Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2008, Side 10

Lesbók Morgunblaðsins - 14.06.2008, Side 10
Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is M ódernisminn lifir enn góðu lífi í ís- lenskum skáldskap. Bent hefur verið á hvernig hann birtist í ljóð- um yngri skálda. Gerður Kristný er gott dæmi. Einnig Sigurbjörg Þrastardóttir. Þær hafa fyrst og fremst vísað til módernísks myndmáls og orðfæris í ljóðum sínum. En módernistarnir eru líka að yrkja og hafa sent frá sér nokkrar af mögnuðustu ljóðabókum síðustu ára. Fyrir kvölddyrum (2006) eftir Hannes Pétursson er dæmigerður íslenskur módernismi þar sem hefðin – fornsögurnar og Jónas jafnt sem þýsk rómantík og evrópskur módernismi – rennur saman við óstöðugan samtímann. Bókin er kraft- mikil. Tónn hennar er hvass, stundum kaldur og dökkur. „Birtan er ekki beinlínis annarleg, þó/egghvöss“ segir í fyrstu tveimur línum bókarinnar. Skáldinu þykir þessi stingandi birta einkennileg „því aprílskin er að baki“. Það er komið vor. Hinn grimmi mánuður liðinn. Og það er ein- mitt þessi hvassa birta vorsins sem tekst eða kallast á við dekkri hliðar tilverunnar í bókinni. Fortíðin og fram- andleikinn eiga þar stærstan þátt. Skáldið horfir aftur og spurningarnar hrannast upp: „… hvers vegna loða/þessir löngu skuggar við húð okkar?“ er spurt í lokaljóðinu og skáldið veltir fyrir sér fylgispekt við hugmyndir og hug- sjónir sem voru og eru enn „hlekkjaðar/við herbúnað dag og nótt“, eins og segir í öðru ljóði. Skáldinu hrýs hugur við blindunni sem bæði það var slegið og glóruleysi tímanna: „Hvílíkur eiturkuldi, bruni og bik.“ Vonin og trúin eru samt til staðar í skerandi birtunni. Hún felst meðal annars í tveimur elskendum, í börnunum, í náttúrunni, fjöllunum, tæru vatninu, berjalynginu og vorinu sjálfu. Það stafar líka hlýju frá ljósum borgarinnar, þrátt fyrir allt. Hannes fer á kostum í þessari bók. Hún er heilsteypt, hnituð, beitt og falleg. Hún er eins konar uppgjör við kald- rana tuttugustu aldarinnar; skáldið horfir aftur í spurn en hvessir líka augun á samtíma sinn. Hannes setur einnig spurningamerki við skáldskapinn, ekki síst þann sem hann orti sjálfur. Til hvers var hann? Hann hefur efasemdir um gildið. Hann efast um að hann hafi verið nægilega gagnrýn- inn á sjálfan sig og umhverfið. Og nú hljómar ljóðrænan sum hjárænulega: Nú er þar komið! okkur væmir við vissum ljóðorðum: blíðhúm ... Norðankæla, feyktu þess háttar fúasilki burt eins langt og þig lystir. Í leit að fegurð Það er ekki mikil norðankæla í nýjustu ljóðabók Þorsteins frá Hamri, Dyr að draumi (2005), en þó næg til þess að feykja burt vemmilegum ljóðorðum. Þorsteinn yrkir skor- inort og af sinni hlédrægu mælsku. Hann fjallar líka um fortíðina og fortíðin er í ljóðum hans, eins og Hannesar. En tónninn er annar. Ekki jafn þungur og hvass. Fremst í bók- inni vitnar Þorsteinn í orð Jóns Óskars: „þegar ég gekk um einstigi jarðarinnar/í leit að fegurð.“ Sú leit liggur undir niðri í bókinni. Fegurðin býr í djúpinu, í myrkrinu, inni í okkur sjálfum, í ódælum hvötum, í nánd og firð, í samhug, í eyðunni inni í okkur og auðninni sem skáldið skilur eftir í orðunum, í reimleikunum sem skrifin skapa, það er alltaf eitthvað á ferð, „eitthvað að auki“. Fegurðin er eitthvað að auki, óorðuð, kannski skynjuð, ekki skilin. Blik á heiði Ljóðabók Matthíasar Johannessen, Kvöldganga með fugl- um (2005) hefst á epískum ljóðabálki sem kallast á við skáldskap Þorsteins. Þetta er goðsagnakenndur bálkur með vísanir í fornan kveðskap, innlendan sem erlendan, en umfjöllunarefnið er samtíminn, stefnulaus, aðgangsharður, taktlaus, grimmur og harður. Matthías talar um forsniðna veröld en Þorsteinn um réttar línur sem við ættum að snið- ganga, umfram allt. Hjá Matthíasi felast verðmætin í nátt- úrunni og vængjum fuglanna, í atviksleysinu því að atviks- laus minning er atvik. Og sem endranær getur sagan ein komið okkur til bjargar, tengslin við hefðina, lærdómurinn af fortíðinni. Og líkt og í bók Hannesar er vorið hættulegur tími. Í síðasta ljóði bókarinnar segir: það vorar senn en greipsár vindur skaflhvítt blik á heiði. Matthías er rómantískastur þessara þriggja skálda. En hann er líka uppreisnargjarnastur þeirra. Þótt hann sé um- fram allt módernískt skáld þá má sjá áhrif frá póstmódern- íska