Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.2007, Blaðsíða 11

Lesbók Morgunblaðsins - 03.11.2007, Blaðsíða 11
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. NÓVEMBER 2007 11 Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is Ígegnum árin hefur Ágúst BorgþórSverrisson vakið töluverða at- hygli fyrir smásögur sínar en hann hefur gefið út fimm smásagnasöfn. Nú hefur fyrsta skáldsaga hans litið dagsins ljós og ber hún heitið Hliðarspor en það er Skrudda sem gefur út. Bókin lýsir meðal annars nokkrum sum- arvikum í lífi tveggja miðaldra vina í Reykjavík og óvæntum svipt- ingum í ástarlífi þeirra. Sagan veltir upp siðferðisspurningum sem tengj- ast vændi og framhjáhaldi auk þess að lýsa stuttu ástarsambandi sem að mestu leyti fer fram með tölvupósti.    Krabbagangur heitir nýútkominskáldsaga eftir nóbelsskáldið Günter Grass en það er bókaforlagið Veröld sem gefur hana út. Höfund- urinn vakti mikla heimsathygli fyrir bók sína Blikk- tromman en hún kom fyrst út fyrir um fjörutíu árum. Krabbagangur fjallar um mesta skipskaða allra tíma þegar sov- éskur kafbátur sökkti Wilhelm Gustloff í Eystra- salti að morgni 31. janúar 1945. Um borð voru yfir 10.000 Þjóðverjar; hermenn, sjó- menn, áhöfn og flóttamenn, en talið er að á meðal farþega í þessari ör- lagaríku ferð hafi verið um fjögur þúsund börn. Tæplega átta þúsund manns fórust með skipinu. Þýðandi er Bjarni Jónsson og Ásta S. Guðbjartsdóttir hannaði kápu.    Út er komin hjá Máli og menninguljóðabókin Höggstaður eftir Gerði Kristnýju. Höggstaður er þriðja ljóðabók Gerðar Kristn- ýjar en áður hefur hún sent frá sér Ísfrétt (1994) og Launkofa (2000). Gerður hefur hlotið margvísleg verðlaun og við- urkenningar fyrir skrif sín, meðal annars fyrstu verðlaun í ljóða- samkeppni Litrófs í Sjónvarpinu árið 1992, Bókaverðlaun barnanna árið 2003 fyrir Mörtu Smörtu og Bók- menntaverðlaun Halldórs Laxness 2004 fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt.    Í öðru landi – Saga úr lífinu heitirnýútkomin bók eftir Eddu Andr- ésdóttur fjölmiðlakonu og rithöfund. Bókin er byggð á eigin reynslu höf- undar og er frásögn dóttur sem horfir upp á Alzheimers-sjúkdóminn leggj- ast yfir föður hennar en hann lést inn- an við ári eftir að veikindanna varð fyrst vart. Edda Andrésdóttir hefur áður sent frá sér tvær viðtalsbækur, annars vegar Á Gljúfrasteini, bók um Auði Laxness, og Auður Eir: Sólin kemur alltaf upp á ný. JPV útgáfa gefur bók- ina út.    Ný bók eftir Eoin Colfer, höfundmetsölubókanna um Artemis Fowl, er komin út hjá JPV útgáfu og ber hún titilinn Óskalistinn. Bókin segir frá Meg, sem er í yf- irnáttúrulegum vandræðum. Hún hefur lent á glapstigum og þegar hún tekur þátt í að ræna gamlan mann deyr hún fyrir slysni. En þar sem Meg er alls ekki alslæm fær hún tækifæri til að bæta sig og reyna að komast inn í himnaríki í stað þess að fara beint til helvítis. Þýðandi er Guðni Kolbeinsson. BÆKUR Ágúst Borgþór Sverrisson Gerður Kristný Günter Grass Eftir Þormóð Dagsson thorri@mbl.is Einhver mesta þjóðhetja landsins eróumdeilanlega Jón Sigurðsson forseti.Hann stóð upp í hárinu á dönskustjórninni þegar hún lagði frumvarp fyrir þjóðfundinn árið 1851 þar sem þjóðréttindi Íslendinga voru höfð að engu. Hljómaði þá hin fræga setning: „Vér mótmælum allir.