Fálkinn - 25.10.1961, Blaðsíða 23
Drengurinn var einn og vinalaus. Hann vissi ekki, hvað
gera skyldi, en ákvað að reyna að hafa uppi á frænda sínum.
En þegar til kom,. átti hann ekki fyrir fari með skipi til
Boston, en hann gat komizt til New London, svo hann tók
sér fari þangað og ákvað að láta kylfu ráða kasti. Nú hafði
hann ráfað um götur bæjarins í þrjá daga og þrjár nætur,
fengið bita hér; og fengið að sofa þar, fyrir miskunnsemi
góðra manna. En hann hafði loks gefizt upp, hugrekki og
von að engu orðið. Ef hann gæti komizt í herinn, yrði hann
afar þakklátur; ef hann gæti ekki orðið hermaður, gæti
hann þá ekki orðið bumbuslagari? Ó, hann skyldi gera allt
til að þóknast þeim, og hann yrði svo þakklátur!
Jæja, þetta er saga Wicklows litla, eins og hann sagði mér
hana. Ég sagði: '
„Drengur minn, þú ert nú meðal vina ■— hafðu ekki áhyggj-
ur framar.“ Hve augu hans ljómuðu! Ég kallaði á Rayburn
undirforingja og sagði: „Rayburn, setjið þennan pilt niður
hjá tónlistarmönnunum, ég ætla að taka hann sem bumbu-
slagara og ég vil, að þér lítið eftir honum og sjáið um, að
vel fari um hann.“
Auðvitað var samskiptum yfirmanns virkisins og bumbu-
slagara þar með lokið, en ég hafði innilega samúð með þess-
um litla, umkomulausa dreng. Ég hafði auga með honum og
bjóst við að sjá hann brátt kátan og glaðan, en nei, dagarnir
liðu hver af öðrum, en engin breyting sást. Hann gaf sig
ekki að neinum,virtist alltaf annars hugar, hugsandi og dap-
ur. Morgun einn bað Rayburn leyfis að tala við mig einslega.
Hann sagði:
„Ég vona að ég móðgi yður ekki, herra majór, en sannleik-
urinn er sá, að hljóðfæraleikararnir eru svo langt leiddir, að
einhver verður að tala.“
„Nú, hvað er að?“
„Það er þessi drengur. Hljóðfæraleikararnir eru búnir að
fá hann svoleiðis á heilann, að þér getið ekki ímyndað yður
annað eins.“
„Jæja, haldið áfram, haldið áfram. Hvað hefur hann fyrir
stafni?“
„Biðst fyrir.“
„Biðst fyrir!“
„Já, hljóðfæraleikararnir hafa ekki stundlegan frið fyrir
bænagerð þessa drengs. Eldsnemma á morgnana er hann að,
um hádegi er hann að, og á kvöldin — já, á kvöldin keyrir
öldungis um þverbak, eins og hann sé bandóður! Svefn?
Biðjið fyrir yður, þeir geta ekki sofnað: hann hefur lagt
undir sig leiksviðið, eins og sagt er, og þegar hann hefur
sett bænakvörnina í gang, er hún með öllu óstöðvandi. Hann
byrjar á hljómsveitarstjóranum og biður fyrir honum, næst
tekur hann herlúðurblásarann og biður fyrir honum, næst
kemur bassablásarinn, hann er afgreiddur, og svo hver af
öðrum, alla hljómsveitina út í gegn; og hann gerir þetta svo
rækilega og af svo miklum áhuga, að það er rétt eins og
hann ætli bráðum að yfirgefa þennan heim og geti ekki orðið
sæll í himnariki nema hafa með sér herhljómsveit og vilji
velja hana sjálfur. Jæja, þó hent sé í hann stígvélum, hef-
ur það engin áhrif, það er dimmt þarna inni, auk þess liggur
hann á því lúalagi að krjúpa niður á bak við stóru trumb-
una, svo það gagnar ekkert, þó þeir láti stígvélunum rigna
yfir hann, hann skeytir því engu — færist heldur í aukana,
rétt eins og þetta væri lófaklapp. Þeir kalla upp: „Æ, haltu
þér saman! Láttu okkur fá frið! Skjótið hann. Æ, farðu
til fjandans!" og margt fleira. En hvað stoðar það? Ekki
vitundar ögn. Hann tekur ekkert tillit til þess.“ Eftir litla
þögn hélt hann áfram: „Bezti náungi í aðra röndina, fer
snemma á fætur á morgnana, tekur alla stígvélahrúguna,
raðar þeim saman og setur á sinn stað. Og það er búið að
kasta þeim svo oft að honum, að hann þekkir núorðið hvert
stígvél í hljómsveitinni — getur þekkt þau með lokuð augu.“
Eftir aðra þögn:
„En það hræðilegasta er, að þegar hann hefur lokið að
biðja — þegar hann loksins hefur lokið því — hefst hann
upp og byrjar að syngja. Nú, þér vitið, hve hunangsæt
rödd hans er, þegar hann talar; þér vitið, að hún gæti feng-
ið kolgrimmasta hund til að sleikja á honum höndina. En
ef þér viljið trúa mér, herra majór, þá er það ekkert saman-
borið við sönginn! O, hann syngur svo sætt og þýtt og
lágt þarna í myrkrinu, að áhrifin eru eins og að vera kom-
inn til himnaríkis.11
„Hvað er svo ,,hræðilegt“ við það?“
„Æ, það er nú einmitt það. Þér ættuð að heyra hann
syngja: „Þú einn veizt, hvað þjáðu hjavta —“. Þér ættuð
bara að heyra hann syngja það einu sinni og vita, hvort
þér bráðnið ekki eins og smjör og tárin fylla ekki augun!
