Lesbók Morgunblaðsins - 18.10.2008, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 18.10.2008, Blaðsíða 4
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 18. OKTÓBER 2008 4 LesbókVIÐTAL Þ orsteinn frá Hamri segist engar bersöglisvísur yrkja, svo dugi, en ég vil halda því fram að þessi bók ætti að vera skyldulesning þeirra sem hafa ráðið málum hér á landi undanfarið, ekki síst í ljósi síðustu atburða. Hann yrkir um orðin og hvers þau eru megnug, hann yrkir um gömul gildi sem hann óttast að sé að verða of seint að hlúa að, hann yrkir um vantrú á stórar hug- myndir og endanleg svör, hann treystir ekki hinni nýju vitneskju sem menn væðast og brynja sig með, hann ákallar hreyfinguna sem býr í vatninu og náttúrunni og talar um brenni- fórnir „til velþóknunar/rétt einu hátignar hundspottinu“ – hann segist ekki eiga ótvíræða samleið með tímanum en segist ekki vanda um fyrir honum, svo dugi. En skyldi hann ekki samt vera því sammála að menn þurfi nú að huga að raunverulegum verðmætum? Til að mynda þeim sem við geymum í sögnum og sögu. „Þú átt svo sannarlega kollgátuna,“ segir Þorsteinn. „Og það snýst ekki um neinskonar fortíðardýrkun heldur einfaldlega það að þekkja sjálf okkur, vita einhvern snefil um hvaðan við erum komin og hver við erum og leggja rækt við þau verðmæti sem við höfum öðlast á þeim ferli ásamt andlegum þrifnaði.“ Tíminn eða aldarhátturinn Hvenær voru ljóðin í bókinni ort? „Flest ljóðin voru ort á bilinu frá 2005 og fram á síðastliðið vor. Tvö eða þrjú eru eldri, að minnsta kosti að stofni til.“ Eftir fyrsta lestur fannst mér þessi bók vera viðbragð við tíðarandanum. Hvernig sérðu hana sjálfur? „Viðbragð við tíðarandanum, það held ég sé alveg greinilegt, en reyndar í bland við margt annað. Ég hef löngum velt fyrir mér tímanum sem fyrirbæri, og svo er einnig hér. Kannski er ekki með öllu ljóst hvort ég er fremur að með- höndla tímann sem slíkan eða tíðarandann, ald- arháttinn. Það má kannski ekki alltaf á milli sjá. Þú nefndir áðan síðustu atburði. Svo mikið er víst að öll bókin er samin áður en sú holskefla reið yfir en ég stóð auðvitað álengdar við að- dragandann, þetta útrásaroflæti, þessa fíkn sem misbýður öllum mannvænlegum gildum, sönnum verðmætum. Það sem nú hefur gerst hlaut að gerast. Græðgin var orðin eins og hver önnur ígerð. Það er aldrei að vita nema þetta ástand, ásamt ísköldu markaðsmatinu sem lagt hefur verið á allt, lifandi og dautt, hafi orkað á það sem ég var að setja saman. Ég veit ekki til að ég sé gæddur neinni sérstakri framvísi, en stundum hefur því verið haldið fram að skáld- skapur sé ekki síst næmur á það sem liggur í loftinu.“ Þú slærð tóninn í tveimur vísum fremst í bók- inni. Sú fyrri byrjar á orðunum: „Hroll ber enn úr allri/ætt.“ Og þú segir að við verðum að þreyja „ok á herðum,/ok á fornum herðum.“ Þetta er kuldaleg byrjun. „Þessar vísur eru allmiklu eldri en önnur ljóð í bókinni. Ég var eitthvað að snuðra í fornum bragarháttum og datt í hug að leika mér að þessu tilbrigði. Til samræmis við sjálfan brag- arháttinn tek ég fornlega og dálítið kaldr- analega til orða, en man reyndar ekki til að neitt sérstakt hafi legið að baki því, annað en sjálf forneskjan í forminu. En auðvitað hefur und- irvitundin líka verið að störfum. Ég birti þetta í tímaritinu Són 2006. Svo þegar þessi bók var að verða til kom mér til hugar að halda vísunum til haga með því að setja þær þarna fremst; eink- um fannst mér það dálítið viðeigandi eftir að lauslegar vísanir í sitt af hverju um Sighvat skáld voru komnar til sögu í ljóðunum. Og fleira kom til, kannski tíðarandinn! Kannski kom hann til móts við þennan hroll, já og náttúrlega nornina Skuld.