Ljósberinn - 01.12.1954, Page 27
ljdsberinn
135
Ásta Björg
SAGA í LJÓÐUM EFTIR VALD. V. SNÆVARR
ÁSTA BJÖRG var iðjusöm,
allt vill stúlkan gera.
Alltaf sá hún ótal margt,
er ei má „svona“ vera.
Allt vill hún „laga“,
hún Ásta litla B., —
en annars segja ýmsir
hún ósköp handóð sé.
Ásta leggur blað á borð,
byrjar svo að teikna,
les á grúfu örfá orð,
en ekki vill hún reikna.
Námfús er ekki
hún Ásta litla B.
Annars segja allir,
að ágæt telpa hún sé.
Margt þarf Ásta að athuga,
inniveran þreytir;
þýtur út og öllu þá
út í buskann þeytir.
Hrædd er hún ekki,
hún Ásta litla B., —
öslar út á götu,
þótt ófært veðrið sé.
Litla Ásta læra þarf
að lesa, skrifa, teikna.
Stundum er hún ósköp löt,
einkum þó að reikna.
Margt á að læra
hún litla Ásta B.
Ekki vill hún amma
að „ólærð“ stúlkan sé.
Brúður sínar býr hún um,
bindur um sára fingur,
vaggar þeim í væran blund,
vögguljóðin syngur.
Ekki er barnköld
hún Ásta litla B.,
enda segja allir
að ágæt mamma hún sé.
Ásta háttar glöð og góð,
Guði bænir flytur.
Mamma strýkur mjúka kinn,
mamma á rúmstokk situr.
Englana dreymir
Ástu litlu B.,
enda segir amma,
að englabarn hún sé.
J