ljóðinu í skáldskap hans, ekki síst formlega fjölhyggj- una. Matthías hefur ort bundið og óbundið, í knöppu formi og orðmörgu, ljóðrænt og epískt. Síðast en ekki síst hefur hann nýtt sér nýja miðla meir en flest ef ekki öll skáld af hans kynslóð. Síðustu þrjár ljóðabækur hans komu til dæm- is út á heimasíðu hans (matthias.is) á síðasta ári. Í þessum efnum slær Matthías jafnvel nýhilingum við. Þó að þræðir liggi á milli Hannesar, Þorsteins og Matt- híasar eru ljóð þeirra afar ólík. Ljóðið er enda nú sem fyrr umfram allt einstaklingsbundin tjáning. Módernisminn í samtímanum Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson Matthías Verðmætin felast í náttúrunni og vængjum fuglanna. Í þessari níundu og næstsíðustu grein í greinaflokki um bókmenntir á óljósum tímum er fjallað um þrjú módernísk skáld, Hannes Pétursson, Þorstein frá Hamri og Matthías Johannessen. Margir þræðir liggja á milli þeirra en ljóðið er umfram allt einstaklingsbundin tjáning, nú sem fyrr. Í síðustu greininni verða dregnar ályktanir af þessari yfir- ferð um íslenskar samtímabókmenntir. Að auki verður markaðsleg umgjörð bókaútgáfu könnuð. Morgunblaðið/Einar Falur Hannes Tónninn er hvass, stundum kaldur og dökkur. Morgunblaðið/Brynjar Gauti Þorsteinn Yrkir skorinort og af sinni hlédrægu mælsku. 10 LAUGARDAGUR 14. JÚNÍ 2008 MORGUNBLAÐIÐ lesbók | bókmenntir á óljósum tímum Kristín Ómarsdóttir Já. Óskar Árni Óskarsson Ljóðið býr í djúpinu, en leigir stundum kvistherbergi í Norðurmýr- inni, þaðan sem stutt er í Sundhöllina og á Mónakó. Kristín Svava Tómasdóttir Með fullri virðingu fyrir Rilke held ég að hver sem hefur lesið nógu mikið af ljóðum eftir skáld sem horfa ekkert nema inn í sig fái hroll við þessa ráðleggingu. Ísak Harðarson Tvímælalaust. Það er hvergi neins staðar annars staðar að leita. En vel má vera að ljóðið komi til unga skáldsins „utan frá“ eins og átti við um fiskistrákinn á bakka Genesaretvatns fyrir 2000 árum: Allt í einu kom til hans himinbjartur maður og sagði: „Fylgdu mér!“ Matthías Johannessen Já, þar er uppsprettan og vatnið fer eftir tærleika hennar. Steinar Bragi Leitin felur alltaf í sér tvenns konar hreyfingu: inn í sig í leit að heiminum, eða út til heimsins í leit að sjálfum sér. Hvorug hreyf- ingin er réttari eða rangari en hin, en að finna hvor hentar manni betur er mikilvægt. Og okkar tímar eru líklega útleitnir frekar en annað, enda erum við uppalin í efninu, umvafin efnislegri hug- myndafræði, og hentar líklega best að byrja leitina þar. Steinunn Sigurðardóttir Það má leita að ljóði hvar sem er, til dæmis eins og að hverjum öðr- um fiski, undir steini. Um leið kemur það innan frá, af dýpri miðum en önnur skáldskaparefni. Jóhann Hjálmarsson Já. Rilke hafði rétt fyrir sér. Með því að fara eftir því sem Rilke boðaði finna skáldin það sem máli skiptir. En ég man eftir því sem ungt skáld að það fór í taugarnar á mér að eldri skáld þættust ein geta gefið þau ráð sem dugðu. Ég var samt ekki óvanur því, hafði m.a. leitað til Einars Braga og Jóns úr Vör og oft hlustað á Stefán Hörð sem vildi ekki vera afskiptasamur en var eins konar véfrétt. Sigurbjörg Þrastardóttir Þetta ráð hefur væntanlega verið kallað kommon sens af vinum Rilke, og er enn. Um svipaða aðferð fjalla ótal dæmisögur, til dæm- is um hamingjuna; menn leita hennar á heimsenda en finna hana í hjarta sínu. Hins vegar þarf ljóðið ekkert endilega alltaf að fjalla um ungskáldið sjálft, þótt það finni start-takkann inni í sér. Það er ljóð í öllu mögulegu, meðal annars fólki. Sindri Freysson Skiptir öllu hvort horft er út að innan, eða inn að innan? Ég held ekki. Allt leitar jafnvægis. Maður sem dreymir í vöku hlýtur að enda með skáldum, eða á hæli fyrir geðsjúka. Stundum enda skáld- in á hælum, en hvað það segir um jafnvægið er talsvert annar handleggur. Það má í framhjáhlaupi minna á að í sömu bréfum benti Rilke unga manninum á að „ekkert kemur listaverki jafn lítið við og gagnrýni“. Sölvi Björn Sigurðsson Nú, þá, áður, alltaf. Þetta á við um allan skáldskap. Er ljóðið inni í þér? Árið 1903 ráðlagði Rainer Maria Rilke unga ljóðskáldinu í Bréfum til ungs ljóðskálds að leita inni í sjálfu sér að ljóðinu. Á það sama við nú, öld seinna?

x

Lesbók Morgunblaðsins

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.