Mér er sama, hvað hann syngur, það gengur beint til hjarta,
í hvert einasta sinn, alveg innst inn. Þér ættuð að heyra
hann syngja: Ó, mig þjáir eymd og mæða; ó, mig hrellir
böl og synd. Ótal sár mér aumum blæða, önd mín stynur
veik og blind, og svo framvegis. Það vekur tilfinningu um
að vera sjálfur sá versti og vanþakklátasti óþokki, sem
skríður á guðsgrænni jörð. Og þegar hann syngur þessa
söngva sína um heimkynni sitt, móður sína og barnæsku,
gamlar minningar og allt sem er horfið, og gamla vini, dána
og gleymda, þá rifjast upp allt, sem maður hefur einhvern
tímann unnað og misst á ævinni ■—- og það er svo yndislegt,
svo guðdómlegt að hlusta á ■— en, drottinn minn góður, hvað
það nístir hjartað. Hljómsveitin — nú, þeír gráta allir —
hver einasti þorpari skælir og reynir ekki að leyna því, og
áður en maður veit af, eru þessir sömu labbakútar, sem áður
köstuðu stígvélum að drengnum, þotnir fram úr bælunum og
farnir að faðma hann að sér í myrkrinu! Já, það gera þeir
— og baða hann í tárum og kalla hann engilinn sinn og biðja
hann fyrirgefningar. Og komi heill herflokkur og ætlaði að
skerða eitt hár á höfði þessa drenghvolps, myndu þeir rjúka
í þann herflokk, og þó það væri heilt herfylki!"
Aftur þögn.
„Er þetta allt?“ sagði ég.
„Já, herra majór.“
„Nú, hver er þá kvörtunin? Hvað vilja þeir láta gera?“
„Gera? Nú, það er augljóst mál, þeir vilja, að þér látið
hann hætta að syngja.“
„En sú fjarstæða! Þér sögðuð sjálfur, að söngur hans væri
guðdómlegur.“
„Það er einmitt það, Hann er of guðdómlegur. Dauðlegir
menn þola hann ekki. Hann hrærir mann svo djúpt, að til-
finningar fara allar í tætlur, og þeim, sem hlustar, finnst
hann sjálfur svo vondur, að enginn staður hæfi honum nema
staður útskúfaðra. Þetta veldur þvílíkri iðrun, að ekkert
bragðast vel og engin huggun er lengur til í lífinu. Og svo
allur gráturinn, þér skiljið -—■ á hverjum morgni skammast
þeir sín fyrir að líta hver framan í annan.“
„Jæja, þetta er undarlegt tilfelli, og einstæð kvörtun. Svo
þeir vilja láta sönginn hætta?“
„Já, það er meiningin. Þeir vilja ekki fara fram á of mikið,
þeir myndu gjarnan þiggja, að dregið væri örlítið úr bæna-
gerðinni, en aðalatriðið er söngurinn. Ef söngurinn hætti,
halda þeir, að þeir gætu afborið bænirnar, þó hart sé að una
við þær.“
(Framh.)
Hér hefst ný framhaldssaga eftir
hinn kunna höfund Mark Twain.
Sagan viröist í fyrstu fjalla um
dsköp saklausan ungan pilt frá
truuðu heimili, en það kemur í
Ijós, að hann er ekki eins saklaus
og hann virðist — og þó...
I; i
FÁLKINN 23