Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2007, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2007, Side 10
10 LAUGARDAGUR 10. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ lesbók Eftir Milan Kundera S ú mannkynssaga sem varðveitt er í sameig- inlegu minni okkar allra er gerólík því sem fólk upplifði í raun og veru á sínum tíma. Það endar alltaf með því að fólk lagar ósjálfrátt minningar sínar um það sem gerðist að því sem sagt er í nútímanum. Síð- an kemur að því einhvern daginn að skáldsagnahöfundur (alvöru skáld- sagnahöfundur) afhjúpar hvernig líf- inu var í raun og veru háttað á ákveðnu sögulegu tímabili sem menn héldu sig þekkja vel, og allt birtist í nýju ljósi. Munurinn á þessu tvennu er alltaf afar sláandi. Þess vegna eru miklar skáldsögur sem gerast í síð- ustu styrjöld sem háð var í Evrópu (og dagana eftir að henni lauk) ekkert ýkja vel séðar til að byrja með. Ég er þá að hugsa um skáldsögur eins og Skinnið eftir Malaparte. Eða Tworki eftir Marek Bienczyk sem ég skrifaði nýverið um. Og nú um Svarta her- bergi Damóklesar eftir Willem Fre- derik Hermans, sem nýkomin er út í Frakklandi. Ég veit, þú hefur aldrei heyrt hana nefnda. Raunar væri ég jafn fáfróður og þú ef hollenskur vin- ur minn hefði ekki sagt mér frá þess- ari óþekktu en stórmerku skáldsögu og bent mér á að hún hefði komið út hjá Gallimard-bókaútgáfunni vorið 2006. Hvernig stóð á því að ég vissi ekkert af henni? Svarið er einfalt: þessi skáldsaga vakti enga, nákvæm- lega alls enga athygli í fjölmiðlum í Frakklandi. Um hana var ekki skrif- að eitt einasta aukatekið orð. Ég sökkvi mér niður í lestur skáld- sögunnar, fyrst hálfkvíðinn yfir lengd hennar, en er síðan svo snöggur að lesa hana að ég verð hálfhissa. Þessi skáldsaga er nefnilega hreinn og klár þriller, röð atburða þar sem ekki slaknar á spennunni eitt augnablik. Atburðunum (sem gerast í síðari heimsstyrjöldinni og árið eftir að henni lýkur) er lýst nákvæmlega og þurrlega, í smáatriðum en hratt, þeir eru hryllilega raunverulegir en samt alveg á mörkum þess að vera trúlegir. Mér fannst þessi fagurfræði heillandi: raunsæisleg skáldsaga sem er um leið heilluð af því ótrúlega og undarlega. Er hún afleiðing af eðli styrjaldarinnar sem óhjákvæmilega úir og grúir af óvæntum atburðum, og rúmlega það, eða merki um það fagurfræðilega ætlunarverk höf- undar að komast út úr hinu venju- lega, eða til að nota orð sem súrreal- istunum var einkar kært, um hið dásamlega („hinn dásamlega raun- veruleika“, eins og Alejo Carpantier hefði sagt)? Þessi eining raunveruleikans og hins yfirnáttúrlega (þar sem hið ólík- lega er aldrei óhugsandi, þar sem hið raunverulega er aldrei hversdags- legt) felst í aðalpersónunni, Osewo- udt, ungum manni sem „fæddist tveimur mánuðum fyrir tímann“ og „móðir hans losaði sig við hann ofan í kopp og skeit um leið“. Hann var skegglaus alla tíð, lágvaxinn, hálfum sentimetra of lágvaxinn til að komast í herinn, en stundaði þó júdó og stóð fastur á því að lifa sem karlmaður. Nokkrum dögum eftir að Þjóðverjar lögðu Holland undir sig hitti hann Dorbeck, annan ungan mann sem var nánast tvífari hans, nema að hann var nánast fullkominn („Þú ert jafnlíkur honum og misheppnaður búðingur vel heppnuðum búðingi,“ sagði for- ljóta konan Dorbecks við Osewoudt). Osewoudt