“ Í kjölfar fundarins gekk Jón forseti endanlega í forystu- hlutverk fyrir hönd Íslendinga í sjálfstæðisbarátt- unni og gegndi hann því hlutverki allt til dauða- dags. Það fer ekki á milli mála að Jón forseti hafi ver- ið merkilegur maður sem breytti gangi sögu þjóð- arinnar. Hann er frelsishetja og andlit sjálfstæð- isbaráttunnar. Þetta andlit prýðir jafnframt fimmhundruðkrónaseðilinn og við höldum upp á sjálfstæðisafmælið á afmælisdegi hans. Stytta hans gnæfir yfir mannlífinu á Austurvelli og vakt- ar Alþingishúsið. En hver var maðurinn á bak við þetta góðlega andlit sem er svona vandlega greypt inn í þjóðarsálina? Á sama tíma og Jón er allt í kringum okkur þá eru staðreyndir um líf hans og persónu ekki endi- lega eitthvað sem þorri þjóðarinnar hefur á reiðum höndum. Vestfirska forlagið hefur hugs- anlega ráðið bót á því með útgáfu kversins Jón Sigurðsson forseti – Lítil sögubók sem Hallgrímur Sveinsson tók saman.Eins og undirtit- ill kversins gefur skýrt til kynna er kverið smátt og segir í alls ekki mörgum orðum frá lífi og starfi þjóðhetjunnar Jóns Sigurðssonar forseta. Kverið er eingöngu 40 blaðsíður að lengd, með heim- ildaskrá, og eins og gefur að skilja er þar stiklað á stóru. Það mætti jafnvel segja að kverið sé – og það með fullri virðingu fyrir því – nokkurs konar „for dummies“-bók, þ.e.a.s. „Jón Sigurðsson for dummies“. Upplýsingarnar eru mjög aðgengileg- ar, textinn skorinorður og strípaður öllu fag- urfræðilegu skrauti og hvers kyns málalengingum og gefst lesanda þar af leiðandi greið leið að grundvallarupplýsingunum um Jón. Í formála kversins er lesandinn ávarpaður beint þar sem honum er sagt að kverið sem hann hafi í höndum sé „ekki annað og meira en það sýnist vera: Örfá orð um Jón forseta handa alþýðu manna. Stutt og vonandi laggóð lesning fyrir unga jafnt sem aldna.“ Þar segir jafnframt að „Íslend- ingar ættu að kunna skil á nokkrum grundvall- aratriðum úr ævi Jóns Sigurðssonar. Ekki þó hans vegna, sem löngu er fallinn frá, heldur okkar sjálfra vegna, sem lifum á undarlegum tímum.“ Á fyrstu blaðsíðunum er sagt frá uppvexti Jóns á Vestfjörðum og foreldrum hans, sagt er frá skólagöngu hans í Reykjavík og háskólanáminu í Kaupmannahöfn. Einnig er fjallað um samband hans við eiginkonu sína, hana Ingibjörgu Ein- arsdóttur, sem jafnframt var frænka hans og gerð eru nokkuð ítarleg skil hlutdeild Jóns í sjálfstæð- isbaráttunni allt frá þjóðfundinum 1851 þar til hann lést úr veikindum árið 1879. Víða í bókinni er að finna ramma sem merktir eru „til áherslu“ og geyma „mikilvægari“ staðreyndir um manninn sem vert er að leggja á minnið. Eins og fram kemur í formálanum er ljóst að tilgangurinn með útgáfu kversins er fyrst og fremst sá að upplýsa alþýðu manna um ævi og starf Jóns og um leið allt það sem hann stendur fyrir. Kverið minnir að mörgu leyti á eldri kver sem geyma einmitt afar hnitmiðaðan fróðleik sem eiga að hafa mannbætandi áhrif á lesandann. Þar er einnig lesandinn gjarnan ávarpaður beint eins höfundur gerir í formála umrædds kvers. Það ætti alla vega að vera ljóst að þegar lesand- inn hefur lokið lestri á Litlu sögubókinni um Jón Sigurðsson forseta ætti sá hinn sami að vera ein- hverju nær um manninn sem stóð svo hetjulega vörð um heiður og þjóðréttindi Íslendinga. Hann ætti jafnframt að vita af hverju þjóðhátíðardag- urinn er haldinn 17. júní og hugsanlega hefur