Morgunblaðið - 06.07.2006, Blaðsíða 27
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 6. JÚLÍ 2006 27
MINNINGAR
Stundin líður, tíminn tekur,
toll af öllu hér,
sviplegt brotthvarf söknuð vekur
sorg í hjarta mér.
Þó veitir yl í veröld kaldri
vermir ætíð mig,
að hafa þó á unga aldri
eignast vin sem þig.
(Hákon Aðalsteinsson.)
Elsku Valdi bróðir minn er lát-
inn, langt fyrir aldur fram, hann
var besti vinur minn og hægt að
tala við hann um alla hluti. Hann
var yngsti bróðir minn og bara eitt
ár á milli okkar. Lífið og lífsbar-
áttan í „gamla“ daga var allt önnur
en nú til dags.
Mamma og pabbi skildu þegar
við vorum 6 og 7 ára og fljótlega
þegar við vorum komin til vits og
ára (8–9 ára) vorum við send í
sveit á sumrin í 4 mánuði ár hvert.
Byrjaði þá ferðin á BSÍ og endaði
norður í Fljótum í Skagafirði og
tók ferðalagið 12 tíma ef ekki
sprakk á rútunni á leiðinni. Ferðin
lá til ömmu og afa og móðurbróð-
ur. Þar bjó einnig elsti bróðir okk-
ar Þráinn sem alinn var upp hjá
ömmu en var hann mikil fyrir-
mynd Valda, sterkur og góður
drengur. Margt gerist á fjórum
mánuðum hjá svo litlum börnum
og enginn GSM-sími engin elsku
mamma – hvernig lifðum við þetta
af? Þá var gott að hafa hvert ann-
að að leita til í sorgum og gleði og
hjálpa hvert öðru og hvetja áfram.
Það má segja að þessi tími í sveit-
inni hafi bundið okkur sterkum
böndum æ síðan. Árin liðu og
fannst mér Valdi alltaf vera þessi
ljúfi góði drengur en eins og hann
bæri með sér dulinn harm.
Við bjuggum saman hjá móður
okkar fram yfir tvítugt, en þá
hafði Valdi verið að vinna verka-
mannavinnu, eins og í Lýsi hf. og
Ísbirninum en við 23 ára aldurinn
veikist Valdi alvarlega af þung-
lyndi og byrjar sína þrautagöngu í
kerfinu. Framan af gekk þetta
nokkuð vel og sótti hann iðjuþjálf-
un og bjó á sambýlum, seinna þeg-
ar klúbburinn Geysir var stofn-
aður var hann virkur tölvukarl í
klúbbnum og fannst hann skipta
máli, en hætti svo að mæta út af
ýmsum ástæðum og þá tók að
halla undan fæti. Tölvan hjálpaði
Valda mikið, hann þurfti ekki að
fara út úr húsi, en það var oft erf-
itt að hitta annað fólk. Önnur
ástríða Valda var Star Trek-mynd-
irnar og átti hann allt safnið,
marga hillumetra af DVD og víd-
eóspólum og þreyttist hann seint á
VALDIMAR
GUÐMUNDUR
JAKOBSSON
✝ Valdimar Guð-mundur Jak-
obsson fæddist í
Reykjavík 2. októ-
ber 1959. Hann
lést á líknardeild
Landspítala – há-
skólasjúkrahúss í
Kópavogi, þriðju-
daginn 27. júní síð-
astlíðinn. Foreldr-
ar hans eru Fjóla
Sigurjónsdóttir frá
Miklahóli í Viður-
víkursveit í Skaga-
firði, f. 12. júní
1921, d. 18. júlí 2003 og Jakob
Valdimarsson frá Hraunsholti í
Garðabæ, f. 17. september
1928. Valdimar á sex systkini,
þau eru: Þráinn Kristjánsson, f.
23. febrúar 1943, Lára Krist-
jánsdóttir, f. 27. október 1945,
Örn Berg Guðmundsson, f. 19.
desember 1949, Björk Krist-
jánsdóttir, f. 29. nóvember
1953, Stefanía Kristjánsdóttir,
f. 30. apríl 1956 og Sigurlaug
Jakobsdóttir, f. 26. september
1958.
Útför Valdimars verður gerð
frá Grafarvogskirkju í dag og
hefst athöfnin klukkan 13.
að segja mér frá
þessum skemmti-
legu myndum og
öllum þeim ævin-
týrum sem meðlim-
ir Star Trek lenda í.
Það sem ein-
kenndi Valda öðru
fremur var hjálp-
semin og góð-
mennskan og
reyndist hann mér
og Braga mannin-
um mínum ómetan-
legur fyrir 10 árum
þegar við keyptum
húsið okkar tilbúið undir tréverk
og ég ófrísk af mínu fyrsta barni.