var gersamlega heillaður af tvífara sínum og gekk í and- spyrnuhreyfinguna fyrir hans at- beina. Hann framkvæmdi samvisku- samlega skipanir sem bárust honum símleiðis, í pósti, með ókunnum sendi- boðum eða þá að Dorbeck gaf honum stöku sinnum fyrirskipanir þegar þeir hittust sem snöggvast. Þannig er sjónarhornið afmarkað: horft er á atburðarásina með augum manns sem ekki skilur ástæður þess sem honum ber að gera, hann hittir fólk sem sent er til hans, en hann veit ekkert um. Hann rembist endalaust við að skilja hvað er að gerast og reynir að hemja óttann við að verða leiddur í gildru. En hvernig á hann eiginlega að fara að því að greina and- spyrnumann frá njósnara, hvernig getur hann verið viss um að skipun er raunveruleg en ekki fölsk? Öll bar- átta hans er ferðalag um myrkviði þar sem merking alls sveipast þoku. Auk þess er allt tvírætt: morðin sem hann fær skipun um að fremja eru grimmileg; hann er skjálfhentur og tennurnar í honum glamra þegar hann fremur þau, en hann finnur ekki til minnsta samviskubits. Enda efast hann ekki um að það sé rétt að gera það sem lagt er fyrir hann. Samviska hans er ekki hrein af pólitískum eða hugmyndafræðilegum ástæðum, heldur vegna þess að sannfæring hans er bjargföst: „Ég er á móti Þjóð- verjum vegna þess að þeir eru óvinir okkar. Þeir réðust á okkur og ég er að verja hendur mínar.“ En þótt þessi afstaða hafi verið fallega skýr voru þær kringumstæður sem hann lenti í, það sem hann gerði, siðferðilega afar vafasamt. Svört ljóðlist einkennir allt í þeim heimi sem Hermans dregur upp: til að drepa mann sem unnið hafði með Gestapó í yfirgefnu ein- býlishúsi verður Osewoudt fyrst að drepa tvær saklausar konur (ef orðið „saklaus“ á þá yfirleitt heima í heimi Hermans), það er að segja eiginkonu svikarans og aðra konu sem kemur í einbýlishúsið til þess að ná í smá- strák, son svikarans, og fara með hann til Amsterdam. Osewoudt tekst að hlífa þeim stutta við morðunum en síðan, til að gæta eigin öryggis, verð- ur hann að hugsa um hann. Hann fer með hann út á járnbrautarstöð, fer með honum í lest og gengur síðan með honum um götur Amsterdam. Þessi ofdekraði drengur malar enda- laust um allt og ekki neitt, og Osewo- udt verður að taka þátt í samtalinu. Þetta er skýrt dæmi um þessa svörtu ljóðlist: þrefalt morð og blaður í barni sem haldið er óstöðvandi athyglissýki renna saman í eitt. Bandaríski herinn nálgast og Dor- beck færir Osewoudt (sem sér hann ekki eftir það) einkennisbúning hjúkrunarkonu til að tryggja öryggi hans á síðustu dögum styrjald- arinnar. Í þessu dulargervi vekur hann athygli þýsks herforingja sem fer að stíga í vænginn við hann. Þjóð- verjinn er samkynhneigður og lítur á Osewoudt sem fyrstu konuna sem hann girnist … En nóg um það, ég ætla ekki að fara að rekja allt efni þessarar innihaldsríku, ótrúlega inni- haldsríku skáldsögu. Ég segi ekki annað en það sem mestu máli skiptir: þegar frelsið langþráða nær til Hol- lands með bandarískum skriðdrekum verður drungalegt andrúmsloftið í skáldsögunni enn svartara. Osewoudt er handtekinn af frelsurunum. Leyni- lögreglan telur hann vera njósnara. Hann reynir að verjast: segja löngu vikurnar sem hann var fangelsaður af Þjóðverjum ekki allt sem segja þarf? Nei, þvert á móti voru Þjóðverjar þannig að fela hann og vernda. Hann