Lesbók Morgunblaðsins - 08.11.2008, Blaðsíða 10
Aumkið okkur
sem aldrei höfum aumkað ykkur né nokkurn annan.
Aumkið þá sem greina skilsmun
góðs og ills og hins óþekkta.
Aumkið þá sem unna náunga sínum
í stað þess að urða þá í fjöldagröf.
Aumkið þá sem finna sér málsvörn
fyrir því að helga líf sitt hatrinu.
Aumkið okkur
sem höfum svo lengi verið tígrisdýr
áður en við verðum að maðkaveitu.
Aumkið okkur
sem erum svo lémagna gagnvart sólinni, fjallinu,
fljótinu, dögginni og himninum
að við fundum upp Guð,
verndara og einvald.
Aumkið okkur
sem undirbúum hreinsunareld
þeirra hluta sem við tignum
án þess að dirfast að viðurkenna það:
grískan marmara, plötu með Mozart,
runna sem hljóðar í garðinum,
síðu sem kynni að vera frá Pushkin.
Aumkið okkur því að við
vitum ei hvert við höldum
og teljum að við séum sek
um að vera gædd skynsemi og glata henni,
vera gædd einhvers konar hugsæi
sem við fundum aldrei not fyrir.
Aumkið okkur
því sérhvert okkar er með of margar höfuðkúpur,
á hverjum morgni fjórar eða fimm,
með kvöldinu að minnsta kosti tíu;
of mikið af hnjám, of mikið af upphandleggsvöðvum,
of mikið af nöglum, of margar klær
og í djúpum brjóstsins of lítið af hjarta.
Aumkið okkur sem krabbinn kvelur:
tvíklofna samvisku okkar –
þá sem gerir okkur fært að segja
að þessi sandur þarna sé sandur
hér sé aldinbori,
hérna sé flet þar sem við getum flatmagað –
og þá sem umlykur okkur:
það er okkar vegna að himinninn er svo lágt yfir okkur,
það er okkar vegna (án vafa)
að allar bækurnar eru rotnar,
að allir veggirnir hrynja í svaðið.
Aumkið okkur sem sagt höfum af okkur tigninni:
óðjurtin ríkir nú á jörðunni,
með salti sem á slær rauðu bliki,
vindurinn með tíu þúsund kjöftum,
fólkið áfast blóðsugunum.
Aumkið þann
sem myndi ekki lengur vilja vera til
og þann sem það er ekki
þann sem kann ekki að skilgreina sig.
Aumkið tungumál okkar
sem neitar því sem það tjáir og verður að tjá það sem
verður ekki tjáð.
Aumkið orð okkar,
þessar flíkur sem eru of stuttar til að hylja holdið,
þessar flíkur sem eru of síðar til að hylja andann.
Aumkið atlot okkar
sem sýnd eru skuggum okkar einum
þarna úti, utan við Baobatrén.
Aumkið andvörp okkar
sem opna í okkur svo marga und.
Aumkið kláða okkar:
ó hve meinskæð tilvera okkar er!
Aumkið ást okkar sem er ekki nema hatur.
Aumkið hatur okkar
sem lærði aldrei hvernig það ætti að hata.
Alain Bosquet
Í þýðingu Thors Vilhjálmssonar
Miserere nobis
Þessa ljóðaþýðingu flutti Thor Vilhjálmsson á vegum European Academy of Poetry við afhjúpun minnisvarða
um franska skáldið Alain Bosquet (1919-1998) í Búlgaríu í sumar, ásamt fleiri skáldaþýðendum á þessu ljóði.
Alain Bosquet
Hann var af rúss-
neskum ættum.
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. NÓVEMBER 2008
10 LesbókBÆKUR
Þ
að er sannarlega fátt sem getur komið á
óvart lengur, ekki síst þegar ljóð eru ann-
ars vegar.
Eiríkur Örn Norðdahl hefur á undanförnum ár-
um þróað ljóðmál sitt út í ýmiss konar form-
tilraunir. Í fyrra kom út ljóðabókin Þjónn, það er
fönix í öskubakkanum mínum! Hún er sam-
sett úr ljóðatilraunum af ótrúlegri
fjölbreytni, allt frá jóðlljóði og
öðrum hljóðljóðum til sextíu
síðna prósaljóðabálks með
spennuívafi. Einnig er að finna í
bókinni ljóð með ýmsum rit-
vinnsluútfærslum, umbrotstil-
færslum, myndljóð, myndagátu-
ljóð, konkretljóð, googleljóð að
ógleymdum fjölmörgum vísunum í
kveðskap Steins Steinars, umskrif-
unum á honum og stælingum.