hann lært áletrunina á legsteini Jóns forseta utan að. Það væri ánægjulegt ef útgáfa upplýsingakvera myndi færast í vöxt og jafnvel að úr yrði ritröð þar sem fróðleikur um hinar og þessar íslenskar þjóð- hetjur væri framreiddur á aðgengilegan máta. Það væri heldur ekkert vitlaust ef gefin væru út slík kver um núlifandi Íslendinga. Hver hefur hvort eð er tíma til að lesa ævisögur? Hver var þessi Jón? » Á sama tíma og Jón er allt í kringum okkur þá eru stað- reyndir um líf hans og persónu ekki endilega eitthvað sem þorri þjóðarinnar hefur á reiðum hönd- um. Vestfirska forlagið hefur hugsanlega ráðið bót á því með útgáfu kversins Jón Sigurðsson forseti – Lítil sögubók. ERINDI Eftir Helga Snæ Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Þ órarinn Eldjárn þarf ekki dyra- bjöllu. Tíkin Trýna lætur heimilisfólk vita af því þegar gest ber að garði og það hátt og greinilega. Trýna er hin vinalegasta, líkt og eigandinn Þórarinn. Hann býður blaðamanni til vinnu- stofu þar sem finna má gott úrval hæg- indastóla. Það er notalegt heima hjá skáldinu. Veðrið er þannig að ekki er hundi út sigandi. Trýna veit það vel og nýtir sér gestinn sem klóru. Barnaljóðabókin Gælur, fælur og þvælur geymir 16 ljóð sem öll eru ort undir rímna- háttum. Systir Þórarins, Sigrún, mynd- skreytir bókina en þau systkin hafa margoft unnið saman við barnabókagerð eins og frægt er orðið. Bókinni fylgir geisladiskur og á hon- um kveður Bára Grímsdóttir stemmur sem hún hefur fundið, útsett og samið við ljóðin. Þórarinn segir ágætan vin sinn hafa bent sér á að það þyrfti að kenna börnum að kveða. „Þá var ég að vinna að þessari bók og hugs- aði allt í einu að þetta væri auðvitað alveg hárrétt. Stemmurnar, eða kvæðalögin, eru þannig að þau hljóta að henta börnum vel. Þannig að ég ákvað að hafa öll þessi kvæði í bókinni undir rímnaháttum. Þá yrði auðveld- ur leikur og lægi beint við að finna stemmur. Það eru til stemmur við alla bragarhætti, mismargar auðvitað og langflestar við fer- skeyttan hátt, hann er langalgengastur,“ seg- ir Þórarinn. Honum hafi strax dottið Bára í hug, hún sé nánast alin upp í rímnahefð og auk þess tónskáld og lærð söngkona. Í bókinni eru ljóð sem þú kallar gælur, fælur og þvælur. Þú hefur dálítið gaman af þvælu og bulli, er það ekki? „Það er bara þannig að börn hafa mjög gaman af leik með málið. Það sést á því hvað þau hafa gaman af skrítnum orðum og rími, þeim finnst bara rím út af fyrir sig skemmtilegt. Og jú, jú, að auki þá er mikið af þessum barnaljóðum mínum í því sem við skulum kalla þvæluhefð, á ensku „nonsense,“ segir Þórarinn. Sú hefð sé rík hjá barnaljóðskáldum Norðurlanda, til dæmis. Blíðu ljóðin séu gælur og fælur þá dálítið hryllileg ljóð. Börn hafi gaman af smáhryllingi líka. Gullaldarmál óþarft Hvað finnst þér um íslenskar barnabækur í dag, eru þær á góðri íslensku? „Já, það sem ég þekki til. Þetta er afskaplega mikilvægt, ég er ekki endilega að segja að allir barnabókahöfundar þurfi að skrifa á einhverju stórkostlegu gullaldarmáli, heldur hitt að þeir skrifi á lifandi máli. Ef lifandi mál er hins vegar orðið að gríðarlega óvönduðu talmáli, þar sem allt flýtur með, slettur og afbakanir og heilar setningar á ensku birtar hrátt, þá er engin spurning lengur um að það sé lifandi mál. Þá er farið að rugla algjörlega saman ritmáli og talmáli.