minnir þá á að hann hafi framið nokk- ur dásamlega grimmileg morð. Eru þau ekki besta sönnun þess að hann er saklaus? Nei, enginn trúir að hann hafi framið þau. Yfirheyrslurnar standa yfir endalaust, mánuðum sam- an, allan tímann leitar hann að ein- hverjum sem gæti vitnað honum í hag. En það reynist ekki til neins. Öll vitnin voru látin. En hvað með Dor- beck? Eina manninn sem gæti bjarg- að honum. Hann vísar ítrekað til hans. En þeir sem eru að rannsaka mál hans kannast ekki við það nafn. Vörn Osewoudts byggist ekki á nein- um sönnunum. Rétt er það, en þeir sem bera hann sökum hafa heldur ekki neitt máli sínu til sönnunar, og grunsemdir sigurvegaranna, jafnvel þótt sannanir skorti algerlega, breyt- ast brátt í sannleika. Líf Osewoudts er sokkið í ógurlegt fúafen siðferðislegar tvíræðni. Því þannig er það: í hita bardagans sér fólk sem berst af ástríðu ekki þessa djöfullegu tvíræðni, en síðan, þegar tími dóma og refsinga rennur upp, eitrar hún líf þjóðanna árum saman eins og reykur sem stígur upp af brunarústum, reykur sem ekki er hægt að hemja. En hvað með Osewo- udt? Hvernig fór fyrir honum? Illa. Hann var skotinn. Nú, þegar ég er búinn að lesa bók- ina, myndi ég gjarna vilja vita meira um höfund hennar: hvaða leið fór hann sem listamaður? Hneigðist hann til súrrealisma, var það hann sem býr að baki þessari svörtu ljóðlist höfundarins? Voru pólitískar ástæður fyrir andstöðu hans gegn ríkjandi gildum? Og hvert var samband hans við föðurland sitt? O.s.frv. Ég get bara nefnt nokkrar dagsetningar: hann fæddist árið 1921, hann birti Svarta herbergi Damóklesar árið 1958, flutti frá Hollandi árið 1973, bjó í tuttugu ár í París, fluttist síðan til Belgíu. Frá því hann lést árið 1995 hafa Hollendingar litið á hann sem merkasta skáldsagnahöfund sinn í seinni tíð og nú er hann smátt og smátt að verða þekkt nafn í Evrópu. Meira veit ég ekki um hann. Raun- ar þurfti ég þess ekki til að geta notið skáldsögunnar hans. Listaverk eru umlukin aragrúa athugasemda, upp- lýsinga sem eru svo yfirgengilega há- værar að rödd skáldsögunnar eða ljóðlistarinnar heyrist varla. Ég lauk við bók Hermans fullur þakklætis yf- ir því hversu fáfróður ég var. Hún veitti mér þögn sem gerði mér kleift að hlusta á tæra rödd þessarar skáld- sögu sem er svona fögur vegna þess hve óútskýrð og óþekkt hún er. © M.K. 2007 Friðrik Rafnsson þýddi. Svört ljóðlist og tvíræðni Willem Frederik Hermans „Hann fæddist árið 1921, hann birti Svarta her- bergi Damóklesar árið 1958, flutti frá Hollandi árið 1973, bjó í tuttugu ár í París, fluttist síðan til Belgíu.“ Myndin var tekin árið 1951. Milan Kundera er skáldsagnahöf- undur og ritgerðasmiður. Grein þessi birtist í bókablaði franska dagblaðs- ins Le Monde föstudaginn 26. janúar sl. og er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar. Um skáldsöguna Svarta herbergi Damóklesar eftir Willem Frederik Hermans Bókaskápur Sigurðar Pálssonar Sigurður „Í Orðunum (Les Mots) eftir Jean-Paul Sartre stendur: „Líf mitt hófst og eins mun því eflaust ljúka: inn- an um bækur.“Það var og.“ Morgunblaðið/Einar Falur » Þessi skáldsaga er nefnilega hreinn og klár þriller, röð atburða þar sem ekki slaknar á spennunni eitt augnablik. Ljósmynd/Emiel van Moerkerken

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.