“ Í seinni vísunni setur þú fram skáldskap- arfræði: „Stíg þú, sögn, um palla!“ sem merkir að yrkja ofljóst, að orð merki í raun annað en það sem látið er í veðri vaka. Er þetta vísbend- ing um það hvernig á að lesa bókina? „Nei, engan veginn, þarna eru einfaldlega eins og þú segir, forn skáldskaparfræði, þau ráða ríkjum í þessum erindum, þarna er líka skáldskaparkenningin Fjalars fleyta. Og nornin Skuld.“ Má segja að þú hafir orðið torræðari með ár- unum? „Sannast sagna er mér það ekki ljóst sjálfum, geri ráð fyrir að það hafi verið með ýmsu móti og misjafnt á þessu fimmtíu ára bili sem ég hef verið að senda frá mér bækur. Sjálfur hef ég auðvitað á hverjum tíma ort eins og hugurinn bauð þá stundina, án nokkurra heilabrota um torræðni. Það kemur fyrir að fólk veltir þessari spurningu fyrir sér í mín eyru, og sýnist þá sitt hverjum. Einum er torrætt það sem öðrum er fyllilega ljóst.“ Kennd, hughrif eða hugrenning Hvernig koma ljóðin til þín? „Ég get reynt að svara þessu: oft í fyrstu þannig að kennd, hughrif eða hugrenning falla í orð og leitast við að mynda ljóðlínu eða brag- línu, það getur gerst hvar sem er; innan skamms örlar svo á fleiri slíkum í huganum. Svo fer þetta allt saman að kallast á, mynda drög að einhverskonar heild efnis og forms.“ Ertu lengi að vinna í hverju ljóði? „Það er ákaflega misjafnt. Raunar verða sum ljóð til á skammri stundu án þess að ég eigi mik- ið við þau eftir það. En yfirleitt er það svo, eftir að nokkurskonar heildstæð frumgerð er orðin til, að ég gríp í hana oft eftir það, breyti meira og minna. Ég get til dæmis sagt þér að flest ljóðin í þessari bók voru undir slíku eftirliti hjá mér fram á síðustu stund.“ Tálgarðu textann mikið? Stundum finnst mér eins og það séu bara útlínur eftir fyrir lesand- ann að ráða í. „Tálga ég mikið? Eins og mér finnst þurfa, með allan smíðisgripinn í huga! Reyndar er það svo með mig að kvæðin hafa alla tíð hneigst til samþjöppunar, eða að minnsta kosti útrým- ingar á öllu óþarfa málæði.“ Hvað finnst þér hafa breyst í þínum eigin skáldskap með árunum? „Margt hefur breyst og meira en flestir hyggja. Fólk hefur ekki endilega veitt því mikla athygli sakir þess hve margar bækurnar eru og tiltölulega skammt á milli þeirra. Þar af leiðandi sjást engar verulegar stökkbreytingar. Sem kornungur maður var ég náttúrlega á tilrauna- stiginu, ýmsu ægði saman og maður hljóp út undan sér til ýmisa átta, en lengi framan af orti ég talsvert á félagslegum nótum ef ég má orða það svo, var gagnrýninn og líklega þónokkuð pólitískur. Síðar á árum hef ég kannski orðið heimspekilegri og líklega að hluta til persónu- Á ekki ótvíræða sam tímanum Gleymskan er einn hættulegasti fylgifiskur þess- ara tíma, segir Þorsteinn frá Hamri en um þessar mundir kemur út átjánda ljóðabók hans, Hvert orð er atvik. Bókin er samin áður en gjörninga- veðrið reið yfir íslenskan fjármálaheim en skáldið stóð álengdar við aðdragandann, „þetta útrás- aroflæti, þessa fíkn sem misbýður öllum mann- vænlegum gildum, sönnum verðmætum“. Lífið er hreinasta undur, við erum þakklát hverri þeirri farsæld sem við fáum að njóta, góðu atlæti, vinum og vanda- mönnum, en það kemur væntanlega ekki í veg fyrir að öll rangindin, misréttið, hégóma- dýrðin, auðhyggju- sukkið og blóðfórnirnar renni okkur til rifja. Eftir Þröst Helgason throstur@mbl.is

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.