Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2007, Page 11

Lesbók Morgunblaðsins - 07.07.2007, Page 11
Eftir Ólaf Guðstein Kristjánsson olafurgudsteinn@googlemail.com Æ tli fari ekki best á því að byrja kynningu á Wladimir með því að draga hann í dilk hinna svokölluðu Íslands- vina. Þá nafngift hlaut hann eftir heimsókn sína í ágúst í fyrra þar sem hann kynnti bók sína Militärmusik (2001), sem kom út síðasta sumar undir titlinum Plötusnúður rauða hersins í þýðingu Magnúsar Þórs Þorbergssonar. Að auki kom hann svo fram sem plötusnúður á Nasa, en hann er einnig þekktur plötusnúður (tónlistin sem hann flytur gengur und- ir nafninu Rússadiskó) og rekur plötuútgáfuna Russendisko ásamt konu sinni, Olgu, sem reyndar er líka rithöfundur (gaf út bókina Alle meine Kat- zen árið 2005), og fleiri Rússum í Berlín. Wladimir fæddist árið 1967 í Moskvu. Árið 1990 fluttist hann til Berlínar og hefur búið þar allar göt- ur síðan. Eftir að hafa búið í Þýskalandi í tíu ár gaf hann út sitt fyrsta skáldverk, Russendisko (2000), sem fjallar að mestu um innflytjendur í Berlín, hvunndag þeirra og samskipti við innfædda, oft með hann sjálfan í miðju frásagnarinnar. Mætti því um margt kalla verk hans skáldævisöguleg, þótt með því sé farið ansi frjálslega með hugtakið. Síðan Russendisko kom út hefur hann notið mikillar lýðhylli (er stundum kallaður bókmennta- leg poppstjarna) og rata bækur hans iðulega inn á metsölulista, enda einkar skemmtilegar sögur sem fanga á kómískan hátt lífið í höfuðborginni. Hafa svo bækur hans verið þýddar á meira en fimmtán tungumál. Raunar virðist vegur Wladimirs stöðugt liggja upp á við. Til að mynda er ekki langt síðan hann opnaði sinn eigin skemmtistað, Rodina Club, und- ir Jannowitzbrücke í Berlín, þar sem hann er reglulega með sitt Rússadiskó. Svo stefnir hann að því að verða næsti borgarstjóri borgarinnar. Þá yfirlýsingu gaf hann í viðtali við blaðið Exberl- iner, sem tekur á því sem er heitast í borginni hverju sinni, á ensku. Wladimir er svo einnig út- varpsmaður, pistlahöfundur og hefur verið með sjónvarpsþátt. Hann er því mjög áhrifamikill og er hann af mörgum titlaður „Berlínarbúinn“. Ich bin kein Berliner. Ein Reiseführer für faule Touristen virðist rökrétt framhald þessar yfirlýs- ingar hans. Til dæmis er lokakafli bókarinnar titl- aður fyrsta ræða hans sem borgarstjóraefnis. Lit- ast einnig margir kaflarnir af sýn hans á borgina, sem einfalda mætti með því að kalla hana afar fjölþjóðlega og frjálslega, en hún snýst þó um að borgarbúar endurheimti borgina frá pólitík- usunum og að borgin verði rekin líkt og fyrirtæki. Bókin er svo auðvitað einnig rökrétt framhald þeirra bóka sem á undan hafa komið. Hann notast hér, sem endranær, við stuttar sögur úr hinum berlínska hvunndegi. Tengjast þessar sögur fyrri verkum hans og margar persónur og staðir úr fyrri verkum birtast aftur hér. Til að mynda er verslunarmiðstöðin Allee Arkaden við götuna Schönhauser Allee alltaf jafnvinsælt umfjöllunar- efni (Wladimir skrifaði reyndar bók sem heitir Schönhauser Allee (2001) og inniheldur hún sögur frá þessari þekktu austur-berlínsku götu). Bækur Wladimirs hafa allar áþekkt bindiefni, vill hann sjálfur meina. Hann segir til að mynda í áðurnefndu viðtali, að hann leitist ætíð við að rann- saka mannlífið í kringum sig og skrifin séu tilraun til að skilja betur af hverju hlutirnir eru líkt og þeir eru; eins konar