.