Fálkinn


Fálkinn - 09.08.1965, Blaðsíða 16

Fálkinn - 09.08.1965, Blaðsíða 16
ekki seinna vænna að semja og flytja honum afmælis- ljóð. Var það gert án mikillar undirbúningsvinnu. Fijóta hér með glefsur úr þeim bálki: Fyllist öll hans fyrirheit, finni ’ann mergð af skvísum, fái ætíð faðmlög heit hjá fjalla og heiða dísum. Gæfan sínum vefji væng um veg hans langa ævi. Fái hann bleikju og feitan hæng, þá flest er bezt við hæfi. Hylli sextugan hefilstjóra heiðar og fjöll með kátum brag. Hann eti og drekki á við fjóra og yngist við sérhvern starfadag. Var dágóður rómur gerður að kveðskapnum og sofn- uðu menn um kvöldið, sáttir að kalla við guð og menn, kannski að þeim undanteknum, sem um of hlustuðu eftir annarlegum hljóðum heiðarinnar. Á þriðja degi ferðarinnar var komið á Hveravelli og dvalið þar næstu fimm nætur. Hveravellir liggja við norðurrönd Kjalhrauns í litlu dalverpi. Þar virðist geysileg orka bundin í iðrum jarðar, en kemur að litlum notum. Uppleyst kísilefni hafa myndað stóra ávala bungu. í henni er fjöldi hvera, sem margir eru nafnlausir. Syðstur er Eyvindar- hver. Þar á Fjalla-Eyvindur að hafa soðið matbjörg sína, er þau Halla dvöldust á staðnum. Rétt hjá er Eyvindarkofi, hraunsprunga, þar sem hlaðið hefur ver- ið fyrir báða enda, síðan hefur trúlega verið saman hlaðið þak úr hellum og hrís og mold ofan á. Aumleg vistarvera, en þó trúlega fagnaðarrík útlögunum, sem sóttu að þessum hlýja stað úr ördeyðu auðnarinnar, sem var til allra átta, þegar skammdegi og hríðar lögðust á eitt, til að tortíma því, er lífsanda dró. Rétt hjó Eyvindarhver er Öskurhólshver. Bláhver og Fagrihver eru mjög sérkennilegir. Myndarlegt sæluhús er á Hveravöllum, sem Ferða- félag íslands á. Er þar oft gestkvæmt um hásumarið, því umferð um Kjalveg fer vaxandi með hverju ári sem líður. Eitt kvöldið kom Karlakórinn Fóstbræður, eða hluti af honum, ásamt betri helmingnum. Fararstjóri var Hallgrímur Jónasson, kennari. Ekki vorum við neitt sérlega glaðir yfir þessari heimsókn, því orðið var áliðið og við flestir skriðnir í svefnpokana. En úr þessu rættist von bráðar, því við hlýddum þarna á hina ágætustu kvöldvöku, söng hjá kórfélögum og draugasögur hjá Hallgrími. En næsti dagur var sunnudagur. Þá skyldi líka vinna, hvað við og gerðum fram á eftirmiðdaginn. Þá þoldum við ekki mátið lengur, fannst ekki hægt að eyða öllum tímanum í erfiði og svefn og skruppum á jeppanum suður yfir Kjöl til Kerlingarfjalla. Því mið- ur var veðrið ekki nógu gott og fjallasýn óskýr. En við rýndum út yfir víðáttuna og ræddum fegurð og friðsæld glampandi sumardaga á dýrlegum heiðaslóð- um. í hugann komu einnig ógnir og skelfing hamstola hríða, þegar náttmyrkrið þrýstir að örlúnum einmana ferðalang. í því tilefni varð þessi vísa til: Þó auðnin virðist helg og hrein og heiðalöndin fögur, suður á Kili blásin bein birta voðasögur. Og í hugann kom harmsaga Reynistaðarbræðra, sem úti urðu við Beinhól, skammt norðan Kjalfells 1780, ásamt förunautum sín.um með 180 fjár og 16 hesta. Og það er ekki eina áminningin, um það bera fjölmörg örnefni vitni: Mannabeinavatn, Dauðsmannsgil og Draugaflá. Þar sem hæst ber og vötn fara að falla til suðurs heitir Geirsalda, kennd við Geir Zoega, vegamálastjóra, sem var forseti Ferðafélags íslands í 22 ár. Þar hefur félagið reist bautastein í minningu hans. Einnig er þar hringsjá. Af Geirsöldu mun útsýni mikið og fag- urt, en þess gátum við ekki notið. Kalt var í veðri þegar við komum í Árskarð í Kerl- ingafjöllum. Þar er sæluhús, sem Ferðafélagið á. Einn- ig er þar nýreist skiðahótel, hin veglegasta bygging. Og þarna var margt um manninn. Nýkominn var um 40 manna hópur, sem ætlaði að stunda þarna útivist og skíðagöngur, félagar Fóstbræðra voru þar komnir, auk annarra ferðalanga, m. a. vegagerðarmanna að sunnan, sem skyldu laga veginn norður á Hveravelli. Ekki dvöldum við þarna lengi, þó ókum við eins hátt upp og komizt varð, upp undir skíðabrekkurnar. Þó dimmt væri yfir og kalt, sannfærðumst við um feg- urð og stórhrikaleik landslagsins, sáum t. d. í nokkrum fjarska mergð hvera upp við jökulröndina. Þar sann- aðist áþreifanlega að land okkar er krýnt ísi og eldi, þessum mögnuðu máttarvöldum. Tveim dögum síðar komu nokkrir þátttakendur skíðamennskunnar til að baða sig í litlu lauginni á Hveravöllum. Það var brúnn og hraustlegur hópur, enda mun fátt heilnæmara, en dvöl þar efra við íþrótt- ir og leiki. Hugann seiða fell og fjöll frammi í eyðihögum. Vorsins leið er vörðuð öll von og heiðum dögum. Þegar við héldum til byggða, gerðum við það með vissum söknuði. Þó nóg væri að gera alla dagana, var alltaf eitthvað nýtt að sjá og reyna, sem við vildum ekki hafa verið án. Með hverju ári sem líður batnar vegurinn og þeim fjölgar sem leggja leið sína yfir hálendið. í þurrka- sumrum er Kjalvegur öllum fær. Nokkrar ár eru á leiðinni, en þær voru nú mjög vatnslitlar, en geta verið varasamar litlum bílum í rigningartíð. Um leið og ég kveð ágæta ferðafélaga, verður mér hugsað til jökulkrýndra fjallanna og víðáttunnar og hlakka til næstu farar. Hrútfellið gnæfir hamragrátt, í hyljum lontur vaka. Brosir hjá steini blómið smátt, í brekkunni lóur kvaka. Heyrist gaggið í gömlum ref, grenlægjan heima bíður. Bergmálar heiðanna huldustef himinninn blár og víður. FÁLKINN

x

Fálkinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fálkinn
https://timarit.is/publication/351

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.