“ Að „fullorðinsljóðabókinni“, Fjöllin verða að duga, í hvað vísar sá titill? Þetta er ein ljóðlína úr bókinni … „Að velja nöfn á bækur er eiginlega listgrein út af fyrir sig. Gríðarlega afdrifaríkt og erfitt að finna út úr því. Þó að ein ljóðlína endi sem nafn á bókinni þýðir það ekki að þetta sé hyrningarsteinn bók- arinnar eða sú lína sem mér þykir best eða merki- legust. Fjöll ber nokkuð oft á góma í bókinni í ýmsu samhengi og einhvern veginn í framhaldi af því varð þetta niðurstaðan.“ Þórarinn segir vissulega mikið ort um landslag í bókinni, talsvert af ljóðum tengist ferða- lögum og þá gerist það af sjálfu sér að ort sé um þau. „Ég dvelst oft langdvölum í Svarfaðardalnum og þar er nóg af fjöll- um. Þau hafa kannski þessi áhrif á mann. Fjöll eru til margs nýtileg, þau eru svo yf- irgnæfandi. Þess vegna er þessi titill kannski hugsaður einhvern veginn þann- ig að ef fjöllin duga þér ekki, hvað viltu þá?“ Leitar ekki bloggvina Ertu hættur að blogga? Hvernig finnst þér hið svokallaða bloggsamfélag? „Þetta hefur legið niðri síðan í vor. Ég er samt ekki hættur, alltaf í þann veginn að fara að byrja. Ég hef aldrei komist upp á lag með þetta sem samfélag. Það kannski stafar af eðli minnar vinnu, að ég vinn einn. Ég eignast fullt af bloggvinum, það gerist nú bara þannig að menn sækja um það og ég neita ekki nokkrum manni. En ég hef aldrei beðið neinn um að fá að verða bloggvinur hans. Ég veit ekkert hvað það þýðir,“ segir Þórarinn kíminn. „Ég veit voða lítið um þetta, til dæmis veit ég ekki hvort það er algengt að menn sæki um að verða bloggvinir en sé hafnað. Ég held það hljóti að vera alveg hræði- legt,“ segir Þórarinn og hlær. Hvernig finnst þér staða íslenskrar tungu, nú ertu varaformaður Íslenskrar málnefndar og þekktur fyrir góð og frum- leg tök þín á tungumálinu? „Mér er afskaplega annt um tunguna, notkun hennar og örlög. Það veltur á ýmsu þar, margt gerist. Það vill svo til að einmitt núna stendur yfir dálítið mikil holskefla þar sem ýmsir hlutir eru að fara á flot. Menn nefna t.d. blygðunarlaust hluti sem engum hefði dottið í hug áður fyrr, eins og þetta að það komi til greina að lýsa eitthvert annað tungu- mál en íslensku annað opinbert mál á Íslandi. Þetta hefði engum dottið í hug að nefna hér einu sinni, enda er þetta alveg út í hött. Eins er auðvitað mjög margt í sambandi við íslenska tungu sem maður vill standa vörð um enda lít ég fyrst og fremst á mig sem áróðursmeistara fyrir íslenska tungu. Rithöf- undur gerir það fyrst og fremst með því að skrifa á íslensku og sýna að það er hægt að gera allt á ís- lensku. Þannig að ég hef ekki áhyggjur af íslenskri tungu en mér er mjög annt um hana og ég er í bar- áttuhug.“ Þórarinn segist hugsa mikið um tungumálið og leika sér með það. „Tungumálið er mér mikil upp- spretta ánægju og yndisauka. Svo á þetta ein- hverjar rætur í því að maður vill fá að vera með, leggja sjálfur í þennan pott.“ Fjöll eru til margs nýtileg Gælur, fælur og þvælur og Fjöllin verða að duga heita tvær nýjar ljóðabækur rithöf- undarins Þórarins Eldjárns. Sú fyrrnefnda kom út fyrir viku en hin kemur út um þess- ar mundir. Þórarinn Eldjárn „Þess vegna er þessi titill kannski hugsaður ein- hvern veginn þannig að ef fjöllin duga þér ekki, hvað viltu þá?“ Morgunblaðið/Kristinn

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.