vettvangsrannsóknarverkefni. Það er svo bara mismunandi hvernig viðkomandi bók er auglýst eða sett fram – hvort hún er kokka- bók (en hann gaf út bókina Küche totalitär. Das Kochbuch des Sozialismus (Eldhús alræðisins. Uppskriftabók sósíalismans) ásamt konu sinni árið 2006) eða, líkt og í þessu tilviki, ferðavísir. Umrædd bók er nefnilega, líkt og titillinn gefur til kynna, leiðbeiningabók fyrir túrista. En hún er þó meira en það. Í bókinni er, líkt og í fyrri verk- um Wladimirs, að finna stuttar sögur úr hinum berlínska hvunndegi þar sem koma fyrir áhuga- verðar persónur, atburðir og staðir. Munurinn er þó sá að hér tengjast þær tengjast allar ábend- ingum Wladimirs um áhugavert skoðunarefni fyr- ir ferðamenn. Eru þessar ábendingar svo langt frá því að vera bara um það sem finna má í öllum öðrum ferðabæklingum. Þarna er meira að segja ýmislegt að finna sem margur Berlínarbúinn hefur líkast til ekki vitn- eskju um. Nálgunarleið Wladimirs, sem er leið út- lendingsins og Berlínarbúans, er líka öðruvísi og varpar nýju ljósi á þekkt staðartákn borgarinnar. Þannig tekur hann fyrir mörg berlínsk fyrirbrigði líkt og mállýskuna, fjölda kráa, herra- og frúart- ískuna í borginni, börn og svo framvegis, auk þess að taka fyrir sögu borgarinnar á einkar fyndinn hátt. Aftast í bókinni er svo að finna viðbót sem inniheldur „konkret“ upplýsingar um þá staði sem minnst er á í sögunum og birtast í formi ábend- inga í lok hvers kafla. Það verður seint sagt að bækur Wladimirs séu bókmenntaleg þrekvirki, enda ekki alltaf sama- semmerki milli magns og gæða. Þó verður ekki annað sagt en að bækur hans séu í það heila áhugaverðar og eigi það til að opna augu fólks fyr- ir því sem er of nálægt til þess að það taki eftir því. Til dæmis tekur hann fyrir orðið „Na“ sem Berlínarbúar eru gjarnir á að nota er þeir hitta hver annan á götu úti. Þá þýðir þetta litla orð, samkvæmt Wladimir, svo mikið sem: „Góðan dag- inn, gamli gaur, langt síðan við höfum sést! Hvernig hafa konan þín, barnið og hundurinn það? Hvernig líður ömmu þinni?“ Það er þetta sem Wladimir er bestur í, þegar hann tekur eftir hinu smáa í hversdagsleikanum og dregur það fram í dagsljósið. Að auki eru bæk- ur hans vel til þess fallnar að sýna fram á fárán- leika kynþáttahyggju og fordóma almennt séð. Þessi tiltekna bók er svo að auki praktískur og skemmtilega öðruvísi ferðavísir. Berlínskur hvunndagur Ekki alls fyrir löngu kom út tíunda bók Wladim- irs Kaminer, Ich bin kein Berliner. Ein Reisefü- hrer für faule Touristen (Ég er ekki Berlínarbúi. Ferðavísir fyrir lata túrista), hjá Goldman- forlaginu í München. Morgunblaðið/ Jim Smart Íslandsvinirnir Wladimir Kaminer ásamt Olgu konu sinni í Reykjavík síðasta haust. Um Ich bin kein Berliner. Ein Reiseführer für faule Touristen, eftir Wladimir Kaminer http://russendisko.de MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 7. JÚLÍ 2007 11 Eftir Bergþóru Jónsdóttur begga@mbl.is Þess var minnst í vikunni aðfimmtíu ár eru liðin frá útgáfu bókar Jacks Kerouacs, On the road – Á vegum úti. Vinir, vandamenn og aðdáendur skáldsins efndu til maraþonlestrar á sögunni í Na- ropa-háskólanum í bænum Boulder í Colorado. Um 150 manns sátu og hlustuðu þá tólf tíma sem lesturinn tók, en í kjölfarið hófst mikil Kerouac- hátíð við skólann. Á vegum úti er ein vinsælasta bók sem skrifuð hefur verið af banda- rísku skáldi, og í henni segir af ferðum Kerouacs og vinar hans, Dans Moriarty, um þjóðvegi heima- lands síns. Sagan hafði mikil áhrif á uppgang „beat“-kynslóðarinnar í Bandaríkjunum. Bókin kom út í ís- lenskri þýðingu Ólafs Gunn- arssonar hjá Máli og menningu árið 1988 og var lesin sem sumarsaga í útvarpinu nokkrum árum síðar.    