Þá var Valdi betri en enginn, pípu-
lagnir, flísalagnir, smíðar eða hvað
sem er, allt lék í höndunum á hon-
um.
Ekki má gleyma börnunum mín-
um Fjólu og Kalla, en þau elskaði
hann sem sín eigin og reyndist
okkur Braga ómetanlegur við að
passa þau og hjálpa okkur að
koma þessum blessuðu englum til
manns.
Fyrir tæpum þremur árum erfði
Valdi pening eftir afa sinn og gat
þá í fyrsta skiptið á ævinni eignast
sína eigin íbúð og nýjan bíl. En
hann var mikill bílakarl. Kom ég
oft til hans í íbúðina til að spjalla
og spá og var unun að sjá hvað
hann var smekklegur og mikill
fagurkeri og naut þess að eiga sitt
eigið dót. Fannst honum lífið loks-
ins blasa við sér og að hann ætti
einhvern séns að lifa eins og annað
fólk og vildi ólmur fara að ferðast
og gerði hann nokkuð af því eftir
að hugrekkið jókst og er mér og
fjölskyldu minni ógleymanleg ferð-
in okkar til Mallorka fyrir tveimur
árum. En fljótt skipast veður í
lofti og fyrir þremur mánuðum
greindist Valdi með illkynja heila-
æxli – engin meðferð. Hann lá
fyrst í tæpa tvo mánuði inni á B-6
á Borgarspítala eftir heilaupp-
skurð og síðan rúman mánuð á
líknardeildinni í Kópavogi.
Þetta var hræðilega erfiður tími
í lífi Valda og mínu og okkar allra
sem önnuðust hann, og vil ég nota
tækifærið og þakka Aroni Björns-
syni heilaskurðlækni og hans
starfsfólki fyrir hjálpina og ekki
síður því yndislega starfsfólki sem
er á líknardeildinni í Kópavogi fyr-
ir ómetanlegan stuðning og hjálp
og er ég viss um að þar er fólk
ráðið eftir hjartalagi. Takk fyrir
okkur Valda.
Það mætir oft svo margt í lífsins stríði
sem mönnum ógnar hér á lífsins braut,
en gagnar nokkuð grátur eða kvíði?
nei, göngum djarft á móti hverri þraut.
Því englar Drottins yfir sálum vaka
og eru bæði skjól og verndarhlíf,
þeir kunna frá oss tárin burt að taka.
Vér treystum Guði meðan endist líf.
(Margrét Jónsdóttir.)
Hvíl í friði,
Sigurlaug systir.
Hún er konan, sem kyrrlátust fer
og kemur þá minnst þig varir,
og les úr andvaka augum þér
hvert angur, sem til þín starir.
Hún kemur og hlustar, er harmasár
hjörtun í einveru kalla.
Hún leitar uppi hvert tregatár.
Hún telur blöðin, sem falla.
Og hún er þögul og ávallt ein
og á ekki samleið með neinum.
Því hún er sorgin, sem sefar hvert mein,
Og sífellt leitar að einum.
(Tómas Guðmundsson.)
Hvíl í friði, Valdi minn.
Þín systir,
Stefanía.
ÉG VAR undrandi á grein
Þórs Sigfússonar hér í Morg-
unblaðinu á þriðjudag. „Hvers
vegna Sjóvár-brautin?“ er yf-
irskrift hennar. Í fyrstu máls-
greininni er nafn mitt nefnt í
því samhengi að ómögulegt er
að skilja öðru vísi eftir lestur
greinarinnar en svo að ég vilji
beita skuggagjöldum við bygg-
ingu og rekstur umferðarmann-
virkja. En því er öfugt farið. Ég
veit að Þór Sigfússon vill ekki
gera mér upp skoðanir, en þetta
var ógott.
Í grein minni á mánudag
rakti ég ókosti þessarar leiðar,
sem kennd er við skuggagjöld.
Kjarni hennar er sá, að ríkið
feli öðrum að taka lán fyrir sig í
staðinn fyrir að taka það sjálft.
Vaxtamunurinn yrði a.m.k.
2–4%, sem safnaðist fljótt upp í
háar fjárhæðir á kannski 25 ár-
um. Ofan á bættist síðan sú
þóknun, sem fyrirtækið tæki til
sín, því að kerling vill fá nokkuð
fyrir snúð sinn. Ég skal ekki
endurtaka grein mína hér, en
hlýt að spyrja, úr því að Þór
Sigfússon nefndi nafn mitt, af
hverju hann svaraði henni ekki
efnislega.
