Lesbók Morgunblaðsins - 17.03.2007, Síða 6
6 LAUGARDAGUR 17. MARS 2007 MORGUNBLAÐIÐ
lesbók
Eftir Björn Þór Vilhjálmsson
vilhjalmsson@wisc.edu
Lítið hefur farið fyrir breska leik-stjóranum Peter Greenaway
undanfarin ár og tæpur áratugur er
síðan hann gerði leikna kvikmynd
sem fékk dreifingu að ráði, 8 ½ Wo-
men árið 1999. Síðan hefur hann
fengist við stuttmyndagerð, upp-
setningu á óperu, mynd- og tölvulist
og síðast en ekki síst framleiðslu á
risaverkinu Tulsa Luper Suitcases
þar sem ólíkum miðlum er blandað
saman. Útkoman samanstendur af
fjórum kvikmyndum, nokkrum
myndlistarsýningum og bók en leik-
stjórinn skýrir verkin sem tilraun til
að útvíkka landamæri og þanþol mið-
ilsins. Nú bregður hins vegar svo við
að ný mynd er væntanleg frá Gree-
naway sem markar afturhvarf til
fyrri og að sumu leyti hefðbundnari
starfa. Myndin heitir Nightwatch-
ing, og fjallar um hollenska mál-
arann Rembrandt en með hlutverk
hans fer Martin Freeman, best
þekktur sem Tim í bresku gam-
anþáttunum The Office. Myndin ger-
ir ástarlífi Rembrandts skil ásamt
list hans, en einnig mun víst bregða
fyrir morðgátu og þar sem Gree-
naway er við stjórnvölinn er óhætt
að búast við sérstakri nálgunarleið.
Áyfirborðinu virðist sköp-unarverk breska grínistans
Rowans Atkinson, Herra Bean, til-
heyra allt annarri og andstæðri hlið
breskrar kvik-
myndagerðar en
Greenaway. En
ekki er allt sem
sýnist. Áratugur
er nú liðinn síðan
Bean færði sig
fyrst um set úr
sjónvarpinu yfir á
hvíta tjaldið við
miklar vinsældir
um heim allan og
nú hafa sömu menn lokið við gerð
framhaldsmyndar, Mr. Bean’s Ho-
liday, en ferlið var um sumt óvenju-
legt. Atkinson og félagar fengu
nefnilega framúrstefnumanninn
Simon McBurney til liðs við sig þeg-
ar lagt var af stað með hugmynda-
vinnu að myndinni og þykir mörgum
tveir ansi ólíkir heimar hafa mæst
þar. McBurney er þekktastur sem
einn af stofnendum jaðarlistahópsins
Complicite en hópurinn hefur getið
sér gott orð fyrir frumlegar og til-
raunakenndar leiksýningar á al-
þjóðavettvangi. Hvernig tengist
hann Bean? Jú, Richard Curtis, sam-
starfsmaður Atkinson, er gamall vin-
ur McBurneys og honum datt í hug
að hægt væri að gera meira úr þeim
framúrstefnueiginleikum sem að
hans mati liggja undir í persónuleika
Beans. Að þeirra sögn gekk sam-
starfið vel og innlegg McBurneys
reyndist skipta sköpum, svo mjög
reyndar að sjálfur söguþráðurinn
(Bean fer í frí til Frakklands) er frá
honum kominn.
Þýsk kvikmyndagerð er í mikilliuppsveiflu þessa stundina og
nýleg óskarsverðlaun Florians von
Donnersmarcks eru dæmi um aukna
alþjóðlega athygli. Sama mætti
reyndar segja um kvikmynd Car-
oline Links, Nirgendwo in Afrika,
sem hlaut Óskarinn árið 2003, en nú
hafa borist fréttir af því að Links
hafi hafist handa við gerð næstu
myndar sinnar sem mun heita Im
Winter ein Jahr og fjalla um fjöl-
skyldu sem reynir að takast á við
sviplegt dauðsfall ungs sonar. Með
aðalhlutverkin fara þær Karoline
Herfurth og Corinna Harfouch, sem
báðar léku í annarri nýlegri þýskri
mynd, Ilminum.
