Lesbók Morgunblaðsins - 10.02.2007, Qupperneq 16
16 LAUGARDAGUR 10. FEBRÚAR 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Eyjólf Kjalar Emilsson
e.k.emilsson@ifikk.uio.no
V
ið Sigríður Þorgeirsdóttir höf-
um deilt í Lesbók Morg-
unblaðsins undanfarnar vikur.
Ég gagnrýndi ýmislegt í
tveimur greinum hennar um
Platon og viðhorf hans til
kvenna sem hún hafði birt í Lesbókinni. Sig-
ríður svaraði grein minni, ég þá aftur svari
hennar, og hún svarar mér svo enn í alllöngu
máli 22. des. sl. Eftir þetta síðasta svar varð
ég að spyrja sjálfan mig um hvað þessi deila
eiginlega snerist. Ég hef sett fram nokkuð
alvarlegar aðfinnslur við mál Sigríðar. Mér
virðist á svörum hennar að hún ýmist telji
þær léttvæga smásmygli eða hún skilji þær
ekki (eða láti sem svo). Hef ég þó gert mér
far um að tala ljóst og rökstyðja mál mitt
eftir því sem við verður komið í blaðagrein-
um. Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að
ágreiningur okkar snúist á endanum ekki að-
allega um viðhorf Platons til kvenna né um
konur og heimspekihefðina. Ekki heldur um
meginlandsheimspeki, sem Sigríður telur
vera mér framandlega og lítt skiljanlega.
Vissulega er ég enginn sérfræðingur á því
sviði, en framandleg er þessi hefð mér varla.
Ég met mikils suma höfunda innan hennar,
þótt aðrir höfði lítt til mín; suma hef ég
kennt, einn hef ég þýtt á íslensku. Ég held
að okkur greini á um miklu hversdagslegri
hluti, en þó ekki síður mikilvæga: siðfræði
lestrar og skrifta. Ég ætla að freista þess að
skoða málið enn að nýju í ljósi þessarar nið-
urstöðu og verða það lokaorð mín í þessari
deilu a.m.k. að sinni.
I
Í síðustu grein sinni segir Sigríður að af
myndmáli höfundar megi ráða margt um við-
horf hans til annarra hluta en þeirra sem
viðkomandi texti fjallar beint um. Undir það
get ég tekið. Hún kveður umfjöllun sína um
platonska heimspeki ekki vera „af toga rit-
skýringar“, heldur segist hún rýna „í tákn-
ræna þætti“. Þarna er athyglisverður grein-
armunur, sem er nýmæli fyrir mér. Ég hélt
að þeir sem ráða í tákn sem er að finna í
texta yrðu þar með ritskýrendur þessa texta
– hvað annað gætu þeir verið? Ég hef líka
hingað til haldið að ekki kunni góðri lukku að
stýra að hella sér út í táknaráðningar fyrr en
maður er búinn að átta sig vel á textanum og
umhverfi hans að öðru leyti. Sigríður virðist
helst vilja skella sér beint í táknin. Eins hef
ég haft fyrir satt að ritskýrendur fengjust
meðal annars við táknmál þeirra texta sem
þeir fást við út frá þekkingu sinni á við-
teknum táknum í þeirri menningu sem verk-
in eru sprottin úr.
Hvað um það, Sigríður hefur þessu næst
upp mikla vörn fyrir, og eins konar ritskýr-
ingu við, Luce Irigaray og táknatúlkun henn-
ar á hellislíkingu Platons. Skoðun Irigaray á
heimspeki Platons er að sumu leyti skemmti-
lega gamaldags: hún virðist líta svo á að öll
verk Platons tjái eina og sömu heimspekilegu
sýnina og sýnin sem hún lýsir á ýmislegt
sammerkt með túlkun nýplatonista á síðforn-
öld á Platoni. Slíkar skoðanir fá yfirleitt litla
náð í augum samtímatúlkenda, þótt sjálfur sé
ég veikari fyrir hinni fornu skoðun á heim-
speki Platons en margir kollegar mínir. Hér
endar hins vegar samleið mín og samúð með
Irigaray. Öll nýmælin í lestri Irigaray á Plat-
oni byggjast á næsta frumstæðum freudisma
sem ég hygg að megi orða eitthvað á þessa
leið: þegar fólk talar eða skrifar „táknar“
margt í máli þess fyrirbæri tengd kynferði
og kynlífi, sama hvað það er annars að fjalla
um. Þetta er dýpri merking þess sem það er
að segja. Þá gildir einu hvort viðkomandi
hafi gert sér hina táknrænu merkingu orða
sinna ljósa eða ekki. Litlu skiptir hvort við-
komandi bjóði heim slíkum táknrænum skiln-
ingi með orðavali eða öðru: inn skal þessi
kynferðistáknun samt, hvað sem tautar eða
raular. Engu breytir heldur að kenningar
Freuds hafa illa staðist tímans tönn og eiga
nú litlu fylgi að fagna í þeim fræðigreinum
sem þær áttu upphaflega heima í, geðlækn-
isfræði og sálarfræði. Þessi freudíska heims-
sýn er hinn „fræðilegi“ grunnur sem túlkun
Irigaray á hellislíkingu Platons og heimspeki
hans hvílir á.