Nú sendir Eiríkur frá sér ljóðabókina
Ú á fasismann – og fleiri ljóð sem er beint fram-
hald af myndljóðunum og ritvinnsluútfærslunum
í Fönixinum. Vafalaust þykir mörgum erfitt að líta
á þessar tilraunir sem ljóð enda ansi djúpt á
flestum hefðbundnum eigindum þeirrar listar í
bókinni. En þeir sem hafa dágóðan
skerf af þolinmæði og fagurfræðileg-
um tilslökunum ættu að kíkja á
þessa bók.
Umfjöllunarefni bókarinnar er
fasisminn, eins og nafnið bendir
til, en ekki aðeins pólitískur fas-
ismi heldur og menningarlegur.
Helsti styrkur bókarinnar er til-
raun til pólitískrar ögrunar en
veikleiki er að formið og fram-
setningin flækjast nokkuð fyr-
ir róttækum skilaboðunum.
Með myndljóðunum fylgja
hljóðaljóð á diski.
Ú á fasismann | Eiríkur Örn Norðdahl
Myndljóðagerð
U
ndanfarin ár hafa komið út margar bækur
sem fjalla um vanda matvælaframleiðslu
í heiminum. Um eina þeirra, The End of
Food eftir Paul Roberts, var fjallað í Lesbók fyr-
ir tveimur vikum. Í þeirri bók var bent á að eitt
helsta vandamálið sem steðjaði að væri
ofát þeirra sem á annað borð fá
að borða í heiminum.
Þeir sem vilja kynna sér ofátið
frekar ættu að lesa bókina Fat: A
Cultural History of Obesity (Fita:
Menningarsaga offitunnar) eftir
Sander L. Gilman (2008). Þar er
saga fitunnar rakin allt aftur á
miðja nítjándu öld. Sérstaklega er
fjallað um offitu barna, mat-
vælaframleiðslu, fjölmiðlaumfjöllun
um mat og matarneyslu og vaxandi
ofát í Kína, en í fyrrnefndri bók Roberts
var sífellt aukinn áhugi Kínverja á vest-
rænum matarvenjum talinn geta sett mat-
vælaiðnað heimsins á hliðina. Í þessari bók má
raunar finna ýmislegt sem styður niðurstöður
Roberts og útvíkkar þær.
Bókin er menningarsaga sem þýðir
að höfundurinn skoðar menningar-
legar birtingarmyndir offitunnar í
gegnum tíðina og merkingu þeirra í
samfélagslegu samhengi. Höfundur
skoðar því ekkert síður táknmyndir
ofáts í óperum nítjándu aldar en í
dellukenndri megrunaráráttu
vestrænna kvenna og karla á síð-
ustu áratugum.
Ef marka má Gilman, Roberts
og fleiri höfunda bóka um mat-
armenningu Vesturlanda
verður hún meðal helstu við-
fangsefna stjórnmálamanna á
næstu árum.
Menningarsaga fitunnar
E
f ekki væri fyrir getnaðinn og fæðinguna
væri ekkert líf og ef ekki væri fyrir ást-
ina þætti fáum lífið skemmtilegt nema
kannski golfurum.“
Þetta er auðvitað hverju orði sannara eins og
svo margt í bók Jóns Björnssonar sálfræðings
og grúskara sem nýlega kom út hjá Bjarti og
heitir því undurfurðulega nafni Föðurlaus sonur
níu mæðra en undirfyrirsögnin skýrir hvað hér
er á ferðinni: Og fleiri furður hversdagslegra
fyrirbæra.
Í bókinni fjallar Jón um hlutina sem nefndir
eru í tilfærðri málsgrein hér að ofan, ástina,
getnaðinn og fæðinguna og lífið auðvitað, en
reyndar ekki golfið – og það er sennilega það
eina sem hægt er að setja út á bókina.
Mannlegt og ómannlegt
Þeir sem eru svo ljónheppnir að
geta hlustað á Ríkisútvarpið eftir há-
degi á föstudögum hafa vafalaust
heyrt í Jóni tala um furður hvunn-
dagsins. Þeir pistlar hafa margir ratað
inn í þessa bók, en þeir sem heyrt hafa
vita að af þeim má fræðast um ólíkleg-
ustu hliðar mannlegs lífs – og ómannlegs.