Bjartur flytur þau gleðitíðindi ávef sínum að nígerska skáld- konan Chimamanda Ngozi Adichie hafi hlotið tilnefningu til hinna virðulegu James Tait Black Me- morial-bókmenntaverðlauna fyrir bók sína Half of a Yellow Sun. Fyrr í mán- uðinum hlaut Adichie hin víð- frægu Orange-bókmenntaverðlaun fyrir bókina og einróma lof og prís dómnefndarfólks. Bjartur hefur tryggt sér þýðingarréttinn á þess- ari verðlaunabók. Aðrir höfundar sem tilnefndir voru til James Tait Black Memorial-verðlaunanna þetta árið eru Alice Munro, Cormac McCarthy, Sarah Waters, James Lasdun og Ray Robinson. Verð- launin voru fyrst veitt árið 1919 og í röðum fyrri vinningshafa eru skáld- in D.H. Lawrence, E.M. Forster, Evelyn Waugh og Iris Murdoch. Verðlaunin verða afhent 25. ágúst við hátíðlega athöfn á bók- menntahátíðinni í Edinborg í Skot- landi.    Ljósmyndabókin Íslendingar –Milli jökla og hrauns var til- nefnd til hinna árlegu útgef- endaverðlauna Zelta abele (Gullna eplatréð) í flokki listabóka og við- urkennd sem besta listabókin árið 2006 á hinni ár- legu bóka- messu í Lettlandi. Höf- undar bók- arinnar eru lettneski ljósmynd- arinn Kaspars Goba og blaðamaðurinn Ieva Pukite. Útgáf- an var samstarfsverkefni bóka- forlagsins Valters un Rapa og Lett- landsskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Verkefnið naut líka stuðnings Nordic Part- ners Ltd., sem gerði kleift að gefa 400 eintök af bókinni í framhalds- skóla Lettlands um síðustu jól. Báðir hafa höfundarnir ferðast vítt og breitt um Ísland, farið allan hringveginn, yfir hálendið og skoð- að landið úr lofti, heimsótt sjáv- arþorp og einangraða sveitabæi, auk höfuðborgarinnar. Ljósmyndarinn Kaspars Goba segir þetta um verkefnið: „Fyrsta ferð mín til Íslands var árið 1998, þegar ég fékk viðurkenn- ingu Norrænu blaðamanna- miðstöðvarinnar sem besti ungi blaðaljósmyndarinn, sem gerði mér kleift að uppgötva fegurð og að- dráttarafl þessarar einstöku eyju.“ BÆKUR Jack Kerouac Chimamanda Ngozi Adichie Eftir Arnór Gísla Ólafsson arnorg@mbl.is Mér hefur alltaf þótt eitthvað undarlegaheillandi við undirtitil Buddenbrookseftir Thomas Mann, „Verfall einerFamilie“, eða hnignun/hrun fjölskyldu og þennan titil mætti líklega heimfæra á mig sem lesenda: Arnór Gísli Ólafsson – Verfall eines Les- ers. Enda vakna stundum hjá mér nokkrar áhyggjur af andlegu heilsufari mínu þegar ég sé hvaða af- brigðilegheit eiga orðið til að rata á náttborðið hjá mér. Á dögunum mátti til að mynda finna þar sjálfs- ævi- og þó framar öllu stritsögu bónda og sjómanns á Breiðafjarðareyjum á síðari hluta 19. aldar. Þótt sú vos- og harmsaga hafi verið lesin af bæði áfergju og ánægju stendur þó ekki til að endursegja efni hennar hér. Ég vildi auðvitað geta staðhæft að þetta væri eina sagan þessarar tegundar sem ég hefði les- ið en því miður er það ekki hægt. En þótt hún sé kannski ekki alveg dæmigerð fyr- ir bókasmekk minn staðfestir hún þó ákveðna þróun eða, eins og fyrr segir, hnignun sem orðið hefur á lestrarvenjum mínum. Kannski endar þetta í ein- hvers konar þroti og aldrei að vita nema ég taki upp á því eins og Samuel Beckett gerði í elli