Þótt Platon sé ef til vill áhrifamesti heim-
spekingur sögunnar er hann og þótti jafnvel
þegar í fornöld óvenjulegur heimspekingur.
Hann bregður til dæmis miklu meira fyrir
sig myndhvörfum, líkingum og sögum en títt
er um heimspekinga og talar aldrei í eigin
nafni. Myndhverfingar sínar og líkingar sæk-
ir hann bókstaflega í allar áttir: í marg-
víslegar iðngreinar, náttúrufyrirbrigði, veiði-
mennsku og skynjun, ekki síst sjón. Og
raunar líka í ást, getnað og fæðingu. Hann
kallar til dæmis á einum stað viðtæki frum-
myndanna, rúm skynheimsins sem frum-
myndirnar speglast í, móður (Timaios 50–51).
Þetta er eftirtektarvert. Ekkert slíkt kemur
þó fyrir í hellislíkingu hans í Ríkinu. Mér er
fyrirmunað að fylgja Irigaray í því að telja
þá staðreynd að Platon notar þar orðið hýs-
tera (með áherslu á fyrsta atkvæði), sem
merkir „það sem kemur á eftir“, til marks
um slíkt (hún segir þetta að vísu ekki berum
orðum, en erfitt er að skilja hana öðruvísi).
Platon notar þetta orð á ofur hversdagslegan
hátt til að segja að eitt komi á eftir einhverju
öðru. Nú vill svo til að á grísku merkir orðið
hystéra (með áherslu á öðru atkvæði, óskylt
hinu orðinu) móðurkvið. Þetta finnst Irigaray
greinilega mikil tíðindi og veitist eftirleik-
urinn auðveldur: að sjálfsögðu er Platon að
ýja að móðurkviði þegar hann segir „á eftir“.
En þetta er ótrúlega hvatvísleg ályktun,
sambærileg við það að halda að maður sem
segir „sex dagar til jóla“ hafi eitthvað kyn-
ferðislegt (ómeðvitað) í huga með orðinu
„sex“. Af hinum ótalmörgu og margvíslegu
líkingum Platons hengir Irigaray sig í þær
sem snerta kyn og kynferði, og gerir þær að
eins konar yfirhugmynd sem allt annað verð-
ur að lúta. Hún sér tilvísun til slíkra hluta í
ólíklegasta samhengi, þar sem enginn annar
sér, nema sá sem þegar hefur játast hinni
freudísku hugmyndafræði. Í ljósi þessa ætti
það ekki að koma á óvart að Irigaray sér
helli Platons í reðurslíki, því beinar línur séu
í hellinum (s. 305–7 hjá Irigaray). Þegar um
lóðréttar línur er að ræða rís reðurinn (sbr.
s. 354). Engu breytir að Platon minnist
hvergi á beinar línur, hvað þá annað sem
minnt gæti á kynfæri karlmanns. Hér ræður
óheft ímyndunarafl Irigaray eitt ríkjum. Sig-
ríður virðist álíta að reðratalið hjá Irigaray
sé „til þess að ögra“; ég sé ekki betur en
henni sé dauðans alvara, enda passar þetta
alveg inn í heildarmyndina.