Jón leitar fanga í bókum og sögum,
jafnt sem sögusögnum og goðsögnum og
meira að segja í fréttum fjölmiðla um svo-
kallaðan veruleika. Þaðan koma kannski
skrýtnustu sögurnar þegar öllu er á botninn
hvolft, svo sem af pilti í Kanada sem hafði fengið
sér hnetusmjör áður en hann kyssti kærustuna
sína en ekki áttað sig á því að hún hafði bráðaof-
næmi fyrir hnetusmjöri og dó eftir kossinn.
Einnig er úr fjölmiðlum furðuleg saga af svört-
um svani sem verður ástfanginn af hjólabát.
Drýgsta sagnauppspretta bókarinnar er þó
sennilega goðsagnaarfur heimsins og skáld-
skapur frá ýmsum tímum.
Fundvísi
Eins og Jón gerir skilmerkilega grein fyrir í
inngangi um sannfræði og aðferðafræði
endursegir hann, þýðir og styttir frá-
sagnir annarra manna. Eins og hann
gerir sömuleiðis skilmerkilega
grein fyrir er þessi aðferð ekki
auðveld, en hér skal tekið af
skarið með að Jóni tekst vel upp. Frásagnir
hans eru skorinortar, lifandi, léttar og oftast
bráðfyndnar.
Þó að frumtextarnir séu í flestum tilfellum
ágætlega þekktir þá tekst Jóni að sauma við þá
þannig að þeir birtast lesanda með nýjum hætti.
Í raun má segja að bókin sé mikið vefnaðarverk
þar sem sögum og sögu er fléttað saman en
rauði þráðurinn er alltaf ísmeygileg kímni höf-
undar.
Fundvísi Jóns er með ólíkindum og sömuleið-
is smekkvísi hans við að tengja fjarskylda og
stundum alveg óskylda hluti.
Íhaldssöm afstaða miðaldakirkjunnar til kyn-
lífs, sem hún sagði að 99% leyti þjóna fjand-
anum, fær þannig óvænta stoð í orðum mexí-
kóska málarans Diegos Rivera þegar hann
reyndi að útskýra taumlaust framhjáhald sitt
fyrir konunni sinni Fridu Kahlo: „Kynlíf er lík-
ast þvagláti og stórkostlega ofmetið.“
Frásögn af því hvað Seifur var fjölþreifinn til
kvenna verður Jóni líka tilefni til að rifja upp
sögu af manni nefndum Barna-Daníel en sá
„fékk viðurnefni sitt af því að eitt sinn barnaði
hann fimm konur í einni og sömu ferðinni norð-
an úr Árneshreppi og inn að Brú í Hrútafirði“.
Telur Jón þessa ferð Barna-Daníels „ólíkt ris-
meiri en þegar Þórbergur Þórðarson löngu
seinna rolaðist þessa sömu leið og hafði það
uppburðarleysi til kvenna sem frægast hefur
orðið í íslensku bókmenntasögunni“.
Undrun og fáfræði
Það er rétt sem Jón segir í inngangi bókarinnar
um „hinstu markmið“ hennar og „dýpsta til-
gang“ að það er búið að útskýra eiginlega allt í
heiminum, flest er orðið skiljanlegt og tækifær-
um til að verða hissa fækkar sífellt, „undrun er
núorðið fyrst og fremst merki um fáfræði og lé-
legar einkunnir á samræmdum prófum“.
Tilgangur bókarinnar er því, eftir því sem
Jón segir, „að varðveita það litla sem enn er eft-
ir af undrun og furðum“. Bókin er sannarlega
gott framlag til þess málstaðar. Og bókin sýnir
raunar fram á að undrum og furðum í þessum
heimi eru fá takmörk sett. throstur@mbl.is
Föðurlaus sonur níu mæðra | Jón Björnsson
Undrun og furður
BÆKUR VIKUNNAR
ÞRÖSTUR HELGASON
Fundvís
Fundvísi Jóns Björnssonar er með
ólíkindum og sömuleiðis smekk-
vísi hans við að tengja fjarskylda
og stundum alveg óskylda hluti.
Fat | Sander L. Gilman