KVIKMYNDIR
Rembrandt Martin Freeman
Herra Bean
Eftir Björn Norðfjörð
bn@hi.is
Kvikmyndasagan er saga átaka. Í orr-ustu sem er næstum jafngömul kvik-myndinni sjálfri takast á leikstjórarog framleiðendur. Þegar Biograph
neitaði að gera lengri myndir en tóku hálftíma
í sýningu yfirgaf D.W. Griffith stúdíóið og
framleiddi Birth of a Nation (1915) og Intoler-
ance (1916) sem hvor um sig var yfir þrír
tímar á lengd. Þegar Erich von Stroheim skil-
aði inn tíu klukkutíma langri útgáfu af Greed
hakkaði Irving G. Thalberg hana niður og
hrakti leikstjórann frá MGM-kvikmyndaverinu.
Eftir að hafa gefið Orson Welles frjálsar hend-
ur við gerð Citizen Kane (1940) sneri RKO-
kvikmyndaverið við blaðinu og tók The Mag-
nificent Ambersons (1941) úr höndunum á Wel-
les sem hrökklaðist nokkrum árum síðar frá
Hollywood. Kvikmynd Michaels Ciminos Hea-
ven’s Gate var skorin niður um rúman klukku-
tíma af United Artists, en ekki dugði það til að
bjarga mynd eða stúdíói sem sökk með mynd-
inni – ævarandi viðvörun um þær hættur sem
felast í listrænu frelsi leikstjóra! Framleið-
endum Exorcist: The Beginning (2004/2005)
þótti mynd Pauls Schraders svo blóðlaus að
þeir gerðu hana upp á nýtt undir leikstjórn
Rennys Harlins. Og kannski mætti segja að
flestar myndir – bandarískar hið minnsta – séu
niðurstöður átaka á milli framleiðenda og leik-
stjóra.
Einhverja frægustu rimmu af þessu tagi í
Hollywood háðu David O. Selznick og Alfred
Hitchcock, sem gerðu með sér samning um að
Hitchcock myndi leikstýra framleiðslu þess síð-
arnefnda á Rebecca (1940). Rétt er þó að geta
þess að Selznick var ekki hefðbundinn fram-
leiðandi því að eftir farsælan feril hjá MGM,
Paramount og RKO stofnaði hann eigin fram-
leiðslufyrirtæki, Selznick International Pict-
ures, árið 1935 í m.a. þeim tilgangi að öðlast
full yfirráð yfir myndum sínum. Hitchcock,
sem var vinsælastur enskra leikstjóra, hafði
lengi notið talsverðs frelsis við gerð mynda
sinna sem hann kunni vel að meta og hafði því
um nokkurt skeið hafnað gylliboðum frá Holly-
wood. Þarna mættust semsagt framleiðandi og
leikstjóri sem áttu það sameiginlegt að vilja
fara eigin leiðir fjarri yfirstjórn stóru kvik-
myndaveranna. Þetta átti eftir að reynast
áhugaverð blanda.
Átök Hitchcocks og Selznicks snerust ekki
síst um hvernig skyldi nálgast skáldsögu
Daphne de Maurier Rebecca, en hún hafði ver-
ið lítt hrifin af aðlögun Hitchcocks á skáldsögu
hennar Jamaica Inn (1939). Á löngum ferli var
Hitchcock óhræddur við að lýsa skoðunum sín-
um á aðlögun: Hann hefði enga trú á fylgi-
heldni við skáldsögu heldur nýtti hann sér ein-
ungis það bitastæðasta úr henni í gerð þess
sem væri sjálfstætt Hitchcock-verk. Selznick
hafði aftur á móti byrjað að sérhæfa sig í að-
lögunum og reyndi eftir fremsta megni að
kvikmynda skáldverk með sem minnstum
breytingum og mætti í því samhengi nefna
David Copperfield, Anna Karenina og A Tale
of Two Cities (allar 1935). Enda brást Selznick
hinn versti við fyrsta handriti Hitchcocks og
svaraði því með sögufrægu tíu síðna bréfi þar
sem harmaðar voru þær breytingar sem gerðar
hefðu verið á skáldsögunni. Ef Selznick hafði
vinninginn hvað varðaði handritið svaraði
Hitchcock fyrir sig í upptökum þar sem hann
myndaði hverja senu í sem fæstum tökum svo
Selznick ætti ekki annarra kosta völ en að
fylgja myndrænni sýn hans – sá síðarnefndi dó
þó ekki ráðalaus og lét mynda nokkrar nýjar
senur þegar Hitchcock var fjarri góðu gamni.
Er Rebecca Selznick- eða Hitchcock-mynd?