Ég efast ekki um áhuga Sjó-
vár fyrir því að bæta Suður-
landsveg yfir Hellisheiði til að
draga úr slysum og tjónum. Og
ég leyfi mér raunar að bæta því
við, að vonandi taki þessi áhugi
ekki aðeins til Hellisheiðar
heldur vegakerfisins í heild
sinni. Ég trúi því sem sé að ég
og mitt gamla félag getum sam-
einast á þessum punkti. Og þá
hljótum við líka að vera sam-
mála um að velja þær lausnir
sem eru ódýrastar, ef þær eru
jafngóðar. Þá verður okkur
mest úr verki. Þá fækkar slys-
unum og tjónunum mest.
Allar vegaframkvæmdir eru
boðnar út og hönnun og veg-
hald í vaxandi mæli. Þar njóta
kostir einkaframtaksins sín til
fulls.
Í grófum dráttum hefur
þeirri reglu verið fylgt, að undir
vegaframkvæmdum hefur ekki
verið staðið með lántökum.
Lagning nýs vegar yfir Hellis-
heiði kostar ekki þvílíka fjár-
muni að ástæða sé til að hverfa
frá þeirri reglu. Annað eins hef-
ur verið gert. Skuggagjöldin
eru andstæð þeirri stefnu, sem
fylgt er í ríkisfjármálum.
Um Hvalfjarðargöngin gegnir
öðru máli. Ekki voru pólitískar
forsendur fyrir því að fara út í
þá framkvæmd nema með inn-
heimtu vegtolla. Einsýnt er að
fara þá leið á ný, nú þegar
göngin verða breikkuð eða ný
göng gerð. Hið sama á við um
göngin undir Vaðlaheiði. Þetta
hvort tveggja helst í hendur.
Við skulum ekki koma óorði á
einkavæðinguna. Einkavæðing
er brothætt orð og hlýtur með
öðru að fela í sér að fara hag-
kvæmustu og ódýrustu leiðina
að settu marki ef hún er jafn-
góð eða betri.
Halldór Blöndal
Einkavæðing
er brothætt orð
Höfundur er alþingismaður
Norðausturlands.
KRISTJÁN Guðmundsson, fyrr-
verandi skipstjóri, ritaði grein í
mánudagsblað Morg-
unblaðsins, þar sem
hann beindi máli sínu
til ráðuneytis, sem
ekki er nánar til-
greint. Það er ekki
mitt að svara fyrir
ráðuneytið, hvert sem
það kann að vera.
Ástæða þess að ég
drep niður penna er
önnur. Í grein sinni
vitnar Kristján til
máls sem ég hef kom-
ið að og almenningur
þekkir vel til. Málið
varðar andlát Matt-
hildar V. Harðardóttur og Friðriks
Á. Hermannssonar og aðdraganda
þess. Í grein sinni vegur Kristján
að æru Matthildar og Friðriks og
fer þar rangt með staðreyndir. Þar
sem Matthildur og Friðrik eru
ekki til svars fyrir sína hönd finn
ég hjá mér hvöt til að leiðrétta
misgjörðir skipstjórans fyrrverandi
á þeirra hlut.
Fullyrðing
númer eitt
Í grein Kristjáns segir orðrétt:
„Á það skal bent að samkvæmt
lögum um akstur bifreiðar, er sá
sem fer upp í bifreið hjá ökumanni
sem er undir áhrifum áfengis, og
fær far með honum, jafn sekur er
varðar ölvun við akstur.“ Þetta er
rangt. Umferðarlög hafa ekki að
geyma neitt ákvæði í þessa veru.
Íslenskir dómstólar hafa í tilvikum
sem þessum fært niður skaðabæt-
ur, sem dæmdar hafa verið fólki
sem tekið hefur sér far með ölv-
uðum ökumanni, eða fellt þær nið-
ur, á þeim forsendum að um
áhættutöku eða eigin sök hafi verið
að ræða. Aðstandendum Matt-
hildar og Friðriks voru dæmdar
skaðabætur með dómi Héraðsdóms
Reykjavíkur, en bæturnar voru
hvorki lækkaðar né
felldar niður. Sjón-
armiðum um áhættu-
töku eða eigin sök var
m.ö.o. hafnað.
Fullyrðing
númer tvö
Áfram segir í grein-
inni: „Því verður ekki
horft fram hjá því að
vinafólk sakbornings-
ins og sakborningur
höfðu verið að
skemmta sér saman
og neytt áfengis áður
en ákveðið var að fara
í hina örlagaríku ferð og var í sam-
bærilegu andlegu ástandi með til-
liti til áfengisáhrifa.“ Enn fer skip-
stjórinn fyrrverandi rangt með
staðreyndir málsins.
Í fyrsta lagi kom ekkert fram
við meðferð málsins fyrir dómi,
sem rennt getur stoðum undir þá
fullyrðingu Kristjáns, að vinafólk
sakborningsins og sakborningur
hafi verið að skemmta sér saman
og neytt áfengis áður en ákveðið
var að fara í hina örlagaríku ferð.