sinni að horfa á krikket í sjónvarpinu daginn langan. En sem sagt: fram að eða fram yfir þrítugt las ég nær eingöngu skáldsögur og taumlaust og botn- laust svo stappaði vafalaust nærri fíkn. Með ár- unum hefur skáldsögunum þó fækkað mjög mikið en sagnfræði- og heimspekiritum og ævisögum fjölgað ásamt með því sem kalla mætti sundur- lausan fróðleik og stundum meira að segja þjóð- legan. Og þegar ég á annað borð les skáldsögur verða oftar en ekki fyrir valinu sögur sem ég hef lesið áð- ur eða sögur eftir höfunda sem ég þekki vel. Dælt es heima hvat, segir í Hávamálum og það sannast á mér. Eiginlega er svo komið að það er orðin undan- tekning að ég lesi nýjar skáldsögur. Best kann ég orðið við skáldsögur sem lítið eða helst ekki neitt gerist í og hreint ekki verra að sögu- sviðið sé útnárar, afdalir eða fámenn eyjasamfélög. Umkomuleysi og einstæðingsskapur, helst í bland við fátækt, á auðvitað alltaf upp á pallborðið hjá mér. Þol mitt gagnvart dramatík og stórviðburðum hefur aldrei verið mikið og er nú satt að segja nær ekkert orðið nema þá kannski innan ramma Íslend- ingasagna. Ég hefði líklega enn þyngri áhyggjur af minnk- andi lestri fagurbókmennta á kostnað annarra bóka ef ekki vildi svo til að ég hefði lagt mig eftir sund- urlausum og oftast gagnlausum fróðleik. Á meðal slíks fróðleiks er úttekt Ólafs Jónssonar sem birt var í Studia Islandica um lestrarvenjur Ís- lendinga. Svo heppilega vill nefnilega til að Ólafur sýnir þar fram á að ég nálgast það að vera nokkuð normal. Það kom nefnilega á daginn í könnun hans, ef ég fer rétt með, að lestur skáldsagna er áberandi mestur meðal yngri lesenda og eitthvað fram á fer- tugsaldurinn en fer eftir það mjög minnkandi. Þetta er athyglisvert en ekki man ég hvort Ólafur hafi beinlínis reynt að skýra af hverju þetta stafar og eins man ég ekki hvort hann tók bara mið af fag- urbókmenntum í könnun sinni. Það skiptir þó ekki máli í mínu tilviki því ég hef aldrei haft áhuga á krimmum eða ástarsögum. Nú er tilgangi þessa pistil svo að segja náð en hann var auðvitað alltaf sá að réttlæta sjálfan mig og þróunina í bókalestri mínum. Frekari réttlætingu má síðan alltaf finna með því að benda á einhvern sem er afbrigðilegri en maður sjálfur: Undir lokin: Í Ofvitanum lýsir Þórbergur því hversu illa var komið fyrir honum áður en Er- lendur í Unuhúsi tók hann svo að segja upp á sína arma. Þetta var í lok rigningarsumarsins mikla þegar Þórbergur réð sig í málningarvinnu; hann var þá löngu orðinn peningalaus og sníkti peninga fyrir mjólkurglasi og snúði, sem var það eina sem hann át dögum saman. Næringargildi þessara máltíða var ekki alveg í takt við ráðleggingar Lýðheilsustöðvar og því ekki nema von að það drægi smám saman af Þórbergi. Hann lýsir því hvernig hann lá hálf- magnvana uppi í rúmi í herbergiskytru sinni og sökkti sér í bækur. En eftir því sem vannæringin og máttleysið jókst breyttist lesturinn og undir lokin var svo komið að Þórbergur treysti sér ekki til þess að lesa annað en málfræði Finns Jónssonar og Old- nordisk Læsebog eftir Ludvig Wimmer. Af hnignun lesanda » Best kann ég orðið við skáldsögur sem lítið eða helst ekki neitt gerist í og hreint ekki verra að sögusviðið sé útnárar, afdalir eða fámenn eyjasamfélög. Umkomuleysi og einstæðingsskapur, helst í bland við fátækt, á auðvitað alltaf upp á pallborðið hjá mér. Erindi

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.