Hitchcock var tilnefndur til óskars fyrir bestu
leikstjórn en Selznick vann óskar fyrir bestu
mynd. Það segir auðvitað ýmislegt um stöðu
leikstjórans og framleiðandans í Hollywood að
það skuli vera sá síðarnefndi sem hlýtur óskar
fyrir bestu mynd. Og á meðan Gone with the
Wind (1939) er ljóslega Selznick-mynd (en þar
koma a.m.k. fjórir leikstjórar við sögu) hlýtur
Rebecca að teljast verk þeirra beggja. Sem
slík er hún einnig sígilt dæmi um að átök leik-
stjóra og framleiðenda geta leitt af sér góð
verk ekki síður en slæm.
Hitchcock og Selznick
SJÓNARHORN »Er Rebecca Selznick- eða
Hitchcock-mynd? Hitchcock
var tilnefndur til óskars fyrir
bestu leikstjórn en Selznick
vann óskar fyrir bestu mynd.
Eftir Sæbjörn Valdimarsson
saebjorn@heimsnet.is
Þ
rátt fyrir þá landfræðilegu stað-
reynd að vera næstu nágrannar
Bandaríkjanna hafa mexíkóskir
kvikmyndagerðarmenn lítið notið
góðs af, utan að landið er vinsæll
tökustaður, því launin eru lág. Til-
tölulega fáir þeirra sem haldið hafa norður yfir
landamærin ná settu marki í Hollywood. Meðal
undantekninga má nefna leikstjórann Alfonso
Arau (Como agua para chocolate, The Magnifi-
cent Ambersons) og leikkonuna Selmu Hayek.
Á undanförnum árum hefur mátt sjá jákvæðar
breytingar og 2006 var tímamótaár þegar þrír
mexíkóskir leikstjórar vöktu alþjóðlega athygli
fyrir frábær verk.
Þessir framsæknu listamenn eru Alejandro
Gonzalez Inarritu (63), Guillermo del Toro (64)
og Alfonso Cuaron (61) og komu m.a. við sögu
velflestra umtalsverðra kvikmyndaverðlaunaaf-
hendinga á síðustu misserum.
Babel (’06) eftir Inarritu var frumsýnd á Can-
nes í fyrra. Þar stóð leikstjórinn uppi sem sig-
urvegari og hlaut myndin að auki sérstök verð-
laun dómnefndar og fyrir klippingu. Þá má
nefna að Babel hlaut BAFTA- og Ósk-
arsverðlaunin fyrir bestu frumsömdu tónlist
(Gustavo Sntaolalla), sex BAFTA-tilnefningar
og sjö óskarsverðlaunatilnefningar, m.a. sem
besta mynd og fyrir bestu leikstjórn. Þá hlaut
hún Golden Globe sem besta mynd ársins og
Danir heiðruðu hana á sama hátt með Bodil.
Þannig mætti lengi telja.
Cuarón hlaut afbragðsdóma í öllum heims-
hornum fyrir Mannsbörn – Children of Men
(’06), góða aðsókn, verðlaun og verðlaunatilnefn-
ingar, eftir að hún opnaði kvikmyndahátíðina í
Feneyjum í fyrrahaust.
Þá er ótalinn Guillermo del Toro. Myndin
hans, Völundarhúsið – El Laberinto del Fauno,
hóf sigurgöngu á Cannes vorið 2006 og stóð að
lokum uppi með m.a. þrenn Óskars- og
BAFTA-verðlaun og framúrskaraandi dóma um
heimsbyggðina. Það er tímanna tákn að öll hafa
verkin verið sýnd hérlendis.
Auk þess að vera Mexíkóar af sömu kynslóð
eru þremenningarnir vinir og félagar, oft kall-
aðir „Tres amigos“. Þar fyrir utan fjalla mörg
verka þeirra um skylt efni; sambandsleysi
manna á milli. Að eigin sögn ríkir engin inn-
byrðis samkeppni á milli þeirra, þvert á móti
styðja þeir drengilega hver við annars bak, líkt
og aðrir sögufrægir þremenningar á áttunda
áratugnum; Steven Spielberg, Georg Lucas og
Francis Ford Coppola.
Vinátta Cuaróns og del Toros stendur á
gömlum merg, hófst hjá ríkissjónvarpi Mexíkó
fyrir tveimur áratugum. Cuarón var með í koll-
inum þættina Hora Marcada (1986–1990), sem
hann síðar skrifaði og leikstýrði, en del Toro sá
um förðunina. Auk þess lék del Toro í einum
þeirra skrímsli, sem varð síðar meir grundvöll-
urinn að skógarpúkanum í Völundarhúsinu.