Þvert á móti kom fram að áfeng-
isneysla hófst eftir að ferðin var
hafin. Skipstjóri og stjórnandi báts
ræður því hvenær bát er lagt að
landi, en ekki farþegar hans, í
þessu tilviki sakborningur. Matt-
hildur og Friðrik höfðu enga
ástæðu til að ætla að hann væri
undir áhrifum áfengis þegar báts-
ferðin hófst og ekkert bendir til að
þau hafi nokkru getað ráðið um
það hvenær endi var bundinn á
ferðina.
Í öðru lagi þá var Matthildur
heitin allsgáð þetta kvöld. Að-
dróttun Kristjáns er því til-
hæfulaus og í hæsta máta ósmekk-
leg.
Fullyrðing
númer þrjú
Enn segir í grein Kristjáns:
„Þar af leiðandi var ábyrgð farþeg-
anna engu minni, en sakborningur
var eigandi bátsins.“ Þessi fullyrð-
ing er röng, eins og fyrri fullyrð-
ingarnar tvær, en hún er einnig
óskiljanleg og ámælisverð, ekki
hvað síst þegar virt er reynsla og
staða Kristjáns Guðmundssonar,
sem fyrrverandi skipstjóra og
starfsmanns Rannsóknarnefndar
sjóslysa.
Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur
er í löngu máli fjallað um ábyrgð á
því, sem gerðist um borð í nefnd-
um báti hina afdrifaríku nótt.
Hvergi er þar minnst á ábyrgð
Matthildar og Friðriks sem far-
þega, en því fleiri orð notuð til að
lýsa ábyrgð ákærða, sem skip-
stjóra á bátnum og stjórnanda
hans.
Niðurstaða héraðsdóms að því er
varðar ákeyrsluna á Skarfasker er
þessi: „Samkvæmt öllu fram-
ansögðu og að því virtu að ákærði
sigldi Hörpunni á allt að 17 sjó-
mílna hraða á Skarfasker, í nátt-
myrkri og slæmu skyggni, verður
ekki ályktað á annan veg en að or-
sök slyssins megi rekja til fífl-
dirfsku ákærða, kunnáttuleysis,
dómgreindarleysis og ölvunar,
nema þar fari saman fleiri en einn
orsakavaldur.“ Friðrik heitinn lést
af völdum áverka sem hann hlaut
við ákeyrsluna.
Niðurstaða héraðsdóms varðandi
lát Matthildar er þessi: „Með að-
gerðum sínum og aðgerðarleysi
innsiglaði ákærði örlög Matthildar,
sem var neðan þilja hjá látnum
unnusta sínum. Ber ákærði óskor-
aða ábyrgð á dauða hennar …“
Matthildur var allsgáð og nánast
óslösuð eftir ákeyrsluna og er það
mat héraðsdóms að hún hefði lifað
sjóslysið af, ef ákærði hefði brugð-
ist við slysinu með eðlilegum hætti.
Rannsóknarnefnd sjóslysa skil-
aði skýrslu um rannsókn sína á
umræddum atburði.
Niðurstaða nefndarinnar er eft-
irfarandi: „Orsök óhappsins er
stórkostlegt gáleysi við stjórn
bátsins og verulegar líkur á því að
þar hafi ölvunarástand skipstjóra
skipt verulegu máli.“ Hvergi er í
skýrslu nefndarinnar vikið að
meintri ábyrgð hinna látnu.
Niðurstöður fagaðila, sem fjallað
hafa um þetta mál, eru afdrátt-
arlausar varðandi það hver beri
ábyrgð á því sem gerðist þessa
nótt. Ábyrgðin liggur ekki hjá hin-
um látnu, eins og fullyrt er af
hálfu Kristjáns Guðmundssonar,
heldur hjá skipstjóra og stjórn-
anda bátsins, sem nú hefur hlotið
dóm fyrir brot sín.
Ég bið Kristján Guðmundsson
um að fara rétt með staðreyndir,
kjósi hann að tjá sig frekar um þá
atburði sem urðu tilefni að grein
hans.
Rangfærslur leiðréttar
Jóhannes Rúnar Jóhannsson
svarar grein Kristjáns
Guðmundssonar ’Niðurstöður fagaðila,sem fjallað hafa um þetta
mál, eru afdráttarlausar
varðandi það hver beri
ábyrgð á því sem gerðist
þessa nótt. Ábyrgðin
liggur ekki hjá hinum
látnu, eins og fullyrt er af
hálfu Kristjáns Guð-
mundssonar, heldur hjá
skipstjóra og stjórnanda
bátsins...‘Jóhannes Rúnar
Jóhannsson
Höfundur er hæstaréttarlögmaður.
UMRÆÐAN