Ekki get ég sagt að ritgerð Irigaray um
hellislíkinguna, „Móðurkviður Platons“
(„L’hystéra de Platon“), sem er hluti af rit-
gerðasafninu Skuggsjá hinnar konunnar
(Speculum de l’autre femme, París 1974), sé
heillandi lesning: Irigaray virðist leggja sig
fram um að tala með tæpitungu á afar upp-
skrúfuðu fræðimáli og gerir lesendum sínum
á margan hátt óhægt um vik, til dæmis með
því að telja það fyrir neðan virðingu sína að
færa rök fyrir staðhæfingum sínum. Hún
veður úr einu í annað, gerir enga grein fyrir
hvert hún ætlar eða hvert hún sé komin, og
á köflum er afraksturinn að mínu viti hreinn
vaðall. Þrátt fyrir þetta tel ég henni ekki alls
varnað og inni á milli eru áhugaverðar at-
hugasemdir sem væru þess virði að skoða
betur. Ritgerðin er hins vegar eins illa fallin
og hugsast má til þess að verða einhvers
konar hugmyndafræðilegt manífestó eins og
mér virðist Sigríður vilja gera hana (þarna
má finna flest ef ekki allt sem ég hef séð hjá
Sigríði um meinta kynjatvíhyggju frumspek-
innar): ritgerðin er myrk, yfirdrifin og full af
staðhæfingum sem eiga sér enga stoð. Og
eins og ég hef þegar sagt: hún hvílir á væg-
ast sagt hæpnum fræðilegum forsendum.
Sigríður sakar mig um „sveitalega sleggju-
dóma“ um aðrar túlkunarhefðir þegar ég
neita að votta þessari túlkunarhefð virðingu
mína. Ég skal taka dýpra í árinni: þetta er
alls engin túlkunarhefð, heldur ruglingslega
framsett samsuða af eldgamalli túlkun og út-
vötnuðum freudisma af toga Jacques Lacan
með formerkjum femínisma – með dálítilli
hugkvæmni þó inni á milli. Það er engin sér-
stök hefð fyrir þessari blöndu hvorki í
Frakklandi né annars staðar. Brátt verður
þessi „túlkunarhefð“ líka flestum gleymd,
álíka hallærisleg og kenningar Althussers
eða Lévy Strauss þykja nú um stundir. En
þetta vill Sigríður gera að undirstöðu alls
skilnings á vestrænni heimspekihefð og gott
ef ekki sjálfri veröldinni. Og talandi um gam-
aldags sveitamennsku: hefur Sigríður gætt
að því að þeim í París þykir farið að slá í
Irigaray, hún er nú þegar „un peu passée“,
„svolítið gamaldags“?
Sigríður gerir í síðustu grein sinni grein-
armun á þeim sem fást við „þrönga ritskýr-
ingu“ og öðrum sem rýna í stóru línurnar í
heimspekisögunni. Það er nú svo. Það er
virðingarvert að freista þess að ráða hinar
meiri rúnir. Til þess er nú leikurinn gerður,
a.m.k. hjá heimspekingum sem fást við sögu
greinar sinnar. Ég hef meira að segja svolítið
reynt að gera þetta sjálfur. En slíkt gefst
ekki vel, nema maður beri fyllstu virðingu
fyrir ritunum sem eru stoðir heimspekisög-
unnar. Sérstaklega er vert að gæta sín á því
að fara ekki að dikta upp hvað í þeim stend-
ur eða lesa inn í þau fyrirframgefnar nið-
urstöður með trúarljóma í augum. Enn verra
verður þetta, þegar hinar fyrirframgefnu nið-
urstöður hvíla á afar veikum forsendum svo
sem gerningaþoku af því tagi sem Irigaray
magnar fram. Fyrri greinar Sigríðar, sem
voru tilefni þess að ég andmælti henni, og
ekki síður svör hennar við andmælum mín-
um, vekja því miður grunsemdir um að hún
falli í þessa gryfju. Það sorglega við þetta er
að hún virðist halda að hún sé að segja eitt-
hvað stórmerkilegt með allt að því heims-
sögulegt vægi.