Félagarnir unnu sig hægt og bítandi upp
metorðastigann í mexíkóska sjónvarps- og kvik-
myndaiðnaðinum og voru jafnan reiðubúnir að
liðsinna hver öðrum. Fóru yfir handrit og báru
saman bækur sínar í klippiherbergjunum. Del
Toro hjálpaði Cuarón við brellugerð í myndinni
Ástin á tímum móðursýkinnar – Sólo con tu pa-
reja (’91) og stóð fast við hlið hans þegar Cuar-
ón var að berjast fyrir lokaútliti Og mamma þín
líka – Y Tu mamá tambíen (’01), sem þyrlaði
upp moldviðri í heimalandinu vegna djarfra
kynlífsatriða.
Síðar meir kynntust leikstjórarnir Inarritu.
Þegar Inarritu var að klippa Amores Perros
flaug del Torro frá Texas til Mexíkóborgar og
hafðist við í fjóra sólarhringa í klippiherbergi
vinar síns á meðan þeir hjálpuðust að við að ná
ásættanlegu útliti á myndina.
Umheimurinn hefur ekki alltaf tekið fagnandi
myndum frá Mexíkó. Inarritu hefur rifjað upp
að þegar Amores Perros var lögð fram á Can-
nes-hátíðinni árið 2000 starfaði þar náungi við
val á myndum frá Rómönsku Ameríku í að-
alkeppnina, en aldrei slapp nein í gegnum hend-
ur hans. Þess í stað fór Amores Perros í keppni
gagnrýnenda, þar sem hún var valin besta
mynd ársins og vakti heimsathygli í framhald-
inu.
Leikstjórarnir tala ensku reiprennandi og
hafa komið sér vel fyrir í Hollywood en viðhalda
góðum tengslum við kvikmyndaiðnaðinn í
heimalandinu. Rómanska Ameríka er í upp-
sveiflu með félagana í broddi fylkingar, hún er
ekki að þakka pólitískum menningaraðgerðum
heldur persónulegum afrekum þriggja manna á
sama tíma. Þeir hafa gjörbreytt áliti umheims-
ins á mexíkóskri kvikmyndagerð og -mönnum,
og áhrifa þeirra gætir úr ólíklegustu áttum.
Eftir Amores Perros fékk Inarritu að ráða
fullkomlega útliti 21 Grams (’03) og Babel. Del
Toro hefur ekki verið jafnlánsamur, Dimension
var með puttana í Mimic, New Line var með
nefið ofan í Blade 2, líkt og Sony-Columbia
hvað snertir Hellboy. Hann fékk frjálsari hend-
ur við gerð Völundarhússins, sem var því að
þakka að framleiðandinn var enginn annar en
vinur hans, Cuarón.
Cuarón er búinn að koma sér best fyrir í
kvikmyndaheiminum af þremenningunum. Vel-
gengni metaðsóknarmyndarinnar Harry Potter
og fanginn í Azkaban – Harry Potter and the
Prisoner of Azkaban (’04) gaf honum grænt ljós
á gerð Mannsbarna. Sú mynd á langa sögu að
baki, Cuarón var búinn að velkjast með hand-
ritið á milli kvikmyndavera í áraraðir þegar
galdrastrákurinn Potter opnaði honum fjár-
hirslur kvikmyndaveranna.
Þremenningarnir eru uppbókaðir næstu árin.
Cuarón við gerð Mexicó 68 (’08), sem fjallar um
blóðugar stúdentaóeirðirnar sem urðu í landinu,
en snýr sér síðan að Memory of Running (’09).
Inarritu er einn af 33 leikstjórum sem segja álit
sitt á kvikmyndum í To Each His Cinema (’07).
Del Toro er að leikstýra Hellboy 2: The Golden
Army (’08); á eftir fylgir 3993 (’09), draugasaga
sem tengist borgarastyrjöldinni á Spáni.
ÁRIÐ 2006 vöktu þrír mexíkóskir leikstjórar
alþjóðlega athygli fyrir frábær verk. Þessir
framsæknu listamenn eru Alejandro Gonzalez
Inarritu, Guillermo del Toro og Alfonso Cuar-
on og komu m.a. við sögu velflestra umtals-
verðra kvikmyndaverðlaunaafhendinga á síð-
ustu misserum.
Cuaron, Del Toro og Inarritu Leikstjórarnir tala ensku reiprennandi og hafa komið sér vel fyrir í
Hollywood en viðhalda góðum tengslum við kvikmyndaiðnaðinn í heimalandinu, Mexíkó.
Þrír magnaðir Mexíkóar