II
Sigríður sakar mig um kennaralega tilburði
við sig svo sem í því að áfellast hana fyrir að
fara ekki rétt með tilvitnanir. Þetta hljómar
eins og það eitt hafi vakað fyrir mér að leið-
rétta svolítið gáleysislegan umgang um texta
sem litlu skipti efnislega. Ég hef þegar sagt
það í fyrri greinum, svolítið undir rós, en það
er víst best að segja það einu sinni enn: ég
ásaka Sigríði fyrir tilvitnunarfölsun og fyrir
að hafa frásögn rangt eftir til að láta hana
koma miklu betur en ella heim við það sem
hún óskar sér. Þetta er ekki kennaraleg smá-
smygli, heldur siðferðileg umvöndun.
Sigríði þykir ég vera einkar smámunasam-
ur í aðfinnslum mínum. Því finnst henni bera
vel í veiði þegar hún telur sig standa mig að
ósamkvæmni: „Raunar þverbrýtur Eyjólfur
sín textafræðilegu prinsipp sjálfur og les inn
í textann að [Sókrates og Xanþippa] hljóti að
hafa gert upp sín mál áður en hann
deyr. …Á hverju byggir textafræðingurinn
þessa staðhæfingu?“ spyr hún. Enn komum
við að lestri. Það væri ef til vill tilætl-
unarsemi hjá mér að ætlast til að Sigríður
hafi lesið með athygli fyrstu grein mína þar
sem ég andæfði máli hennar um þessi efni.
Ég hélt þó hún hefði gert það, því hún hafði
að minnsta kosti fyrir því að svara henni.
Alltént, í þessari Lesbókargrein minni vitn-
aði ég í Faídon 116b, þar sem segir berum
orðum frá samtali þeirra Sókratesar og Xan-
þippu rétt áður en hann dó. Það er á þessu
sem textafræðingurinn byggir staðhæfingu
sína (þótt hann segi að vísu ekki að þau hafi
„gert upp sín mál“, heldur talast lengi við).
Fleira athyglisvert má ráða af Faídoni um
samskipti þeirra hjóna. Félagar Sókratesar
sem heimsóttu hann í fangelsið daginn sem
hann dó komu um morguninn og var fang-
elsið þá læst svo að þeir þurftu að bíða eftir
að það væri opnað. Þegar þeir loks komust
inn hittu þeir fyrir Sókrates ásamt Xanþippu
og syni þeirra. Þetta voru þær aðstæður sem
Sigríður lýsir sem svo að Xanþippa hafi kom-
ið inn og „truflað samræðurnar“. Það er erf-
itt að fá frásögnina til að ganga upp, nema
gert sé ráð fyrir að Xanþippa og sonur
þeirra Sókratesar hafi dvalist næturlangt í
fangelsinu. Þau hafa ugglaust sofið eitthvað
(þótt ekki sé greint frá því í Faídoni), en vís-
ast talast við líka. Ég get ekki fallist á að
það sé neitt frumhlaup af minni hálfu að ætla
svo, þótt ekki sé greint frá samtalinu berum
orðum. Þetta er að minnsta kosti tíuþúsund
sinnum traustari tilgáta en allt mál Sigríðar
og Irigaray um typpin og móðurkviðinn.
Myndi Sigríður vilja ljá máls á því að lesa
Faídon eftir Platon áður en hún skrifar um
þetta verk í blöðin næst?
Siðfræði lestrar og skrifta
Morgunblaðið/
Sigríður Þorgeirsdæóttir „Hefur Sigríður gætt að því að þeim í París þykir farið að slá í Irig-
aray, hún er nú þegar “un peu passée“, “svolítið gamaldags“?“
Höfundur er prófessor í fornaldarheimspeki við
Óslóarháskóla.
» Ég hef þegar sagt það í
fyrri greinum, svolítið und-
ir rós, en það er víst best að
segja það einu sinni enn: ég
ásaka Sigríði fyrir tilvitn-
unarfölsun og fyrir að hafa
frásögn rangt eftir til að láta
hana koma miklu betur en
ella heim við það sem hún
óskar sér. Þetta er ekki kenn-
araleg smásmygli, heldur sið-
ferðileg umvöndun.
Sigríður Þorgeirsdóttir og greinarhöfundur
hafa deilt um það hvort Sókrates hafi fyr-
irlitið konur í Lesbók undanfarið. Nú telur
Eyjólfur Kjalar að deilan fjalli um annan hlut
sem er siðfræði lestrar og skrifta. Hann sakar
Sigríði um að hafa beitt tilvitnanafölsun og að
hafa frásögn rangt eftir.